Dagbók útiskóla 2014-2015

Hópur 2

 

Dagur 31 – 7. maí. Síðasti dagur útiskólans á þessu vori. Kennari: Sigrún

 

Þar sem komið var að síðasta útiskólanum að sinni og al-síðasta degi barnanna í 5. bekk í hefðbundnum útiskóla var brugið út af venjum með eitt og annað. Í innitíma fyrir hádegi fóru síðustu veðurfræðingar vetrarins á stjá og skráðu svo 3°c, kalda, norðanátt og alskýjað. Alveg með köldustu dögum á köldu vori. Í innitímanum lagði kennarinn fram vinnubækur vetrarins svo börnin gætu tekið þær með sér heim og í leiðinni fengu þau náttúrufræðiprófin sín til baka. Farið var í gegnum spurningar og svör í tengslum við verkefni vetrarins.

 

Eftir hádegi dúðuðu sig allir og héldu út, þar af einn í hjólastól. Hugmyndir um grillun í lautinni eins og venja hefur verið voru ekki á borðinu því eldstæðið var enn á kafi í snjó. Því var samið við matráðinn sem útbjó heitt kakó og setti á hitakönnur. Einnig fengum við kex til að maula með.

Ekki var farið langt heldur leitað að skjólsælum stað sem hjólastólanemandinn kæmist líka á með sínar hækjur. Lítið skjól var að finna en nemendur léku sér um stund í snjóbrekku og voru svo fegnir að fá heitann kakósopann.

 

Kennarinn var með nokkurskonar útiskólakönnun og lagði nokkrar spurningar fyrir hvern og einn nemanda. Spurningarnar snerust um viðhorf og skoðanir á útiskólanum, verkefnaval og hvort einhvers væri saknað í þeim efnum. Niðurstöður voru gagnlegar fyrir kennarann og mun hann geta tekið mið af svörum við undirbúning útiskólans næsta haust.

 

Img1470

 

Hópur 2

 

Dagur 30 – 30. apríl Kennari: Sigrún

 

Þema: Vatnið. Hiti 3°c, logn, örlítil snjókoma annars lágskýjað og mikil snjóbirta. Unnið í vinnubók um vatnið, hvernig verða lækir til, tjarnir og vötn. Af hverju vilja sumir fuglar vera við vötn og tjarnir, flóa og mýrar.

 

Í útiskóla talaði kennarinn um það við nemendur hve mikilvægt það væri að virða sett tímamörk, að láta ekki aðra þurfa að bíða eftir sér, reyna að vera fljótir að fá sér á diska í matsalnum og s.frv. Því næst var haldið af stað í átt að tjörnunum en hvítu snjóbrekkurnar drógu til sín nemendur sem máttu til að velta sér aðeins upp úr nýföllnum snjónum. Á leið okkar rákumst við á svo falleg vorblóm sem létu kuldann ekkert á sig fá. Þegar komið var að tjörnunum sáum við nokkrar fuglategundir, svani, lóur, endur, gæsir og þresti. Það gladdi okkur mjög að sjá að enn voru þessir fuglar á lífi þrátt fyrir kulda og snjó. Greinileg spor voru eftir álftir þar sem þær höfðu verið að rölta á milli tjarna. Fylgdumst um stund með svani sem ráfaði um einn á ísnum á Bæjartjörninni. Skyndilega kom á hann styggð og hann hóf sig til flugs og flaug beint í áttina til okkar þar sem við stóðum norðanvert við tjörnina. Skýringuna sáum við svo þegar álftapar kom fljúgandi þar sem hinn hafði verið og settist á vatnið. Ekki leið á löngu þar til annað álftapar kom fljúgandi og þá sýndi parið á tjörninni hverjir það væru sem þar réðu ríkjum því það baðaði út vængjunum, reisti sig og reigði með háværu og ógnandi gargi. Flugparinu leist enda greinilega ekkert á aðstæður og lét sig hverfa til vesturs yfir skólann. Það var virkilega gaman og fróðlegt að fylgjast með þessum samskiptum svananna.

 

Eins og fram kom í verkefnum f.h. eru fuglarnir greinilega að halda sig nærri vatninu og leita þar að einhverju æti. Vatnið er því augljóslega dýrmætt og öllum mikilvægt. Nokkrir nemendur komu auga á eitthvað í vatninu sem þeim fannst líkjast fuglsbeinum og það fannst þeim mjög athyglisvert. Við gengum að fráfalli Bæjartjarnarinnar en vatnsmagnið virðist nokkuð svipað og síðast þegar við skoðuðum rennslið við brúarplankann yfir fiskilækinn.

Greinilegt er á nátturunni að þrátt fyrir allt er vorið komið þótt það líkist vetrinum að ýmsu leyti.

 

Img 1463

 

 

Hópur 2

 

Dagur 29 – 16. apríl. Kennari Sigrún

 

Dásamlegur vordagur, 14°c, andvari og heiðskírt. Í innitímanum eftir afgreiðslu veðurfræðingsins útbjuggu nemendur litlar skissubækur úr afgangs pappa sem hentaði vel.

 

Eftir hádegi skipti kennarinn nemendum í 4 hópa, afhenti þeim bækurnar sínar og gaf eftirfarandi fyrirmæli.

A) Elsti nemandinn í hverjum hóp er foringinn sem á að hugsa vel um sjálfan sig og félaga sína. Félagarnir eiga líka að hugsa vel um foringjann og sjálfa sig.

B) Verkefnið er fuglatalning. Hver hópur fer sína leið og skráir í skissubækurnar alla fugla sem hann sér.

C) Þetta er keppni, hver sér flesta fugla?

 

Skemmst er frá því að segja að þetta verkefni heppnaðist mjög vel í alla staði. Foringjar sýndu fullkomna ábyrgð, enginn fór út af sporinu og góð samstaða var í öllum hópum. Þegar 15 mín voru eftir af tímanum komu allir saman á upphafs reit og kennarinn fór yfir árangur hvers hóps. Allir foringjar lýstu yfir ánægju sinni og félagarnir líka. Veðrið lék við alla og börnunum fannst gaman að geta farið svona sjálfstætt um víðan völl (þó innan ákveðins ramma). Ekki sáust margar fuglategundir en fjöldinn hjá öllum hópum var á milli 20 og 30 fuglar.

Alls sáust 100 fuglar, 48 skógarþrestir, 26 gæsir og 22 svanir, 3 endur og 1 sólskríkja. Þá voru áhöld um það hvort spóinn hafi verið á vappi en það var talið afar ósennilegt. En það voru þó fuglar með mjög langt nef svo þetta verður rannskað síðar.

 

Img 1459

 

Dagur 28 – 9. apríl. Kennari Sigrún

 

Fyrsti útiskólinn eftir gott páskafrí. Veður var prýðilegt, norð- austan gola, hiti 4°c og léttskýjað. Einn nemandi var heima en hann fótbrotnaði um páskana og í innitímanum f.h. útbjuggu nemendur kort sem þeir hver og einn stíluðu á þann sem heima sat. Kortin voru myndskreytt og einnig voru skrifaðar kveðjur og í nokkrum tilfellum mjög falleg orð að auki.

 

Það setti strik í starf útiskólans eftir hádegi að í skólanum fór fram fjölmennt skólaskákmót. Aðeins tveir nemendur í hópnum tóku ekki þátt. Í staðinn fengu þeir það verkefni að fylgja kennara sínum á bókasafnið og vera honum innan handar við skráningar og frágang á nýkeyptum bókum. Þeir komust báðir að þeirri niðurstöðu að margt væri vitlausrar en að vinna á bókasafni.

 

Img 1455

 

Dagur 27 – 26. mars. Kennari Sigrún

 

Fyrir hádegi var hefðbundinn inni tími, veðurfræðingur dagsins skráði ágætis veður, suð-austan golu og léttskýjað. Nemendum var skipt í hópa og fyrirmælin voru að teikna vormynd. Þetta var verkefni í samstarfi og lýðræðislegum vinnubrögðum. Fjórir nemendur höfnuðu þessu verkefni, voru ekki reyðubúnir til að vinna með hverjum sem var. Þá voru þeir látnir sitja og fylgjast með því hvernig hinir færu að í hópunum. Fjöldinn átti ekki í vandræðum, það voru 4 og 4 saman. Annar hópurinn var mun fljótari að koma sér að verki, í hinum hópnum byrjaði samstarfið á smá skoðanaágreiningi sem börnin sjálf leystu úr. Því miður entist ekki tíminn til að ljúka við teikningarnar.

 

Eftir hádegi var byrjað á því að taka samanbrotna pappakassa frá eldhúsinu og færa þá í endurvinnslugáminn. Tveir nemendur fundu flatar svell flísar sem líktust hljóðfærum í laginu og fluttu þeir umsvifalaust frumsamið lag. Því næst var haldið rakleitt í lautina og þema var eins og síðast, birta og skuggar. Á leið okkar þangað upphófst í sólinni skuggaleikur hjá tveim nemendum, annar reyndi að stíga á skugga hins, skemmtilega sjálfsprottinnn leikur á körfuboltavellinum.

Þar sem þetta var síðasti útiskólinn fyrir páskafrí hafði kennarinn komið fyrir litlum páskaeggjum í skuggum trjánna og nemendur fengu þau fyrirmæli að leita í skuggum, enginn mátti finna nema eitt egg. Að því loknu áttu þau að koma til kennarans. Þetta tók nokkurn tíma en öll fundust eggin að lokum. Þá mátti borða þau og skylda var að lesa málsháttinn. Suma þurfti að útskýra og ræða, aðrir voru skiljanlegri. Að þessu loknu var aftur farið inn í stofu og tekið til við myndaverkefnið. Þá höfðu þeir flestir sem ekki voru tilbúnir fyrr um daginn endurskoðað hug sinn.

 

Img 1453

 

 

 

Hópur 2

 

Dagur 26 - 19. mars Kennari: Sigrún

 

Verkefni og þema: Birta og skuggar. Tíminn hófst á hefðbundnu verkefni, veðrufræðingur dagsins stillti upp korti sem sýndi 4°c, golu, hálfskýjað og suð-austan átt.

Á morgun verður sólmyrkvi, nánast almyrkvi og kennslustundin inni var nýtt í fræðslu um það fyrirbæri. Nemendur fengu upplýsingar og myndir á blöðum en einnig gerðum við sólmyrkva sjálf með jörð, tungli og sól. Allir fengu að framkvæma sólmyrkva í skólastofunni og fengu ágætan skilning á fyrirbærinu.

 

Eftir hádegi var haldið í lautina þar sem við settumst í melónu í blautum, nýföllnum snjó á gömlu hjarni. Verkefni útiskólans var að finna skugga. Engin sól var sjáanleg á himni og því fórum við í að hlaða snjóbyrgi til að freista þess að framkalla skugga. Þetta var hópverkefni sem stóð yfir allan tímann en hafðist. Mikið þurfti að hlaða í glufur og göt áður en við uðrum sátt en ekki myndaðist mikill skuggi þótt segja megi að inni í byrginu hafi að lokum verið örlítið skuggsýnt.

 

Img 1451

 

12. mars var enginn útiskóli vegna æfinga fyrir árshátíð skólans þann 13. mars.

 

 

 

Hópur 2

 

Dagur 25 - 5. mars Kennari: Sigrún

 

Talsvert blés úr suð-vestri í dag, veðurfræðingur skráði 3°c, hálfskýjað og stinningskalda. Unnið var í vinnubók um vatnið f.h., hvað eru ár, hvernig verða þær til og hvaða ár þekkja nemendur. Upp kom umræðan um það hvort á og fljót væri það sama, kennarinn sagði að það væri skilgreining á stærð en þó ekki, stundum væri meira vatnsmagn í á en fljóti. Svo virðist sem sumir nemendur taki mjög lítið eftir einkennum í náttúrunni sem ekið er um, kannast ekki við brýr í nágrenni skólans eða ár svo sem Kambsána eða Djúpána.

 

Eftir hádegi var haldið í lautina þrátt fyrir vindsperring. Þar spannst upp frjáls leikur í og við Álfaborgina en gott var að vera í skjóli við húsið.

Ekki var hægt að opna hurðina en börnin smeygðu sér inn um glugga. Þegar inn var komið beið þeirra talsverður snjór yfir öllu og með það sama hófs þar framleiðsla á ís og jafnfram var ísinn seldur út um lúgu. Þá reyndi á samskiptahæfni en eins og gjarnan vill verða hjá okkur mönnunum var einhver sem orðalaust tók að sér stjórnun og skipulagningu á verkinu. Þannig ákvarðaðist hlutverkaskipting, sumir framleiddu og seldu en aðrir þurftu að vera viðskiptavinir. Síðan fór að myndast kurr í hópnum. Ekki voru allir sáttir við sitt hlutverk og svo kom að því að eitt barnið reis upp á móti sjálfskipaða stjórnandanum og neitaði að gangast lengur undir hans vald. Þá kom í ljós að í stað þess að leita sátta og lausna yfirgaf stjórnandinn verksmiðjuna, hætti leik þá hæst stóð.

 

Í lok tímans fékk kennarinn alla til sín í skjól við húsið og ræddi þessi samskipti, við litlar undirtektir. En megin verkefni dagsins átti að vera að spá í himininn, skýjafar og annað sem þætti athyglisvert. Í vindinum rauk snjórinn við fjallatoppa svo engu var líkara en að þar ryki úr jörðu. Þar fyrir ofan sveimuðu þunnar skýjabreyður en í suðrinu þar sem vindur stóð af fjöllum var mjög grátt að sjá, mikill snjór sem fauk fram af brúnum.

 

Myndir hér.

 

 

 

Hópur 2

 

 

Dagur 24 - 26. febrúar Kennari: Sigrún

 

Þegar birtir til

 

Eins og svo oft hefur sannast þá birtir öll él upp um síður. Í dag skráði veðurfræðingur hálfskýjað og golu, sólin sendi létta geisla sína yfir fjallið til okkar og hiti var rétt undir frostmarki. Að því loknu var unnið í vinnubókinni um vatnið í síðasta tíma fyrir hádegismat.

 

Eftir leiðinda blástur og hríð undanfarið var kærkomin útivera hjá útiskóla. Sólin brosti við okkur og öll náttúran ljómaði hvít og falleg. Skaflarnir voru með margbreytilegum formum og víðast hélt snjórinn svo auðvelt var að ganga og láta sig gossa niður brekkurnar. Við vorum því létt í lund er lagt var af stað eftir hádegið. Verkefni dagsins var að ganga niður að tjörnunum og líta með eigin augum hvernig vatnið og náttúran hefðu brugðist við óveðri síðustu daga. Einnig var meiningin að skoða lækina sem við rannsökuðum í haust og því var haldið í náttúruskoðun og rannsóknargönguferð.

 

Tjarnirnar voru týndar, huldar snjó og ís en þar sem lækirnir runnu í og úr Bæjartjörninni voru vakir. Við veltum þessum náttúrufyrirbærum fyrir okkur og einn nemandi kom með þá skýringu að hreyfing vatnsins kæmi í veg fyrir að yfir frysi. Greinilegt var að nú var mun minna vatn í fráfallslæknum, sá lækur rann nú undir litlu brúna, hjalað létt og náði engan vegin upp í hana ólíkt því sem var í haust. Þá þurftum við að stika yfir brúna með vatnið bullandi á okkur því þá var hún undir vatninu. Við gátum dregið þá ályktun að líka væri þá líka minna vatn í læknum sem rennur í tjörnina. Litla vökin við fiskilækinn hafði háskalega mikið aðdráttarafl en sem betur fór fékk enginn bað í tjörninni að þessu sinni því kennarinn dreif börnin með sér í brekkurnar í Garðabolla. Þar var ævintýraland sem nemendur skemmtu sér í, renndu sér niður og reyndu ýmsar kúnstir. Í sumum tilvikum fékk maginn fyrir ferðina en engin slys urðu á fólki. Góður dagur, hefði mátt vera lengri þrátt fyrir góða nýtingu.

 

Myndir hér.

 

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

17. febrúar 2015

 

Í dag byrjuðum við útiskólann eins og venjulega inni og fylltum út veðurkortið okkar. Mjög gott veður er í dag svo nú voru allir sammála um að nota tímann úti. Við fórum beint í útiskólalautina og byrjað var á frjálsum leik. Hópurinn datt strax í fjörugan eltingaleik á hjarninu þar sem allir virtust njóta sín vel. Verkefni dagsins fólst í félagfærnileikjum. Samskipti voru skoðuð og rædd ef upp komu árekstrar. Sem voru mjög fáir einmitt núna. Við vorum með húllahringina aftur og nú notuðum við hendur, fætur, fingur og tær til að leika okkur með mismunandi samsetningar á fjölda í hverjum hring.

Einhverjir heimsóttu tréið sitt og bentu á að merkingar væru horfnar og tréin væru að brotna, við skoðum það betur þegar fer að vora, lögum merkingar, gætum þurft að klippa greinar og svo auðvita laga bústaðina. Skilti var losnað og hafði fokið en fannst, það er því verk að vinna í vor þegar snjóa leysir. Við enduðum útiskóla í dag á svellinum sem er í kringum sparkvegginn, ótrúlega gaman að leika sér á svelli.

 

Myndir

 

 

 

Dagur 23 – 19. febrúar Kennari: Sigrún

 

Þessi dagur var fyrirfram óviss vegna mjög slæmrar veðurspár sem gekk eftir upp úr hádegi þegar kom að útiveru. Veðurfræðingur dagsins skráði ágætisveður fyrir hádegi, örlítið frost, stinningsgolu, skýjuðu og norð-austan átt. Í innitímanum var unnið í verkefnavinnu um vatnið.

 

Eftir hádegi unnu nemendur við að leggja síðustu hönd á póstkortagerð. Bæði þurfti að myndskreyta og skrifa texta. Þar með höfðu allir nemendur skólans útbúið boðskort til íbúa á öllum bæjum á skólasvæðinu og boðið þeim á umhverfis- og lýðheilsuþing þann 25. febrúar í Stórutjarnaskóla. Búið var að semja við skólabílstjóra um að leyfa börnunum að setja kort í póstkassa við alla bæi og það var aðdáunarvert hve vel þeir tóku því verkefni.

 

Myndir hér.

 

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

10. febrúar 2015

 

Byrjuðum eins og venjulega í stofu eitt á því að fylla út í veðurkortið og ræða veðrið lítillega. Börnin voru nýkomin inn úr hádegisfrímínótum og létu heldur vel af veðrinu. Sögðu samt að það væri frekar kalt. Ákveðið að klæða sig vel og halda út. Verkefni dagsins var að vinna með félagfærni, vináttu og samstarf. Við tókum með okkur þrjá húllahringi og myndavél. Þar sem dálítil gola var og köld, fórum við niður í lautir og leituðum að sléttum flöt. Seftjörnin var enn ísilögð og því tilvalinn staður til að leika á. Verkefnið hófst á því að allir áttu að finna þrjá litla hluti í náttúrunni. Það gekk misvel, sumir voru fljótir og komu strax ti baka með t.d. lítinn stein, köngul og strá, eða þrjá litla steina, eða litla grein. Aðrir voru lengi og þurftu aðstoð til að ákveða sig hvað myndi henta. Nú var komið að því að hjálpast að við að leysa nokkrar þrautir sem reyndu á stærðfræði og samvinnu. Setja t.d. fjóra hluti í hvern húllahring og enginn mátti eiga meira en tvo í hverjum hring. Þá voru líka þrautir þar sem við notuðum hendur og fætur, t.d. tvær hendur og þrjá fætur í hvern hring og ýmsar fleiri álíka þrautir. Eftir að hafa unnið vel með þrautirnar í tölverðan tíma var kominn tími til að hreyfa sig og hlupum við og renndum okkur í dálítinn tíma. Nú var farið að hvessa og ákváðum við að ljúka tímanum inni. Okkur hitnaði við gönguna heim að skóla og settumst inn í kjallara og fórum í leiki s.s. “hver stal kökunni” og “í grænni lautu”.

Mynd

 

 

Hópur 2

 

Dagur 22 – 12. febrúar 2015 Kennari: Sigrún

 

Fyrir hádegi fór fram hefðbundin veðurskráning, veðurfræðingur dagsins skráði -3°c, andvara úr norð-austri og léttskýjað. Prýðs veður sem reyndist svo bíta aðeins í kinnar er út var komið eftir hádegi.

 

Í gær var fyrsti sólardagurinn í skólanum eftir langa skugga tíð, en sólin hefu rekki sést síðan í nóvember. Þennan daginn sendi hún daufa geisla yfir fjallið, en var búin með mesta púðrið þegar við komum út. Það dróst á langinn að hefja dagskrá í lautinni vegna óvæntra deilna sem upp komu í hópnum, þær hófust í matartíma og mögnuðust og breiddut út í útifrímínútum. Kennari reyndi mikið að fá nemendur til að horfa hlutlaust á atburðarásina, að greina hvað raunverullega skipti máli en nokkrir nemendur voru ekki á þeim buxunum. Eftir á að hyggja getur verið að dagskrá menningarstundar sem stóð til eftir útiskóla hafi valdið einhverri spennu. Lyktir urðu þær að kennarinn lét alla dagskrá lönd og leið, ákvað að best væri að græða sárin með frjálsum leik og leyfa hverjum og einum að ráða sér í snjónum. Það hafði líka nokkuð góð áhrif og í menningarstund á eftir voru allir tilbúnir. En talsvert brá okkur þegar við komum í lautina og sáum að það höfðu orðið skemmdir á glugga í Álfaborginni. Ekki ósennilegt að þarna hafi einhverjir gleymt sér við að reyna að komast upp á húsið með fyrr greindum afleiðingum.

 

Myndir hér.

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

3. febrúar 2015

Foreldradagur og því enginn útiskóli í dag.

 

 

Hópur 2

 

Dagur 21 - 5. febrúar 2015 Kennari: Sigrún

 

Enginn hefðbundinn útiskóli vegna árlegs þorrablóts nemenda, kennara og foreldra. Þar upplifðu nemendur þennan samfélagsleg atburð sem lifir svo góðu lífi en byggir á gamalli menningu. Mikilvægt fyrir þá að fá að bragða á og fræðast aðeins um þennann gamla mat sem sumum finnst góður en öðrum ekki eins og gerist og gengur. Það var borðað, sungið og hlustað á smá fróðleik um þorramatinn, hvernig hann var hreinsaður og geymdur hér áður fyrr og um þroskun bragðlauka. En aðal atriði þorrablótsins var þó skemmtidagskrá nemendanna sjálfra sem léku þar hvert hlutverkið af öðru, sjálfum sér og öðrum til skemmtunar.

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

27. janúar 2015

 

Nú erum við farin að huga að þorranum og höfum ákveðið að flytja tvö ljóð eftir Þórarinn Eldjárn. Eftir að hafa fyllt út útiskólaveðurkortið fórum við út með vísurnar með okkur. Nú var ferðinni heitið niður í útiskólalaut þar sem hópurinn safnaðist saman í “melónu” og lögðust allir á hjarnið. Hanna Berglind las vísurnar og allir hlustuðu. Við hlustuðum líka á hljóðin í náttúrunni. Heyrðum í vindinum, bílum og einhverjir heyrðu í fuglum. Annað verkefni útiskóla í dag var að vatnslita snjóinn. Við vorum með vatnsliti og vatn með okkur og nú upphófst mikil sköpun þar sem börnin máluðu myndir á hjarnið. Mörg mjög falleg verk urðu þarna til og verður spennandi að vita hvort eitthvað sést næst þegar við komum í lautina. Endað var á frjálsum leikur þar sem Álfaborg og snjórinn í kringum hana léku stórt hlutverk. Á þakinu á Álfaborg var rjúpuskítur sem vakti líka óskipta athygli.

Myndir

 

 

Hópur 2

 

Dagur 20 – 29. janúar 2015

 

Hálfgerður óveðursdagur en samt komu flestir nemendur í skólann í dag. Veðurfræðingur skráði allhvassann norðan vind, þó mun hvassara í hviðum, frost -2°c og greinilega var snjókoma þótt veðurstöðin segði hálf skýjað. Fyrir hádegi fór kennarinn yfir könnunina sem nemendur gerðu síðasta fimmtudag og allir stóðu sig mjög vel, höfðu greinilega meðtekið vel hvaða trjátegund þeir áttu í mónum, þekktu blóm nokkuð vel, vissu heilmikið um vatnið og fuglategundir og flestir þekktu til fjárrétta og í hvaða tilgangi þær væru gerðar. Kennarinn var mjög ánægður með sína nemendur.

Eftir hádegi hafði veður enn versnað og ákveðið að sleppa útiveru. Tónlistarkennarinn nýtti sér þær aðstæður og fékk hópinn á tónlistaræfingu vegna menningarstundar daginn eftir. Þessi hópur hafði útbúið trommur úr roði og tómum niðursuðudósum og voru búin að læra mjög skemmtilegt afrískt lag.

Að þessu loknu fórum við í stofu þar sem loksins gafst tækifæri til að horfa á seinni hluta myndarinnar Pocahontas ll. Náðum örstuttri umræðu um efni myndarinnar í lokin, um það að indjánar eru minnihlutahópur sem þurfti að berjast fyrir sínum rétti, að heiðarleiki og sanngirni eru mikilvægar dygðir og myndin kemur líka inn á viðhorf og virðingu gagnvart náttúrunni.

 

Myndir hér.

 

 

 

 

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

20. janúar 2015

 

Í dag er gott og fallegt veður en þó nokkuð kalt. Byrjað var á því að fylla út veðurkort í stofu eitt. Umræðuefni dagsins voru árstíðirnar, sólin, aðrir heimshlutar og misnunandi árstíðir eftir því hvernig sólin skín á jörðina. Hanna Berglind sagði frá Indverskum dreng sem hún er styrktarforeldri fyrir. Hann er í skóla á Indlandi af því að Hanna Berglind greiðir fyrir hann skólagjöld. Hjá honum kemur aldrei vetur eins og hjá okkur. Hanna Berglind sýndi okkur myndir af drengnum og sýndi okkur jafnframt hvar Indland er á korti. Við skoðuðum líka veðrið á Indlandi og komumst að því að veðrið er ekki alltaf bara sól og sumar, heldur koma rigningartímabil sem er þá eins t.d haust á Indlandi.

Þar sem frekar kalt var í veðri í dag þá var ákveðið að fara í góðan göngutúr, athuga hvað við mundum af þeim örnefnunum sem við skoðuðum í haust. Við gengum út á Langamel, fram hjá Melhúsum, sáum Kambinn og Stóradalsfjall, Nýphólinn, Bæjartjörnina, Ljósavatnið og Seftjörnina. Við ræddum hætturnar sem fylgja ísilögðum tjörnum. Seftjörnin ísilögð er mjög freistandi skautasvell og var ákveðið að prófa, ég (Birna) bauðst til að athuga hvort ísinn héldi. Læddist út á ísinn og sá að hann var alveg traustur og þá var ekki eftir neinu að bíða og allir þustu út á ísinn og renndu sér á stígvélunum, mikill leikur í góða stund. Við enduðum svo útiskóla í dag á því að fara í stóru-brekkuna austan við skólann og renndum nokkrar ferðir áður en farið var í skólabíla.

myndir

 

 

Hópur 2

 

Dagur 19 - 22. janúar 2015

 

Fyrir hádegi var könnun á námi þeirra í náttúrufræði og verkefnum útiskólans á haustönn.

Eftir hádegi var byrjað í stofu og kennarinn sýndi börnunum nýja veðurstöð sem var þar með tekin í notkun. Það mun auðvelda okkur að færa inn réttar upplýsingar sem væri um leið auðvelt að nálgast og að þessu sinni upplýsti stöðin okkur um að úti væri hálfskýjað, 4°c en vindátt og vindstyrk þurfum við að finna út sjálf. Veðurfræðingur dagsins skar upp úr með að úti væri sunnan gola. Veðurstöðin er nú staðsett í kennslustofu sem lítið er notuð en allir geta haft aðgang að.

Að þessu loknu var haldið út og enn var megin þemað vatnið, en nú flaut hvergi vatn, allt var bundið í snjó og aðeins í svelli líka. Tíminn var orðinn knappur svo hann nýttist að mestu í að sjá og upplifa. Við sáum glænýjan grænfána blakta á stönginni sinni, hliðið að lautinni stóð aðeins lítillega upp úr skafli og Álfaborgin að mestu á kafi í snjó. Hins vegar stóðu réttarstaurarnir eins og smá prik upp úr svellbunka. Börnun fóru fljótt að huga að sínum stöðum, og ekki var alveg einfalt að finna þá vegna snjóalaga. En veðrið var gott og frábært að geta andað að sér útiloftinu og hlaupið um, stokkið og veltst um.

Örlítið reyndi kennarinn að fá nemendur í melónu og ræða form vatnsins en líka af gefnu tilefni áréttaði hann hve jörðin væri viðkvæm og hvernig við þyrftum nauðsynlega að reyna að skilja ekki eftir okkur spor, t.d. með því að stíga á lítil tré eða slíta upp gróður.

 

Myndir hér.

 

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

13. janúar 2015

 

Útiskóla-veðurkort fyllt út í stofu eitt. Umræður um veður, veltum fyrir okkur hvar dýrin eru þegar vont veður er úti. Húsdýrin eru inni í hlýjunni og á mat og skjól en villtu dýrin eru úti. Sum þeirra geta grafið sig í snjó eða ofan í jörðina eins og refir og minnkar. Mikið spáð í það hvar fuglarnir séu í vondum veðrum. Hvar finna þeir skjól? Hvað hafa villtu dýrin á Íslandi til þess að verjast kuldanum og vonda veðrinu?

Veðrið var gott þó svolítið kalt. Fórum í útiskólalautina til þess að sjá hvernig lautin, Álfaborg og bústaðir hópanna liti út eftir jólin

Úti, farið í útiskólalautina og umhverfið skoðað þar sem ekki gafst tími til þess í síðustu viku vegna byggingaframkvæmda. Við höfum því ekki komið í lautina eftir jól. Eldstæðið, Álfaborg, bústaðir hópanna og tréin okkar voru meira og minna á kafi í snjó. Við skoðuðum hvort við sæum ummerki um dýr. Fundum slóð eftir rjúpu og rjúpuskít og einhverjir sáu dúfu !! (sem var reyndar rjúpa). Önnur dýr sáum við ekki. Tréin okkar eru sum illa farin vegna snjóþyngsla vonum að greinarnar nái að vísa aftur upp þegar snjóa leysir. Í lok útiskóla í dag var frjáls leikur, en vinsælt er að ná frosnum snjóflekum og nota annað hvort sem pizzur eða tölvur.

 

myndir

 

 

Dagur 18 - 15. Janúar

 

Í innitímanum f.h. var sett upp veðurkort sem sýndi skýjað og snjókomu, norð-vestan kalda (5) og -6°c. Síðan var upprifjun á verkefnum vetrarins í útiskóla. Kennarinn las dagbókarfærslur frá haustinu og það virtist svo óralangur tími liðinn síðan þá. Ýmislegt rifjaðist þó upp.

 

Ákveðiðð var að slíta skóla kl. 13 í dag vegna veðurs og versnandi færðar, og því varð útiskólinn ekki lengri þennan daginn.

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

6. janúar 2015

 

Umræður í stofu eitt um þrettándann. Af hverju kallast þessi dagur þrettándinn? Þrettándi dagur jóla, síðasti jóladagurinn, nú voru jólin búin. Ræddum líka álfa og huldufólk sem talið er að komi út úr hýbýlum sínum á þrettándanum. Enginn taldi sig hafa séð slíkar verur en allir höfðu heyrt talað um þær og þekktu jafnvel einhvern sem hafði séð álfa. Til eru margskonar álfar, s.s. blómálfar, venjulegir álfar, svartálfar, skógarálfar.

Útiverkefni dagsins er að gera snjóhús, kíkja á bústaðina okkar og tréin okkar og að lesa álfasögu.

Við byrjuðum á því að fá lánaðar skóflur, Birna átti eina, skólinn eina og Guðrún Þórhallsdóttir eina. Þá voru allir hópar komnir með eina skóflu. Við fundum skafla bak við smíðastofuna og bílskúrana og hver hópur gerði snjóhús. Markmiðið að allir hjálpuðust að, allir fengu að moka og hreina snjó út úr stækkandi húsunum og að allir kæmust inn í snjóhúsin.

Snjórinn var harður, því það hafði ringt í hann og hann frosið blautur. Það var því frekar erfitt að moka en allir prófuðu og gekk sumum vel en öðrum ekki eins vel. Kennarar hjálpuðu til og að endingu voru snjóhúsin orðin nógu stór til þess að allir kæmust fyrir. Mikill leikur varð inn á milli og í kringum húsin á meðan á snjóhúsagerðinni stóð en allir hjálpuðust samt að og áttu sinn hlut í verkinu.

Nú var lítill tími eftir og var ákveðið að fresta því að fara niður í laut og kíkja á bústaði og tré. En fundinn skjólgóður staður, sest í melónu (hring) og hlustað á álfasögu og atriði í henni rædd.

myndir

 

 

Dagur 17 - 8. Jan

 

Loksins eftir langt jólafrí og hlé á útiskóla var komið að þessum degi. Verkefni: Veðurkort, upprifjun og þrettándaball.

Veðurkortið sýndi skýjað, 1°c og all hvassan vind (7), af suð-vestri. Því mátti búast við einhverri mengun frá gosstöðvunum í dag. Næsta verkefni í innitíma var upprifjun á jólum og áramótum , hvað gerir jólin sérstök, af hverju eru jólin og rætt um vetrarsólstöður. Nú er aftur farið að birta og styttist í að sólin láti sjá sig. Ræddum líka þrettándann, hvað er það?

 

Eftir hádegi var þrettándaball. Börnin höfðu undirbúið sig og voru komin með búninga eftir áhuga og smekk hvers og eins. Þetta var í fyrsta sinn sem nemendur 5. bekkjar fengu enn tækifæri til að vera á þessu balli og virtust sumir ekki alvega vera tilbúnir í svona skrípaleik lengur en aðrir skemmtu sér vel. Nemendur í hóp 1 komu með á dansleikinn í öðrum tíma en voru sumir feimnir til að byrja með. Alltaf er samt gaman að dansa og sprella en það verður að viðurkennast að meira bar á vopnaburði og vígaferlum á þessu þrettándaballi en tíðkast hefur.

 

Myndir hér.

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

16. desember

 

Ákveðið að eyða litlum tíma inni við veðurkortagerð, því verkefni dagsins var að gera útilistaverk. Í nokkrar vikur höfum við safnað vatni með matarlit í mjólkurfernur, vatnsblöðrur og ísmolapoka og fryst í stóra skólafrystinum.

Byrjuðum á því að ná í klakana í frystinn og bera hann út. Þá var komið að því að losa hann úr umbúðunum og hanna og byggja listaverk. Allir voru mjög áhugasamir þrátt fyrir að ekki væri auðvelt að ná fernunum utan af klakanum sem var auk þess líka mjög kaldur. Þá var valið stæði fyrir listaverkið og varð steinabeðið við aðalinngang skólans fyrir valinu. Klakanum var svo raðað í ferning, nokkrar hæðir upp og kúlunum úr blöðrunum raðað ofaná. Snjór var notaður sem kítti á milli klakana til að festa þá saman. Vatni úðað með til að bleyta snjóinn, sem var heldur þurr þennan daginn.

Nemendur sýndu verkefninu mjög mis mikinn áhuga en kennararnir voru mjög áhugasamar. Að lokum var komið fyrir kerti inn í verkinu og teknar myndir. Þegar verkefninu var lokið voru nemendur afar stoltir af verkinu og hlökkuðu til að fylgjast með því hversu lengi það myndi standa. Vonandi alla vegna fram yfir jól. Ákveðið að kveikja á kerti inn í verkinu á Litlu-jólunum.

myndir

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

9. desember

 

Nú er ekki sama veðurblíðan og verið hefur í allt haust, hvasst og mjög kalt. Við byrjuðum á veðurkortinu og ræddum veðrið og verkefni dagsins. Ákveðið að vera inni aðeins lengur en venjulega. Fundum afganginn af sprekunum frá því í síðustu viku og föndruðum frjálst úr sperkum og könglum. Hugmyndaflugið virðist hafa verið í fríi, því allir hermdu eftir fyrstu hugmyndinni þ.e.a.s. að búa til kall úr köngli. Tveir bjuggu svo til stjörnu úr spreki og borðum.

Að föndurstund lokinni fórum við með þær mjólkurfernur sem við áttum og fylltum þær af vatni með matarlit og komum fyrir í frysti skólans. Þá fylltum við einnig nokkrar vatnsblöðrur með lituðu vatni og settum líka í frystinn. Það verður spennandi að búa til útilistaverk í næstu viku úr öllu þessu frysta litaða vatni. Vonandi verður bara veðrið til friðs.

Síðasta hálftímann lékum við frjálst í snjónum og kvartaði enginn undan kulda nema þá helst við kennararnir, þurfum að fá okkur hlýrri vettlinga eða hreyfa okkur meira. Nemendur fóru allir brosandi í skólabílana.

myndir

 

 

 

Dagur 16. – 11. desember.

 

Enginn útiskóliskóli í dag vegna óveðurs og ófærðar.

 

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

2. desember

 

Frekar kalt og blautt var í dag og var ákveðið að hefja útiskólann úti að þessu sinni. Sigrún leysti Hönnu Berglindi af í fyrsta tíma. Við hittumst öll við kjallaratröppurnar í upphafi tíma og var fyrsta verkefni dagsins að tína sprek fyrir jólaföndrið sem verður á morgun. Tínslan gekk vel og nóg var af spreki. Stoppa varð suma af þar sem dálítil keppni hófst um það að taka sem stæðst sprek. Tilgangurinn var ítrekaður þar sem sprekin áttu frekar að vera lítil og nett og hæfa verkefnum jólaföndursins.

Þá var haldið inn og tekið til við að fylla út veðurkort dagsins. Þegar því var lokið ræddum við jólaföndur verkefnin sem í boði voru fyrir yngri nemendur. Síðasta verkefni dagsins var að vinna úr ljósmyndaverkefninu frá því í síðustu viku. Nemendur merktu myndirnar sínar með nafni og viðfangsefni (formi) og settu svo upp sýningu á "græna" teppinu. Ljósmyndaverkefnið var spennandi og var skemmtilegt að sjá hvað nemendur voru duglegir að sjá formin í kringum sig í náttúrunni.

myndir

 

 

Hópur 2

Dagur 15 – 4. desember Kennari Sigrún

 

Verkefni dagsins breyttist alveg óvænt í upphafi tímans en þá var fulltrúi Rauða krossins á norðaustur svæði mættur og bauð nemendum upp á kynningu á skyndihjálp Rauða krossins. Þetta var mjög áhugavert og þarft, nemendur fylgdust mjög vel með fræðsluefni, höfðu reyndar sjálfir frá ýmsu að segja varðandi eigin óhöpp og annarra. Fengu upplýsingar um vef Rauða krossins um skyndihjálp http://skyndihjalp.is/ þar sem þeir geta m.a. hlustað á nýja skyndihjálparlagið. Í lok tímans fengu allir að prufa og æfa hjartahnoð á brúðum.

 

Eftir hádegi var ekkert farið út því þá bauðst nemendum að sitja í tíma með hóp 3 og sjá og heyra kynnngu þeirra á verkefnum sem þeir höfðu unnið í náttúrufræði hjá Agnesi. Flest fjölluðu verkefnin um fugla og voru flutt í máli og myndum. Bæði gaman og gott að fá að fylgjast með, mjög fróðlegt fyrir alla.

 

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

25. nóvember

 

Veðurblíðan leikur enn við okkur og njótum við þess að fara í útiskóla og vinna með náttúruna og samfélagið. Í dag byrjuðum við á því að fylla út veðurkort og ræða um verkefni dagsins. En voru tvö, annars vegar að gera tilraun með að framkvæma eldgos úti og hins vegar að taka ljósmyndir. Til þess að gera eldgos, þurfum við plastflösku, vatn, mýkingarefni, edik og matarlit. Við fórum með þetta með okkur út í útiskólalaut og gerðum tilraun sem tókst ágætlega, að sumra mati hefði samt krafturinn mátt vera meiri.

Ljósmyndaverkefnið fólst í því að taka myndir af formum. Áður en við fórum út ræddum við formin í náttúrunni. Fyrirmælin voru þau að hver nemandi mátti taka þrjár myndir af einu formi, ýmist hring, þríhyrningi eða ferhyrningi. Þetta gekk mjög vel. Hanna Berglind kallaði til sín einn og einn nemenda í einu og kenndi viðkomandi að taka mynd. Flestir áttu mjög auðvelt með að taka tvær fyrstu myndirnar en margir áttu erfitt með að finna þriðja myndefnið af sama tákninu. Á meðan hver nemandi tók myndir léku hinir sér í bústöðum sínum í frjálsum leik.

myndir

 

 

Hópur 2

Dagur 14 - 27. nóvember, kennari Sigrún

 

Veðurblíðan enn í lofti þótt aðeins hafi kólnað. Veðrukortið sýndi -3°c, stinningsgolu og sunnan átt í alskýjuðu. Nú hafa öll börnin fengið hlutverk veðurfræðings einu sinni og komið að annarri umferð.

 

Verkefni innitímans voru að rannsaka sýnin sem tekin voru í Níphólstjörninni fyrir viku. Nemendum var skipt í 3 hópa og allir rannsökuðu öll sýnin með stækkunarglerjum og skrifuðu niður allt sem þeir sáu. Sýnin voru vatn úr tjörninni, klaki sem nú var löngu bráðnaður og vatnabobbar. Ekki nægði ein kennslustund svo haldið var áfram með sama verkefni í útiskólatíma, reyndar að 5. bekkingum frátöldum því þá voru þeir í danstíma. Hver hópur skilaði munnlegri niðurstöðu sem kennari skráði niðu. Þegar niðurstöður allra hópann voru dregnar saman voru þær þessar:

 

Sýni 1, vatn: Lítið dökk-blátt ber, sandur, litlir steinar eða pöddur, fiskikúkur, þari, fræ og gras.

Sýni 2, klaki: Ponkulitil fjöður, sandkorn, örlítið laufbrot, einhver hvít korn(mikiðð af þeim), mold, dauð mýfluga og kusk.

Sýni 3, bobbar: Hvítir að innan, tómir, gulllitur að utan, sandur og litlar pöddur eða fiskipadda.

 

Athygli vakti að vatnið úr klakanum sýndist mun hreinna en hitt, en þar voru samt þessi óskiljanlegu hvítu korn sem ekki sáust í vatnssýninu. Nokkur börn fengu sér að drekka úr vatninu þegar þau voru þar á bakkanum og engum varð meint af þrátt fyrir þessi efni sem sannarlega voru þó fyrir hendi.

 

Þegar hópurinn var aftur sameinaður fóru allir í frjálsan leik í lautinni, enda var tíminn þá orðinn mjög lítill. Börnin voru fljót að finna sér verkefni að vanda. Stelpurnar furðuðu sig mikið á vondri lykt sem lagði af frosnum klump í dalli og klumpurinn innihélt einhverja blöndu af rotnandi gróðri og kannski einhverju fleiru. Svona var sem sagt rotnunarlyktin. Svo kom að hinu vikulega kalli; jæja, tíminn er búinn, komum heim!

 

 

Myndir hér.

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

18. nóvember

Fylltum út veðurkortið. Veðrið var mjög gott í dag. Umræðuefnið var örnefni, hvað er örnefni? Af hverju er gott að nota örnefni? Hverjir bjuggu til örnefnin? eru dæmi um spurningar sem við veltum fyrir okkur. Flestir gátu nefnd örnefni í nágrenni við heimili sitt.

Verkefni dagsins var að fara í gönguferð um hólana og skoða örnefni í grennd við skólann. Eftir langa gönguferð með mörgum stoppum og mikið spjall, merktu nemendur inn á kort sem þeir fengu, helstu örnefnin sem við ræddum um og sáum í gönguferðinni. Þar á meðal voru Bæjartjörn, Leirtjörn, Nýphóll, Fiskilækur, Langimelur og Ljósavatn.

myndir

 

 

Hópur 2

 

Dagur 13 - 20. nóvember Kennari: Sigrún

Hiti 5°c, andvari og hálfskýjað. Verkefni: Gönguferð upp að Níphólstjörn.

 

Hópurinn lagði galvaskur af stað strax að loknum hádegisverði og gekk hann svo að segja á alauðri jörð alla leiðina, mjög óvenjulegt á þessum árstíma. Um vanga lék léttur suð-austan blær svo allar aðstæður voru mjög ákjósanlegar. Ferðin öll var líka í samræmi við aðstæður, börnin voru léttstíg og glöð enda þurrfti að halda uppi góðum hraða til þess að ná aftur heim inna ákveðinna tímamarka. Strax við fyrsta læk þurfti að stansa svo hægt væri að seðja þorsta.

Þegar að tjörninni kom urðu nemendur strax mjög áhugasamir um vatnið, sumir vildu halda lengra, aðrir fóru strax að rýna í botninn og enn aðrir beindu athygli sinni að ísnum á tjörninni. Ísinn var þunnur og ekki alveg heill, náði ekki að bökkum svo ekki var allstaðar auðvelt að ná til hans. Fljótlega fann eitt barnið vatnabobba við afrennslið af vatninu og við það varð hópurinn mjög upptekinn í leit að fleirum vatnabobbum. Meðferðis voru dósir undir sýni og var bobbum safnað í eina. Í aðra dós var sett vatn úr vatninu og þá þriðju var settur ísmoli. Tvær stúlkur gleymdu sér aðeins í bobbaleitinni og duttu í vatnið. Þá fundu þær manna best að vatnið er bæði blautt og kalt.

Á heimleiðinni var farið hratt yfir, kannski of hratt því ein stúlkan datt með hnéð á stein og þurfti stuðning til bæjar. Tímamörkin héldu samt en með naumindum. Hnéð jafnaði sig og engum varð meint af volkinu.

Þetta var mjög ánægjuleg og lærdómsrík ferð og vel hefði hópurinn getað dvalið einni kennslustund lengur við vatnið.

 

Myndir hér.

 

 

 

Hópur 2

Dagur 12 – 13. nóvember. Kennari: Sigrún

 

Þema: Vatnið. Eftir hressilegt slagveður allan morguninn stytti upp mátulega fyrir útiskóla. Veður: 5°c, stinningskaldi, norð-austan vindur og skýjað. Verkefni: Vatnarannsóknarleiðangur.

Fyrir hádegi fylltu nemendur út hugtakakort, hver og einn skráði þar allar birtingarmyndir vatnsins sem hann mundi eftir.

 

Eftir hádegi fóru allir í gönguferð um vatnasvæði austan skólans. Þar bar vel í veiði, rigningin hafði skilið eftir sig vatn og bleytu víðs vegar. Við ræddum saman og gáfum gaum að því sem þótti athyglisvert. Sáum polla, læki, tjarnir og vötn, snjó, mýri, ský og klaka. Óvenju mikið vatn var í lækjum sem var afleiðing rigningar og snjóbráðnunar. Gönguplankar yfir fiskilækinn voru undir rennandi vatni og kom sér vel að með í ferð var rafgirðingarstaur sem fannst á leiðinni, en með honum var hægt að leiða hvern og einn yfir. Enginn datt í lækinn. Við gáfum okkur tíma í myndatöku við stóra steininn sem er austur undan Bæjartjörninni. Enn blés vindurinn mikið og við lá að sumir fykju undan vindi uppi á melkollunum.

 

Þetta var góð og skemmtileg ferð þar sem vel sýndi sig hve vatnið kallar til barna, því strax og komið var að fyrsta læk upphófst leikur í vatninu, með veiðistöngum í formi stráa og spreka. Leitað var eftir sílum og vatnsdýptin könnuð. Í þessari vatnarannsóknarferð okkar sáum við flest öll hugtök um vatnið sem nemendur höfðu skrifað í hugtakakortin fyrr um daginn.

 

Myndir hér.

 

 

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

11. nóvember

 

Veðurkort fyllt út, umræður um veðurtákn og hvað þau merkja og hvaða veðurtákn við notum á veðurkortið okkar. Ekki leyfilegt að teikna bara eitthvað, nota á táknin sem gefin eru upp efst á blaðinu.

Færðum okkur í kennslueldhúsið og fylltum ísmolapoka með vatni og mismunandi matarlit. Pokunum var svo komið fyrir í frystiklefa skólans. Verkefnið er hluti af stærra verkefni sem við stefnum á að klára fyrir jól. Þetta tók lengri tíma en við bjuggumst við og komumst við ekki út fyrr en í síðasta tíma dagsins. Úti gerðum við snjótilraun, settum snjó í plastpoka og viktuðum pokana, komum tveimur pokum fyrir í þvottabala sem við ákv. að láta standa innan við útidyrnar en skyldum einn poka eftir úti. Morguninn eftir sáum við muninn á pokunum. Snjórinn inni var nánast allur orðinn að vatni en pokinn sem við skyldum eftir úti var horfinn, spurning hvað orðið hefur að honum, alls ekki umhverfisvænt ef hann hefur fokið út í buskann. Rannsóknin verður að líkindum endurtekinn eftir áramót og þá sett minna í pokana og rannsóknin þróuð.

 

myndir

 

Hópur 2

Dagur 11 – 6. nóvember. Kennari: Sigrún

 

Veðurkortið tók ekki miklum breytingum milli vikna, enn er andvari, nú af suðaustri svo svæðið slapp við mengun frá gosstöðvum í dag. Lítil sem engin rigning var um hádegisbil en í útiskóla rigndi viðstöðulaust. Hiti var 5°c. Í innitímanum var lögð lokahönd á grasafræðiverkefnin. Í útiskóla voru tvö megninverkefni í dag, annað var að vígja réttina góðu og hitt var að opna umfjöllun um næsta verkefni útiskólans sem er vatnið. Það viðraði því vel í því tilliti, nóg var af vatninu allt um kring en líka smá snjó-krapi í mónum. Skipt var í fjóra hópa og hornum deilt á milli. Ekki náðist endanleg niðurstaða í skiptingar þar sem tveir nemendur þurftu að halda sig innandyra á meðna útiskólinn fór fram, vegna heilsubrests og helti. Gengið verður frá þessum hópum betur næst.

Fyrsta tillaga að hópum sem hafa eftirfarandi litamerkt horn:

Brún-rautt: Kristján Örn, Guðrún Karen og Grete

Græn-blátt: Hafþór, Eyþór og Katrín Ösp

Græn-brúnt: Arndís Björk, Rannveig og Marge

Bleikt: Anton Karl, Haraldur Andri og Þórunn

 

Í „melónu“ við eldstæðið ræddum við um vatnið og komumst að eftirfarandi niðurstöðum.

Vatn er vökvi, það kælir, það bleytir, vatn er stundum frosið og er þá snjór eða klaki sem hægt er að bræða. Vatn er gufa, vatn er rigning, slydda eða snjókoma sem fellur á jörðina. Það fer ofan í jörðina en gufar svo upp. Vatn myndar polla, læki, tjarnir og vötn. Stundum koma flóð. Vatn er í sundlaugum, klósettum, krönum og stundum í glösum. Við pissum vatni (það hefur reyndar þá breyst í hland) og vatn er í sjónum og við ströndina.

Þetta þótti gott í bili, síðar verður farið dýpra í þessar vangaveltur.

 

Myndir hér.

 

 

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

4. nóvember

Í dag var ekki farið út í útiskóla vegna mengunar frá Holuhrauni. Þess í stað var farið í að vinna inni við ýmis verkefni sem setið hafa á hakanum. Byrjað var samt á því að fylla út veðurkort dagsins og ákveðið að skrifa gasmengun á kortið til viðbótar við hefðbundin veðurtákn. Fyrsta verkefni dagsins eftir útfyllingu veðurkortsins var að taka saman þau útiskóla-verkefnablöð sem safnast hafa saman í skúffunum okkar og raða þeim í möppur. Þá var umfjöllun um það hvað við lærum í útiskóla og gert hugtakakort á töflu þar sem skráð var hvað okkur dettur í hug þegar við heyrum orðið útiskóli.

Annað verkefni var að hengja upp myndverkin sem nemendur gerðu í útiskóla í haust, þar sem notað var bæði málning og hlutir úr náttúrunni. Lokaverkefni dagsins var að vinna með þær mjólkurfernur sem börnin hafa komið með í skólann. Heiða var búin að gefa okkur leyfi til að nota hráeldhúsið til að fylla fernurnar og frysta þær í skólafrystinum. Áður en lagt var af stað í eldhúsið var farið yfir nokkrar öryggisreglur varðandi eldhúsið. Gengið var í fallegri röð í gegnum eldhúsið og niður hringstigann, sem er brattur og dálítið erfiður fyrir lofthrædda. Allir komust þó niður á endanum og nú fengu allir tvær fernur sem voru næstum fylltar af vatni og svo bætt matarlit út í, rauðum, grænum eða gulum. Þá var kassa með öllum fernumum komið fyrir í skólafrystinum sem öllum fannst spennandi að fá að kíkja inn í og finna fyrir kuldanum.

Þetta gekk greiðlega og þar sem fimmtán mínótur voru eftir af tímanum fórum við í hringleiki í fatahenginu þar til skólabílarnir komu. Öðruvísi útiskóli en líka skemmtilegur og fróðlegur.

 

Myndir hér.

 

 

Hópur 2 Sigrún

 

Dagur 10 – 30. október

 

Sigrún kennari útiskólans var fjarverandi og Aníta Þórarinsdóttir kenndi í forföllum hennar. Þennan dag var mengun frá gosstöðvum í Holuhrauni yfir viðmiðunarmörkum svo nemendur voru alfarið innan húss þennan dag og í útiskólatímanum unnu þeir verkefni um snjóhús á Grænlandi. Veðurfræðingur skráði andvara af suðri, -6°c og hálfskýjað.

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind
Útiskóladagbók 2014-2015
28. október
Gott en blautt veður í dag. Hiti fjórar gráður og snórinn blautur. Útiskóli byrjaði inni á því að veðurkort var fyllt út og einnig kláruðu börnin að vinnu við verkefnablað um tréið sitt. Þá var annað verkefnablað tekið með út, þar sem verkefnið er að heimsækja tréið sitt, teikna mynd af því og svara nokkrum spurningum um tréið, s.s. hvar er tréið? hvernig tré er tréið mitt? tegund, sverleiki, hæð. Er tréið lifandi? og hvernig veit ég að tréið er lifandi? Verkefnið vakti mikla athygli og voru umræður góðar. Sumir vissu að tréið var lifandi með því að horfa á það en gátu ekki útskýrt það frekar. Aðrir vissu að tréið hafði rót og stæði upprétt og þess vegna væri það lifandi. Annað verkefni í útiskóla í dag var að gera snjólistaverk, áður en haldið var út skoðuðum við nokkur snjólistaverk í tölvunni og sáum að hægt vara að skapa annað og meira en snjókarla og snjóhús. Í lok útiskóla prýddu ýmis snjólistaverk lautina okkar. Við enduðum á því að fá okkur kakó og fengum óvænt kex með. Góður tími með virkilega góðum hópi þar sem forvitni rannsakenda og sköpun listamanna fengu að njóta sín.


Myndir hér.

 

 

Hópur 2

 

Dagur 9 – 23. október Kennari: Sigrún

 

Veðurfræðingur dagsins stillti upp korti sem sýndi -1°c, andvara af suðri og smá snjókomu. Þegar út var komið þurfti að kafa snjó sem var vel fet á þykkt, í mónum og á svæðum með hárri sinu sukkum við heil ósköp. Útivistin byrjaði á stuttu stoppi við endurvinnslugáminn á svæðinu. Þar lásum við á merkingar og ræddum aðeins endurvinnslumál og flokkun. Því næst var farið í sögulautina, Garðabolla. Þar gátu börnin velt sér um stund og kastað snjó hvert í annað en síðan hófst fræðslustund. Aðallega ræddum við um þær breytingar sem snjórinn hefur á dýraríkið. Vonandi eru ekki margar kindur úti í haganum ennþá, flestir fuglar virðast vera farnrir en rjúpan getur hrósað happi, því hún er komin í hvíta búninginn sinn fyrir nokkru síðan. Mýsnar hafa sennilega undirbúið veturinn með forðasöfnun í holum sínum en greinilega er talsvert um ketti sem eru á þvælingi í snjónum. Það er ekki samkvæmt þeirra eðli ef þeir eiga ekki húsaskjólað í kuldanum. Nautgripir eru komnir í hús og hænur og svín eru með sín hýsi. Útiskólinn endaði á fuglatalningu, genginn var hringur um hólana og endað heim í skóla . Aðeins sáust tveir hrafnar á flugi.

Kominn var talsverður kvörtunartónn í einstaka nemanda vegna kulda áður en útiskólinn var búinn. Það er mörgum erfitt að átta sig á að kuldinn bítur með tímanum og fatnaður sem virðist nógu hlýr til að byrja með dugar ekki. Peysurnar gleymast heima og þunnir sokkar gera ekki fullt gagn í stígvélum. Engu að síður skiluðu flestir sér í hús, glaðir og reifir eftir góða hreyfingu í snjónum.

 

Myndir hér.

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind
Útiskóladagbók 2014-2015
21. október
Í útiskóla í dag unnum við inni allan tímann. Byrjað var á því að fylla út útiskólaveðurkort en í dag má segja að fyrsta vetrarlægðin hafi komið. Él og þó nokkur vindur. Þar sem við áttum eftir að vinna verkefni tengd trjámælinum var ákv. að fara ekki út fyrr en í lok dags. Tíminn entist okkur þó ekki og endaði með því að nemendur fóru beint út í skólabíla. Eftir að hafa fyllt út í veðurkortið og rætt veðrið fram og til baka. Fengu nemendur verkefnablað þar sem verkefnið var að teikna sjálfan sig og tréið sitt. Skrá hæð trésins og mæla og skrá hæð okkar sjálfra. Þá var klippt niður band í sömu lengdum og lagt á gólfið þannig að allir sæu muninn á sér sjálfum og tréinu sínu. Flestir voru lægri en tréið sitt en einhverjir þó hærri. Við fengum líka heimsókn tveggja útlendinga inn í stofu og ræddum verkefnið við þá. Í lok tímanns skoðuðum við tré í tölvunni á vef Yrkju, sem eru eins og okkar tré, barrtré, lauftré, og sáum líka hvernig tré lýta mismunandi út eftir árstíðum. Við kíktum líka á myndband af eldgosinu í Holuhrauni, en við fylgjumst reglulega með því.

 

Hópur 2 dagur 8 - 16. október. Kennari: Sigrún

 

Enn einn daginn reyndist vera andvari, nokkrar gráður í hita og skýjað. Talsverð mengun lá yfir eins og stundum áður í haust. Nokkuð hefur verið rætt um brennisteinsdíoxíð mengun frá eldstöðvunum í tímum og nemendur vita eitt og annað um það mál.

Í innitímanum var rekinn endahnútur á grasasöfnun haustsins, nemendur límdu þurrkaðar jurtir á blað og við ræddum heiti þeirra. Þekkingin reyndist alveg sú sama og þegar rýnt var í jarðargróðurinn í síðasta útitíma. Telst sennilega eðlilegt.

Í útiskóla var setið í melónu og við skoðuðum hvað hefði breyst í lautinni og útiskólaumhverfinu síðan við byrjuðum um mánaðarmótin ágúst - sept sl. Margt var tínt til s.s. að það hafði snjóað og kólnað í veðri, meiri mengun en þá, laufið fallið og orðið gult og brúnt, blómin dáin, grasið orðið gult, berin ónýt, flugurnar farnar og smá frost á jörðu stundum. Það sem ekkert hafði breyst voru barrtrén, þau voru enn græn. Engin nefndi fuglana eða breytingu á birtu.

Að þessu loknu hófst yfirheyrsla á því hvað þau mindu eftir að hafa gert í útiskólanum það sem af var. Ekki var það nú mjög margt, þó höfðu sum búið til fjárrétt, mörg höfðu fundið sinn uppáhaldsstað og nýtt hann í leik, allir höfðu sett nýja mynd af sér á tréð sitt og mælit það. Einstaka hafði rannsakað pöddur, tekið mynd af gróðrinum, safnað blómum og lært um gróðurinn. Svo höðfu þau leikið sér og þennan tíma enduðu þau einmitt á leik eins og oft áður, tvö fóru að fullgera réttina en hin héldu mikla afmælisveislu á einum uppáhaldsstaðnum. Þar var glatt á hjalla þar til slíta þurfti samkomunni.

 

Myndir hér.

 

 

Hópur 1 og eldri hópur leikskóla, Birna og Hanna Berglind

Útiskóladagbók 2014-2015

14. október

Í dag voru leikskólanemendur ekki með okkur. Við byrjuðum eins og venjulega inn í stofu eitt. Skráðum veðrið og fórum yfir það hvernig best væri að klæða sig í dag. Þegar út var komið settumst við í kringum eldstæðið og rifjuðum upp hvernig tré nemendur völdu sér í síðasta tíma. Flestir mundu tegundaheiti og einhver einkenni trésins. Stórt tré, lítið tré, barrtré, lauftré, breitt tré, mjótt tré, grænt eða gult. Þeir tveir nemendur sem ekki voru í síðasta tíma fengu að velja sér tré í dag, þau voru merkt, tekin mynd og svo var hafist handa við að mæla og skrá hæð allra trjánna. Aftur var safnast saman við eldstæðið og farið yfir niðurstöður mælingarinnar. Tómas á hæðsta tréið sem mældist 408 cm en Ívar það lægsta 61 cm. Eftir er að mæla tré leikskólamanna.

Þar sem langt er síðan hópurinn hefur farið í fuglaskoðun, ákváðum við að fara í göngu út í Melgötu og athuga hvort einhverja fugla væri að sjá. Við töldum í fljótheitum ca. 50 þresti sem flögruðu að vísu fram og til baka svo ekki var auðvelt að telja þá., og einn krumma sáum við.

Að gönguferð lokinni var farið í frjálsan leik í bústöðum Krossarahóps og Ísjakahóps.

 

Myndir hér.

 

 

Hópur 2 dagur 7 - 9. október. Kennari: Sigrún

 

Veðurfræðingur dagsins merkti að úti væri ágætis veður en þungbúið, jafnvel örlitla úrkomu andvari og um 5°c. Í innitímanum fengum við Heiðu matráð í heimsókn og hún ræddi við börnin um matseðla, bauð þeim að nefna sína uppáhalds rétti og útskýrði fyrir þeim hve mikið samtals væri daglega hent af mataraleifum og það síðan margfaldað upp fyrir veturinn. Niðurstaðan var að það gerði 9 stóra kassa af mat. Mjög upplýsandi og öllum viðstöddum ljós að illa væri farið með fjármuni foreldranna ef þetta héldi áfram.

 

Eftir mat og útifrímínútur var að venju haldið í lautina með málband, hamra og bönd auk fleiri nauðsynlegra hluta. Þar ráku drengirnir loka hönd á fjárréttina, reyndar vantaði aðeins meira band. Einnig luku nemendur við að merkja og mæla trén sín. Að því loknu spjallaði kennarinn við börnin í litlum hópum og spurði út í gróðurinn sem fyrir var á þeim litlu svæðum sem voru innan þeirra uppáhaldsstaða. Þær tegundir sem fundust og börnin þekktu voru birki, krækiberjalyng, bláberjalyng, gras, fura og lúpína. Tegundir sem börnin þekktu ekki voru fjalldrapi, gulvíðir, sortulyng og ljónslöpp.

 

Myndir hér.

 

 

 

Hópur 2 dagur 6 - 2. október: Kennari Sigrún

 

Í innitímanum fyrir hádegi var gengið frá veðurkorti, ágætis veður, skýjað og sunnan gola. Hins vegar var spáin fyrir daginn ekki góð, bara spursmál hvenær sú spá gengi eftir og það gerði hún svo sannarlega strax í hádegishléinu. Börnin komu inn úr frímínútum í norðan slyddu - slagviðri og sum strax farin að blotna. Útidagskrá kom því ekki til greina en brugðið á það ráð að horfa á mynd um Pocahonts en þar tvinnast náttúran sterkt inn í atburðarásir en viðhorf Pokahontas og hinna indjánanna til náttúrunnar er svo öflugt og sérstakt. Jafnvel tréin tala.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hópur 2 dagur 5 – 25. september. Kennari: Sigrún

 

Verkefni dagsins í öllu framhald frá síðasta útiskóla. Nú er farið að kólna og blikur um fyrsta hausthretið í loftinu. Nokkur börn héldu áfram við réttarsmíði en einn drengurinn smíðar staura í réttina í hverjum smíðatíma. Hinir merktu og mældu sín tré og þess á milli skottuðust þau um móinn og völdu sér sína staði.

Fyrir hádegi var fundað með hinum útiskólahópnum og þar kom eftirfarandi fram:

· Allir verða að bera virðingu fyrir því sem hinir eru að gera í lautinni.

· Hópur 2 er að smíða fjárrétt við sólúrið, hópur 1 er að merkja sér heimili við lautina. Merkingarnar viðkvæmar og ekki leyfilegt að hreyfa við þeim.

· Hópur 1 setur reglur um heimilin sín. Hópur tvö þarf ekki að leika í þeirra húsum en hann má sjá.

· Á meðan réttin er í smíðum má ekki fara á svæðið en eftir það má hópur 1 leika í réttinni.

· Hópur 1 setti epli undir tré og ætlaði að rannsaka rotnun en krakkar fundu eplið um helgina og tóku það. Hópur eitt reynir aftur og þá má enginn taka eplið.

· Álfaborgin: Ath hvort hægt er að fá nýjar lokur á gluggann. Allir verða að passa að ganga vel frá húsinu og ef einhverjir sem búa á svæðinu vilja leika í lautinni þurfa þeir að fara sérstaklega varlega.

· Hreiðir. Ekki gott að geyma það í húsinu, geyma það inni í vetur og koma því fyrir á góðum stað í vor.

· Kannski smíða einhverjir fuglahús fyrir vorið.

· Allir merkja sitt tré og nú eru til mælingar um vöxt allra sem fyrst voru mæld fyrir tveimur árum.

 

Myndir hér.

 

 

 

Hópur 2 dagur 4 - 18. september. Kennari: Sigrún

 

Enn helst veðurblíðan og náttúran skartar öllu sínu fegursta, litadýrðin allsráðandi. Veðurfræðingur dagsins skráði 13°c, suðaustan golu og súld. Örlítið bera á gosmóðu frá eldstöðvunum.

Verkefni dagsins voru að mestu tvö, annað var áframhaldandi réttarsmíði og hitt var að endurnýja myndamerkingar þeirra trjáa sem börnin hafa valið sem sitt tré og mæla af námkvæmni hæð þeirra. Í einu tilviki fannst ekki það tré sem valið var í fyrra svo viðkomandi valdi sér nýtt tré. Einnig var einn nýr nemandi sem þurfti að velja sér tré og það var auðvelt að hans mati.

Í innitíma útiskólans voru sömu börn hæðarmæld og niðurstöður skráðar á blað því síðar er meiningin að bera saman tölur, meta vaxtarhraða og fleira.

 

Myndir hér.

 

 

Hópur 2 dagur 3 – 11. september. Kennari: Sigrún

Veðurfræðingur dagsins setti upp veðurkort með hita 13°c, sunnan stinningsgolu og léttskýjuðu. Ekki amalegt veður í september. Haldið var áfram með réttarsmíði en í stað þess að safna jurtum líkt og áður fengu tveir og tveir nemendur myndavélina og þau fyrirmæli að taka hvort um sig 5 myndir af hverju því sem þau sáu áhugavert í náttúrunni. Jafnframt áttu þau að gera grein fyrir því af hverju viðkomandi myndefni var valið. Þetta gekk mis vel eða illa, sumir sáu fátt nógu merkilegt en aðrir mynduðu hratt og örugglega.

 

Myndir hér.

 

 

Hópur 2 dagur 2 – 4. september. Kennari: Sigrún

 

Enn helst blíðan, heppilegt þegar verið er að vinna með gróðurinn og blómin. Í blíðunni má enn finna nýlega útsprungin blóm en við tökum bara eitt af hverri tegund til að safna í pressun.

Tveir drengir ákváðu að ráðast í það stórvirki að endurnýja fjárréttina sem verið hefur nær óhagganleg í nokkur ár. Nú var grasið farið að vaxa henni yfir höfuð og talið betra að reisa nýju réttina á afviknari stað, jafnvel upp á heiðinni í grennd við sólúrið.

Aðrir nemendur fengu einnig að njóta sín í sjálfsprottnum leikjum en eftir sem áður voru þau með athyglina vakandi ef þau rákust á nýjar jurtategundir.

 

 

Hópur 2 dagur 1 - 28. ágúst. Kennari: Sigrún

 

Blíðskapar veður og eftir umræður og kynningu fyrir hádegi var strax haldið í lautina eftir hádegisfrímínútur. Einn nýr nemandi er í hópnum og byrjað var á að segja honum frá því mikilvægasta og kynna svæðið. Í þessum hóp eru 12 nemenndur í 3. – 5. bekk, allir utan einn vanir frá því þeir voru í leikskóla. Nú eru ýmsar áherslur nokkuð breyttar í þessu ljósi, með eldri nemendum koma kröfumeiri verkefni. Veðurkortið hefur fengið nýja útfærslu, einn veðurfræðingur er hvern útiskóladag og hann setur upp kort með viðeigandi veðurtáknum. Nú gilda ekki lengur heimilin í mónum, þau voru eftirlátin yngri nemendum en í staðinn vinnur þessi hópur á öðrum vettvangi að hluta til. Enn eru þó í gildi trén sem þau völdu fyrir tveimur árum og allir geta átt sinn uppáhaldsstað í mónum.

Eftir melónu þennan fyrsta dag var farið í Álfaborgina að rannsaka hreiður sem vitað var af en í hreiðrinu var löngu dáinn fugl. Þetta var skoðað í bak og fyrir og að lokum fékk fuglinn viðeigandi greftrun, við sungum saman eitt lítið fallegt lag og gröfin skreytt með blómum og öðrum gróðri.

Næst heimsóttu börnin trén sín og tóku þá eftir nokkru merkilegu. Bandið sem notað var fyrir tveimur árum til að festa myndina þeirra við stofninn var farið að grafast inn í börkinn. Það fór því ekki á milli mála hve mikið trénin höfðu vaxið á þessum tíma. Strax var farið í að losa um svo þau píndust nú ekki. Fljótlega verður farið í að endurnýja myndirnar.

Þema dagsins var blóm og gróður og við tókum með okkur heim til að setja í pressu.

 

Myndir hér.