Dagbók útiskóla 2010-2011

Dagur 62

Síðasti dagur útiskólans var miðvikudaginn 11. maí og fór alfarið fram innan dyra þrátt fyrir ágætt veður. En verkefnið var að leggja lokahönd á vinnubækur útiskólans en þær innihalda samsafn verkefna vetrarins og kennir þar ýmissa grasa. Má nefna veðurkortin, teikningar sem tengjast viðfangsefnum, landnemavinnubók og myndir, stjörnukort, árstíðaverkefni og margt fleira. En verkefnið heppnaðist nokkuð vel og bækurnar munu fara á vorsýningu nemenda.

Img1019

Dagur 61

Þriðjudagur 10. maí. Nú er að koma að lokum útislólans í vetur, aðeins einn dagur eftir. Því var þessi dagur nýttur vel og öllu tjaldað sem hægt var. Nemendur ákváðu að búa sig upp samkvæmt sínum landnemahlutverkum eftir að hafa fyllt út veðurkortin og halda á vit ævintýranna í lautinni. Það tók nokkurn tíma að finna rétta búninga en síðan tók leikgleðin við og margt skemmtilegt var brallað. Sumir huguðu að sínum heimilum, aðrir bökuðu pizzu úr mold og gróðri, enn aðrir gleymdu sér í atburðarás sem varð til jafnóðum. Hugað var að reyniviðarhríslunum sem gróðursettu voru í síðustu viku og þær virðast dafna vel, hafa sprungið örlítið út.

Img1017

Dagur 60

Miðvikudaginn 4. maí var venju fremur fámennt en þá var skólahópurinn í öðrum verkefnum og einnig var Ósk víðs fjarri. Eftir veðurkort byrjuðu nemendur á því að gera grein fyrir fuglaskráningum sem þau gerðu heima um helgina. Þau sáu fjöldan allan af fuglum, lang mest af gæsum, alls 403. Þá sáust 84 heiðlóur, 35 mávar og 33 endur. Allt í allt sáu börnin 14 fuglategundi rá sínum heimaslóðum. Áhugi þeirra er mikill og þekking á fuglum mjög góð. Í mónum vökvuðu nemendur reyniviðarplönturnar og lagfærðu girðingar og húsnæði. Veðrið lék við okkur og allt of snemma var tíminn farinn frá okkur.

Dagur 59

Loksinsn venjulegur útiskóli þriðjudaginn 3. maí og lautin orðin auð. Eftir að hafa fyllt út veðurkort var farið í lautina og fyrir lágu fyrst og fremst tvö verkefni. Annað var að gróðursetja tvær reyniviðarhríslur sem foreldrar gáfu skólanaum daginn sem Grænfáninn kom og hitt var að kveikja upp í eldstæðinu og steikja pylsur. Hvorutveggja gekk eftir og gekk vel. Reyndar var enn frost í jörðu en Sigrún kom með kindaspörð að heiman og plönturnar fengu því næringarríkan jarðveg þrátt fyrir allt. Þeim var plantað við neðri enda göngustígsins, sitt hvoru megin og virðist fara vel um þær þar. Ósk sá um eldun og pylsurnar sviku engan. Það vantaði nokkur börn, sum vegna veikinda en eitt mátti sitja inni vegna þess að alveg gleymdist að hafa meðferðis fatnað fyrir útivist. Þessu til viðbótar blómstraði frjáls leikur í heimilum nemenda í mónum. Það gladdi okkur mikið að sjá að talsvert af dvergliljum (krókusum) standa í blóma þar sem börnin settu niður laukana í haust. Reyndar virðist vera eyður í en spennandi að sjá hvað verður.

Miðvikudaginn 27. apríl var enginn úti skóli en í þess stað tóku nemendur og starfsfólk á móti Grænfána landverndar við hátíðlega athöfn.

Dagur 58

Síðasti útiskólinn fyrir páskafrí. Að venju fylltu nemendur út veðurkortin en Sigrún og Katla María stungu fljótlega af í leynilegar aðgerðir. Katla kom með birgðir af litlum páskaeggjum, Sigrún bætti við eins og til þurfti og með þetta læddust þær í móinn sem loksins var að mestu kominn undan snjó eftir langan vetur. Þær földu egg á heimilum hvers hóps og til viðbótar voru falin egg í Álfaborg handa tveim dönskum kennaranemum og kennurunum. Síðan mættu nemendur í lautina og hver hópur þusti á sitt heimili. Eggin fundust nokkuð auðveldlega og var hópnum þá safnað saman í þúfunum þar sem allir lásu sinn málshátt og fengu útskýringar á honum.

Að þessu loknu fóru 7 nemendur ásamt Ósk og Kristjáni, danska nemanum, í fuglaskoðun. Margt athyglisvert sáu þau fleira en fugla en þau sáu 5 þresti, 4 auðnutittlinga, 7 fiskiendur á Bæjartjörninni og heilan hóp sáu þau enn fjær. Það er því ljós að farfuglarnir eru farnir að hópast heim.

Dagur 57

Það ver fremur óvenjulegur útiskóli þriðjudaginn 12. apríl vegna útivistardags foreldra. Meirihluti nemenda fór því úr skólanum um kl 14:30 en þeir fáu sem eftir voru nutu sín í hálf tómu skólahúsnæðinu. Einn nemandi mátti ekki fara út og því voru allir inni. En dagurinn byrjaði með hefðbundnum hætti, börnin fylltu út veðurkortið og 3. bekkur fór út í stærðfræðiverkefni. Það fólst í því að stika hringinn í kringum skólahúsið, einn og einn í einu og telja skrefin. En foreldrar voru farnir að tínast að til að sækja sín börn í útisvistarferðina svo ekki tókst að ljúka verkefninu. Aðeins tveir nemendur náðu á leiðarenda, tveir voru tæplega byrjaðir og tveir lentu í erfiðleiku, rugluðust í talningu og einn var stöðvaður í miðri talningu. Því verkefni verður haldið áfram síðar.

Dagur 56

Enn var hlýtt og gott veður og sól miðvikudaginn 6. apríl. Nú var farið út um leið og búið var að fylla í veðurkortið. Úti beið risa verkefni sem var að flokka heilmikið af umbúðum í flokkana sem felast í endurvinnslugámnum. Þetta verkefni tók drjúgan tíma en börnin stóðu sig með prýði, unnu eins og afbragðs flokkunarvél. Að launum fengu þau að bregða sér í vænan snjóskafl í lautinni við Langamel.

Dagur 55

Þriðjudagur 5. apríl, hiti 10°c, logn og skýjað. Þrátt fyrir ágætis veður dögum saman liggur alltaf snjóbreiða í lautinni okkar og þar undir er eldstæðið. Því verða allar áætlanir um útieldun að bíða enn um sinn. En leikrit þeirra sem byggt er á landnemum og íslendingasögunum tekur mesta athygli þeirra. Í stofunni fór drjúgur tími í að finna nöfn og tengja. Farið var frjálslega með sögulegar staðreyndir en tilgangurinn var nú sá að vekja athygli barnanna á að þessar persónur hefðu hugsanlega eitt sinn verið til.

Þessi nöfn og fjölskyldur urðu að niðurstöðum:

Hjónin Bárður og Guðrún Þorbjarnardóttir og sonur þeirra Uni (Kristján ,Sylvía og Hafþór)

Hjónin Naddoddur og Brák og dóttir þeirra Þjóðhildur (Ari, Unnur og Rannveig)

Víkingahöfðinginn Þorgeir Ljósvetningur (Anton Karl)

Hjónin Gunnar Hámundarson og Hallgerður Langbrók og börnin þeirra Þórunn Hyrna, Guðrún Ósvifusdóttir og Ásdís (Katla María, Árný, Þórunn, Guðrún Karen og Heiðrún Harpa) og

Hjónin Njáll og Bergþóra og börnin þeirra Haraldur Hárfagri og Melkorka (Hannes Haukur, Inga María, Haraldur Andri og Marge) Sjá Img0997

Í lok dagsins brugðu nemendur sér í frjálsan leik á útisvæðinu.

Dagur 54

Enn helst góða veðrið, 9°c og nánast logn, hálfskýjað miðvikudaginn 30. mars. Nemendur hafa undanfarnar vikur unnið sig vel upp í umbótaþrepum og að launum fá þeir að leika leikrit að eigin ósk. Þar sem þeir hafa verið áhugasamir í samfélagsfræðinni og lært um fyrstu landnemana, víkingana og þeirra fólk, var farið í að skipa í hlutverk samkvæmt íslendingasögunum. Strákarnir völdu flestir að vera víkingar og konurnar að vera víkingakonur og nóg var af börnunum. Einn þræll kom til og ambátt hans og saman áttu þau 3 börn. Víkingahöfðinginn réði yfir þeim. Raðað var saman í fjölskyldur, hjónin drógu sér börn og svo var haldið út þar sem upphófst feikna mikill leikur. Römm átök urðu á milli víkinga sem töldi sitt hlutverk að fara í víking og höggva mann og annan en konurnar reyndu að halda sínum börnum heima og sinna því sem þar þurfti að gera.

Eftir dágóðan leik var hópurinn róaður niður, honum skipt í tvennt og haldið í fuglatalningu. Skógarþrestirnir sáust í dag í fyrsta sinn við húsið, alls fimm talsins og einnig heyrðist í álftum.

Dagur 53

Skemmtilegur útiskóli í góðu veðri. Hiti var um 6°c, sól og logn að mestu. Eftir venjubundin verkefni í stofu var haldið út. Megin verkefni dagsins voru að vinna með og læra að þekkja höfuðáttirnar og að gera vindmælingu. Reyndar var enginn vindur svo vindpoki sem sýna átti stefnuna tók engan vind í sig. Nemendum var skipt í 4 hópa og þeir unnu saman innan hvers hóps og skráðu niðurstöður á þar til gerð blöð. Síðan var farið yfir öll blöðin og kom þá í ljós að allir gerðu allt rétt nema einn hópur sem var með eina smá villu.

Dagur 52

Enn beið nemenda talsvert nám innandyra áður en haldið var út. Eftir veðurkortið sem sýndi lítið frost, lítinn vind og smá sól var farið í að vinna langtímaverkefni um árstíðirnar. Einn nemandinn uppgötvaði langt, ljóst hár í töskunni sinni og það kallaði á rannsókn á því hvaðan þetta hár væri komið. Niðurstöður rannsóknar sýndu að tvær stúlkur komu til greina, bæði litur og lengd hársins benti til þeirra. Þrátt fyrir svona hliðarverkefni náðu flestir að ljúka við árstíðaverkefnið og voru því mjög þurfandi fyrir útiveru og hreyfingu þegar nemendur héldu loksins út í snjóinn. Það var ekki laust við að einstaka barn tæki nokkurskonar vorhopp þrátt fyrir að fátt benti til þess að vorið væri í nánd. Til dæmids var þykk, gegnsæ íshella yfir grasinu sem enn kúrir og bíður vorsins.

Dagur 51

Þriðjudagur 22. mars. Loksins var skólinn fallinn í rétt horf aftur eftir velheppnaða árshátíð. Það er ekki laust við að sumir séu eilítið eftir sig og annar kennarinn hálf ófær vegna kvefs. Hann ákvað því að vera inni þennan daginn og nemendur fengu að velja á milli þess að fara út með hinum kennaranum eða vera inni eftir að búið var að fylla út veðurkortið og ræða ærlega um matarvenjur í borðsalnum. Þeir sem völdu inniveru unnu að heimanámi en útifólkið hafði með sér fuglafóður og dreifði því í þeirri von að þanni gtækist að laða að einhverja smáfugla.

Dagur 50

Miðvikudagur 16. mars var óhefðbundinn útiskóli, skólahópur var ekki og ekki starfsmaður frá leikskóla. Því var rólegur dagur eins og því var við komið en nemendur voru flestir frekar hátt upp vegna æfinga og breytinga á dagskrá. Það var því kærkomið fyrir þá að gleyma sér í innileikjum, við legó- og einingakubba að þessu sinni.

Þriðjudaginn 15. mars var enginn útiskóli vegna æfinga fyri rárshátíð.

Dagur 49

Öskudagur. Enginn hefðbundinn útiskóli en innan veggja skólans fór fram öskudagssamkoma þar sem tuskudýr voru slegin úr tunnum. Nemendur mættu í allskyns furðufatnaði og eftir að tunnuævintýrinu lauk var marserað lengi og vel. Þá kom sér val að fá hressingu, popp og safa á eftir. Því næst tóku allir þátt í limbókeppni og endað var á ásadansi. Þetta þótti takast mjög vel.

Enginn útiskóli var þriðjudaginn 8. vegna samlestrar á árshátíðarhandriti.

Dagur 48

Í heimilisfræðitímum miðvikudaginn 2. mars voru bakaðar bolludagsbollur. Nemendum var skipt í tvo hópa og verkið gekk alveg ágætlega. Eftir hádegi fór Ósk í að búa til kakó og fyllingar í bollurnar á meðan Sigrún var með nemendum við að fylla út veðurkort og fræðast um árstímann. Þegar allir voru tilbúnir var farið niður í Álfaborg og slegið upp bolluveislu með kakói. Ekki var eins hvasst og daginn áður og ágætt skjól í húsinu góða. Bollurnar brögðuðust alveg prýðilega en þó var einum og einum bita fleygt ef ske kynni að krummi yrði á ferðinni. Svo fékk frjálsi leikurinn að taka völdin þar til dagur var á enda.

Dagur 47

Þriðjudagur 1. mars. Hefðbundið upphaf, nemendur færðu inn sínar upplýsingar á veðurkortin og að því loknu var fjallað um svefninn og lýðheilsuátakið. Miklar umræður spunnust þar um og að mörgu var að hyggja. Nemendum lá margt á gjarta og erfitt var að hafa hæfilega stjórn á hópnum. En þegar út var komið blés hressilega eins og marga aðra daga en þó mátti finna skjól í bollum austan heimreiðar. Þar var líka góður snjór og færi til að renna sér og ærslast sem ekki virtist vanþörf á.

Dagur 46

Enginn hefðbundinn útiskóli vegna umhverfisþings í skólanum. Öllum nemendum gert að sitja allt þingið og það gerðu þeir. Fengu fyrir vikið fínar upplýsingar um ýmislegt sem gert hefur verið í umhverfismálum og í útiskólanum. Þá fræddust þeir um afleiðingar af hlýnandi loftslagi og fl. Að lokum fengu nemendur allir að vita það að samkvæmt svefnkönnun sem framkvæmd var vikuna áður sofa þeir helst til of lítið.

Sjá myndir af fréttasíðu skólans 24. febrúar

Dagur 45

Þriðjudaginn 22. febrúar viðraði vel til útiveru. Eftir hefðbundin verk í skólastofunni var haldið út og nemendur fengu að viðra sig og ærslast óheft um stund. Sumir fóru í leiktækin en aðrir uppgötvuðu möguleikann á að búa til fallegar snjómyndir á svellum sem nóg var til af undir örþunnu lagi af nýföllnum snjó. En svo kom að því að skipt var upp í tvo hópa og haldið af stað í sína hvora áttina undir því yfirskini að finna eða sjá fugla og að kanna náttúruna og upplifa. Hóparnir mættust síðan við stóra, brotnan steininn niður undir Bæjartjörninni og skömmu síðar var tíminn úti þennan daginn. Enginn sást fuginn.

Dagur 44

Miðvikudagur 16. febrúar. Eftir að nemendur höfðu fyllt út venjubundið veðurkort var slegið upp brúðuleikritum sem æfð höfðu verið í handmenntatímum hjá Álfheiði. Þarna fengu nemendur að upplifa tvö frumsamin ævintýri þar sem handavinna nemenda lék aðalhlutverkin. Þetta var velheppnað og að því loknu var farið út. Þar var nemendum skipt í tvo hópa og hvor um sig hélt á vit náttúrunnar. Lagt var upp með að hafa skynfærin vel vakandi og það kom ýmislegt skemmtilegt í ljós á leið vegfarenda. Annar hópurinn fór í lautina og nágrenni en hinn hélt í suðurátt og naut sín vel í ljúfu vetrarveðri. Nú bar svo við að lautarhópurinn gekk fram á spaka rjúpu í kjarri. Það vakti mikla ánægju hjá nemendum og rjúpan var umsvifalaust skráð og mynduð.

Dagur 43

Þriðjudaginn 15. febrúar var farið að vinna með stjörnumerki himinsins og því næst stjörnumerkin eins og þeu eru skilgreind í tengslum við afmælisdag hvers og eins. Áhugi og þekking reyndist mun meiri en stjórnendur höfðu fyrirfram reiknað með en það kom ánægjulega á óvart. Eftir þessa umfjöllun var haldið út í góða veðrið. Þar var skipt í hópa, og fuglatalningahópurinn hélt af stað í leit að fuglum. Enginn sást þann daginn. Hinir sem ekki voru í fuglatalningu nýttu sér snjóinn og ekki síður svellin og fengu sér ófáar salíbunur.

Dagur 42

Miðvikudagur 9. febrúar. Eftir veðurkort var lokið við kórónur og einnig voru lokaæfingar. Sköpunargleði nemenda tók öll völd og þegar upp var staðið skörtuðu kórónurnar öllu tilfallandi sem fannst við hendina. Má nefna nagla, tölur, rær, skrúfur, lykla, strigaefni, gærubúta, steina, brotin blý og ýmislegt fleira. Þetta tók talsverðan tíma eins og gefur að skilja en síðast var farið út í frjálsan leik.

Dagur 41

Þriðjudagur 8. febrúar. Nú er þorrablótsundirbúningur í algleymi. Byrjað var á að æfa skemmtiatriði fyrir þorrablót, 1. – 3. bekkur söng við gítarundirleik Sigrúnar, írskt þjóðlag við texta Jónasar Árnasonar, Þungt ymur þorrinn og kváðu þuluna Heyrði ég í hamrinum. Skólahópurinn söng vísuna Best er að vera bóndakona. Eftir þetta var byrjað á kórónugerð með víkingasniði sem þau ætla að bera á þorrablótinu. Eftir það var komið að því að fara út í létt frost og smakka á þorramat í skjóli undir vegg. Flest bragðaðist nokkuð vel en tíminn var hlaupinn frá okkur áður en smökkun var lokið.

Dagur 40

Miðvikudaginn 2. febrúar var fjallað um þorramat. Fyrr um daginn bökuðu nemendur rúgbrauð sem baka þurfti allan daginn. En þegar kom í stofu eftir hádegi var byrjað á að fylla út veðurkortið. Kom þá í ljós að segja mátti að ekkert veður væri. Það var hvorki frost né hiti, ekki vindur, ekki sól, ekki úrkoma en reyndar kom svo í ljós þegar út var komið að það var prýðisveður sem þessi lýsing átti við. En þegar búið var að ganga frá veðurkortum fengu nemendur ákveðna þraut að vinna. Hún fólst í því að þeim var skipt í fjóra fjögra manna hópa og hver hópur fékk skýrar og góðar myndir af flestum þeim matartegundum sem falla undir þorramat. Skipaður var ritari í hverjum hóp og síðan áttu nemendur að bera saman bækur sínar á lágu nótunum og skrifa niður allar matartegundir sem þau báru kennsl á með nafni. Þetta tók sinn tíma en var mjög skemmtilegt viðfangsefni og niðurstöður urðu mjög skýrar. Greinilegt var að magáll og lundabaggi voru mjög framandi. Hrútspungar ekki allstaðar þekktir og ýmsar útgáfur komu yfir greiningu á sviðakjömmum. Tveir hópar skráðu svið en líka kom fram kindahaus og kúarhaus.Einnig var mismunandi túkun á slátri, hvort blóðmör væri sama og slátur eða þá lifrapylsa.

Eftir allar þessar vangaveltur var yndislegt að koma út og leika sér í góða stund fram að skólalokum.

Enginn útiskóli var 1. febrúar vegna foreldrasamtala

Dagur 39

Þessi útiskóladagur var með heimilisfræði ívafi og umfjöllunarefnið var þorrinn. Nemendur fengu það hlutverk að útbúa gamlan og góðan mat, kennarinn kom með sláturkeppi sem settir voru í suðu, og síðan suðu nemendur hafragraut, hrærðu skyr og að lokum var búinn til hræringur. Allir fengu síðan að bragða á góðgætinu áður en farið var í útiveruna. Fanns hverjum sitt um bragðgæði matarins. Þá var ekki langur tími eftir sem kom lítið að sök því margir höfðu blotnað vel í hádegisfrímínútunum og voru því tæpir varðandi þurr klæði til útiveru. En þó náðist að útbúa fyrsta áfanga af snjóhúsi eftir að út var komið.

Dagur 38

Þriðjudaginn 25. jan var hláka sem hamaðist á öllum fínu sköflunum okkar. Nemendur og kennarar drifu sig út í fyrra fallinu og á meðan flestir þeirra nýttu sér leiksvæði og náttúruna sem þeir höfðu fóru nemendur úr elsta árgangi í fuglatalningu. Sumstaðar var hjarn sem mjög gaman var að renna sér á og nóg var af brekkunum. Auðvelt var líka að leggja land undir fót og nemendur í fuglatalningu læddust í átt að Bæjartjörninni og umhverfis hennar. Tekin var stefnan á Tangann við tjörnina að þeirra ósk. Þar er alltaf gaman að koma en það sem vakti þar athygli voru djúpir og miklir brestir eða hvellir í ísnum á tjörninni. Áhugi nemenda var þó ekki mikill og lítil eirð til að sitj og hlusta. Úr því urðu leiðindi sem rædd voru síðar en eftir þetta sneri hópurinn beinustu leið heim í skóla. Á þeirri leið hitti hann tvær rjúpur í kjarri og þær voru ekki mikið að kippa sér upp við mannaferðir. Aðrir fuglar sáust ekki.

Dagur 37

Miðvikudagur 19. janúar. Ekki var mikill stöðugleiki í veðrinu því í dag var kominn nokkurra stiga hiti og örlítil súld á köflum. Snjórinn hafði sigið og þótti því full ástæða til að endurtaka leikinn frá í gær. En fyrst þurfti að fylla í veðurkortið og að ræða mál sem upp kom í hópnum. Að því loknu var farið út og mælt. Kom í ljós að það munaði nokkrum sentimetur allsstaðar. Engu að síður var nægur snjór, Álfaborgin rétt stóð upp úr skaflinum og fyrir vikið var ákaflega gaman að hlaupa þar upp á þak og stökkva eða detta út af. Nú var einnig hægt að skríða inn í húsið þótt lítið svigrúm væri. En þetta var skemmtilegur dagur og í lok dagsins var hugað að því hvort brauðið hefði verið étið og það reyndist svo. Greinilega mátti sjá að krummi karlinn hafði fundið það og verið duglegur að fá sér í gogginn.

Dagur 36

Nú var loksins bjart og stillt veður þriðjudaginn 18. janúar í allri snjódyngjunni. Nemendur og kennarar reyndu heldur að hraða afgreiðslu veðurkortsins og eftir nauðsynleg mál var farið út. Verkefnið var að mæla snjódýpt á nokkrum stöðum. Nemendur unnu í fjórum hópum, fjögur saman. Þau stungu prikum í snjóinn og ýttu þeim niður eins og mögulegt var, merktu við og mældu þegar búið var að taka prikin aftur úr skaflinum. Ekki var laust við að það gætti óþolinmæði við verkið vegna þess að hugur nemenda var mjög bundinn við snjóinn og það landslag sem beið allt í kring um þau. Eftir mælingar og skráningar stráðu nemendur brauði til fuglanna. Nú sást til tveggja rjúpna, en þær litu reyndar ekki við brauðinu svo séð væri. Endað var á frjálsum leik sem fékk allt of stuttan tíma að flestra mati.

Dagur 35

Miðvikudagurinn 12. janúar var ágætis skóladagur. Loksins var veðrið til friðs en útiskólinn byrjaði inni í kennslustofunni á því að nemendur fylltu út veðurkortið. Að því búnu var farið ofan í skólareglur, sem gilda í skólastofunni og nemendur sömdu sjálfir í fyrra. Kennurum þótti sem eitthvað væri farið að fenna yfir þær. Umbótaþrepin voru dregin fram í dagsljósið og ákveðið að frá og með þessum degi hæfist ferðalag nemenda upp þrepin. Ef einhverjum verður illilega á og fer á skjön við reglurnar færist hann niður um þrep. En þegar allir verða komnir í efst þrep tröppunnar verður nemendum umbunað. Eftir könnun meðal þeirra kom í ljós að lang flestir óskuðu sér að fá að velja sér búninga og leika eitthvað í þeim. Það verður því framkvæmt í fyllingu tímans.
Eftir þessar umræður var dreginn fram gítar og nemendur og kennarar sungu saman áramóta- og þrettándalög. Eftir það var loks komið að útiveru sem fólst í því að nemendur léku sér í nýorðnum snjósköflum og ruðningum. Enn mætti okkur nýtt landslag. Í lok dagsins dreifðu fjórar stúlkur brauðmylsnu fyrir fuglana í þeirri von að einhverjir finni hana og geri sér að góðu.

Þriðjudaginn 11. janúar féll niður skóli vegna óveðurs og snjóflóðahættu.

Dagur 34

Miðvikudagur 5. janúar. Ágætis veður í dag þótt það hafi verið dálítið napurt. Ekki vantaði snjóinn en eftir hefðbundna byrjun var haldið út í sögulautina, eða í Garðabolla. Þar reyndust vera ágætis hjarnhjallar sem ekki var hægt að ganga fram hjá. En eftir smá leik í snjónum settust allir í kringum kertaljós og Ósk dró upp sögur um álfa og huldufólk. Sumum varð kalt fljótlega og þá fóru þeir heim í skóla með Sigrúnu en hinir héldu áfram að leika sér í lautinni þar til skólinn var búinn.

Img0950

Dagur 33

Þriðjudagur 4. janúar. Þetta var fyrsti skóladagurinn eftir jólafrí og nemendur voru mis vel upplagðir. Að auki var leiðinda veður svo ákveðið var að skella á síðbúnu áramótaballi eða snemmtæku þrettándaballi. En fyrst þurfti að fylla út veðurkort að venju. Að því búnu lögðu nemendur undir sig salinn og fundu sér búninga úr búningasafni skólans. Þegar komið var í góðan búning kom allt annað af sjálfu sér. Tónlistin kallaði til þeirra en spiluð var íslenski tónlist sem tengist með einum eða öðrum hætti þessum árstíma.

Svona leið útiskólinn, ballinu lauk skömmu fyrir skólalok.

Dagbók útiskóla 2011

Dagur 32

15. des. Síðasti hefðbundni dagurinn fyrir jólafrí. Nú var allt annríki að baki og því var slakað á fyrir framan sjónvarp og vídeó. Horft var á „þegar Trölli stal jólunum“ af mikilli athygli og innlifun. Að því loknu var farið út en þó tóku 4 stúlkur úr 3. bekk að sér að leggja síðustu hönd á gluggaskreytingu og frágang í stofu fyrir litlu jólin.

Img0946

Dagur 31

14. des. Enn er ágætis veður og jólaundirbúningur í algleymi. Verið var að leggja lokahönd á jólagjafir og umbúðir. Það var því ekki farið út fyrr en seint og þá til að anda að sér hreina loftinu og slaka á í huganum eftir allt bjástrið innandyra.

Dagur 30

8. des. Ósk var ekki í dag vegna þess að leikskólabörnin voru í sínu árlega jólaföndri. Það var því slegið á létta strengi, spiluð jólalög og föndrað. Búnir voru til músastigar og keðjur, litaðar myndir og svo var verið að búa til jólagjafir handa foreldrum.

Dagur 29

7. desember. Nú var farið að skreyta stofuna eftir að nemendur höfðu fyllt út veðurkortið. Veðrið var gott, stillt og -5°c. Nú var megin verkefnið að flokka rusl í 5 flokka en Ósk og Sigrún höfðu safnað heima og komu með óflokkað. Nemendur flokkuðu í hart plast, lint plast, pappír, pappa og málma/dósir.

Dagur 28

1.desember, fullveldisdagurinn. Í stofu fræddust börnin um þennan dag en í heimilisfræði um morguninn bjuggu þau til hraunsælgæti. Svo þegar haldið var út eftir hádegi var farið í lautina góðu og þar var sest inn í Álfaborg. Þar var enn frekari umræða og upplestur um daginn og hvernig Ísland fékk fullveldið, yfirráð Danakonungs og fl. Þá kom sér vel að eiga sælgæti til að maula á meðan. Börnin veifuðu íslenska fánanum í tilefni dagsins og léku sér í snjónum.

Dagur 27

30. nóvember var enginn hefðbundinn útiskóli. Ósk og Sigrún fóru á fundi skóla á grænni grein á Siglufirði. Nemendur léku frjálst með leikskólanum.

Dagur 26

24. nóvember. Leikir í stofu til að byrja með og síðan farið út í ísgerð. Það var gert með því að hella mjólk í plastpoka sem síðan var lokað vandlega og sett í stærri plastpoka með snjó. Þeim poka var líka lokað vel og vandlega og svo þurfti að hrista þar til mjólkin frysi. Þetta gekk tæplega nógu vel og að auki lendum við í tímahraki. En þetta var skemmtileg tilraun.

Dagur 25

23. nóvember, nánast fullt tungl og bjart. Hiti um frostmark og svolítil gola. Eftir undanfarandi froststillur var nú snjórinn frosinn svo hálfgert hjarn var út um allt. Því var ekki nokkur sem komst hjá því að renna sér ef hann á annað borð fór í brekkuna austan við skólann. En í fyrsta tíma var danskennsla hjá Köru svo útiskólinn var í styttra lagi. Eftir að hafa fyllt út veðurkortið og farið í gegnum nokkur mikilvæg mál s.s. að svara jólastærðfræðigetraun var haldið út. Nú var það 1. hópur sem fór í fuglatalningu. Að þessu sinni var ákveðið að leita að góðum stað til að fela sig á og liggja í leyni til að freista þess að sjá þá frekar einhvern fugl. Það eina sem fannst var heilmikill rjúpnaskítur undir furutrjánum við vatnið.

Dagur 24

Eftir talsverða ofankomu síðustu vikuna með tilheyrandi skaflamyndunum var komin hláka. Hitamælirinn þann 17. nóvember sýndi 4 °c og snjórinn var orðinn mjög blautur. Því voru sumir nemendur orðnir gegnblautir strax eftir útifrímínútur í hádeginu og voru því úr leik er kom að útiveru. Fyrsta verkefnið í stofunni að afloknu veðurkortinu var að hlusta á Sigrúnu lesa frásögnina af Sæunni, kúnni í Önundarfirði sem reif sig lausa úr manna höndum þegar hún kom að slátúrhúsinu þar sem átti að aflífa hana. Þá hét hún Harpa. Þess í stað komst hún út í sjó og synti 3 km yfir fjörðinn. Þar fékk hún nýtt heimili og nýtt nafn og lifði góðu lífi mörg ár í viðbót. Þessi atburður gerðist árið 1987. Nemendur teiknuðu mynd af Sæunni á meðan þeir hlustuðu. Síðan fóru þeir út sem það gátu en hinir blautu voru áfram inni og byggðu úr einingakubbum og legókubbum. Úti fóru nemendur í fuglatalningu. Ekki tókst að telja neinn fugl að þessu sinni en snjórinn stóð fyrir sínu og nemendur nutu útiverunnar.

Dagur 23

Dagur íslenskrar tungu þriðjudaginn 16. nóvember. Mikil hátíð í skólanum, menningarstund og opnun Bókasafnsins í Stórutjarnaskóla. Fyrir vikið var enginn hefðbundinn útiskóli vegna þess að hátíðarhöldin hófust kl 13:30 og þeim lauk ekki fyrr en skólatíminn var að mestu út runninn. En nemendur útiskólans tóku allir virkan þátt í menningarstund, skólahópurinn fór með fyrstu þrjú erindin í þulunni um Dúðadurt ásamt öðrum leikskólabörnum og 1. – 3. bekkur flutti tvær þulur um krumma. Þá lék Hafþór, sem er í skólahópi, á píanó lagið Krummi svaf í klettagjá. Þetta var góður dagur.

Dagur 22

10. nóvember. Nú var talsvert frost en kyrrt veður. Fórum í heimsókn í fjósið á Stórutjörnum. Þangað var góður gangur en engu að síður voru nemendur í fullu fjöri er þangað var komið. Kýrnar létu sér fátt um finnast en kálfarnir sýndust mis glaðir með heimsóknina. Þeir urðu líka all miklu meira fyrir barðinu á gestunum, fengu strokur aftur á bak og áfram og ágenga heimsókn inn í stíuna. Bændurnir Laufey og Ásvaldur tóku vel á móti hópnum og gáfu börnunum mjólk að drekka. Flestir drukku mjólkina eins og kálfar. Áður en við yfirgáfum fjósið fengum við að sjá eina kú í mjaltabásnum og það var nú ekki lítið merkilegt að sjá hvernig mjaltaþjónninn bar sig að. Eftir að hafa kvatt í fjósinu var haldið í fjárhúsið. Féð kippti sér heldur ekki mikið upp við heimsóknina og einstaka kind notaði tækifærið og varð sér úti um gott klór. Þetta var mikil og góð ferð og allir ánægðir er heim var komið.

Dagur 21

Hiti -2°c, skilvinduævintýri. Þar sem verið er að fjalla um kúna og mjólkurafurðir ásamt vinnubrögðum fyrri tíma var gripið til skilvindunnar. Ósk hafði tengsl við eina slíka sem bar vörumerkið „Sylvía“ og Sylvíu þeirri var stillt upp á bekk í matreiðslueldhúsi. Sigrún mætti til vinnu með drjúgan sopa af ógerilsneyddri nýmjólk og nú átti heldur betur að leyfa börnunum að skilja að undanrennu og rjóma. Þeim var skipt í tvo hópa og þetta galdratæki sett af stað með handafli. Nemendur fengu að snúa skilvindusveifinni, hver á fætur öðrum en þrátt fyrir góða frammistöðu skilaði vindan ekki sínu verki sem skyldi. Hún sendi mjólkina frá sér óaðskilda og síðar kom í ljós að í „Sylvíu“ vantaði smá hlut sem alveg er bráðnauðsynlegur svo að allt virki.

Við rifjuðum upp þuluna „Sól skín á fossa“ og söguna þar að lútandi, þ.e. hvernig kýr fá málið á aðfaranótt þrettándans ár hvert.

Dagur 20

Haldið var áfram með kúaþema. Veður var svipað þennan 3. dag nóvember og daginn áður, en þó snjóaði nú látlaust þrátt fyrir 1°c. Umfjöllunarefni dagsins voru afurðir kúa og þar var fyrst og fremst talað um nýmjólkina. Nemendur skráðu í hugtakakort allt það sem þeir vissu að hægt væri að framleiða úr mjólk og það var æðimargt. Rifjað var upp hve mjólkurflokkurinn væri mikilvægur í fæðuhringnum og hve nauðsynlegar mjólkurvörurnar væru fyrir beinin okkar. Orðið kýr er erfitt í umfjöllun og við lékum okkur aðeins með beygingarnar, kýr - kú - kú - kýr.

Þá var skipt upp í 4 fuglatalningarhópa, því í gær sýndi sig að erfitt er að læðast ef margir eru saman á ferð. Hópaskiptingarnar eru þessar:

1. Kristján Davíð, Heiðrún Harpa, Árný, Unnur og Katla María.

2. Hannes Haukur, Ari, Sylvía Rós og Inga María.

3. Marge, Haraldur Andri og Anton Karl.

4. Hafþór, Guðrún Karen, Rannveig og Þórunn.

Í dag var það hópur 1 sem fór í fuglatalningu og það sást einn skógarþröstur. Á meðan dunduðu hinir inni í kennslustofunni þar til skólinn var á enda.

Img 0912

Dagur 19

2. nóvember. Veturinn er kominn með snjó og norðanvindi. Samt sagði hitamælirinn okkur að úti væri 2°c, sem sagt hiti en ekki frost. Nú var farið að vinna með nýtt þema, kindurnar lagðar til hliðar en kýrnar settar í brennidepil í staðinn. Í stofunni var fjallað um persónuleg kynni barnanna af kúm, sum eiga kú eða hafa átt og kýrnar þeirra voru í ýmsum litbrigðum og áttu ýmiss nöfn. Við gátum stuðst við stóra veggmynd sem sýndi öll litbrigði kúa. Eftir ýmsar reynslusögur og frásagnir var farið út í fuglatalningu. Um helgina hófst árleg garðfuglakönnun Fuglaverndar veturinn 2010-2011 og var ákveðið að útiskólinn tæki formlega þátt í þeirr könnun. Farinn verður svipaður hringur um skólasvæðið alla útiskóladaga og þennan fyrsta dag sáu nemendur einn skógarþröst og einn hrafn. Þar með var tíminn á enda. Ekki má telja aðra fugla en þá sem sjást á jörðu niðri. Fuglar sem fljúga yfir verða að fá að fljúga sína leið.

Dagur 18

Búið var að segja nemendum að þau fengju „bullandi heimilisfræði“ þennan dag sem var 27. okt. Það ríkti því mikil eftirvænting og tilhlökkun um morgununinn og þá fengu nemendur að búa til gerdeig sem síðan var látið bíða og lyfta sér þar til kom að útiskóla. Þá átti að vefja því utan um pylsubita og grilla í eldstæðinu. En maðurinn má sín lítils gagnvart náttúruöflunum og þau tóku alfarið ráðin þennan daginn. Það rigndi linnulaust þétt og mikið svo verkefnið fór allt fram í skólaeldhúsinu. En það gekk vel og allir fóru heim með afraksturinn.

Dagur 17

Það viðraði ágætlega þriðjudaginn 26. október en jörð var blaut og talsvert var af snjó og krapi. Því var það svo að þegar nemendur komu inn í kennslustofuna voru sumir þegar orðnir gegnblautir. Verkefni dagsins var að setja niður túlípanalauka í blómabakka og klippa eða saga niður tré sem biðu í lautinni frá því að grisjað var í haust. Sumir nemendur urðu því að sæta því að vera inni það sem eftir var skólans og vinna að heimanámi en þeir sem þurrir voru afgeiddu verkefnin úti. Þetta tókst vel og Ósk tók að sér að fóstra túlípanabakkann í gróðurhúsinu heima hjá sér þar til okkur sýndist tímabært að koma honum fyrir í lautinni í vor. Að auki var ekki ónýtt að leyfa sköpunargleðinni að fá útrás í snjónum.

Dagur 16

Ákveðið var að leika sama leikinn og í gær, skella sér strax í útifötin eftir matinn og koma svo inn þegar nemendur hefðu fengið nóg. Hins vegar bar svo við að það merki kom aldrei, vel hefðum við geta verið enn lengur úti en þessar þrjár kennslustundir í einni lotu. Nú var meginverkefnið að stinga niður haustlaukum, laukum dvergliljunnar eða krókusins eins og margir þekkja. Við réðumst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur heldur fórum í malarhólinn við lautina, en verið er að reyna að græða hann upp. Jörðin grýtt og erfið, beita þurfti lægni og atorku við að gera holur sem síðan voru hálffyltar af gróðurmold áður en lauknum var komið fyrir. Mikilvægt var að láta hann snúa rétt, en hvert barn setti niður tvo lauka. Svo er bara að vona að mýsnar finni þá ekki og nýti sér sem vetrarforða. Bíða þarf allan veturinn eftir því að sjá hvernig það fer.

Helmingur barnanna vann að þessu verkfni í einu en hinn helmingurinn fór í göngutúr í átt að tjörnunum. Við höfum lítið farið þangað undanfarið. Fyrri hópurinn sótti sér möl í leiðinni til að nota í annað en seinni hópurinn fór í fuglatalningu. Sáu eina álft, eina rjúpu, fjóra auðnutittlinga og sex þresti.

Það fór því svo að veðurkortið þann 20. október var aldrei fyllt út.

Dagur 15

19. október. Skjótt skipast veður í lofti og þannig var það þennan daginn. Nú var komið hrímkalt haust og horfin sumarblíða. En við því mátti búast svo enginn kippti sér upp við það. Þennan daginn höfðum við endaskipti á hlutunum, til að fanga hlýjna frá sólinni á meðan hennar naut við fóru nemendur beint í útiskólann eftir hádegisútiveruna. Ákveðið var að vera ekki lengi, svo eftir að búið var að afgreiða tvö megin verkefni var farið inn í stofu. Verkefnin voru þau að mæla hæð trésins okkar, birkitré sem við mælingu reyndist vera orðið 2.92cm á hæð. Þá var mælt fyrir gluggahlerum, glugarnir mældir, hæð og breidd.

Að þessu loknu var farið inn í stofu og lagður grunnur að leynivinaviku. Nemendur drógu sér leynivin og hugsuðu hvað hægt væri að gera til þess að gleðja sinn leynivin.

Dagur 14

13. október. Svipað veður og í gær. Ekki tókst þá að ljúka við skjóðusauma svo haldið var áfram með það verkefni. Hinir nemendurnir skiptust í tvo hópa, annar fór að bæta trjákurli í stíginn, hinir léku frjálst. Að lokum voru allir komnir með skjóður, harla ánægðir og búið var að setja nóg kurl í stíginn í bili.

Dagur 13

12. október. Nú fer hver af þessum góðu haustdögum að verða sá síðasti en enn fengum við að njóta sólar og u.þ.b. 10°c. En sólin seig niður fyrir Kambinn um kl 14:30 og þá kólnaði fljótt. Megin verkefni dagsins var að útbúa strigaskjóður undir gullin í lautinni, hornin, kjálkana og leggina. Ákveðið var að taka út saumavél og sinna verkinu úti í sólskininu. Það gekk ágætlega, hægt og bítandi en sauma þurfti 5 poka, fimm hópar sem gegnu í verkið. Allir hjálpuðust að í hópunum og Ósk var yfirskraddari. En þeir sem ekki voru í saumaskapnum hverju sinni fóru í boltaleikinn „yfir“.

Gerð var breyting á hópaskiptingu til þess að kljúfa engan fjölskylduhópinn í verkefnum. Fyrir vikið geta þeir leikið sér saman í búunum sínum þegar svo ber undir. Nýja vinnuhópaskiptingin er svo:

1. Árný, Sylvía, Kristján, Þórunn, Ari, Hafþór

2. Unnur, Marge, Heiðrún, Guðrún

3. Katla, Inga María, Rannveig, Hannes, Anton, Halli.

Dagur 12

6. okt, miðvikudagur. Nú sýndi hitamælir 11°c, logn og óðum var að létta til. Enda fór sólin að skína þegar komið var í lautina. Ákveðið var að halda þar áfram með verkefni frá heimilisfræðitíma fyrr um daginn. Nú þurfti að beita hamri á kókoshnetu sem borin var fram ásamt fleiri tegundum af grænmeti og ávöxtum. En allir nemendur fengu að berja á hnetunni þar til að hún gaf sig. Þá var komið að því að kanna innihaldið. Inni í hnetunni reyndist vera indæll glær vökvi og fengu allir að smakka á dropum sem látnir voru leka upp í þá. Síðan kom líka í ljós að enn fleira hafði hnetan að geyma því að innan í skelinni var þykkt hvítt lag sem smakkaðist eins og kókosmjöl. Alveg stórmerkilegt allt saman. Að þessu loknu var skipt í sömu þrjá hópana og vanalega. Einn fór í frekari ávaxta- og grænmetissmökkun, annar fór að keyra trjákurl í göngustíginn sem liggur í lautina og þriðji hópurinn fór í frjálsan leik. Síðan var skipt þrisvar sinnum um verkefni.

Dagur 11

5. október. Eftir kalsadaga undanfarið hafði aftur hlýnað en mikið rignt. Gott var því að geta klæðst göllum sem hlýfðu vel fyrir bleytunni og nú fengu nemendur að nýta sér nýjan og blautan sand í sandkassanum. Þar var mikið grafið og miklar vegaframkvæmdir eins og tíðkast í góðæri. Lautin fékk alveg að hvíla í friði þennan daginn en vatnspollarnir hreinsaðir upp í súpugerð og fleira. Hugmyndirnar skorti ekki.

Dagur 10

Miðvikudagur 29. september. Nú blésu haustvindar allt um kring en í lautinni góðu var mun minni vinur. Lögð var loka hönd á dýramerkingar en einhver emandi varð hugfanginn af litlum loðnum fræjum sem höfðu vaxið á loðvíðinum og fór að safna fræjum. Þetta breyddist út og varð aðalverkfni dagsins en leikurinn í fjölskylduheimilunum fléttaðist saman við. Náttúran skartaði sínu fegursta í haustsólinni og það var ánægjulegt að fylgjast með nemendum á hverju aldursstigi í runnum eða bollum við frætínslu. Þar voru þeir í sínum hugarheimi og nutu stundarinnar. Aðeins þurfti að endurgirða eitt heimilið, því bómullarsnærið stóðst ekki ágang náttúrunnar og flosnaði sundur. Því þurfti að endurgirða með nælonsnæri. En heimilin þróast eins og annað og því var gamla snærið notað í innanhús hönnun, settir upp milliveggir og fleira.

Dagur 9

28. september, þriðjudagur. Það tók nokkuð langan tíma að fylla út veðurkortið og taka fyrir nokkur mál sem nauðsynlegt var að ræða um saman áður en haldið var út. Er komið var í lautina var skipt upp í sömu hópa og síðast og haldið áfram að vinna með horna-, leggja- og kjálkamerkingar. Þar þurfti að bora gat á hvert stykki og síðan að merkja með þeim bandlit sem hverjum fjölskylduhóp hafði verið úthlutað. Einn hópurinn fékk að fara í frjálsan leik á meðan og þriðji hópurinn vann áfram við að búa til krans úr þeim jurtum sem fundust í nánasta umhverfi. Skipt var reglulega um verkefni svo allir náðu að gera allt og síðasti hópurinn lauk við kransinn. Hann var hengdur upp í Álfabor í allri sinni dýrð.

Það stóð á endum að sumum var orðið kalt og þurftu að komast í hús eða bíl þegar skólanum lauk.

Dagur 8

22. september. Ágætis veður, stillt og þurrt þótt lofthiti væri ekki hár. Eftir umræður í stofu var haldið í lautina að venju og trítlað eftir trjágöngunum, sumir arm í arm. Í lautinni var skipt í grunnhópana þrjá og farið í verkefnavinnu. Eitt verkefnið var að ljúka við réttarsmíði, annað að tína lyng og ýmsar greinar og vefja í krans og þriðja verkefnið var frjáls leikur. Skipt var reglulega svo allir tóku þátt í öllum verkefnunum. Flestir hefðu þegið lengri tíma að þessu sinni en allir dagar taka enda.

Dagur 7

21. september. Sigrún var fjarverandi svo Ósk sá ein um útiskólann að þessu sinni. Veður var ágætt eftir bleytu undanfarinna daga og börnin ánægð með lautina sína. Unnið var með þemaverkefni haustsins, og fjallað um sauðkindina. Áður en haldið var út var spjallað um haustið, göngur og réttir, hvernig réttir eru uppbyggðar. Gömlu gullin (horn, kjálkar og leggir) tekin fram og síðan var hafist handa við að búa til fjárrétt enda all flestir nýbúnir að upplifa réttir og lífið þar. Í réttarsmíðina voru notaðar spýtur sem þurfti að saga niður í hæfilegar lengdir og band sem strengt var á milli spýtna.

Eins og oft vill verða kom eitt og annað upp á sem dró að sér athygli. Að þessu sinni uppgötvuðu sumir nemendur marga ánamaðka undir trjábút og þá urðu þeir að rannsóknarefni.

Dagur 6

15. september. Enn kalt og blautt. Framhald frá gærdegi, unnið með skeljar í hópum. Þeir sem ekki föndruðu fræddust um skeljar í staðinn, teiknað var upp hugtakakort þar sem þekking nemenda var skráð jafnóðum. Í ljós kom að til voru bláskeljar eða kræklingaskeljar, hörpudiskar, kuðungar eða bobbar, kúskeljar, olnbogaskeljar, sandskeljar, og perlur. Hægt var að lesa um sumar skeljarnar og annað vissi fók, hafði séð eða heyrt um viðkomandi skeljar.

Dagur 5

14. september. Slagveður og ekki hundi út sigandi. Því fór útiskólinn fram inni að þessu sinni. Nemendum var skipt í tvo hópa, eftir að búið var að fylla út veðurkortið. Þar kom fram 6°c, mikill vindur og mikil rigning. Ósk tók með sér annan hópinn þar sem unnið var með skeljar sem hún mætti með í lautina um daginn. Sá hópur bjó til vindhörpu úr skeljum og grein en í stofu eitt var byggt úr einingarkubbum og teiknað.

Dagur 4

8. september

Þennan daginn sýndu mælingar 17°c, sólarlaust og vind. Nú var hægt að ganga nokkuð rakleitt að verkefnum dagsins en áður en farið var úr stofunni fengu nemendur heim með sér indælis muffinskökur sem þeir höfðu bakað um morguninn og þar með nýtt bláberin sem tínd voru í síðustu viku.

Í lautinni var skipt í hópana frá í gær og haldið áfram á sömu nótum, þannig að í lok dagsins höfðu allir hópar farð í gegnum smíðar, frjálsan leik og náttúruskoðun. Lokið var við að negla fyrir op á húsinu, í náttúruskoðun voru meðal annars mælingar og rannsóknir á sumarvexti lítils lerkitrés. Svo er meiningin að skoða það aftur að ári og bera saman, tréð náði Hafþóri í höku núna, hvort þeirra mun svo vaxa meira næsta árið? Þá var gengið frá eldivið sem búið var að saga niður og á að þurrka í húsi í vetur en nauðsynlegt er að eiga eldivið í útieldstæðið fyrir veturinn. Stúlkurnar sýndu góð tilþrif við smíðarnar sem og drengirnir í gær.

Dagur 3

7. september

Enn hélst veðurblíðan, jafnvel enn heitara í dag en fyrir viku síðan. Nú var byrjað á að skipta nemendum í þrjá vinnuhópa til að auðvelda skipulagt starf. Reynt var að láta fjölskylduhópana halda sér til þess að þeir gætu haldist í frjálsum verkefnum. Annars munu hóparnir vinna skipulega að þeim verkefnum sem fyrir liggja hverju sinni.

1. Hópur: Anton Karl, Ari, Hafþór, Hannes Haukur, Haraldur Andri, Róbert

2. Hópur: Árný, Kristján Davíð, Rannveig, Sylvía Rós, Þórunn

3. Hópur: Guðrún Karen, Heiðrún Harpa, Inga María, Katla María, Marge, Unnur

Því næst var haldið í lautina, þar sem lagðar voru nokkrar línur nemendum til glöggvunar. Ósk kom færandi hendi með heilmikið skeljasafn og allir máttu velja sér til eigna tvær skeljar. Síðan var skipt í hópana og unnið þann stutta tíma sem eftir var. Hópur 1 smíðaði af krafti, hópur 2 fór í náttúrurannsóknir og hópur 3 fékk frjálsan leik.

Dagur 2

1. september

Starfsemi útiskólans er nú óðum að færast í sitt fasta horf á þessu hausti.

Það var alveg einstök veðurblíða sem mætti nemendum fyrsta dag þeirra í lautinni góðu. Nemendur höfu engu gleymt þótt liðið sé heilt sumar frá því að síðast var verið að vinna í útiskólanum og allir gengu ákveðið að sínu eins og verið hafði. Meira að segja var fast gengið eftir veðurkortinu í upphafi tímans. Kom í ljós að hitamælir sýndi 18°c, sól og lítinn sem engan vind. Nokkrir nemendanna voru að stíga sín fyrstu skref í skipulögðum útiskóla og þeir fundu sinn farveg, hver með sínum hætti. Fylla þurfti á fjölskylduhópana sem störfuðu saman í fyrra en þar voru nú sumstaðar stór skörð. Það er alltaf ákveðinn söknuður vegna þeirra sem vaxnir eru upp úr útiskólanum og farnir eru í 4. bekk en alltaf kemur maður í manns stað og stuttan tíma tók að fylla í skörðin. Þennan fyrsta hefðbundna dag voru nemendur önnum kafnir í sínum búum, þar speglaðist samfélagið eins og við er að búast.

Fjölskylduhóparnir eru þannig í vetur:

Í Álfabæ 4 búa Marge, Heiðrún Harpa, Unnur og Guðrún Karen.

Í Svalbæ búa Ari, Hafþór og Róbert, en þar starfa einnig mjög oft Kristján og Hannes

Í Sauðakrók búa Hannes Haukur, Anton Karl og Haraldur Andri

Í Maríuerlu 1 búa Sylvía Rós, Árný, Þórunn og Kristján Davíð

Í Veghúsi búa Katla María, Inga María og Rannveig.

Síðan er það svo í mónum eins og í öðrum góðum sveitum að stutt er á milli bæja og tíðar heimsóknir.

Dagur 1

31. ágúst

Farið var rólega af stað, Ósk var látin ein um hópinn vegna fjarveru Sigrúnar að þessu sinni. Nemendur höfðu frá mörgu að segja eftir sumarið og nutu þess að spjalla saman um leið og bláberin í mónum voru tínd í dósir.