Dagbók útiskóla 2009-2010

Dagur 65

Lokadagur hins hefðbundna útiskóla vorið 2010 var miðvikudagurinn 12. maí. Veður var allsæmilegt, engin blíða. Nemendur lögðu lokahönd á veðurkortin og tóku þau svo með sér heim, en þau eru góð heimild um veðurfar á svæðinu á þriðjudögum og miðvikudögum í vetur. Síðan var glesðskapur í lautinni. Ósk kveikti upp í eldstæðinu og steikti krabbapylsur sem börnin borðuðu með gleði og góðri lyst. Einnig áskotnaðist útiskólanum safafernur úr nemendasjoppunni og var þeim tekið fagnandi. Þarna var líka síðasta tækifærið til að leika sér í bústöðunum, síðn þurftu allir að tína saman leggi, kjálka og horn og taka með sér heim í hús. Einnig var farin yfirferð um leiksvæðið til að skilja vel og snyrtilega við. Svo var lautin kvödd og haldið heim.

Dagur 64

Vorið er komið þótt veturinn vilji ekki alveg sleppa takinu. Gróðurinn þarf enn að þola mikið frost um nætur en sólin hamast við að þíða allt á daginn. Þriðjudagurinn 11. maí var hlýr og góður í lautinni. Þangað var haldið eftir að búið var að skrá 11°c og sól á veðurkortið og einnig var lesin saga um Trjálf og súrefnið, mjög skemmtileg og fræðandi saga um það hve súrefnið er nauðsynlegt fyrir alla, menn, dýr, gróður og allt sem lifir.

Í lautinni fóru nemendur í fjölskylduhópana sína eftir að hafa tyllt sér niður í „MELÓNU“. Leikurinn blómstraði sem aldrei fyrr, nú var sauðburður á flestum bæjum en þó fengu allir að njóta sinna sérþarfa, sumir voru í gróðurskoðun, aðrir lögðust í sólbað og enn aðrir þeyttust á milli heimilis og vinnu eins og aðrir harðduglegir verkamenn. Það vantaði ekki hugmyndaflugið sem þó endurspeglaði mikið það líf sem þau þekkja.

Dagur 63

Verkefni dagsins 5. maí voru að fara yfir niðurstöður fuglatalningar gærdagsins og kynna sér betur hvern og einn fugl sem vart varð við. Því næst var farið út í hitann, 15°c í logni en blessunarlega var hálf-skýjað. Er út var komið fóru nemendu öðru sinni að flokka rusli og að koma því í endurvinnslugám eins og í fyrra skiptið. Síðan tóku fulltrúar þessa hóps í umhverfisnefnd nemenda að sér að festa merkispjald á gáminn til að auðvelda aðgengi að gámnum. Er öllu þessu var lokið brugðu nemendur sér í leik þar til skólinn var úti.

Dagur 62

Sumardagur hlýr og góður, 4. maí. Á veðurkortin var skráð 18 °c, full sól og lítill vindur. Nú var farið út í vorið með sólblómaplönturnar sem sáð var 20. apríl og voru óðum að stinga upp kollinum. Nú var komið að því að umpotta og það gerðu nemendur af sannri natni og ánægju. Svo þurfti að vökva og koma litlu plöntunum vel fyrir.

Að því búnu voru nemendur kallaðir saman í „melónu“ og talið í tvo hópa. Síðan var haldið af stað í fuglatalningu með þar til gerð blöð meðferðis en þar var búið að setja inn fuglamyndir svo nemendur þurftu að tengja saman við myndirnar þá fugla sem þeir sáu eða heyrðu í. Niðurstöður skráninga sýndu: 6 þresti, 11 lóur, 3 svani, 7 hrossagauka, 23 endur (fiski- og stokkendur), 1 spóa, 7 jaðrakana, 5 máfa, 4 stelki, 3 grátittlinga og 4 auðnutittlinga.

Dagur 61

Miðvikudagurin 27. apríl var fremur votviðrasamur en þokkalega hlýr. Því lá engum á út, veðurkortin fengu góðan tíma og að þeim loknum var áframhaldandi umfjöllun um næst-mesta uppáhaldsfugl hvers og eins. Nemendur sýndu því verkefni mikinn áhuga og í ljós kom ótrúlega mikil þekking þeirra á þeim fuglum sem höfðu náð athygli þeirra í gegnum árin. En nýjar upplýsingar um fuglana juku á þá þekkingu sem fyrir var.

Í lok dagsins fengu nemendur að leika sér frjálst úti og myndir sýna glöggt hve leikgleðin er mikil og óheft.

Dagur 60

27. apríl var fyrsti verulega vorlegi dagurinn á þessu vori. Hitamælir sýndi 8°c, enginn vindur og heiðskírt. Því lá öllum á út í vorið og verkefni dagsins voru ærin. Byrjað var á að flokka rusl sem safnast hafði bæði í skólaeldhúsinu og á einkaheimili. Börnin mynduðu melónu í mónum og svo var hellt úr pokum í stóran bing. Nemendum var skipt í verkhópa sem hver um sig átti að flokka í einn af eftirfarandi flokkum: Lint plast, hart plast, pappi og fernur og málmur eða baukar. Bingurinn hvarf á svipstundu og það var mjög athyglisvert hve mikla þekkingu nemendur höfðu á eðli umbúðanna eða ruslsins. Afrakstrinum var síðan komið fyrir í endurvinnslugámi á planinu. Þar gaf að líta hálf fullan gám svo ljóst er að fólk hefur tekið vel á móti endurvinnslugáminum sem kom eftir áramótin síðustu.

Að þessu loknu var haldið í lautina og nú höfðu kennararnir ýmislegt með sér í pokahorninu. Aftur þurftu nemendur að mynda melónu og nú hófst sýning og fræðsla á aldagömlu leikefni, kjálkum, leggjum og hornum. Þessum hlutum var síðan skipt í hópana sem eiga sín svæði í mónum og um leið kom í ljós hve viðhorfin eru mismunandi og það sannaðist málshátturinn; með sínum augum sér hver silfrið. Sumir sáu kjálkana sem trommukjuða, aðrir sem skambyssur og enn aðrir sem kindur eða kýr. Eins var með hornin og leggina. En tíminn var orðinn naumur svo frekari leikur með þessar gersemar bíða síns tíma.

Dagur 59

Fuglaþema. Það viðraði ekkert sérstaklega þennan dag svo ekkert lá á út. Nemendur fylltu út veðurkort og því næst fengu þeir í hendur, hver og einn, mynd og fræðsluefni um uppáhalds fuglinn þeirra. Einnig fengu nemendur að skoða nokkrar tegundir af uppstoppuðum fuglum sem til eru í skólanum, svaninn, lóuna, smyrilinn, hrafninn og kríuna. Sumir nemendur lásu upp fyrir hina það sem stóð um þeirra fugl og þetta var mjög áhugavert og ánægjulegt allt saman. Hægt var að teikna eftir myndum og nemendur veltu mörgu fyrir sér s.s. ferðalagi kríunnar um heiminn. Í lok dagsins var síðan haldið út og farið með eldri nemendum í góða snjóbrekku þar sem heldur betur var ærslast og hlegið.

Dagur 58

20. apríl. Enn bíðum við eftir vorinu, sumardagurinn fyrsti á næstu grösum en enn er hríðarfjúk og kuldi. Veðurkortið sýndi -3°c, hálfskýjað og talsverða golu Inni var farið í umræður og verkefni um náttúruvernd og gróðursetningu. Umræðuefnið var: Hvað er náttúruvernd, hvað getum við gert til að vernda náttúruna? Nemendur vissu heilmargt um þetta. Á eftir voru gróðursett sólblómafræ og þeim komið fyrir út við glugga. Að lokum var farið út, við ákváðum að athuga með djúpa pollinn við Álfaborgina og viti menn; hann var horfinn. Eftir voru bara göng inn undir snjóskaflinn. Einn nemandi fann tólgarbita sem dottið hafði úr tré og farið var með hann heim að húsi og honum komið fyrir utan við gluggann á skólastofunni, svo hægt væri að fylgjast með.

Dagur 57

14. apríl. Stór dagur í sögu Íslendinga, hafið var eldgos í miðjum Eyjafjallajökli með tilheyrandi flóðum og öskufalli. Það var því engin leið að halda af stað í verkefni dagsins án þess að fjalla rækilega um eldgosið, skoða landakort, kynna sér staðsetningu jökulsins, hvar Markarfljótið er og Þorvaldseyri sem fékk sinn skerf af flóðinu. Svo var nemendum bent á að fylgjast með fréttatímum sjónvarpsins til að sjá hvernig hamfarirnar voru. Til að fræðast meira um eldgos og áhrif þeirra var horft á kennslumyndband um Vestmannaeyjagosið 1973. Eftir það var haldið út í hlaupaleiki á körfuboltavellinum, enginn þorir að nálgast lautina eins og ástandið er enn þar.

Dagur 56

Þann 13. apríl fengum við forsmekkinn af vorinu. Hitamælir skólastofunnar sagði 12°c, sól og smá vind. Eftir nokkurn undirbúning, umræður og skiptingu í tvo hópa var lagt af stað út. Megin verkefni dagsins var náttúruskoðun og að smíða fuglahús. Því var haldið í lautina en öllum brá heldur betur í brún er þangað kom því þar var Álfaborgin umflotið djúpu vatni, inni í húsinu var allt að 40 cm djúpt vatn og enn dýpra allt í kring. Það var því smá óhugur í öllum, enginn vildi lenda í þessu vatni þótt það drægi líka að sér hrollvekjandi athygli. Þarna gripu kennarar tækifærið til að benda á margbreytileika náttúrunnar, að svona getur meinlausasta umhverfi skyndilega breyst í hættusvæði. Því var fallið frá hugmynd um fuglahúsasmíði að sinni, en báðir hóparnir héldu í náttúruskoðunarferð. Í ljós kom að það var svo margt að skoða og sjá að annar hópurinn komst aldrei nema smá spotta á melnum en hinn tók smá hring umhverfis skólann. Þeir nemendur sáu fallegan mosagrænan mosa sem var nýkominn undan snjónum og einn í hópnum gat sagt frá því að alls ekki mætti rífa upp mosa, það tæki hann 100 ár að vaxa aftur og að álfarnir ættu mosann. Þeir yrðu því ekki ánægðir ef farið yrði illa með hann. Svo hitti hópurinn skógarþrastahóp sem var alveg nýkominn á svæðið og hegðaði sér eins og kálfar að vori. Ýmislegt fleira bar fyrir augu, t.d. skoðuðu nemendur birki- og lerkitré, gáðu hvort örlaði á grænu en svo var ekki. Hins vega verkuðu þeir snjó frá sliguðum greinum fósturtrésins. Hinn hópurinn veitt stórum steini sérstaka athygli, en þessi steinn hafði þó alltaf verið þarna á sama stað á melnum svo lengi sem menn muna. Engu að síður kom margt í ljós þegar nemendur beindu athyglinni vel að steininum. Þar var t.d. mjög torkennilegur bolti sem hafði verið skrúfaður inn í steininn og út frá honum höfðu myndast fallegar litasamsetningar á steininum. Þar voru líka margar gerðir af mjög gömlum skófum. En mest þótti þó nemendum um brottna flösku sem lá á melnum. Það kom virkilega við þeirra tilfinningar gagnvart náttúrunni og umgengni við hana. Enda voru brotin fjarlægð með varúð. Þannig lauk skóladeginum, við vorum rækilega minnt á fjölbreytileika náttúrunnar, hinu smáa sem fáir taka eftir dags daglega. En þetta var góður dagur.

Dagur 55

7. apríl var fyrsti skóladagur eftir páskafrí. Nú skein sólin loksins blítt á snjóbreiðuna allt um kring og blessuð börnin sem nutu þess mjög mikið að geta leikis sér frjálst úti að aflokinni vinnu í skólastofunni. Þar fylltu þau út veðurkort, skráðu 6°c , lítinn vind og sól. Á meðan nemendur og kennarar voru í fríinu hamaðist vindurinn ótt og títt og skildi eftir sig bráðskemmtilegt landslag sem nýttist vel.

Dagur 54

24. mars. Lítið fór fyrir útiskólanum þennan daginn vegna þess að flest allir nemendur tóku þátt í skólaskákmóti sem fram fór í skólanum eftir hádegi og stóð til skólaloka. Þeir fáu nemendur sem létu það fram hjá sér fara áttu rólega og góða stund við kubbabyggingar og fleira.

Dagur 53

Loksins viðraði fyrir útiskólann þann 23. mars. En samkvæmt venju var byrjað á því að fylla út veðurkortið og tefja aðeins í stofu á meðan Sigrún hljóp í móinn og undirbjó daginn. En loks kom að því að allir voru tilbúnir út, veðrið var hálf kalt þrátt fyrir að hiti væri 3 eða 4 gráður því það blés talsvert. Snjórinn var mjög blautur svo vettlingar blotnuðu fljótt ef þeir voru efnislitlir. Og því miður voru nokkrir með nánast gagnslausa vettlinga. Sigrún fyrirskipaði öllum að ganga á eftir sér í halarófu niður heimreiðina og í lautina. Þegar þangað var komið var sest niður í húsinu og spjallað um páskana, af hverju páskar m.a. og af hverju páskaegg. Að því loknu var börnunum tilkynnt að á heimasvæði hvers þriggja manna hóps í mónum væri búið að fela smá hluti. Þeim var því næst hleypt út að leita. Og öll uppskáru laun erifðisins, allir komu með smá páskaegg í hús. Í þeim voru málshættir og Sigrún las upp málshátt hvers og eins. Það var gaman að velta fyrir sér hvað þeir þýddu í raun og gott var að maula súkkulaðið í kuldanum. Að síðustu skelltu þeir hörðustu sér í snjóinn og renndu sér saman en aðrir drifu sig heim í skóla í skjól þar til skólinn var á enda.

Sérstakur gestur útiskólans var Kristín sem er kennaranemi þessa dagana.

Dagur 52

Hefðbundinn útiskóladagur að öðruleyti en því að Ósk var ein með hópinn vegna þess að Sigrún þurfti að fara á trúnaðarmannafund og einnig voru nemendur inni framan af þennan dag vegna rigningar og bleytu. Farið var yfir veðurkortið, hiti 2°c og mjög skýjað og úrkoma. Meira að segja nokkur vindur líka. Því næst var tekinn upp þráðurinn frá náttúrufræðitíma fyrr um daginn og fjallað um svaninn eða álftina. Í leikritinu um Dimmalimm var svanurinn í stóru hlutverki og nýverið sást til svana á flugi við skólann og víðar. Þeir eru því fyrsti vorboðinn þetta árið. Í skólanum er til uppstoppaður svanur og nemendur gátu skoðað hann og gerðu svo myndir af fuglinum, hreiðri og eggjum. Að þessu loknu var haldið út í fuglaskoðun. Því miður sáust engir svanir að þessu sinni en hópur af snjótittlingum sveimaði í loftinu.

Dagur 51

Þriðjudagur 16. mars. Árshátíðin að baki og allir ánægðir með þann dag, sumir hefðu reyndar alveg vilja sýna oftar en svona var þetta nú. En enn voru miklir viðburðir í gangi í skólanum, að þessu sinni umhverfisþing þar sem einn nemandi í útiskólahópnum þurfti að flytja erindi ásamt líka eldri nemendum. En allir hinir voru áheyrendur og fylgdust grant með framvindu, áhugasamir og prúðir. Já, það er margvíslegt námið í Stórutjarnaskóla. Útiskólatíminn þennan daginn var allur nýttur í umfjöllun um umhverfismál, enda var m.a. verið að greina frá verkefnum útiskólans.

Dagur 50

10. mars og það styttist óðum í árshátíðina. Aðal æfingar dagsins fóru fram fyrir hádegi þennan dag svo eftir hádegi var farið í góðan útiskóla. Eftir skoðanakönnun meðal nemenda um það hvað þeir óskuðu eftir að fá að fást við í útiskólanum varð úr að byrjað var á kapphlaupi niður að rimlahliði og til baka. Sigurvegari varð Baldur en sumir höfðu á orði að fyrir næsta kapphlaup ætluðu þeir að klæðast öðruvísi. Eftir hlaupið var farið að leika í snjósköflum og að búa til snjóhús. Austan heimreiðarinnar fannst þessi líka fíni skafl sem bauð upp á óskaplega skemmtilega leiki. Það voru því ferskir og frískir nemendur sem yfirgáfu skólann í skólabílum að þessu sinni.

Dagur 49

Þriðjudaginn 9. mars. Áfram æft af kappi og nú á aðalsviðinu. Því næst var farið út, búið að æfa nóg til þess. Eftir snjókomu og frost undanfarna daga var loks breyting á veðri og mikil hláka. Henni fylgdu margir og miklir pollar, lautinn góða var umflotin og eins var á leiksvæðinu. Því var alveg sneitt hjá lautinni þennan dag en nemendur létu ekki tjörnina við rennibrautina í friði, hoppuðu þar og skvettu eins og þeir gátu. Þó voru þar alls ekki allir nemendur, sumir fóru í körfubolta eða aðra leiki. En mikið óskaplega þótti öllum gott að komast út og anda að sér fersku og hlýju lofti.

Dagur 47 og 48

Dagana 2. og 3. mars var verið að æfa af kappi fyrir árshátíðina. Það þurfti að raða ú hlutverk og læra lög og texta. Þetta var megin verkefni báða þessa daga. Nemendur voru stundum í einum hóp en líka var skipt upp í tvo hópa og þá farið með annann hópinn í litlu íbúðina. Enginn verður óbarinn biskup, eða leikari átakalaust.

Dagur 46

Til stóð að halda umhverfisþing í Stórutjarnaskóla á tíma útiskólans en vegna ófærðar og vonsku í veðrinu þurfi að fresta því. Því fóru nemendur óvænt í útiskólaverkefni og byrjað var á að horfa á skemmtilega fræðslumynd um birni, bæði skógarbirni, pandabirni og ísbirni. Að því loknu snerist verkefnið að mestu um komandi árshátíð sem haldin verður 12. mars. Þá mun þessi hópur flytja verk um Dimmalimm og m.a. þarf hann að læra texta og lög. Það varð meginverkefni þessa dags.

Dagur 45

23. febrúar. Veður var fremur leiðinlegt, snjó hafði kyngt niður svo hvert sem litið var sást endalaus snjóbreiða af lausum snjó. Af og til komum vindkviður sem feyktu snjónum að stað. Frost var um 8 °c og ákveðið var að vinna inni þennan daginn. Mikil leikorka var í nemendum og eins og myndirnar bera með sér var margt að gerast. Fyrst í stað voru nemendur uppteknir af ísbjörnum og að teikna myndir af þeim en í náttúrufræðitímun undanfarið hefur verið fjallað og fræðst um ísbirnina og vanda þeirra á norðurhveli vegna hlýnunar og ísbráðnunar.

Dagur 44

Öskudagur og enginn hefðbundinn útiskóli. Allur tíminn var nýttur í að klæðast fjölskrúðugum búningum og svo var komið saman í salnum. Byrjað var á að slá tuskudýr úr tunnum en nú voru saman komnir nemendur úr leikskóla, frá 3ja ára aldri og grunnskóla upp í 5. bekk. Tunnurnar voru tvær, 3ja, 4ra og 5 ára og 1. og 2. bekkur annars vegar og 3. -4. –og 5. bekkur hinsvegar. Heiðrún Harpa varð tunnukóngur í yngri hópnum en Guðrún Borghildur í eldri hópnum. Síðan var marserað um húsið þangað til flestir voru búnir að fá nóg í bili og fegnir að fá popp og safa. Eftir það var farið í limbó og endað í frjálsum leik.

Dagur 43

Sprengidagur. Þannig vildi til þennan dag að Stopp leikhópurinn kom í heimsókn í Stórutjarnaskóla með fræðandi leiksýningu um Bólu-Hjálmar eða Hjálmar Jónsson skáld í Bólu. Nafnið á bænum hans var upphaflega Bólstaðarhlíðakot en það fannst honum svo langt og erfitt nafn að hann stytti það í Bólu og var síðan kenndur við bæjarnafnið sitt. Nemendur, og ekki síst útiskólanemendur, sýndu leikritinu mikinn áhuga og fylgdust vel með. Að leikritinu loknu var farið í að sauma öskupoka að ósk nemendanna sjálfra. Ósk og Sigrún ásamt nemendum lögðu undir því undir sig handavinnustofuna og svo var saumað af kappi.

Dagur 42

Enn einn frostdagurinn, 9. febrúar. Umfjöllunar efni dagsins að afloknum veðurkortum þar sem kom fram að úti væri um 5°c frost, var hlýnun jarðar og afdrif ísbjarna á norðurpólnum. Í máli eins nemenda kom fram að ef allir jöklar bráðnuðu mundu öll lönd sökkva og allir drukkna. Það leist nú ekki öllum á blikuna en við töldum líka að ekki væri nú ástæða til að óttast að svo illa færi þrátt fyrir einhverja hlýnun. Farið var í fjölbreytta umfjöllun um ísbjörnin og fram komu spurningar eins og af hverju kom ísbjörnin hingað til lands um daginn? Af hverju var hann skotinn?

Síðan var farið út að líta eftir fuglamatnum, og viti menn, það var greinilega búið að borða af honum víða.

 

Enginn útiskóli var miðvkudaginn 3. febrúar vegna foreldrasamtala.

 

Dagur 41

Þriðjudaginn 2. febrúar var mikið frost og kalt, en fallegt veður. Sólin skein svo glatt á fjallið norðanmegin en enn verðum við í skólanum að bíða í rúma viku eftir að geislarnir nái niður til okkar. Því var ákveðið að fara ekki út strax, heldur byrjað í stofu og vegna þess að daginn eftir stóð fyrir dyrum árlegur foreldradagur þurfti að laga til í námsgagnahólfum og skúffum. Þetta var talsvert mikil skipulagsvinna, margt þurfti að gata og raða í möppur samkvæmt viðurkenndum litamerkingum, rautt = samfélagsfræði, gult = stærðfræði, blátt = íslenska, grænt = náttúrufræði og fjólublátt = trúarbragðafræði. Ekki svo einfallt. Þegar allt var komið í gott lag inni var farið út og loksins gafst tækifæri til að festa fuglamatinn, sem útbúinn var um daginn, á góða staði. Hver nemandi fékk sinn grisjubita og valdi honum stað þar sem talið var að hentaði fuglunum. Allir bitarnir enduðu í trjánum í nágrenni lautarinnar og nú verður fróðlegt að sjá hvort einhverjir fuglar rati á þetta góða fæði.

Dagur 40

Áframhaldandi æfingar miðvikudaginn 27. og 1 dagur í þorrablót. Nú voru æfingar teknar föstum tökum, nemendum skipt upp í þá hópa sem leikið verður í og annar hópurinn fékk verkefni í stofu á meðann hinn hópurinn æfði í „litlu íbúðinni“. Að þessum tíma loknum var talið fullæft og allir fóru út að viðra sig áður en haldið var heim að afloknum skóla.

Dagur 39

26. janúar og þorrablót á næsta leiti. Útiskólinn fór að mestu fram innanhúss því eftir veðurkort var farið að æfa leikrit fyrir þorrablót sem verður 28. janúar. Það var því lítill tími til stefnu en nemendur voru búnir að semja saman talsverða leikfléttu sem ber heitið „skólaleikritið“ og gerist að mestu í kennslustund. Það verður að viðurkennast að hugmyndaauðgin og leikgleðin er slík að vart verður við ráðið í venjulegum kennslutíma. Það voru því fremur brattir nemendur en niðurlútir kennarar sem yfirgáfu kennslustofuna þennan daginn.

Dagur 38

20. janúar var ágætis dagur að flestu leyti en þó heldur blautur á jörðu niðri. Þar af leiðandi komu sumir nemendur gegnblautir inn úr útifrímínútum og voru alls ekki tilbúnir til áframhaldandi útiveru. En verkefni dagsins voru m.a. þau að festa upp í tré fuglafóðrið sem útbúið var í gær. Því verkefni var slegið á frest, og tækifærið gripið til að ræða og velta upp hugmyndum um skemmtiatriði á þorrablóti nemenda sem verður 28. janúar. Að því loknu fór sá hluti hópsins sem þurr var út en hinir fengu verkefni í stofu. Úti var talsverður vindur og hláka svo það höfðu myndast pollar í öllum lautum og bollum. Byrjað var á að koma sér vel fyrir í skjóli inni í Álfaborg og Sigrún las skemmtilega og náttúruvæna sögu um stelpuna sem vildi ekki vinna. Eftir það fóru börnin út í leik og þar var eitt og annað tekið fyrir en að lokum sameinuðust öll í sama verkefninu sem var að tína spýtur út úr húsinu og raða í brú í pollinum þar við. Ekki leiðinlegt þótt einn og einn félli í vatnið og þyrfti að fara heim í skóla til hinna fyrir vikið.

Dagur 37

19. janúar. Útiskólinn var loks aftur kominn í sínar föstu skorður eftir tilbrigði síðustu vikna. Eftir að nemendur höfðu komið saman í stofu 1 og fyllt út veðurkortið, merkt þar við 8°c og ágætis veður alla vega, var farið niður í kjallara í handmenntastofuna. Farið var með alla þá köngla sem eftir voru frá söfnuninni í nóvember sl. og nemendur hristu og bönkuðu úr þeim fræin. Fræjunum var komið fyrir í öruggri hirslu og síðar meir verður þeim komið fyrir í mold.

Því næst var farið í að útbúa forðapakka handa smáfuglunum. Heiða matráður hafði nýtt gamla feiti þannig að hún bræddi hana og blandaði með eplum og korni af ýmsu tagi. Síðan fengu nemendur svona bita og saumuðu í nælon-grisjupoka sem verða síðar hengdir upp í tré. Þetta var heilmikill vandi og gekk misvel en hafðist þó að lokum. En nemendur, sumir hverjir, hugsuðu sitt.

Dagur 36

Útiskólinn getur verið með afar fjölbreyttu sniði sem til dæmis kom skýrt fram miðvikudaginn 13. janúar. Eftir hefðbundið upphaf þar sem nemendur fylltu út í veðurkortin sín fengu þeir heimsókn konu sem heitir Sólrún María og býr og starfar í Malawí en var stödd heima í Fnjóskadal í jólafríi. Sumir nemendur könnuðust við hana því hún kom líka í skólann fyrir tveimur árum og kenndi þá nemendum í 1. og 2. bekk afrískan leik og sýndi dans.
Að þessu sinni fengu leikskólabörn frá fjögra ára aldri og nemendur grunnskólans upp í 6. bekk að taka þátt í leikjum sem Sólrún kenndi.

Hún hafði á orði eftir á að þetta væru mjög skarpir krakkar því þeir voru fljótir að ná afrískum textum og hreyfingum.
Ekki var annað að sjá en að öllum líkaði nokkuð vel og eftir að nemendur voru komnir út eftir danskennsluna hljómaði í umhverfi skólans söngurinn:„ JOO, JOO, JOO. VON A NAVA JOO - ESSI NAVA JODA BOBO.

Dagur 35

12. janúar var frábrugðinn öðrum útiskóladögum að því leyti að vegna veikinda vantaði annan starfsmanninn og einnig voru nemendur sem þurftu að hafa hægt um sig vegna höfuðáverka af völdum hálku úti á lóðinni. Það þótti því ekki æskilegt að taka áhættu með því að vera með hópinn út allan tímann. Í staðinn var sett upp minniháttar valkerfi í skólastofunni eftir afagreiðslu veðurkortsins. Nemendur gátu valið um einingakubba, legokubba og tafl. Mest aðsókn var í kubbana, en ekki var æskilegt að væru nema 5 nemendur á hvorum stað í einu. Þetta gekk upp, afgangurinn tefldi, púslaði eða dundaði við enn aðra kubba. Tíminn leið hratt og fyrr en varði var hann á enda og tímabært að ganga samviskusamlega frá öllu og drífa sig í skólabílana.

Dagur 34

Þrettándinn, 6. jan. Annað árið í röð ákváðu nemendur útiskólans að kveðja jólin á þrettándanum með álfaballi. Í stað þess að fara í útiskólann var farið í búninga og haldið til í salnum. En eins og stundum vill verða þróuðust málinn á þann veg að þrátt fyrir tónlist og fjör var ekkert dansað en í staðinn fór af stað feykilegur hlutverkaleikur þar sem fram komu álfakóngur og drottning með öllu sínu föruneyti og vel það. Leikgleðin var mikil og sviftingar það miklar að ekki var alltaf auðvelt að festa á mynd það sem fram fór.

Dagur 33

Fyrsti útiskólinn á nýja árinu var þriðjudaginn 5. janúar. Nemendur voru að mæta sinn fyrsta dag eftir jólafrí og voru örlítið misjafnlega stemmdir. Byrjað var á að fylla út nýtt veðurkort og þennan dag sýndi hitamælirinn -13°c og logn. En flest allir óskuðu eftir að þurfa ekki að æsa sig út í kuldann, voru ekki alveg tilbúnir. Það hentaði reyndar ágætlega því fyrir lá að taka fram sönghefti með áramóta- og þrettándalögum. Því var sungið af krafti og síðan farið út á gólfið , myndaður hringur og dansaður vikivaki með. Þetta fannst nú sumum full flókið, ekki auðvelt að gera tvennt í einu, svo annað hvort var að dansa eða syngja og sumum fannst reyndar best að sleppa hvorutveggja. Svo erfitt reyndist þetta verkefni að nemendur óskuðu flestir eftir því að fara frekar út og það varð úr.
Úti voru komnir skemmtilegir snjóruðningar við leiksvæðið og þar var gott fyrir börnin að leika sér þær mínútur sem eftir voru af skólanum.

Dagur 32

16. desember var jafn góður dagur og gærdagurinn. Eftir að búið var að fylla út veðurkortið, síðasta dag fyrir jólafrí, var jólagjöfunum pakkað inn svo hægt væri að fara með þær heim. Þegar út var komið var farið í hlaupaleiki, fyrst „Tína ber í skessulandi, Grýla er ekki heima“ og „ frúin í Hamborg“.

Dagur 31

15. desember. Veðrið var gott, örlítið frost en mjög mikil stilla. Þess vegna var allt svolítið hrímað og fallegt. Það var þó ekki farið út strax vegna anna innan dyra. Nemendur voru að útbúa jólagjafir handa foreldrum sínum og því varð að sinna. En þegar loks var komið út önduðu allir djúpt að sér hreina loftinu áður en hafist var handa við útiverkefnið, sem var að skreyta í lautinni. Að loknum degi var búið að skreyta birkitréð okkar góða, húsið og meira að segja kominn krans á vegg í húsinu. Svo heppilega vildi til að þegar drengjahópur heimsótti dvalarstaðinn sinn í mónum fundu þeir einn hamar útiskólans en hann hafði gleymst í mónum í haust og svo týnst undir snjó. Því var handhægt að hengja upp kransinn, það þurfti bara að finna nagla og það reyndist vera einn nagli í öllu húsinu sem ekki hfaði nauðsynlegt hlutverk.

Dagur 30

9. desember var fallegur og hlýr dagur en eins og eðlilegt er í Ljósavatnsskarði á þessum árstíma var mjög langt í nokkurn sólargeisla. Snjórinn var á hröðu undanhaldi og vel blautur. Því var það svo að þegar nemendur komu í stofuna sína tilbúin í útiskóla eftir hádegis-útifrímínútur voru flest allir orðnir blautir. Þeir voru því alls ekki tilbúnir til áframhaldandi útiveru, töldu að af þessari ástæðu yrðu þau nú að vera inni það sem eftir væri skólans. Stjórnendur útiskólans urðu ekki glaði, búnir að skipuleggja kakógerð yfir eldi og undirbúa það svo ekki var aftur snúið. Því voru góð ráð dýr, á meðan nemendur fylltu út veðurkortin fór Ósk og setti útifötin í þurrkara. Klukkan var því orðin æði margt þegar loks allir voru komnir í fötin og niður í laut. En allt er gott sem endar vel, segir máltækið, kakóið hitnaði í tæka tíð og eftir spjall, fræðslu og drynjandi jólasöng í Álfaborginni kom kakópotturinn með rjúkandi kakói.

Ummmm, þetta var aldeilis gott.

Dagur 29

8. desember var föndurdagur. Nemendur buðu foreldrum sínum að koma í skólann og föndra með þeim sitthvað til jólanna. Þetta var ánægjulegur tími þótt sum verkefnin væru talsvert flókin, sérstaklega fléttaðir jólapokar eins og tíðkaðist að föndra á undanförnum öldum. Foreldrar flestra barnanna mættu og stóðu sig ákaflega vel. Þegar tímanum lauk var búið að búa til u.þ.b. 20 könglajólatré, 12 könglaengla á klemmu, hátt í tuttugu ljósaluktir, annað eins af jólasveinum og englum úr bandi og fl. Síðast en ekki síst reyndu flest börnin við fléttuðu jólapokana.

Dagur 28

2. desember. Nú var leiðindaveður, samt var frostlaust að kalla en vindurinn blés mikið og þyrlaði snjónum. Því var ekki útivistarveður en það var umhugsunarvert hvernig á því stæði að þrátt fyrir mun hlýrra veður en var í gær, var ekki hægt að vera úti eins og þá. Þá kom einn nemandinn með þá tilgátu að kannski væri það vindurinn sem gerði.
Verkefni dagsins var að vinna úr þeim aragrúa köngla sem söfnuðust af furu- og lerkitrjám í síðustu viku. Búnir voru til könglasveigar og þeim ætlað það hlutverk að skreyta birkitréð okkar í lautinni er líður nær jólum.

Dagur 27

1.desember. Loksins sá í bjartan himinn, meira að segja mátti greina tunglið á himni. Fyrir vikið var talsvert frost, um -7°c en allir kappklæddu sig svo frostið beit ekkert á. Áður en haldið var út var farið í verkefni í skólastofunni, fyllt í veðurkortið og fræðst um fullveldisdaginn. Úti var haldið í Álfaborgina, eins og álfar í halarófu, fremst fór álfaforinginn með kertaluktina og hinir trítluðu á eftir. Í húsinu settust allir niður og spjölluðu saman við logandi kerti og ilm af brendri furu, en Ósk sá um að viðhalda ilminum. Þegar fólki fór að kólna var farið út í hreyfingu þar til tíminn var úti.

Dagur 26

25. nóvember. Enn hélst svipað veður, ekki var hundi út sigandi vegna bleytu í lofti og á láði. Því þurftum við að vera inni annan daginn í röð. Að þessu sinni fórum við í að fræðast um eitt og annað í umhvefi okkar og að vinna með tilfallandi efni. Flest börnin höfðu heimsótt jólasveinana í Dimmuborgum helgina áður og sögðu frá þeirri ferð í máli og myndum. Þá var dregin fram söngskrá desembermánaðar og sungið svolítið upp úr henni, sérstaklega lagið um Snæfinn snjókarl sem margir telja til jólalaga. Hins vegar gerðum við okkur grein fyrir því að snjókarlinn átti við það vandamála að stríða að sólin vildi gerast of nærgöngul. Það segir okkur að Snæfinnur hefur aldeilis ekki verið á ferðinni um jólaleytið. Svo mikið vita börnin um eðli árstíðanna.

Dagur 25

24. nóvember var ákaflega blautur dagur. Þegar kom að útiskólatíma var útifatnaður allra nemenda svo blautur eftir útileikfimi morgunsins að ekki var annað til ráða en að vera innandyra í dag. Verkefni voru næg, eftir að búið var að fylla út veðurkortið. Skipt var upp í tvo hópa og annar þeirra byrjaði á því að fara með Ósk og skoða lítinn fugl sem fannst dáinn á planinu. Fuglinn var varðveittur í frysti og eftir að hafa skoðað hann í bak og fyrir og flett upp í fuglabók komust nemendur að því að þarna mundi hafa verið hettusöngvari á ferð og því miður hafði hann endað líf sitt hér hjá skólanum í frostunum sem voru í síðustu viku. Hinn hópurinn fór með Sigrúnu að tölvunni og þau skoðuðu dýramyndir af netinu, verðlaunamyndir utan úr heimi. Síðan var skipt svo allir fengu tækifæri í báðum verkefnunum.

Dagur 24

18. nóvember var ákaflega bjartur og fallegur dagur. Á veðurkortin skráðu nemendur
-6°C, sól og logn. Samt beit kuldinn talsvert er út kom og stefnan var tekin á lengri gönguferð, fuglaathugun og meiri könglatínslu. Leiðin lá niður að vatninu, að stóru furutrjánum sem þar standa. Þar varð heldur betur atgangur við að ná könglum, líkja mátti ákafa þeirra við æsingu gullgrafara sem komust í góða námu. Að þessu loknu var haldið lengra og þá blasti við fallegt og stórt grenitré sem flestir eða allir sögðu að héti jólatré. Einnig blasti við stór víðirunni ásamt birkitré og þá var auðvelt að bera saman stofna trjánna, sjá að runninn hafði ekki stofn eins og trén. Um svipað leiti flaug hjá einn lítill fugl sem hafði falið sig í furutrjánum. Fleiri fuglar sáust ekki, að þessu sinni voru tjarnirnar ísilagðar og engar endur á sundi.
Eftir klukkustundar útiveru fóru nemendur að bera sig illa vegna kulda, þótt þau væru æst í kapphlaup upp á hæsta melinn kom allt fyrir ekki, þeim var enn jafn kalt. Útsýnið var verulega fallegt, sólin gyllti fjöllin í kring og hrímið sat á öllum gróðri. En frostið var þá orðið -9°C svo allir drifu sig að bæ.

Dagur 23

17. nóvember 2009. Þungbúinn dagur en ágætis veður. Eftir langt tímabil á auðri jörð var nú komin snjóföl. En þar sem farið er að styttast í tímanum til jóla var fariðað leita að gönglum til að nota síðar. Leiðin lá í lerkiskóginn og þar fundust margir ágætir en smáir könglar. En einnig fannst eitt og annað fleira og eins yfirleitt alltaf gerist þegar eitthvað slíkt finnst skapast ný sjálfsprottin atburðarás. Að þessu sinni fannst t.d. afklippt tré frá grisjunartímanaum í haust og farið var í að festa það niður. Að því loknu sungu nokkur barnanna og gengum í kringum tréð við litla ánægju sumra annarra sem þótti þetta athæfi alls ekki tímabært. Svona leið útiskólinn að þessu sinni.

Dagur 22

11. nóvember var ekki hefðbundinn útiskóli vegna undirbúnings og æfinga fyrir menningarstund 16. nóvember.

 

Dagur 21

10. nóvember. Þetta var stór dagur en nú var komið að því að bjóða foreldrum og öðrum góðum gestum í útiskólann. Það spáði góðu veðri og nemendur fylltu út veðurkortin samkvæmt því enda gekk veðrið eftir.
Lagður var talsverður metnaður í þetta boð og hátíðin vel skipulögð. Nemendur skiptu sér í litla hópa og röðuðu sér við göngustíginn að Lautinni um leið og þeir æfðu sig í móttökuorðunum „góðan daginn, velkominn í útiskólann eða velkomin í Álfaborg“. Fyrir vikið fengu foreldrar öndvegis móttökur sem lögðu grunn að góðri samveru við Álfaborg. Að auki var nemendum í 4. bekk boðið því þeir voru með í fyrravetur frá uppahafi verk efnis og áttu því drjúgan þátt í smíði hússins. Enn fremur var kennurum og starfsmönnum boðið en þeir áttu illa heimangengt vegna sinna starfa en þó gat húsvörðurinn litið við enda fékk hann heiðursboð fyrir hjálpsemi og aðstoð á erfiðum stundum í smíðinni.
Ósk bjó til mikið magn af lummudegi og Heiða matráður útbjó mikið af heitu kakói í brúsa. Sigrún bauð foreldra velkomna og færði þeim þakkir fyrir timburgjafir, án þeirra hefði húsið ekki risið. Að því loknu fengu nemendur að sýna svæðið og segja frá eins og hverjum og einum lysti en Ósk fór að baka lummur yfir eldi, en þá fór vestanvindurinn að bjóða sér heim sem var ekki til ánægjuauka þrátt fyrir að menn reyndu að leiða hann hjá sér. En með smá tilfæringum tókst að baka og ekki er annað vitað en að allir hafi farið heim í lok dags, saddir og sælir.

Dagur 20

4. nóvember. Miklar umræður fóru fram í skólastofunni áður en farið var út. Búið var að ræða talsvert málsatvik gærdagsins og nú voru allir jákvæðir og tilbúnir til starfa. Veðrið var indælt, logn, 6°c og þungbúið loft.
Eina stóra ákvörðun þurftiað taka inni í stofu og því var kallað saman í MELÓNU á gólfinu (sest í hring) og ákveðið að hafa boð í útiskólanum vegna þess að nú var húsið svo gott sem tilbúið. Boðið skyldi vera þriðjudaginn 10. nóvember í lautinni og boðið upp á lummur steiktar yfir eldi og kakó.
Því næst var haldið út og Ósk fór að ljúka við þau göt sem enn voru á húsinu ásamt góðum smiðum en aðrir fóru að huga að girðingargerð og að helga sér blett. Nú var prýðilegt samkomulag í hópunum, allir sáttir við sinn stað áður en yfir lauk. Því miður entist ekki dagurinn til að gera allt sem við vildum en það koma aðrir dagara á eftir þessum. Við getum öll verið fegin á meðan ekki snjólar því eftir það þarf að taka upp annarskonar verkefni.

Dagur 19

3. nóvember. Um nóttina hafði svolítið snjóað og mikið frost var þar á undan. Jörðin var því frosin en veður ágætt eins og fram kom á veðurkortunum, 2°c, logn og skýjað. Nú var á dagskrá að reyna að ljúka endanlegri byggingu að sinni og að ganga betur frá málum í litlu samfélagsfræðihópunum sem myndaðir voru í síðustu viku. Nú voru allir nemendur mættir svo fullskipað var í hópum. Verkefni þeirra var að koma sér saman um valinn stað í náttúrunni, stað sem yrði þeirra einkaheimili og notaður yrði líka sem náttúrfræði-grundvöllur.
En það kom í ljós að það var alls ekki svo einfalt mál að vera sammála og enn erfiðara var að vinna úr því að vera ekki sammála. Upp komu erfið tilvik sem settur strik í afrakstur dagsins. Hins vegar sýndi það hve mikilvægt er að vinna með þessa þætti, þ.e. að hlusta á aðra, taka tillit til annarra og að koma sér saman um hluti.
En það náðist að taka mynd af öllum hópum nema einum sem var of tvístraður þennan daginn.

Dagur 18

28. október. Að þessu sinni vantaði u.þ.b. annan hvern einstakling í hópinn og því var ákveðið að bregða út af venjunni og fara ekki út. Að ósk nemenda varð því úr að fara í búðarleik í skólastofunni. Reyndar birtist kennaranum heldur öðruvísi búðarleikur en hann átti að venjast úr sinni bernsku því þarna gekk leikurinn út á að ræna verslun. Kannski er þetta bara dæmi um tímanna tákn, hver veit? Síðar tók leikurinn breytingum, búningar fengu mikið vægi og í versluninni var sett um fatadeild. En að sjálfsögðu var þó byrjað á því að fylla út veðurkortið sem sýndi heldur óspennandi veður, 1°C, vind og alskýjað. Síðar fór svo að slettast úr skýjunum bæði rigning og slydda svo allir voru hæstánægðir með þennan útiskóladag eins og hann varð í raun.

Dagur 17

27. október var einstaklega fallegur og bjartur dagur en dálítið svalur eins og eðlilegt er miðað við árstíma. Talsvert vantaði af börnum þennan daginn vegna veikinda svo erfitt var að halda uppi eðlilegri dagskrá. Einn gestur var þennan dag, Jóna Margrét nemandi í 1. bekk í Naustaskóla.
Verkefni dagsins var að leggja grunn að samfélags- og náttúrufræðiverkefni í umhvefi lautarinnar. Börnin völdu sér félaga, svo úr urðu 5 þriggja barna hópar. Tilgangurinn með því er sá að þessi þrjú nái vel saman og verði góðir félagar því þau eiga að finna sér valinn stað í mónum og helga sér land. Síðan mun hver hópur girða af sitt land með bandi og litlum staurum og jafnvel smíða sér byggingar úr smáspýtum sem til eru eftir húsbygginguna. Á meðan ekki snjóar eða í vor verður farið í að greina gróður og landslag á hverjum bletti, sem ekki er hugsaður nema örfáir fermetrar.

Í dag var skipt í hópana. Skiptin eru þannig:

o Snorri Már, Baldur Örn, Ari
o Unnur Jónasd, Elín Heiða, Inga María
o Árný, Kristján Davíð, Sylvía Rós
o Unnur O, Heiðrún Harpa, Marge
o Hannes Haukur, Haraldur Andri og Anton Karl

Þrátt fyrir að í einstaka tilviki væri aðeins mættur einn meðlimur í hópi var farið að leita að ákjósanlegu landssvæði og eftir fyrstu niðurstöður teknar myndir af viðkomandi hóp á sínu svæði.
Að þessu loknu var öllu slegið upp í kæruleysi, kveiktur eldur á eldstæðinu og grillaðir sykurpúðar sem einn nemandinn bauð upp á.

Dagur 16

21. október. Mun kaldara en í gær, smá fölvi á jörð eftir éljagang næturinnar og grátt yfir. Haldið var áfram með það sem eftir var að gera af áætlun gærdagins og að auki þurfti að hreinsa upp afgangs möl frá hellulögn. Nú vantaði talsvert í hópin vegna veikinda. Til að gera aðstæður huggulegri kveikti Ósk upp í eldstæðinu og um leið varð allt mun hlýrra og bjartara. Gripið var í eitt og annað, talsvert um bardagaleiki en líka heimilisleiki og svo var smíðað frjáls og skapað úr því sem til féll.

Dagur 15

20. október. Ágætis dagur, svalt en bjart, eins og fram kom á veðurkortum barnanna. Verkefni dagsins voru að ljúka við að negla í göt í þakinu, festa niður búta af trjábol í gring um eldstæðið og leifa hugmyndafluginu að geisa í mónum og innan um furutrén.
Þetta gekk allt eftir, skipt var reglulega um hópa í verkefnum svo allir fengu að leggja sitt af mörkum. Það var mjög eftirsótt að komast upp á þakið og því var áhersla á að leyfa þeim sem ekki höfðu áður komist í það verk að sitja fyrir. Smá frost var í grassverðinum svo ekki var alveg auðvelt að stinga fyrir bútunum og því verki var ekki alveg lokið er skóla lauk þennan daginn.

Dagur 14

14. október. Bjartur og fallegur dagur. Eftir skipulagningu og umræður inni í stofu var farið í lautina og skipt í þrjá hópa. Nú er auðvlet að ná til allra með því að kalla „MELÓNA“ og þá koma allir í hendingskasti og koma sér fyrir í hring á steinunum. Nú voru teknar mydir af hópunum, reyndar vantaði einn nemanda svo geyma þurfti eina myndatöku. Síðan var skipt reglulega á milli þriggja verkefna. Einn hópur hélt áfram með hjálp Óskar að negla þakið á húsið, annar hópur stundaði náttúrufræðirannsóknir með Sigrúnu, mældi vaxtarsprota á birkitrénu sem tekið var í fóstur fyrir 3 árum og taldi árhringi í trjábolum og afklipptum greinum og að venju fékk einn hópur að nýta sér hina villtu náttúru til leikja. Skipt var um verkefni á 30 mín. fresti.

Dagur 13

13. október. Ósk sá ein um útiskólann vegna veikinda Sigrúnar.
Þetta var góður dagur. Við byrjuðum á því að taka veðrið eins og venjulega og fylla út veðurkortin. Veðrið var gott, sól og um 10 stiga hiti.
Við fórum síðan út og byrjuðum á því að halda fund við skúrinn og leysa úr smá vandamálum sem komu upp á leiðinni út. Þegar því var lokið héldum við af stað í gönguferð með nesti og nýja skó. Við réðum okkur ritara sem skráði niður það markverðasta sem fannst í ferðinni. Við stoppuðum oft til að spá og spegúlera og tókum myndir af æði mörgu sem við fundum á leið okkar. Við fundum meðal annars steina , glerbrot, gúmmíbangsa, skít og margt fleira. Fyrst gengum við niður að Leirtjörninni, þar var ís að hluta til ofan á vatninu og þar voru steinar látnir skoppa ofan á svellinu. Við pössuðum okkur auðvitað að fara ekki of nálægt. Sumir lögðust í berjamó og fullyrtu að berin væru ennþá æt, aðrir máluðu sig með bláa litnum. Síðan borðuðum við nestið okkar í lautinni fyrir neðan húsið hennar Tollu, en við vorum með póló-skóló kex og kókómjólk sem að við fengum hjá Heiðu. Þar fórum við líka í ,,köttur og mús,, leikinn og að endingu löbbuðum við upp að bragganum hans Ása og skoðuðum gömlu heyvinnutækin. Þegar þar var komið var að verða lítið eftir af tímanum, við drifum okkur því heim að skóla og notuðum síðustu mínúturnar til að leika okkur á leikvellinum. Þetta var fróðlegur og skemmtilegur tími, en sumir voru ansi þreyttir í stuttu fótunum sínum.

Dagur 12

7. október. Nú var leikurinn frá í gær endurtekinn en að sjálfsögðu var hlutverkunum skipt. Nú fóru drengirnir út en stúlkurnar fengu að byggja inni. En að sjálfsögðu var byrjað á veðurkortinu, það var fínasta veður, sól og sæmilega kyrrt, hiti um 4°C. Sigrún fór út með drengjunum en Tolla sá um byggingarleikinn og stúlkurnar því Ósk var farin á mikilvægt þing.
Drengirnir fundu sig vel í rólegheitunum, fengu að nýta húsin frá í gær fyrir hlutverkaleik og farið var í að byggja fleiri hús. En inni spruttu upp glæsilegar byggingar, hver af annarri.

Dagur 11

6. október. Nú var brugðið út af vananum af fleiri en einni ástæðu. Þennan dag var Katrín hjúkrunarfræðingur í heimsókn og ákveðið var að það ætti vel við að hún byrjaði tímann á að kenna börnunum sitthvað um hreinlæti og sýndi öllum hvernig á að þvo sér um hendurnar. Einnig fræddi hún börnin um þá smithættu sem fylgir því ef kettir eða hundar eru að sleikja þau á andliti eða höndum því þessi dýr nota tunguna einnig til ýmmissa þrifa á sjálfum sér, svo eitthvað sé nefnt. Þetta átti því vel við í náttúrufræðitíma. Síðan fékk hópurinn óvænta heimsókn eins eldri borgara sem var á opnu húsi þennan dag. Þetta var Ásdís í Sólvangi sem kom að líta á nemendahóp dóttur sinnar, enda fékk hún góðar móttökur.
Eftir þetta var ákveðið að skipta hópnum eftir kyni, stúlkurnar fóru út að leika sér í nýföllnum, blautum snjó á meðan drengirni léku sér inni í kubbum. Einn þeirra var með kvef og hálsbólgu og það þótti ekki æskilegt að hann færi út.
Þetta kom vel út, það skapast oft öðruvísi samvera þegar skipt er eftir kyni. Stúlkurnar og Ósk gerðu fínustu snjóhús við leiktækin á meðan drengirni byggðu stærðar bóndabýli með öllu tilheyrandi í stofu.

Dagur 10

30. september. Enn vorum við að fá ágætis veður, sól af og til og kyrrt . Þetta var tímamóta dagur í tvennum skilningi, annars vegar var þetta síðasti útiskólinn að sinni með 7. og 8. bekk og hins vegar var eldstæðið tekið í notkun. En tíminn byrjaði að venju á veðurkortiu og síðan fór 3. Bekkur með Ósk að búa til lummudeig fyrir útiskólann og á meðan fóru allir hinir í heimsókn inn í elddhús. Þar sýndi Heiða matráður þeim í alla króka og kima. Sú ferð varð mjög upplýsandi fyrir börnin og þeim þótti mikið til um.
Síðan var farið út og þá voru stóru nemenurnir úr 7. Og 8. bekk líka komin.
Verkefnin voru tvö, að baka lummur á eldstæðinu og að reyna að ljúka við að negla þakið.
Nú voru stóru nemendurnir orðin mun öruggari varðandi sitt hlutverk, áhugasamir um smíðarnar, sérstaklega strákarnir og samskipti minni og stærri orðin frjálsleg og skemmtileg. Lummubaksturinn tókst prýðilega og lummurnar brögðuðust vel þrátt fyrir rúsínuleysi. En spýturnar sem fara áttu í þakið pössuðu ekki svo nokkrir drengir tóku að sér að fara með þær til húsvarðarins sem heflaði af og sagaði. Í þetta fór talsverður tími svo ekki náðist að negla. En í staðinn náðist að ljúka við að saga og negla sæti inn í húsið.

Dagur 9

28. september. Það viðraði nokkuð vel, sólin skein að mestu og vindurinn blés ljúflega. Jörðin var blaut en snjólaus. Verkefni voru þau að fylla út veðurkortin og skipta svo í hópana og fara í lautina. Einn hópur fór að skipta um þráð í göngustígnum svo nú loks er hann eins og til stóð, með leiðandi þræði á báða vegu alla leið frá körfuboltavelli og niður í laut. Annar hópur fór að ljúka við að negla sæti innan í húsið. Ekki var búið að sníða svo fyrst þurfti að mæla, síðan að saga og loks var hægt að negla.
Þriðji hópurinn hvarf í skógarþykknið og til hans spurðist ekki aftur fyrr en koma að því að skipta um verkefni.
Það kom í ljós að nú voru nemendur ekki búinir að átta sig á að sumarbúnaðurinn dugði ekki lengur og sumum var orðið kalt áður en dagurinn var á enda. Reyndar kom í ljós að einstaka nemandi hafði ekki gefið sér tíma til að fara í þann fatnað sem var með í ferð en aðrir höfðu gleymt heima.

Dagur 8

23. september. Þessi dagur var búinn að vera viðburðarríkur áður en kom að útiskólanum því fyrir hádegi var allsherjar útiskóli fyrir alla nemendur og kennara. Sumir voru því farnir að þreytast þegar komið var saman í stofu eftir hádegi. En við létum ekki deigan síga, enda beið sólin úti og blíðskapar veður. Eftir hefðbundana vinnu við veðurkortið fóru alllir í góða hvíl, reyndu að ná slökun ísmá stund til að byggja sig upp fyrir verkefnin framundan. Í öðrum tíma mættu nemendur í 7. og 8. bekk inn í stofuna og þá var öllum skipt í 3 hópa. Elstu nemendur í hverjum hópvoru skipaðir hópstjórar. Verkefnin voru; a) að ljúka ákveðnum framkvæmdum sem eftir voru við húsið, b) að ljúka við gerð eldstæðs í lautinni og c) að saga trjágreinar niður í búta svo hægt væriað koma þeim í þurrk, en bútana á svo að nota í eldstæðinu síðar. Þetta gekk að mestu, þó verður að segjast að í hópnum sem fór í að ljúka framkvæmdum við húsið voru margir mjög uppteknir við að halda til uppi á þaki hússins og taka glæsistökk niður. Blessunarlega slasaðist enginn en ekki tókst að ljúka við að negla sæti innan í veggi hússins.
Það voru þreyttir nemendur og kennarar sem drösluðu heim öllum verkfærum og dóti í dagslok, en að sama skapi voru allir glaðir og ánægðir.

Dagur 7

22. september. Þetta var kaldur og hrásalagalegur dag svo eftir að nemendur höfðu fyllt út veðurkortið var farið í áhugakönnun varðandi verkefni dagsins. Í ljós kom að flestir höfðu hug á verkefni innanhúss svo farið var í föndurstofu skólans og unnið með greinar og lyng sem nemendur söfnuðu nokkur áður. Þar var einnig nóg af fjallagrösum. Hver nemandi vann úr þessu fínustu myndverk á striga og að því loknu tíndust allir út í frjálsan leik, í smá stund.

Dagur 6

16. september. Sigrún var fjarverandi en Tolla hljóp í skarðið. Hefðbundin byrjun inni í stofu þar sem nemendur fylltu út veðurkortið og ákveðin voru verkefni dagsins. Nemendur í 7. – 8. bekk komu síðan og slógust í hópinn og síðan var hópnum skipt upp þannig að 5 ára börn og 1. bekkur fengu að fara inn í leikskóla en aðrar nemendur fóru í látbragðsleiki í stofu. Þetta reyndist hinn ánægjulegasti tími þar sem allir létu sig hafa það og léku fyrir aðra sem áttu að geta hvað væri verið að túlka.

Dagur 5

15. september. Hefðbundin byrjun með veðurkortið. Því næst var hópnum skipt upp af handahófi í tvo jafna hópa og þegar út var komið var farið í náttúrfræðinám. Lagt var fyrir að hvor hópur ætti að finna í umhverfi Stórutjarnaskóla eftirfarandi hugtök: Valllendi, mýrar og votlendi, holt og móa , kjörr og skóglendi, fjalllendi, og sand og mela. Vindurinn blés hressilega þennan dag en það létum við ekkert á okkur fá og héldum okkar striki. Þetta gekk allt saman greiðlega, eftir útskýringar og vangaveltur varðandi sum hugtök, (einnig útskýringu á orðinu hugtak), voru nemendur ekki í vafa. Fjalllendið var reyndar tekið úr fjarlægð, ekki gafst tími til að fara alla leið til fjalla. Í ljós kom að orðið votlendi getur átt við allt sem vott er, þar með talin vötn og læki.

Dagur 4

9. september. Útiskólahópurinn fyllti út veðurkortið og áður en haldið var út skipulögðum við verkefni dagsins. Fyrst var haldið eftir stígnum að húsinu sem byggt var í fyrra og börnin fengu að bregða sér í frjálsan leik til að byrja með. Síðan mættu nemendur í 7. og 8. bekk og lagt af stað í verkefnið sem var fjallagrasatínsla og söfnun á berjalyngi. Nemendum í útiskólahópnum var skipt í hópana sína og nemendur úr 7. og 8. bekk skiptu sér á hópana og gerðust hópstjórar. Þetta tókst prýðilega, eldri nemendur sýndu mikla ábyrgð, gættu þess að allir fylgdu hópnum og voru áhugasöm við verkefnið. Meiningin er að síðar vinni 7. og 8. bekkur meira með lyngið, allir munu vinna með fjallagrösin og til stendur einnig að færa matráðum grös í soðið.

Dagur 3

8. september. Byrjað var á að fylla út veðurkort, því nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því út í hvernig veður við erum að fara. Þar er kannað skýjafar, hitastig og vindur. Því næst var farið í útifötin og farið í gönguferð með nátturufræðikennslu og fuglatalningu í huga. Haldið var í þéttum hóp og athygli barnanna beint að berjalyngi, hve margar tegundir þau finndu í umhvefinu og eins var fylgst með ferð fugla. Raunin varð sú að berir á lynginu fönguðu athygli barnanna að miklu leyti. En þó tókst að vekja athygli á einstöku fuglum, við sáum smáfugl, líklega grátittlig, gæsir flugu yfir og á vötnum svömluðu endur, líklega skeiðendur og/ eða skúfendur. Á bakaleið var staldrað við í góðri berjalaut og Sigrún beitti allri sinni frásagnartækni og sagði börnunum söguna af drengnum sem fékk vasaljós í afmælisgjöf og fór af stað að finna helli.....

Dagur 2

2. september. Nú var börnunum skipt í 3 hópa, með skólahóp eru þetta 15 nemendur alls eða 5 í hóp. Hver hópur valdi sér nafn sem tengdist trjánum.

 

Grenisteinar


Haraldur, Inga María, Kristján Davíð, Árný Olsen, Snorri Már

Birkihópur


Anton Karl, Hannes Haukur, Heiðrún Harpa, Sylvía Rós, Unnur J

Smáratré


Elín Heiða, Marge, Ari, Unnur Olsen, Baldur Örn

Haldið var eftir stígnum að húsinu frá í fyrra og hreinsað út úr því allt timbur sem þar var geymt í sumar. Tmbrinu var snirtilega staflað í móinn á stað sem við nú teljum að fari ekki undir þykkan snjóskafl í vetur.
Náttúran var líka notuð í frjálsum leikjum og að auki komu nemendur úr 7. og 8. bekk og unnu eða lögðu fram hugmyndir að frekari frágangi á húsinu. Að auki útbjuggu þeir þrep upp úr lautinni þar sem hún er dýpst svo ekki þurfi að sparka út grófan mel sem verið er að græða upp með heyi eða moði.

 

 

Dagur 1

 

 

1. september 2009. Berjamór. Í upphafi vetrarstarfsins og útiskólans er gott að nota móinn til samveru þar sem hægt er að spjalla og kynnast í ró og næði. Veður var kalsalegt en þó gáfum við okkur góðan tíma, enda er það klæðnaðurinn sem skiptir meginmáli í útiskólanum. Allir náðu að tína eitthvað í dósir, aðallega bláber. Því miður voru svo sumir óheppnir og misstu úr dósunum, ýmist á jörðina eða í magann. Afraksturinn á að nota í heimilisfræði næsta dag.