Dagbók útiskóla 2011-2012

Dagur 25

 

Fimmtudaginn 3. maí var enn betra veður en síðasta útiskóladag, heiðskír himinn og létt norðan gola, 9°c. Við reyndum að hraða okkur út í góða veðrið en þennan dag var útidótadagur í útiskólanum. Engu að síður var indjánaþemað efst á baugi og nú var leikurinn orðinn enn þróaðri en síðast. Börnin geystust um þúfur og grundir, í sínum hugarheimi algjörlega á slóðum indjánanna. Nú þótti Stóru – Töng sitt nafn ekki lengur viðeigandi, svo Stóra – Töng breyttist Stóra – Úlf.

Þegar tíminn var að verða á enda runninn komu nemendur saman í melónu og farið var í gegnum tímann. Þau voru öll mjög ánægð og glöð, töldu sig hafa lært ýmislegt, meira að segja voru þau farin að ná að tala við andana. Þannig lauk góðum degi.

 

Img1137

 

Dagur 24

 

Vor í aðsigi, það mátti glöggt finna fimmtudaginn 26. apríl. Þó var lofthiti ekki hár, rétt um 5°c og svalur andvari en sólin skein. Byrjað var í stofunni eins og venjulega, veðurkortin fyllt út og svo var rætt um verkefni dagsins. Nú átti að fara í indjánaverkefni. Við lásum okkur til inni í stofu, komust að því að indjánar lifðu í nánum tengslum við náttúruna, trúðu á andana, tengdu sig við vindinn, himininn og jörðina. Þá gengu þeir aldrei of nærri náttúrunni, hvorki dýrum né jurtum. Eins og áður hefur verið skráð fengu allir sitt indjánanafn en þegar áreyndi virkaði nafnið hans Litla – Klaufa ekki vel svo hann breytti því í Litli – Bogi og það mun standa. Þegar komið var í lautina gladdi það okkur verulega að sjá að þar voru krókusarnir, (eða dvergliljur á íslensku), mættir en nemendur settu niður þá lauka haustið 2010.

Í lautinni byrjuðum við í melónu og svo var lagt í leikinn. Nemendur fengu það veganesti að tileinka sér það sem þeir vissu um siði og venjur indjána og það kom í ljóðs að eitt og annað kunnu þau fyrir sér.

 

Img1135

 

Enginn útiskóli var 19. apríl vegna þess að þá var frí á sumardaginn fyrsta.

 

 

Dagur 23

 

Fimmtudaginn 12. apríl viðraði vel til útiveru, 4°c og létt snjómugga á nær hvíta jörð. En það drógst að við kæmust út því undirbúa þurfti ferð í næstu viku á Gljúfrastofu við Ásbyrgi og Jarðskjálftasetur á Kópaskeri. Börnin voru frædd um jarðelda, eldgos og jarðskjálfta.

 

Loks var haldið út og allir fóru í melónu við eldstæðið. Þar upplýsti kennarinn þau um að búið væri að fela páskaegg á leiksvæðinu þeirra og eina vísbendingin sem þau fengu var „furutré“. Það nægði, börnin tóku á rás að þyrpingu furutrjáa og þar fundust 9 egg eftir mismikla leit. Í hverju eggi var falinn málsháttur. Hver nemandi las sinn málshátt og réði í hann.

 

Engar myndir festust á filmu því vélin var bæði straumlaus og kortalaus.

 

Enginn útiskóli var 29. mars vegna umhverfis- og lýðheilsuþings.

 

 

Dagur 22

 

Útiskóli 22. mars. Loksins gafst tækifæri til þess að skella sér í útiskólann. En í umræðum inni í stofu eftir að búið var að fylla út veðurkort var fjallað um indjána og indjánanöfn en líka um kúreka. Indjánarnir og kúrekar voru áberandi á árshátíðinni og því í fersku minni.

Nafnahugmyndir:
Heiðrún Harpa ....... Hvassa – Tönn
Kristján Davíð..........Litli – Klaufi
Hannes Haukur........Stóri – Hnífur
Ari..........................Skarpari kúreki
Katla María..............Björn kúreki
Inga María...............Illa – Tönn
Unnur......................Ein – Beitt
Árný........................Yglu - Brá
Sylvía......................Stóra – Töng

 

Eftir þetta var farið út og hlustað eftir fuglum. Við gengum hefðbundin hring niður að Bæjartjörn og niður undir Garðabolla. Loksins sáum við og heyrðum í þremur álftum við Leirtjörnina. Daginn enduðu börnin með því að taka nokkrar renniferðir niður snjóskafla.

 

Img1127

 

Fimmtudaginn 15. mars féll niður útiskóli vegna æfinga fyrir árshátíð.

 

Dagur 21

 

Fimmtudagur 8. mars. Ágætis veður, 2°c, hálfskýjað og vestan stinningskaldi. En þar sem árshátíð skólans er framundan var byrjað á að fara í nokkur mikilvæg undirbúningsatriði eftir að veðurkortið hafði verið fyllt út. Síðan var haldið út í laut og nú rifjuðu nemendur upp hlutverk sögupersóna í sögunni „Í gegnum Þyrnigerðið“. Það gekk nú ekki alveg vandræðalaust eda var um nokkurskonar tilraun að ræða. Svo fengum við eina móður í heimsókn með lítið systkini og fengum að læra einn nýjan leik.

 

Img1117

 

Fimmtudaginn 1. mars var almennur útiskóli og farið í vettvangsferð til Akureyrar

 

 

 

Dagur 20

 

Fimmtudagurinn 23. febrúar var ekki hefðbundinn útiskóladgur vegna þess að fulltrúar í umhverfisnefnd þurftu að sitja fund með umsjónarmanni Heilsueflandi skóla í síðasta tíma. En megin verkefni dagsins var að undirbúa nemendur fyrir vettvangsferð í Endurvinnsluna á Akureyri á útiskóladegi 1. mars. Kennarinn beitti nýrri tækni og fór í gegnum það með nemendum hve mikið þeir vissu um endurvinnslu og síðan hvað þeir vilda vita til viðbótar.

En að venju var byrjað á veðurkortinu sem sýndi blautt veður og lítið spennandi. Talsverða golu og hita um frostmark. Í lok tímans fengu nemendur að leika frjálst í einingarkubbum ásamt yngri nemendu um tíma.

 

Img1108 (9357 - 9377)

 

 

Dagur 19.

 

Góður dagur 16. febrúar. Að afloknu veðurkorti ,þar sem skráð var -1°c, lítill vindur og skýjað, urðu umræðum um líðan nemenda í tengslum við geðræktarverkefnið. Nemendur voru beðnir um að fylla út sjálfsmat, og það gerðu þeir fúslega. Útkoman svona nokkuð góð.

 

Þegar þessu var lokið tók við meginverkefnið, þ.e. að fara út um holt og móa með tóma poka og freista þess að tína upp pappír og annað flokkað efni sem fauk úr gáminum við losun í gær. Þá var hífandi rok og ekki hagstæð skilyrði til losunar. Þetta verkefni kom til af þeirra eigin frumkvæði því börnin sáu til þegar þetta óhapp varð og vildu fara og hreinsa upp. Enda var það svo að þegar út var komið hurfu nemendur fljótlega í beina stefnu undan vindátt gærdagsins og stóðu sig alveg til fyrirmyndar. Greinilegt var að mest rusl var að finna við hríslur, girðingar og annað sem mögulega hafði getað heft för þess. Sumir töldu sig hafa gengið einhverja kílómetra við lok útiskólans þegar allir voru komnir með afraksturinn í hendur umsjónarkennara.

 

Img1107

 

 

Enginn útiskóli þann 9. febrúar vegnan þorrblóts nemenda

 

 

Dagur 18

 

Að venju hófst útiskólinn með því að nemendur fylltu út veðurkort febrúarmánaðar, þ.e. fyrsta dag sem var nr. tvö í röðinni. Veður reyndist stillt og bjart, -4°c, hægur vindur og hálfskýjað. Þema dagsins var þorrinn. Umsjónarkennari las upp fróðleik um þorrann og gamla íslenska siði. Nemendu fengu að heyra um uppruna laufabrauðins um miðja 18. öld, kornskort sem ástæðu fyrir því hve brauðið er haft þunnt og að þetta var kallað sælgæti þess tíma. Þá bar á góma ljóðið Þorraþræll 1866 eftir Kristján Jónsson. En eftir að nemendur komu út fengu þeir að draga miða með nokkrum línum úr ljóðinu, síðan stilltu þeir sér upp í röð þannig að bútarnir röðuðust rétt í ljóðinu og svo var lesið hátt og snjall fyrir krumma sem virtist nokkuð hrifinn. Hann flaug yfir og tyllti sér svo á útiskólahliðið og kroppaði á sér tærnar. Tímanum lauk með frjálsum leik en sérlegir gestir dagsins voru nemendur í 2. bekk.

 

Img1098

 

Dagur 17

 

26. jan. Ekkert farið út. Vindur og rjúkandi mjöll. Frost -6 °c. Unnið með jörðina áfram og skrifuðu í vinnubók. Síðan skoðuðu nemendur og kennari stórann upplýstan hnött, veltu fyrir sér hvar tunglið væri þegar sólin skini á okkur. Veltu líka fyrir sér lengdar- og breiddargráðum og tímamismun á ýmsum stöðum á jörðinni. Sjórinn var greinilega lang mest áberandi og því augljóst hve löndin voru lítil miðað við hann. Rætt var um óskalönd hvers og eins og allir áttu mjög notalega stund saman.

 

Img1095

 

Dagur 16

 

19. janúar, sameiginlegur útiskóli með hóp 1 efti verkefni innandyra. Unnið með náttúrufræðina, jörðina og teiknað í vinnubækur. Þegar út kom leiddu saman hópa sína nemendur í leikskóla, hóp 1 og hóp. Eftir vindasama daga og snjóstorma var loksins orðið bjart yfir og stillt veður. En afraksturinn sat eftir, stórskemmtilegt landslag hér og þar. Það var því ærið nóg um sinn að upplifa og njóta. Sumum fannst skemmtilegast að fara upp á allar hengjur og brjóta þær niður á meðan aðrir vildu nýta sér það umhverfi sem myndast hafði undir hengjunum. Enn aðrir sáu möguleika á snjóhúsum í hverjum skafli og ekki síst veittu skaflarni nemendum kjörið tækifæri til að stökkva. Ekki var alltaf ljóst hvar þeir mundu síðan lenda. Þetta var góður útiskóli á síðasta degi mörsugs.

 

Img1094 (9157-9178)

 

 

Dagur 15

 

Fimtudagur 12. janúar, hefðbundinn útiskóli og í góðu veðri. Veðurkortið var fyllt út og sýndi -4°c, léttskýjað og lítill vindur. Mikill áhugi er meðla barnanna á að setja sig í hlutverk í útiskólanum og fá að túlka í leik. Ákveði var að velja sögupersónur úr bókinni Í gegnum þyrnigerðið eftir Iðunni Steinsdóttur. Sú saga var lesin fyrir þau í fyrravetur og lifir enn í minningu þeirra. Því fór 1. kennslustundin í að raða í eftirtalin hlutverk.

Sylvía Rós = Tvö hlutverk, Óþyrmir, vondi karlinn sem skiptir sveitinni í tvennt, Vestdal og Austdal og Baugheiður, vinkona Alfífu.

Inga María = Alfífa, barnabarn Ellisifjar, elstu og vitrustu konunnar og dóttir Jóreks.

Katla María = Jórekur, pabbi Alfífu.

Árný = Mýrún, kona Jóreks og móðir Alfífu

Ari = Ubbi, vinur Alfífu

Kristján = Kóri, vinur Alfífu

Unnur = Vigða, frænka Alfífu sem lokast af í Austdalnum

Heiðrún = Nanní, vinkona Vigðu í Austdalnum.

Hannes Haukur = Digraldi, búðareigandi í Vestdalnum.

Eftir þessar skiptingar sem fóru fram að vali hvers og eins var haldið út. Til að fagna nýju ári og hækkandi sól bauð umsjónarkennarinn upp á piparkökur og heitt kakó í snjóskafli við Álfaborg. Mikið hafði gengið á í veðrinu frá því síðast og því óskaplega skemmtilegir skaflar og landslag. Álfaborgin vel varin af sköflum og smá hengjum. Því fékk leikurinn að ráða ferð þar til kom að megin verkefni dagsins. Það var að koma fyrir fuglamat í trjánum handan við Þyrnigerðið.Þetta var mjög góður dagur og skemmtilegur og ekki var amalegt að sjá sólina senda geisla sína í fjallið.

Img1093

 

Dagur 14

 

Fimmtudagur 5. janúar, annar dagur nemenda og kennara eftir jólafrí. Næst síðasti dagur jóla og því var ákveðið að bjóða hópi eitt að vera með í þrettándaballi. Salurinn var nýlakkaður og því varð að halda ballið inni í stofu 1. Börnin fengu að velja sér búninga og svo var dansað samfleytt í tvær kennslustundir, það var dansað frjálst, svo var marserað og farið í alls kyns útfærslur. Greinilegt er að nemendur hafa litlu gleymt af dansnámi undanfarinna ára.

Img1091

 

Dagur 13

 

Fimmtudagur 15. desember. Síðasti hefðbundni skóladagur fyrir jólafrí. Úti var heilmikill jólasnjór, og enn bætti á. Hiti mældist -4°c og nær enginn vindur. Einn nemandi var ný staðinn upp úr veikindum og mátti ekki vera lengi úti svo fyrri tveir tímarnir voru nýttir í ýmislegt gagnlegt, veðurkortin voru fyllt út, lagað var til í hólfum og fulltrúi í umhverfsinenfd tæmdi fötuna með hvíta pappírnum. Í síðasta tíma var haldið í lautina með kertalukt. Þar við Álfaborgina var kominn góður skafl en það var þrautin þyngri að kafa snjóinn þangað. Eftir leik í smá tíma settust allir inn í húsið við kertaljós og ræddu aðeins um jólagjafir og fleira. Þar með lauk útiskólanum fyrir jól.

Img1087

 

Dagur 12

 

Fimmtudaginn 8. desember var ekki farið út og ekki fyllt í veðurkort. Miklar frosthörkur höfðu herjað á menn og náttúru svo nú var rétta stundin komin til að fræðast um indjána í gegnum myndbandið um Pocahontas, indjánastelpuna og hennar þjóðflokk. Í myndinni er líka fjallað um samskipti hvítra og indjánanna sem hvítumennirnir litu á sem villimenn.

Flestir höfðu séð myndina fyrir einhverjum árum síðan en aðrir voru að sjá hana í fyrsta sinn.

Eftir að hafa horft á myndina ræddum við saman um það sem þótti athyglisvert, lifnaðarhætti og klæðaburð indjánanna, húsakynni, hvaðan þeir fengu liti til að mála sig með, trú þeirra á andana og náttúruna, vindinn, trén, og fleira. Gildi þeirra bárust í tal, hugrekkið, trúmennskan, heiðarleiki m.m.

Img 1083

 

Fimmtudaginn 1. desember var föndurdagur í skólanum og því enginn útiskóli.

 

Fimmtudagur 24. nóvember: Enginn útiskóli vegna veikinda kennara

 

Dagur 11

 

17. nóvember 2011

Nú var gengið vaskelga að öllum verkefnum, mikið lá fyrir. Eftir að hafa fyllt út veðurkort var arkað að húsi Alaverefjölskyldurnar og nú höfðum við Friðrik húsvörð með okkur til halds, góðra ráða og verka. Hann hjálpaði okkur að rífa fjalirnar af gólfflekann og flytja hann í lautina ásam glugga og hurð. Nemendur voru harðduglegir við að bera timbur og annað í traktorsskóflu og aftu rúr henni við lautina. Þá notuðum við tækifærið og bárum poka með eldiviði úr skúrnum og í skófluna. Þeir verður geymdir á þurrum stað í vetur.

En að þessu loknu gafst smá tími í frjálsan leik sem var vel nýttur.

Img1075

 

Dagur 10

 

10. nóvember

Tíminn byrjaði á veðurkorti að vanda en síðan tóku við umræður og útskýringar á norrænan loftslagsdeginum 11.11.11. Kennarinn ræddi við börnunum um jörðina okkar allra, hve mörg við værum orðin, hverning hægt væri að rækta mat handa öllum en samt hafa pláss fyrir alla á jörðinni. Svona mikill fjöldi fólks þarf mikið að borða og mikið vatn. Afleiðing offjölgunar getur verið fæðu o g vatnsskortur. Vatnið er ekki bara nauðsynlegt til drykkjar, allur gróður þarf vatn og fólk notar vatn til að þrífa, bæði sjálfa sig, fötin, húsin og allt mögulegt. Síðan ræddum við um mengunarþætti, börnin nefndu að bjarga mætti miklu með því að færa mat á milli landa með flutningaskipum, flugvélum, lestum og bílum. Allt mengar, myndar hjúp sem orsakar gróðuhúsaáhrif. Þá hlýnar hjá okkur en kólnar eða ofhitnar hjá öðrum. Hvaða afleiðingar hefur það? Þarna sköpuðust góðar umræður.

Úti fórum við í lautina og mældum gólfmál Álfaborgar (botninn), því næst fórum við að húsi Alaverefjölskyldunnar í Melgötu en þau hafa boðið okkur að nýta rústir húss sem stelpurnar þeirra áttu en fauk í hvassviðri.

Niðurstöður mælinga sýndu að gólfið væri hægt að nýta, einnig glugga og hurð.

Img 1072

 

Dagur 9

 

3. nóvember.

Fuglaskoðun í ágætu veðri, svölu en kyrru. Kristján Davíð réð ferðinni, hann vissi um góðan hring svo við hin fylgdum honum. Farinn var stór hringur fram hjá Melhúsum, upp að bragga, austur og yfir tún við hlið Langamels, og yfir tvo læki. Þar var staldrað við því börnin voru upptekin af stórum sinustráum sem urðu á vegi þeirra og notuðu þau til að drekka úr lækjum sem á vegi urðu. Þannig náðist að drekka úr tveim lækjum sunnan vert við tjörnina, síðan lá leiðina austur fyrir hana og við gengum yfi r Fiskilækinn og börnin fengu sér smá vatn. Komu við á tanganum á vesturleiðinni, börnin drukku aðeins úr Bæjartjörninni með stráum og svo enduðum við heima við skóla. Góður hringur og skemmtilegur, frábær náttúruskoðun og upplifun í náttúrunni en ekki nokkurt fuglalíf.

Img1068

 

Dagur 8

 

27. október

Það var búið að standa til um hríð að halda upp á lok samræmdu prófanna og loks viðraði vel. Við trilluðum að eldstæðinu með pönnu, eldivið og annað sem nauðsynlegt var. Um morguninn höfðu nemendur farið í kennslueldhúsið og búið til gerdeig og vafið því utan um pylsur. Þetta var svo bakað á pönnu yfir eldi og borðað með bestu list. Á jörðinni lá tiltölulega nýfallinn snjór sem var nú á förum , blautur og skemmtilegur. Svo á meðan Sigrún bakaði byggðu nemendur snjóvirki, hiti var um 5°c og logn. Snjórinn og veðrið frábært og pylsurnar góðar.

Img1064 (8732-8776)

 

Dagur 7

 

20. október

Því miður féll niður útiskóli í síðustu viku af ófyrirsjáanlegum ástæðum og fjarveru Sigrúnar. En nú var hún mætt aftur og það var gott að fara saman út. Nemendur fengu að velja sér verkefni dagsins og það var auðvelt val. Frjáls leikur í lautinni. Kennarinn benti þeim á að útiskólinn væri reyndar skóli, við þyrftum að vera að læra og samþykkt var að þar sem verið er að læra náttúrufræði og samfélagsfræði fyrst og fremst yrði leikurinn flokkaður sem slíkur. Kennarinn hafði með sér skriffæri og skráði allan leikinn. Þetta reyndist mjög áhugavert verkefni og allir tóku virkan þátt. Megin verkefni var búðarrekstur sem byggðist á samstarfi tveggja fjölskyldna auk verslunareigandans. En hann þurfti reyndar að bregða sér úr vinnunni til að hjálpa félögum sínum, bændunum að smala. En þarna mátti sitthvað læra af samskiptum kynja og kynslóða.

Img1061

 

Dagur 6

 

6. október

Veðurkortið útfyllt. Að því búnu farið í fuglatalningu og mælingu á birkitrénu. Talsvert sást af fuglum: 3 auðnutittlingar, 2 endur, 5 gæsir, 5 hrafnar og að auki einn fugl sem ekki tókst að greina.

Tréð reyndist 2 metrar og 32 cm á eftir því sem næst varð komist. Að þessu loknu tók við frjáls leikur, þema var að búa til sópa eða hrísvendi úr stráum og sprekum. Búðarleikur þar sem Hannes og Sylvía réðu ríkjum í húsinu og notuðu leyniorð sem aðgangsorð fyrir hina.

Img1059

 

Dagur 5

 

29. september

Hefðbundið upphaf með veðurrannsóknum. Að því búnu var haldið í lautina og nemendur skiptu sér í fölskylduhópa. Veður var gott og náttúran skartaði haustlitum sem mest mátti verða. Skoðuðum litlu reynitrén sem foreldrar gáfu skólanum þegar grænfáninn var afhentur og hópurinn myndaður við trén. Heimilin voru endurbyggð og lagfærð og hver fjölskylda mynduð á sínu heimili.

Img1054

 

Dagur 4

 

22. september

Vorum lengi inni, fylltum veður kort og ræddum málin í rólegheitum. Unnum að indjánahugmyndum, ræddum um lönd og samskipti indjána og hvíta mannsins í Ameríku. Nemendur í 4. bekk höfðu þreytt samræmd próf í íslensku allan morguninn og voru þreytt og í þörf fyrir afslappaðan tíma. Það var því tekinn léttur útiskóli og stuttur þar sem frjálsi leikurinn var í brennidepli. Fremur kalt og lítið spennandi veður.

 

Dagur 3

 

15. september

Yndislegt veður, hiti 15°c og logn. Byrjuðum að vanda í skólastofunni, fylltum út veðurkort og rifjuðum upp grasanöfn sem ég hafði skráð upp úr bókinni Sumardagar, sem lesin var sl haust og vetur. Fórum í grasaskoðun, söfnuðum stráum sem seinna verða flokkuð og sett í vinnubók.

IMG1043

 

Dagur 2

 

8. september.

Kalt veður og farið seint út. Inni var unnið með veðurkort og spjallað og fræðst um indjána og indjánamenningu. Þegar komið var út gengu allir niður að Bæjartjörninni og út í nesið í skjóli við tré. Veltum fyrir okkur möguleikum á að reisa indjánahús.

 

Dagur 1

 

1. september

Gott veður, farið í lautina eftir langar umræður og endurskipulagningu á hópum. Að mörgu var að hyggja nú þegar nemendur voru bara 9 saman í útiskóla, félagar úr hópum síðasta ár nú fjarri góðu gamni í hóp 1 svo skipa þurfti ý nýja hópa. Svona breyttar aðstæður geta verið snúnar og tekur tíma að komast út úr gamla kerfinu en til dæmis þurfti líka að velja nýja bústaði

Nú er hópaskipting svona:

Kristján Davíð, Sylvía Rós og Unnur - Hannes Haukur, Katla María og Ari - Heiðrún Harpa, Inga María og Árný.

IMG 1038