Dagbók útiskóla 2013-2014

Dagur 31

 

Síðasti útiskólinn á þessu skólaári var þriðjudaginn 13. maí. Haldið var upp á daginn með lummu-bakstri yfir eldstæðinu. Áður en haldið var út og eftir að hafa fyllt út veðurkortið, 8°c og skýjað, fengu nemendur sjálfir að ákveða verkefni dagsins. Mestur áhugi var fyrir landnámsleiknum en einnig komu fram hugmyndir um fuglaskoðun, tiltekt og fleira. En aðalmálið var þó baksturinn.

 

Nú þurfti mikinn undirbúning, við áttum gott efni í eldstóna inni í bílskúr við skólann og nokkrir fóru þangað til að bera sprekin ásamt ýmsu öðru sem nota þurfti. Pannan góða sem útiskólinn eignaðist í fyrra var með í ferð ásamt lummudeigi og svalafernum sem til voru eftir grillveislu foreldrafélagsins. Sigrún fór í að kveikja upp og steikja því ekki þótti æskilegt að börnin væru að athafna sig í reyknum og hitanum við eldinn.

Baksturinn tókst prýðilega og einnig hreinsunin í kring. Birna rakaði upp mold og rusli eftir bekkjasmíðina. Tveir nemendur voru kvaddir sérstaklega í útiskólanum en þeir munu flytja til Húsavíkur og í annan skóla. Þá var smá auka lummuumbun til þeirra nemenda sem höfðu staðið sig sérstaklega vel í vetur varðandi útiklæðnað fyrir útiskólann.

 

Börnin nutu sín í mónum og dagurinn var dásamlegur. Að lokum áttum við mjög notalega og góða stund við eldstæðið þennan síðasta dag útiskólans.

 

Img 1350 (37 - 73)

 

Dagur 30

 

6. maí. Hefðbundið upphaf, skráning í veðurkort. Fínasta veður, 10°c og hálfskýjað. Fuglatalning, skipt í tvo hópa og fara niður að tjörnunum. Áður en haldið var út í fuglatalningu skoðuðum við og bárum saman niðurstöður síðustu talninga. Nú var hlaupið kapp í mannskapinn sem fram að þessu hafði verið fremur áhugalítill um fuglaferðir. Nú sást fjöldinn allur af fuglum. Annar hópurinn sá 25 fugla, lóur, jaðrakana, endur, gæsir, hrossagauka, grátittlinga og skógarþresti en hinn hópurinn sá 36 fugla, þresti, endur, gæsir, hrafna, lóur og hrossagauka. Mjög líklegt hlýtur að teljast að eitthvað af þessu hafi verið sömu fuglarnir.

 

Að þessu loknu var farið í lautina, en þar biðu okkar verkefni sem voru endurbætur á eldstó, að setja aftur niður súlurnar sem losnuðu í vetur og hreinsa upp mold í kringum eldstæðið. Einnig var farið í landnámsleik og búðarleik í Álfaborg. Dagurinn entist ekki til allra verka.

 

Img 1348

 

 

Dagur 29

 

Loks var aftur komið að útiskóla 29. apríl eftir langt og gott páskafrí. Veður var ágætt, 6°c, hálfskýjað og austan andvari, svolítið kul í lofti. Hefðbundið upphaf útiskólans með veðurskráningum, stuttri fræðslu um nýtt tungl og sumardaginn fyrsta. Sumum finnst mjög truflandi að fá svona merktan sumardag inn í vorið án þess að sumarið fylgi á eftir.

 

Útiverkefni voru fjórþætt: Að skrúfa niður sæti í lautinni, fuglatalning, landnámsleikur og steinaskoðun. Loksins eftir langan vetur hafði tekið upp allan snjó í lautinni okkar góðu svo öll heimilin voru íbúðarhæf. Birna hafði fengið til sín trjásögunarmann um helgina sem sneiddi úr hverjum sætisbol þannig að nú var auðvelt að skrúfa þá fasta á undirstöðurnar sem börnin settu í jörð í síðastliðið haust. Því eru nú loksins tilbúin sætin í kringum eldstóna.

 

Farfuglarnir flykkjast að í hópum og því fór Sigrún með alla hópa, hvern út af fyrir sig, í fuglaskoðun. Á meðan smíðaði einn hópur og tveir léku sér. Kerfisbundin skipting við verkefni. Mikil keppni varð á milli hópa í að finna sem flesta fugla. Einn hópur sá 16 fugla annar 15 en hinir tveir fundu færri. Þeir fuglar sem mest sást af voru gæsir, en 16 gæsir sáust og 15 lóur. Einnig töldu börnin 6 þresti, 5 endur, 4 hrossagauka og 2 snjótittlinga. Ekki gafst tími til að fara niður að tjörnunum.

 

Í lok útiskólans kom Ósk gestakennari með steinasafnið sitt og leyfði börnunum að skoða og fræðast um steinana. Þau voru mjög áhugasöm enda margir sjaldgæfir og merkilegir steinar í safninu, sumir ættaðir að austan.

 

Img 1347

 

 

Dagur 28

 

Síðasti útiskólinn fyrir páskafrí var 8. apríl í 15°c, sól og blíðu. Nú var megin viðfangsefnið páskar og fuglarnir. Vð ræddum talsvert um fuglana, hvaða fugla við þekkjum, hverjir eru farfuglar og koma til okkar á vorin og hverjir eru staðfuglar. Meiningin var að fara í hópum og reyna að koma auga á nýkomna fugla en fyrsta verkefnið var þó páskaeggjaleit í grennd eða í heimilum barnanna í lautinni.

 

Á leið okkar í lautina var farið í halarófu á eftir Sigrúnu gæsamömmu og þá varð á vegi okkar hópur auðnutittlinga sem var að leika sér og syngja í lerkitrjánum. Seinna sáum við eina álft sem flaug inn með fjallinu og skógarþrestirnir voru orðnir nokkuð áberandi, sérstaklega utan við gluggann á skólastofunni.

 

Eftir páskaeggjaleitina settust börnin niður og nutu þess að borða súkkulaðið. Því næst lásu allir sinn málshátt og reyndu að ráða í hann. Engir tveir voru eins og sumir hittu skemmtilega á. Þegar hér var komið var langt liðið á skólatímann og ljóst að enginn tími var til að fara með hópum í frekari fuglatalningar. Því fengu börnin frjálsan leik í lokinn.

 

Img 1345 (15-48)

 

 

 

Dagur 27

 

Fyrsti apríl, frábær dagur í mögnuðu veðri sem allir kunnu vel að meta. En þó var ekki hjá því komist að hefja daginn á því að fylla út veðurkort apríl mánaðar, skrá þar 8°c, logn og sól.

 

Verkefni dagins var að sá fræjum frá Wales. Sigrún sýndi myndir af viðkomandi trjám og las helstu upplýsingar áður en verkið hófst. Sáningin fór fram austur undir húsvegg, fjórar frætegundir, fjórir bakkar og skipt í fjóra hópa. Verkið gekk mjög vel, nemendur sinntu því af vandvirkni og natni. Eftir þetta var farið á gamlar og góðar slóðir niðri í laut. Enn eru miklir snjóskaflar og snjódýpt mæld á sömu stöðum og síðast. En nú voru skaflarnir harðari og erfitt að koma mæliprikinu í gegn. Skaflinn við Álfaborg virtist heldur hafa hækkað sem felst líklega í því að bráðnað hafði undan þar sem staðið var með prikið.

 

Skemmst er frá því að segja að börnin voru eins og kálfar sem hleypt er út að vori. Þau sviftu af sér úlpum og brugðu á leik um allt svæði og inni í Álfaborg, nutu þess út í æsar að leika frjálst eftir langan vetur.

 

Img 1344

 

 

 

 

Dagur 26

Loksins eftir langa bið þann 25. mars lék veðrið við okkur. Vindur blés ljúflega úr suðri og sólin heiðraði okkur með reglulegu millibili. Því reyndu allir að ljúka veðurkortsskráningu svo hægt væri að halda út. Hiti reyndist um 5°c og hálfskýjað, smá vindur.

Umræðu-og viðfangsefni dagsins var vatnið. Er allstaðar til nóg vatn? Nei, hér á Stórutjarnabúinu er búinn að vera alvarlegur vatnsskortur í nokkra daga vegna þess að vatnslindin gekk til þurrðar. Það var því ákveðið að fara í gönguferð upp í Stórutjarni og grennslast fyrir um þetta mál. Við sáum til gröfunnar þar sem hún var að moka upp í hlíðinni en vorum sammála um að bæði væri það of langt fyrir okkur að fara þangað og líka hitt að við gætum valdið truflunum og vandræðum. En við hittum Laufeyju bónda og hún sagði okkur hvernig væri verið að bjarga málum með því að finna nýja lind og leggja slöngu á milli. Hver kýr þyrfti um 60 lítra af vatni á dag og á búinu eru nærri 50 mjólkandi kýr auk kálfa og geldneyta. Því til viðbótar eru all margar kindur sem líka þurfa vatn.

Kennarar höfðu aflað sér eftirfarandi upplýsinga um vatnsþörf úr handbók bænda frá 1999:

Talið er að vatnsþörf sé þessi á sólarhring:

Á mann

200 - 400 l

Á mjólkurkú

50 - 60 l

Mjólkurkæling með vatni

50 l

Á hest eða geldneyti

20 - 30 l

Á kind

5 - 10 l

Á svín

15 - 30 l

Á 100 hænsni

35 - 40 l


Vatnsrennsli úr lind er auðvelt að mæla með því að mynda bunu og taka tímann sem fata er að fyllast. Taki 2 mínútur að fylla 10 l fötu renna 5 l á mínútu, en það eru 7200 l á sólarhring sem dugar flestum býlum með nægilega stórum miðlunargeymi.

 

Af þessu má sjá að Íslendingar nota heil ósköp af vatni og því full ástæða til að fara skynsamlega með vatnið. Eftir að hafa fengið þessar upplýsingar var börnunum 18 skipt í tvo jafna hópa eftir kynjum, með Birnu fóru 9 strákar og 9 stelpur fyldu Sigrúnu. Svo var fuglatalning um leið og haldið var í átt að skólanum og lautinni. Engir fuglar sáust fyrir utan hóp snjótittlinga sem flaug yfir okkur á hlaðinu á Stórutjörnum og eftir að komið var í lautina flaug einn einmana hrafn í lágflugi yfir okkur.

 

Þar sem mikið hafði gengið á í veðrinu fyrir helgina voru stórir og þykkir skaflar víða. Síðasta verkefni dagsins var að reyna að mæla snjódýpt. Höfðum við meterslanga stiku til verksins en ljóst var er komið var að hliðinu við útiskólalautina að þar þurfti ekki að mæla, sjón var sögu ríkari, hliðið rétt stóð upp úr. Mælingar voru svo:

Við eldstæðið ………………………………………………..50 cm djúpur

skaflinn norðan við Álfaborg ………………………1,5 m á hæð

Við ljósastaur næst skóla ……………………………105 cm djúpur

Þar með lauk viðburðaríkum og skemmtilegum útiskóla sem jafnfram var orkufrekur því sumir urðu mjög þreyttir af því að kafa snjóinn.

 

Img 1343 (17 - 51)

 

 

Dagur 25

18. mars virtist ætla að verða okkur hliðhollur veðurfarslega, þannig spáði alla vega í gær en svo var dagurinn þungskýjaður og er leið á útiveruna herti vind, snjókomu og kulda. Veðurkortin voru fyllt út í takt við þetta.

Verkefni dagsins var að fræðast um jafndægri á vori sem verður fimmtudaginn, 20. mars og einnig að segja frá alþjóðlega hamingjudeginum sem einnig verður á fimmtudaginn. Árhringurinn virðist nú alltaf frekar vefjast fyrir nemendunum litlu, en með skýrum og greinagóðum teikningum sem dregnar voru upp á töflunni og litu út eins og pizza sem skorin hafði verið í fjóra jafna hluta virtist margt skýrast í kollunum. Dagurinn stystur um jólin, lengstur um sumarið og dagur og nótt jafnlöng þarna sitt hvoru megin við. Ekkert svo flókið. Hugtökin birting og skygging flutu með í útskýringum.

Svo var það þetta með hamingjudaginn. Hvað er nú hamingja? Jú einhver góð tilfinning í hjartanu og þessi tilfinning er hvað mest á góðum stundum með fjölskyldum okkar og öllum þeim sem okkur þykir reglulega vænt um. Rannsóknir hafa leitt það í ljós að hamingjan er mikilvæg svo okkur líði vel, við verðum hraustari og áorkum meiru í lífinu ef við erum hamingjusöm. Þetta er nú ekkert lítið.

Að loknum þessum umræðum var haldið út í veturinn sem virðist ekki sýna á sér neinn bilbug. Fórum rakleitt í stóru sögulautina (Garðabolla) og hóparnir léku fyrir hvorn annan verkið sem þeir sýndu á árshátíðinni. Landnemar og víkingar hjá skólahóp, 1. og 2. bekk, og Það var einu sinni drengur hjá 3. og 4. bekk. Ekkert hafði gleymst nema síður væri. Líkamleg tilþrif færðust í vöx enda veitti ekki af því kuldinn beit. Því fengu börnin að hamast og leika sér í snjónum þar til skólinn var úti og þegar haldið var heim í hús var kominn austan strekkingur með renningi og fjúki.

 

Img 1340 (20-45)

 

 

Dagur 24

11. mars, sólskin, suð-vestan vindur og 5°c. Nú var Sigrún ein með hópinn og stefndi út í góða veðrið en það fór eins og stundum áður, margir nemendur komu gegn-blautir inn úr hádegisfrímínútum. Engin leið var að skipta hópnum svo útiskólinn fór fram innan dyra enn einn daginn. Fjallað var um komandi árshátíð, nemendur teiknuðu myndir af persónum eða atburðum í sínum verkum. Síðan var sungið lengi og vel og Sigrún lék á gítar. Hópurinn sem að þessu sinni taldi alla 18 nemendurnar lærði lagið um sólargeislann eftir Björn Þórarinsson:

Þú sólargeisli sem gægist inn,
og glaður skýst inn um gluggan minn.
Mig langar svo til að líkjast þér
og ljósi varpa á hvern sem er.

 

Að lokum var farið í látbrgaðsleik, þar sem laufblöðin svifu til jarðar að hausti og lögðust þungt undir snjóskaflana en er vorðai létti af þeim snjónum og þau fuku af stað heim. Á meðan laufblöðin hvíldu undir snjó hlustuðu þau á ævintýrið um Nýju fötin keisaranas. Mjög ljúfur og góður dagur þrátt fyrir langa inniveru.

 

Img1338

 

Dagur 23

4. mars, sprengidagur. Til stóð að fræðast úti um bolludag, sprengidag og öskudag og njóta þess að borða rjómabollur við eldstæðið en veðrið kom í veg fyrir þá áætlun. Úti var vonskuveður, blautt og kalt. Því varð úr að verja deginum innan dyra. Nemendur í 3. og 4. bekkur bökuðu vatnsdeigsbollur fyrr um morguninn og í byrjun útiskólatímans fóru þeir og settu rjóma, sultu og glassúr í bollurnar og buðu öllum í stofunni eina bollu hverjum. Smá viðauki við bolludaginn.

Ræddum og fræddumst um gömlu hefðirnar tengdar þessum dögum. Um síður var svo farið út til að fá súrefni og góða hreyfingu áður en hver og einn tíndist í skólabíla eða af stað heimleiðis, sumir æði blautir og þungir.

 

 

Dagur 22

25. febrúar. Aftur var Birna ein með hópinn því Sigrún fór á trúnaðarmannafund en nemendur í skólahóp voru í leikskólanum vegna afa og ömmu kaffidags þar. Tveir nemendur voru veikir.

 

Örlitlar umræður voru um árshátíðarverk og æfingar sem eru framundan. Veðurkort dagsins var fyllt út. Veður var gott í hádeginu, hiti um 2°c og kyrrt veður. Ákveðið var að fara út og leika í landnámsleik, þar sem lítið hefur verið gert af því á þessu ári.

Þegar út var komið reyndist veðrið hafa vesnað. Svolítill skafrenningur annað slagið. Allir þustu þó í leik og kvörtuðu lítið undan veðri eða kulda. Inni í Álfaborg var dálítið af snjó og ákváðu tveir nemendur að moka út snjónum og gáfu sér góðan tíma í að sópa og moka. Tóku allt lauslegt út úr húsinum til þess að geta athafnað sig betur. Aðrir reyndu að finna húsin sín sem voru mismikið undir snjó. Allt í einu voru allir komnir í kringum húsið og mikill búðarleikur hafinn.

Útiskóli endaði á umræðum inn í Álfaborg þar sem rætt var um hvernig við gætum búið til betri sæti í húsinu, sumir vildu líka fá rafmagn eða alla vega að einangra húsið.

Nú var mörgum orðið kalt og flúðum við inn í upphitaða kofann á leiksvæði skólans. Einhverjir fóru í yfir á meðan beðið var eftir skólabílum.

 

Img 1331

 

Dagur 21

18. febrúar var dagurinn fyrir 5. umhverfis- og lýðheilsuþing Stórutjarnaskóla. Það setti svip sinn á útiskólann því bæði annar kennarinn og einn nemandi voru allan tíman að undirbúa efni fyrir þingið.

 

Talsverð forföll voru vegna veikinda svo Birna var ein með útiskólann. Hún ræddi við nemendur um umhverfisþing morgundagsins og að því loknu horfðu þau á tvö myndbönd, Óskar hagamús og Þjóðveldisbæinn í Þjórsárdal. Báðr myndirnar voru áhugaverðar að mati barnanna en þau horfðu með óskiptri athygli. Að lokum teiknuðu þau fallegar og skemmtilegar myndir út frá efni myndbandanna.

 

 

 

 

Enginn útiskóli var 11. febrúar vegna æfinga fyrir þorrablót en einnig var mikil bleytuúrkoma og margir veikir.

 

Dagur 20.

28. jan. Veðurkort og umræður í stofu um árstímann og árstíðir. Einnig var aðeins rædd um skemmtiatriði hópa fyrir þorrablót 13. febrúar. Ákveðið að hvor stofa æfði sitt efni. Því næst var farið út í austlægan vind og hita um 1°c. Það var talsverð kæling en alli voru vel búnir. Eftir rigninu og hamagang í veðri var snjórinn þægileg harður, svo farið var í langa göngu um svæðið og rifjuð upp örnefni. Tekin var mynd af hverjum stað sem rætt var um. Fyrst var hoft til fjalla, á Kambinn sem nokkrir þekktu. Hádegishvilft var þar einnig og síðan var haldið eftir Langamel. Horft heim að Stórutjörnum og Tjarnarlandi en svo staldrað við Bæjartjörnina. Þar var tekinn smá hringdans um fallega furu en síðan haldið áfram fram hjá Seftjörn og upp á keilulagaðan mel þar sem sást vel yfir Tangann, Fiskilækinn og Fiskitjörnina. Sáum að seftjörnin var eins og tvíburatjörn, tvær tjarnir. Síðan var snúið til norðurs og haldið í átt að Garðabolla, sögulautinni okkar. Á leiðinni vakti athygli margra barna stórar breiður af hreindýramosa sem gaman var að kynnast betur. Þar endaði örnefnaleiðangurinn og börnin fengu að upplifa og njóta í Garðbolla. Þar voru ýmsar gerðir af snjósköflum en skemmtilega áberandi var garðurinn sem skar sig upp úr snjóbreiðunni aftir bollanum endilöngum.

Þar með lauk þessum ánægjulega og fræðandi degi. Í þessari gönguferð féll á okkur sífelld úrkoma í margbreytilegu formi, stundum snjókoma, drífa, hagl, slydda eða hríð.

 

Img1320

 

 

Dagur 19

 

21. janúar. Rigningardagur. Ákveðið að byrja inni í stofu og fylla út veðurkortið. Hiti var 4°c og lítill sem enginn vindur en rignin. Síðan var farið að horfa á 50 mín. langa mynd, Fyrsta ferðin, saga landafundanna. Fyrir marga var myndin mjög áhugaverð, hún sagði frá ferðum Eiríks rauða og Leyfs heppna til Grænlands og Vínlands. En allir sátu og horfu á myndina til enda. Myndin vakti upp ýmsar spurningar og við sáum ýmislegt sem tengdist verkefnum okkar í vetur.

Þar sem flest allir höfðu gegnblotnað í útifrímínútunum eftir hádegismatinn. Því varð úr að skipta í sömu hópa og síðast og halda áfram í árstíðaverkefninu.

 

Img 1318

 

 

Dagur 18

14. janúar. Þema dagsins var árstíðirnar. Eftir hefðbundna byrjun í stofunni þar sem börnin fylltu út veðurkortið var farið út í fuglatalningu. Nemendur skráðu talsverðan vind og -1 °c. Skipt var í tvo hópa, í öðrum voru Bændur og Blóm ásamt Birnu og í hinum voru Úlfar og Eldur ásamt Sigrúnu. Hóparnirn héldu hvor í sína áttinu og fljótlega flugu yfir sprell-fjörugir snjótittlingar í hópum. Á eftir kom í ljós að fuglarnirn höfðu leikið sér að því að fljúga á milli hópanna svo báðir hópar töldu sömu fuglana, stundum 5, stundum 10 og allt upp í 30 fugla í einu. Aðrir fuglar sáust ekki en örugg ummerki um veru rjúpunnar fundust í kjörrunum austan skólans en engin rjúpa sást. Um kl 14:30 var aftur farið inn, enda mikil kæling úti í vindinum og nokkrum nemendum orðið kalt. Hóparnir fóru á sinn hvorn staðinn inni, og fóru að teikna og túlka árstíðirnar.

 

Img 1315

 

 

 

Dagur 17

7. janúar 2014. Gott að koma saman aftur í útiskóla á nýju ári en þó var ekkert farið út, enda grenjandi rigning. Komið var að árlegu þrettándaballi í salnum. Byrjað var á að fylla út veðurkort og síðan að huga að búningum. Allt tók sinn tíma en svo tók tjáningin við með snúningum og sveiflum.

 

Img 1314

 

Dagur 16

17. desember, jólaútiskóli. Í byrjun fóru yngri nemendur í að búa til kakó fyrir útiskólann en eldri nemendur fengu að horfa á loka kafla á mynd frá um morguninn. Síðan var haldið út í ágætis veðri, frostakafli gærdagsins liðinn hjá, orðið frostlaust og háskýjað. Aftur var kertalugtin tekin fram og haldið í Álfaborg með kakó og piparkökur og stutta jólasögu. Síðan fengu börnin að leika frjálst þar til síðustu formlegu kennslustund ársin var lokið. Á morgun eru litlu-jólin.

 

Img 1311 (06 - 27)

 

 

 

 

Dagur 15

10. desember. Enn helst gott veður þótt aldrei náist fullkomin birta og skráð í veðurkort samkvæmt því. Enn og aftur var haldið í lautina og nú með kertalugt og sögublað. Setið var í melónu á meðan Sigrún fræddi börnin um uppruna jólanna, um jólin f. Kr og eftir, hve menn fögnuðu vel hækkandi sól eins og sumir gera enn. Jólin eru ekki haldin á sama tíma í öllum löndum en allir halda jól og fagna, annað hvort fæðingu frelsarans eða hækandi sól. Eftir þessa samfélagsfræðistund var frjáls leikur þar til skóla lauk.

Img 1308 (052-079)

 

Dagur 14

3. desember. Mikill athafnadagur. Enn var tekið fram nýtt veðurkort, það síðasta á árinu. Veður var gott svo heldur var reynt að hraða för í lautina. Er þangað kom var sest í melónu og farið yfir verkefni dagsins. Eitt var að skreyta tréð, annað að mæla upp tré nemenda frá síðasta ári og loks átti að setja upp ljósaseríu við útiskólahliðið.

Nemendu var skipt eftir fjölskylduhópum og kerfisbundið farið í verkin. Alltaf fengu tveir hópar að leika landnámsleik á meðan aðrir tveir fóru í verkefni með sitt hvorum kennaranum. Einn nemandi var fjarverandi og aðeins eitt tré fannst ekki, önnur voru mæld og skráð. Einnig gekk vel að skreyta tréð, sumir nemendur komu með skreytingarefni að heiman, fingraprjón og gamla, staka vetlinga.

Loks þegar aðeins var eftir um korters tími fóru allir saman og settu ljósaseríu í runna og hlið. Beita þurfti útsjónarsemi og áhættuatriði til að koma seríunni fyrir. Miklu áorkað þennan daginn og allir ánægðir með vel unnin verk.

 

Img1308 (031-051)

 

Dagur 13

26. nóvember. Ör-útiskóli, nemendur voru á dansæfingum til skiptis fyrri tvo tímana og þar sem úti var nístandi næðingur var farið í kynningu á nýjum barnabókum sem keyptar höfðu verið á bókasafnið.

 

Dagur 12

19. nóvember. Inni: veðurkort, umfjöllun um vináttu, við viljum ekki eiga vini sem eru stjórnsamir, sem beyta ofbeldi, sem ekki er hægt að treysta eða eru alltaf í fýlu eða neikvæðir. Við viljum að vinir séu góðir, jákvæðir, hjálpsamir, skemmtilegir og traustir.

Áframhald á snjórannsókn, klakar sem geymdir hafa verið í tvær vikur í frysti skólans, voru viktaðir og niðurstöður skráðar. Nú verður klakinn látinn þyðna í stofunni og vatnið viktað aftur í næstu viku.

3. og 4. bekkur fluttu atriðið sitt frá menningarstundinni fyrir eldri borgara í matsal.

Úti: við mældum hvað við þyrftum að fá langa framlengingarsnúru til þess að geta sett útiljósaseríu í trjágöngin í átt að útiskólalautinni. Hver hóður fékk mælitæki. Bændur fengu tvö meterslöng prik. Úlfahópur fékk band, Blómahópur fékk tvo tommustokka og Eldur fékk tvö málbönd annað 5m en hitt 3m.

Niðurstöður voru að við þyrftum um 60 m langa framlengingarsnúru.

Bandið sem Úlfahópur fékk var of lélegt, þannig að það slitnaði ítrekað. Það þoldi ekki vindinn.

Blómahópur mældi tvisvar, í fyrra skiptið mældu þau 5m og 700 cm. Í senna skiptið mældu þau 58,4 m.

Samstarfið í bændahópi gekk ekki vel og kláruðu þau ekki að mæla alla leið.

Eldur mældi með bara öðru málbandinu. Merktu með fingri far í snjóinn við enda 5m málbandsins og mældu svo næstu 5m. Samstarfið gekk vel og mældu þau 60m.

 

 

Skólahald féll niður 12. nóvember vegna óveðurs.

 

Dagur 11

5. nóvember. Nemendur fengu nýtt eyðublað fyrir veðurathuganirnar þar sem kominn er nóvember. Síðan var æfing fyrir dag íslenskrar tungu. Úti var garðfuglakönnun, 1. hópur. Sigrún fór með einn fjölskylduhópinn að leita að fuglum. Ákveðið var að leita til Stínu í Tjarnarborg því hún gefur fuglunum reglulega. Engu að síður sáust engir fuglar þá stund sem hópurinn beið við girðinguna hjá henni.

Á meðan stundaði Birna snjórannóknir, nemendur mokuðu snjó í poka og viktuðu inni í Álfaborg. Birna skráði þunga og fór svo með pokana í hús og leyfði snjónum að þyðna. Að lokum var tekin stund í að íhuga hvað við gætum gert fyrir tréð okkar í lautinni. Ákveðið að safna vetlingum og fleiru og skreyta tréð. Daginn eftir var svo farið í að vikta snjópokana aftur heima í stofu og þá voru þeir með vatni. Niðurstöður bornar saman. Nemendum fannst þetta mjög áhugavert.

Img 1294 (029 – 039 og 0123-0125)

 

Dagur 10

29. október. Hefðbundið upphaf, veðurkort og umræður. Síðan var að miklu leiti haldið áfram þar sem frá var horfið í síðustu viku í lautinni. Nú voru nemendur að hreinsa börk af samskeytasvæði sætistrjábolanna. Einnig var gengið frá nafnagift þeirra sem áttu eftir að velja sér landnemanöfn.

Nöfn hópa og leikenda eru: Eldur: Anton Karl (Ingólfur Arnarson), Þórunn (Auður djúpúðga), Grete (Guðrún Ósvífusdóttir) og Daníel Orri (?).

Úlfar: Haraldur Andri (Bolli Egilsson), Hafþór (Egill Skallagrímsson), Arndís Björk (Hólmasól), Tinna Dögg (Þorgerður) og Gunnar (Gunnar á Hlíðarenda).

Blómahópur: Marge (Þórunn hyrna), Rannveig (Helgi magri) Björn Rúnar (Naddoddur) og Rakel Sunna (Hallgerður langbrók).

Bændahópur: Róbert Már (Kári Sölmundarson) Guðrún Karen (Guðrún Ósvífusdóttir), Tómas Karl (Naddoddur), Katrín Ösp (Hallveig Fróðadóttir) og Kristján Örn (Bárður).

 

Img1292 (2237 - 2263)

 

Dagur 9

22. október. Nú var kominn létt snjóföl en ágætis veður þrátt fyrir lágskýjað og þungbúið. Segja má að megin verkefni dagsins hafi snúið að undirbúningi vetrarkomu. Lagað var til í Álfaborg, spýtum staflað upp og skilið snyrtilega við. Þá var fjárréttin tekin fyrir, staurar réttir af og snæri strekkt. Aðallega var þó unnið við að moka síðustu holurnar fyrir undirstöður að bekkjum í kring um eldstóna. Það tókst að ljúka því verki áður en útiskólatíminn rann út.

 

Img 1289

 

 

Dagur 8

15. október. Enn njótum við þess að hafa gott haustveður og auða jörð. Verkefni dagsins voru að fylla út veðurkort og að halda áfram þar sem frá var horfið í síðasta útiskóla með verkefnið við eldstóna. Einnig þurfti að sá fyrstu fræjunum í fræsendingunni frá Wales og það eru fræ snæþyrnis.

Fimm nemendur buðu sig fram í sáningarverkið og komu fræjunum haganlega fyrir í bakka með blöndu af mold og vikri. Síðan verður bakkinn varðveittur á köldum og dimmum stað í vetur.
Aðrir nemendur fóru í lautina þar sem Birna skipti þeim í hópa sem unnu til skiptis við að moka holur fyrir undirstöður bekkja við eldstóna eða léku frjálst. Það var vanda verk að grafa, holurnar þurftu að vera rétt staðsettar, hæfilega djúpar og nógu víðar fyrir trjábolina. Með mælingum og útsjónarsemi gekk verkið vel en ekki tókst þó að ljúka því þennan daginn, ennda margar holur. Bekkirnir eru 6 og hver með tvær undirstöður. Því mun þurfa að moka 12 holur.

 

Img1287

 

 

 

Dagur 7

 

8. október. Verkefni dagsins: Tiltekt í Álfaborg og huga að efni í bílskúr. Flytja efni í bekki frá bílaplani og í laut. Undirbúa og vinna að uppsetningu bekkja við eldstóna. Etv. smíða frjálst eða smíða skammel til að sitja á í Álfaborg.

 

Oft fer margt öðru vísi en áætlað er og svo var það þennan daginn. Reyndar fór allt fram samkvæmt áætlun til að byrja með, börnin fylltu út veðurkort áður en haldið var í útiverkefni. Veður var kalt en stillt, sólarlaust og lágskýjað. Birna stjórnaði eldri nemendum, þau sóttu sér hjólbörur til að flytja tilsniðna trédrumba sem komið var með úr Vaglaskógi í gær og biðu á bílaplaninu. Farið með með drumbana í nokkrum ferðum niður í laut. Síðan þurfti að fjarlægja steinana sem notaðir höfðu verið í melónu við eldstóna. Það var strembið verk, steinarnir frosnir niður þrátt fyrir auða jörð og margir þeirra nokkuð stórir. En með kröftum og nokkrum skóflutökum tókst að losa steinana og færa til. Beita þurfti ýmsum hand- og fóttökum en allt hafðist. Þá tók við uppröðun, útreikningar og mælingar. En á sama tíma sáu nemendur að margt skemmtilegt mundi vera hægt að gera með þessa trjáboli og upp hófst mjög skemmtilegur, sjálfsprottinn leikur sem gekk út á hljóðfæraleik, trumbuslátt og söngl. Leikurinn þróaðist í ýmsar áttir með mjög ánægjulegum hætti þar sem allir gátu notið sína hvar sem þeir voru staddir í aldri og þroska. Til að auka á stemminguna tók að snjóa, dúnlétt og mjúk snjókornin helltust yfir okkur og gerðu tilveruna ævintýrakennda.

 

Í þessum aðstæðum var ekki um annað að ræða en að leyfa sjálfsprottinni atburðarás að hafa sinn gang. Í henni fólst líka flest það sem við viljum að börnin okkar fái að njóta í útiskóla, þ.e. opinn efniviður sem hægt er að skapa frjálst úr, hugmyndarík og skapandi börn, mögnuð náttúra og blandaður aldur barna sem stuðlar að fjölbreyttari leik þar sem allir geta tekið mið af öðrum og lært.

 

Img1283

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dagur 6

1. október. Það kom okkur ákaflega ánægjulega á óvart hve veðrið var okkur hliðhollt í dag. Í gær rigndi og á morgun er spáð rigningu en í dag var logn, 10°c og skýjað. Áður en farið var út var að venju fyllt í veðurkort og aðeins farið í saumana á einstöku máli. Er út var komið var byrjað á að skipta í tvo hópa og þeir sendir til hægri og vinstri til að safna hlutum úr náttúrunni sem nota átti í myndverk. Einnig átti að kveikja upp í eldstónni en því miður var viðurinn of blautur svo ekki tókst að kveikja upp. Þá fór Birna með nemendur í 1. bekk heim í skólaeldhús og þar bökuðu þau lummur úr degi sem 1. og 2. bekkur bjuggu til í heimilisfræði í morgun. Á meðan iðaði lautin af lífi, sumir límdu og sköpuðu á meðan aðrir stunduðu búskap á sínum heimilum. Í lokinn var gott að fá nýsteiktar lummur til að gæða sér á áður en haldið var heim eftir góðan dag. Ekki var heldur amalegt að fá ber sem tínd voru fyrr í haust í útiskóla sem bragðauka í lummunum.

 

Img1278

 

Dagur 5

23. sept. Hrepptum alveg prýðilegt veður, sól og hægan vind. Jörð alauð, nokkuð þurr og skartaði sínu allra fegursta. Í mónum má greina alla liti jarðlitarófsins. Verkefni dagsins: Mæla tré og mynda, Þeir sem ekki eiga tré. Rakel Sunna, Tinna Dögg, Daníel Orri og Gunnar völdu sér sitt tré. Það reyndist þeim auðvelt, síðan bundum við mynd af viðkomandi barni við tréð og mældum hæð trésins og barnsins. Þetta voru ýmist birkitré eða lerkitré og við ræddum um það. Landnámsleikur. Fjölskylduhóparnir völdu sér nöfn á heimilin, Birna lauk við að marka landamæri með snæri og tréstaurum. Þá eru smá saman að festast nöfn á einstaklinga.

Nöfnin eru: Eldur ;Anton (Ingólfur), Þórunn (Auður Djúpúðga) Grete (Guðrún Ósvífusdóttir) og Daníel Orri.

Úlfarnir: Haraldur Andri, Hafþór, Arndís, Tinna Dögg og Gunnar.

Blómahópur: Marge (Þórunn hyrna), Rannveig (Helgi magri) Björn Rúnar (Naddoddur) og Rakel.

Bændahópur: Róbert (Eldur) Guðrún Karen, Tómas Karl (Naddoddur), Katrín Ösp og Kristján Örn.

Er líða tók á tíma útiskólans fengu allir kakó til hressingar, en það höfðu nemendur í 3. og 4. bekk útbúið í heimilisfræði um morguninn.

 

Img 1273

 

Dagur 4

17. sept. Verkefni dagsins: Gesta kennari, Sólrún María, kemur og segir frá mönnum og dýrum í Afríku. Nemendur skoða myndir úr skjávarpa og taka þátt í afrískum dansi m.m.
Þetta gekk eftir, Sólrún María mætti mátulega efir að búið var að afgreiða inniverkefnin og hún hafði meðferðis myndir af dýralífi í Malawí, bæði húsdýrum og villtum dýrum og fólki sem hún þekkti. Við ræddum ólíkt útlit okkar og Afríkubúa en hve hjartað væri samt líkt. Á eftir var farið í salinn þar sem Sólrún María kenndi hringleik frá Gana, við örlítið mismikla ánægju. Að því loknu var gesturinn kvaddur og haldið út. Í útiskólanum sýndi náttúrann sitt veðratilbrigði, því enn voru eftirköst óveðurs helgarinnar, smá éljagangur og burðarverk eldstæðisins hafði fokið um koll og lá flatt.
Systurnar Rannveig og Þórunn komu með hreyndýrahorn í poka, en þau höfðu þær fundið í gönguferð um austurland í sumar. Hornin þóttu tilkomumikil og stórfengleg, enginn hafði fyrr handleikið svona horn. Skemmtileg upplifun og enn eitt sjónarhornið á náttúru Íslands.

Í tengslum við Dag íslenskrar náttúru í gær, þann 16. var í morgun fjallað á sal um hlutverk og störf umhverfisnefndar til að brýna áhuga og upplýsa áður en farið yrði að kjósa í nefndir.

 

Dagur 3

10. september. Verkefni dagsins: Landkönnun, finna landnámsbæi og afmarka með hælum og bandi. Ljúka við að mála Álfaborg.

Þar sem ekki var búið að leggja drög að málningarvinnu hvað varðaði klæðaburð nemenda ákváðu kennarar að 1. og 2. bekkur færu í frjálsan leik, finndu sér jarðir en 3. og 4. bekkur legðu á sig erfiðið með pennslana. En fyrst þurfti að gera viðeigandi ráðstafanir með hlífðarbúnað. Birna var með landnámsfólkinu við að merkja fyrir en Sigrún var með málningarliðinu. Allt tekur tíma og þrátt fyrir snör handtök og skelegga frammistöðu náðist ekki að ljúka verkinu að þessu sinni, þó var áður búið að mála hluta hússins í almennum útiskóla en þá strandaði á málningarskorti.

 

Img 1271

 

Dagur 2

3. september: Verkefni dagsins: Berjamór og sveppatínsla, spáð frosti seinna í vikunni.

Mjög gott veður, fallegur haustdagur. Byrjað inni á hefðubundnum þáttum, veðurkorti og klósetferðum. Úti var skipt upp í tvo hópa , berjahóp eða sveppahóp eftir óskum nemenda inni í stofu. Örfáir höfðu skipt um skoðun er út var komið en féllust þó á að standa við fyrri ákvarðandir. Börnin nutu sín virkilega vel í báðum hópum, uppskáru talsvert magn af sveppum og berjum áður en útiskólanum lauk. Mjög ánægjulegur útiskóli.

 

Img 1269

 

Dagur 1.

27. ágúst: Verkefni dagsins: Vettvangsrannsókn, umhverfi skoðað, umfjöllun um verkefni, skipulag dagsins og vetrarins.
Byrjað var á veðurkortinu og þar sem nokkrir nýjir nemendur eru nú í hópnum tók smá tíma að fara yfir hvernig ætti að teikna veðurmyndina. Því næst var skipt í landnámshópa í útiskólanum. Eftir að út var komið var haldið í lautina og sest í melónu. Farið yfir eitt og annað sem tengdist útiskólanum áður en haldið var í vettvangsrannsókn. Fórum að sólúrinu og skoðuðum það, veltum fyrir okkur sólarklukkunni. Þaðaðn var haldið í sögulautina, börnin fengu smá sögur og léku sér í brekkunum þar til tíminn var úti.

 

Img 1268