Dagbók útiskóla 2016-2017

Dagbók útiskóla 2016 – 2017


Hópur 2


Dagur 25 – 4. maí kennari: Sigrún


Hitaveður, 20°c, andvari úr vestri og heiðskírt. Hestaverkefnabók í tíma f.h. og 1. tíma e.h. Þá var haldið út í fuglatalningu. Áður en farið var út var nemendum raðað saman tveim og tveim í hóp og svo spurði kennarinn hvern hóp hvaða fugla þau byggjust við að heyra í eða sjá í fuglaskoðun.
Kata og Eyþór: Lóu, hrossagauk, álft og grágæs.
Arndís og Tinna: Gæs, álft, lóa, hrossagauk.
Grete og Björn Rúnar: Grágæs og svan, lóu, skógarþröst, hrossagauk, rjúpu.
Eyhildur og Tómas: Hrossagauk, skógarþröst, hrafn, rjúpu, lóu, spóia, álft, önd, snjótittling og grágæs.


Er komið var út í vorblíðuna fóru hóparnir hver í sína áttina. Tveir þeirra sameinuðust síðar á ferð sinni þvert á fyrirmæli kennarans. Niðurstaða skoðunarferðarinnar var þessi:
Kata og Eyþór: Auðnutittling, þúfutittling, heiðagæs, grágæs, maríuerlu, lóu, óðinshana, snjótittling, hrossagauk, hettumáf, músarindil, önd, skógarþröst og álftir.
Arndís og Tinna: Lóur, óðinshana, álftir, gæsir, hrossagauka, endur, skógarþresti.
Grete og Björn Rúnar: Skógarþresti, grágæsir, svanir, rjúpur, hrossagauka, lóur, uglu.
Eyhildur og Tómas: Álftir, hrafnar, spóa, grágæsir, lóur, endur, snjótittlinga, skógarþresti, máva, uglu og óðinshana.

Ekki var nú kennarinn alsáttur við þessa fuglatalningu, taldi nær útilokað að unglan hefði setið á steini og sagt „úgú“. Einnig var ósennilegt að snjótittlingarnir hefðu enn verið á svæðinu en mikið var um grátittlinga sem nemendur virtust ekki átta sig á. En kennaranum þótti mikið til um að sumir nemendur skyldu hafa gert greinamun á heiðagæsum og grágæsum. Enginn nemandanna nefndi stelk eða jaðrakana, en sjálfur þóttist kennarinn greina þeirra hljóð.


Mjög ánægjulegur útiskóli í hinu besta vorveðri sem hægt var að hugsa sér, enda tala myndirnar sínu máli.


Img 1678

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

 

 

Dagur 24 – 27. apríl.


Loksins útiskóli eftir langt hlé sem átti sér margvíslegar orsakir. Gott vorveður, 12°c, vestan gola og léttskýjað.


Í dag var unnið af kappi í vinnubók um hestinn fyrir hádegi og síðan lá okkur á að komast út í góða veðrið. Reyndar dró fyrir sól í útiskólanum eftir hádegi. Alauð jörð, krókusarnir búnir að blómstra í lautinni, þar sem nemendur potuðu niður laukum fyrir nokkrum árum síðan. Annar gróður einnig farinn að taka við sér, t.d. lerkitrén.

 

Nemendur byrjuðu á frjálsum landnemaleik. Nú hafa allir skrifað stutta ritgerð um sinn landnámsmann og eru því mun betur að sér í lifnaðarháttum á tímum landnemanna. Einn leitaði að lækningajurtum á meðan annar sauð seyði, þriðji eldaði hafragraut og fjórði fann upp og bjó til fótbolta úr brotnum greinum. Þá leituðust nemendur við að nota fornan talsmáta; „Hafið þið séð tvær ungar dömur hér á sveimi?“


Á meðan á þessu gekk faldi kennarinn lítil páskaegg í lautinni og nemendur fengu að leita. Það tókst að finna öll eggin sem voru borðuð hratt og örugglega og málshættirnir fengu sína umfjöllun. Að þessu loknu lögðu börnin sig í holtinu, lokuðu augunum með þau fyrirmæli að nota eingöngu eyrun. Eftir 5 mín. máttu þau skýra frá þeim hljóðum sem fyrir eyru bar og það voru margskonar hljóð. Kennarinn hafði vonast eftir að þau heyrðu fuglahljóð en lítið sem ekkert bar á því, mest var þetta vindgnauð, skrjáf í fötum, myndavélarsmellir, mótorhljóð og talað mál.


Img1677


Dagur 23 – 30. mars.


Enn standa yfir æfingar og verkefnavinna, nú fyrir umhverfis- og lýðheilsuþing sem verður í næstu viku. Helmingur hópsins útbýr verkefni ásamt fleirum um skólareglurnar og hvernig þær urðu að veruleika en hinn helmingur nemenanna, 5. bekkur vann með 6. og 7. bekk að því að útbúa verkefni um vistheimtarverkefnið með Landvernd.

 

Eftir hádegi var svo farið út um stund í frjálsan leik. Það var víkingaleikur að sjálfsögðu og nú voru miklar róstur, harðir bardagar og mikil hlaup. Mjög gott að hreinsa vel úr lungunum og hreyfa sig rækilega.


Img 1673


Dagur 22 – 23. mars.

 

Þetta var dagurinn fyrir árshátíð og því var allt kapp lagt á æfingar og undirbúning.


Dagur 21 – 16. mars


Í dag var einn af örfáum dögum vetrarins sem bauð upp á vetrarveður. Veðurfræðingur skráði 0°c, norðan stinningskalda, alskýjuðu og snjókomu. Mikil veikindi hrjáðu nemendur, einungis mættu 50% nemenda.

Æfingar fyrir skólaleikritið voru í hávegum þrátt fyrir fámenni og nú var það Pappírspési sem átti sviðið. Samt sem áður náði kennarinn að fræða nemendur og minna þá á jafndægur að vori. Það verður núna 20. mars en jafndægur er sú stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar. Þetta gerist tvisvar á ári, á vorjafndægri á tímabilinu 19.-21. mars og á haustjafndægri 21.-24. september. Um þetta leyti er dagurinn um það bil jafnlangur nóttinni hvar sem er á jörðinni, og af því er nafnið dregið. Breytileiki dagsetninganna stafar aðallega af hlaupárum. Orðið jafndægur hét í fornu máli jafndægrishringur.

 

 

Dagur 20 – 9. mars


Veðurfræðingur skráði 3°c, andvara úr suð-vestri, léttskýjuðu en þoku í fjöllum. En veðurfræðingar RUV höfðu áður spáð norðan átt, 15 metrum á sek og snjókomu. Raunveruleikinn var því allur annar. Kennarinn hafði skipulagt verkefni dagsins út frá spá hinna opinberu veðurfræðinga og ákveðið að í dag skyldu nemendur vinna inni og skrifa marg umrædda ritgerð um landnámsmennina. Og það varð úr.

 

Hver nemandi valdi sér sinn uppáhalds landnámsmann á haustdögum og hefur sett sig í hans hlutverk í frjálsa leiknum í útiskólanum. Stutt er síðan að upp kom hugmynd um að nemendur fengju að skrifa stutta ritgerð í samfélagsfræði og þá ákvað kennarinn að þau skrifuðu um sína persónu. Allir voru komnir með heimildir og upplýsingar svo nú var hafist handa. Þetta verkefni var mikil kynning fyrir þau á persónum og aðstæðum á þessum tíma og höfðu flestir eða allir áhuga á verkinu. Sumum tókst að ljúka því en nokkrir þurfa lengri tíma.

 

Tíminn var vel nýttur og ánægjulegur.


Img 1665

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún


Dagur 19 – 2. mars


Hiti -1°c, andvari, léttskýjað og suð-vestan átt. Verkefni dagsins voru að vinna í verkefnabók um nautgripi f.h. og heimsækja fjósið á Stórutjörnum e.h.

 

Enginn nemendanna býr á býli með kúabúi og því var þekking þeirra á fjósi og nautgriparæktun fremur lítil. Sum áttu aðstandendur með kúabúskap og höfðu því óljósar hugmyndir um eitt og annað. Það var því talsverð upplifun að koma í fjós, geta kynnt sér lit kúnna með eigin augum, fundið lyktina, séð stærðina og hegðun þeirra í lausagöngufjósi, spjallað við kálfana og fræðst um eitt og annað sem Laufey bóndi sagði okkur.


Laufey tók vel á móti okkur og leiddi okkur um bæði fjósin á staðnum. Í öðru voru mjólkurkýrnar og litlir kálfar en í hinu, eldra fjósinu, voru geldneyti, býsna stór naut og kvígur. Að auki voru hestahólf í því fjósi og fallegir hestar sem gjarnan vildu hafa samskipti við nemendur. Á gönguleið okkar í Stórutjarnir þurftum við að víkja fyrir stórum mjólkurtankbíl. Betra að vara sig á svoleiðis farartækjum. Sá mjólkurbílstjóri var einmitt að sækja mjólkina í tankinn og því var ekkert í gangi hjá mjaltaþjóninum í fjósinu þá stund sem við stoppuðum. En við sáum hvernig kýrnar stóu í biðröð eftir því að komast í mjaltabásinn og fá eitthvað gott í leiðinni.


Heimsókninni lauk svo með því að Laufey gaf öllum einn íspinna, frábæra mjólkurafurð.

 

Img 1661

 

 

Dagur 18 – 23. febrúar.


Veður: Léttskýjað og éljagangur, -1°c og austan stinningskaldi. Nú er jörð alhvít og jafnvel skaflar sem nemendur nýta sér vel við snjóhúsagerð. Unnið var í vinnubók um nautgripi í innitímanum en þegar kom að útiskólanum og nemendur voru búnir að leika sér úti í frímínútum eftir hádegismat var mörgum orðið kalt. Eftir atkvæðagreiðslu með handauppréttingum var ákveðið að vinna í verkefnum innandyra að þessu sinni. Reyndar kom á daginn að það kom sér vel þar sem aðal umfjöllunin var um bolludag, sprengidag og öskudag en þessir dagar munu birtast okkur upp úr komandi helgi. Kennarinn las upp almennan fróðleik um þessa daga, hvernig þeir voru tilkomnir í okkar menningu og hvernig áherslur höfðu breyst í gegnum tíðina. Rætt var um tengsl trúarinnar við þessa daga áður fyrr og upphaf lönguföstu. Töldum 7 vikur að páskum og ræddum eitt og annað þessu tengt.


Að þessu loknu var athyglinni beint að ritgerðarverkefni sem nemendur óskuðu eftir að fá að gera og ákveðið var að vinna. Hver og einn einbeitti sér að sínum landnámsmanni og farið var í að leita heimilda um viðkomandi persónur. Þar er um að ræða Eirík rauða, Leif heppna, Naddodd, Þorgerði Egilsdóttur, Merlkorku, Gunnhildi drottningu og Ingólf Arnarson.


Img 1658

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 17 - 16. febrúar. Samskóladagur hjá 5. bekk og þrír nemendur 4. bekkjar tóku því létt á meðan. Enn helst fádæma veðurblíða og lautin því auð en smá klaki í jörðu. Í útiskóla var leikið í lautinni en 5. bekkur mætti í lautina um kl 13:40. Reynt var að reka betur niður skilti með bæjarnöfnum en það gekk ekki frekar en í fyrri tilraun vegna frosts í jörðinni.

 

Img 1656

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 16 -9. febrúar.

 

Fyrir hádegi: Vinnubók um húsdýrin. Eh: Þorrablót yngri nemenda. Foreldrum var boðið að koma og sátu þeir með nemendum sem voru búnir að æfa leikrit sem þeir léku á þorrablótinu.

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 15 - 2. febrúar.

 

Veður: Kaldi, 2°c, suð-vestan og léttskýjað.Farið yfir niðurstöður kannana f.h. og og kynnt nýtt verkefni í náttúrufræði „Húsdýrin“. Eftir hádegi var prýðilegt veður og nemendur höfðu óskað eftir því að fá að fara á skauta. Því var breytt út frá dagskrá um Þorra konung og orðið við því í dag. Ágætt svell var á fótboltavelli skólans og nokkrar stúlkur nýttu sér það vel. Ekki voru alveg allir tilbúnir til að fara á skauta. Forföll voru í hópnum vegna veikinda og einn féll úr lestinni vegna ósættis sem kom upp í hópnum og slæmra átaka. Viðkomandi nemandi hélt sig utan hóps eftir það.

 

Img 1650

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 14 - 26. jan.

 

Miðsvetrarmat f.h náttúrufræði. Enginn útiskóli eftir hádegi, kennarinn var á fundi trúnaðarmanna FG.

 

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

 

 

 

Dagur 13 – 19. Janúar

 

Heiðskýrt, -9°c, suð-vestanátt og andvari. Verkefni dagsins var að ganga um nágrenn skólans og rifja upp helstu örnefni á fjöllum, vötnum og bæjum. Horfðum á Stóradalsfjall en það nafn hafði alveg fallið í gleymskunar dá frá því á síðasta vetri. En nöfnin á tjörnunum mundu börnin og nöfn flestra þeirra bæja sem voru innan sjóndeildarhringsins.

Fljótlega tók þó málið aðra stefnu og umfjöllunin fór að snúast um ís á vötnum, því nemur fóru að tala um að nú hefði verið gaman að fara á skauta. Rætt var hvort óhhætt væri að fara út á ísinn sem kominn var, hvernig við gætum vitað hvort ísinn væri nógu sterkur og hvernig bregðast ætti við ef einhver færi niður um vök. Tveir nemendur töldu sig geta sagt til um hvernig hægt væri að meta þykkt íssins og útskýrðu það fyrir okkur hinum. Þeir töldu að þykktina mætti sjá á sprungum sem oft myndast í íshellunni. En ekki var hægt að greina neinar slíkar sprungur í ísnum á tjörnunum. Rætt var hvort Bæjartjörnin væri öll frosin og hvort Fiskilækurinn sem rennur úr tjörninni væri líka frosinn en við sáum að lækurinn sem rann í tjörnina hélt opnu svæði fyrir sig talsvert út. Greina mátti skemmtilegt mynstur þar sem lækurinn og frostið höfðu tekist á og lækurinn smátt og smátt látið í minni pokannn.

 

Nú má greinilega merkja vaxandi birtu þótt sólin sé talsvert fjarri enn þá hér við skólann. Náttúran hrein og falleg og nú tókum við eftir birkihríslu á hæð við nemendur á leið okkar við austur enda Bæjartjarnarinnar, hríslu sem vaxið hefur óáreitt á liðnum árum en litla athygli fengið vegna smæðar sinnar þar til nú.

 

Að þessari rannsóknarferð lokinn fengu nemendur leyfi til að fara í frjálsan leik í landnemabyggðum og var því haldið í átt að lautinni. Þó fór svo að svellbunki á leiksvæðinu fangaði athyglina áður en þangað var komið og þar endaði leikurinn. Hressandi og góður vetrar útiskóli.

 

Img 1648

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 12 - 12. jan. 2017

 

Nú var kalt úti og snjór, -8°c , kaldi, norðvestan og léttskýjað. Verkefni útiskólans eftir hádegi var gönguferð á nýja gámasvæðið. Þessi hugmynd kom frá einum nemenda og þótti full ástæða til að bregðast við henni. Strax í upphafi tímans fannst kennara sem nemendur sýndu hvorki honum né væntanlegu verkefni næga athygli og ræddi því sérstalega að nú væri hafin kennslustund og allir beðnir um að vera með á nótunum. Gangan sóttist seint því nemendur þurftu mikið og margt að spjalla sín á milli, tveir og þrír saman, sumir fóru sér hægt, litu við inn um glugga hjá björgunarsveitinni o.s.frv. Kennarinn ávítatið viðkomandi fyrir seinagang en þær ávítur féllu í grýttan jarðveg.

 

Er komið var á gámasvæðið var gengið á milli gáma, lesið á leiðbeiningarspjöld og rætt um þörfina fyrir svona gáma. Nemendum sýndist sitt hverjum um það mál, töldu þörf foreldra afar litla, flestum hverjum. Engu að síður var talsvert í gámunum og það þótti á vissan hátt forvitnilegt. Sumum fannst áhugavert að sjá gamlan sófa og höfðu fullan hug á að brölta upp í gáminn og nýta sér sófann en kennarinn harðbannaði það, og útskýrði fyrir nemendum að aldrei mætta fara upp í ruslagám. Þar gæti verið fyrir sitthvað sem ekki væri gott að nálgast. Sumum nemendum fannst þetta hart og höfðu orð á því hve skólinn væri leiðinlegur og strangur, þar mætti ekkert sem væri skemmtilegt og nemendur fengju aldrei að ráða neinu. Ekki gafst gott tækifæri til að ræða þetta stóra mál á svæðinu enda nemendum flestum orðið talsvert kalt, enn og aftur vantaði peysur, trefla og jafnvel vettlinga. Því var haldið heim í skóla og nú gekk ferðin mun hraðar og betur fyrir sig og öllum fannst gott að koma í hús.

 

Img 1647

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 11 – 5. janúar 2017

 

Veðurfræðingur las af veðurstöðinni og skráði suð-vestan átt, skýjað og rigningu, 8°c og allhvassan vind. Miklir pollar á svellum. Þetta var næst síðasti dagur jóla og því við hæfi að fjalla um álfa og huldufólk, nóg af svellum til að iðka álfadans. Þó var ákveðið að fara ekki út vegna þess að sumir nemendur höfðu ekki klæðnað fyrir útiveru og voru þá þegar orðnir blautir. Svo var mikill rosti í veðrinu og spáð leiðindum.

 

Fyrsta umfjöllunarefnið var um þrettándann og áramótin, kennarinn las um þjóðtrú tengda þessum tímamótum. Síðan var unnið í stofu við að rifja upp og skrifa hvað nemendur hefðu lært í útiskóla í vetur. Á meðan breyttist veðrið úti, hitastigið féll niður í tæpar 3°c og vindátt breyttist í suð-austur. Þetta sýndi glöggt hve hratt veður getur skipast í lofti, það sem var rigning var líka orðið að snjófjúki.

 

Skráningar nemenda:

 

Við lærðum um:

 

  • blóm og jurtir
  • moltu
  • víkingana
  • Goðafoss og goðin
  • snjó og vatnið á fjöllum
  • nöfn á gömlum húsum í gamla daga
  • veðurstöðina og að búa til veðurkort
  • landið okkar
  • vistheimt

Við mældum trén okkar og hvaða tegund þau væru

Lærðum tillitssemi og að vinna saman í hóp

Útbjuggum heimili

Bjuggum til skilti með bæjarnafni

Bökuðum lummur á nýja grillinu

Lærðum reglur í útiskóla (að muna eftir réttum fötum á morgnana fyrir útiskólann, að fara á salernið áður en lagt er af stað í útiskólann frá skólanum og að hlýða kennaranum og hlusta)

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 11 – 15. desember

 

Síðasti útiskólinn fyrir jól. Enn var auð jörð, veðurfræðingur skráði 4°c, kul, alskýjað og vestanátt. Þrátt fyrir góða tíð var ákveðið að vera inni í dag og horfa á jólamynd, Deck Halls, en einn nemandi lagði til þessa mynd.

 

Nemendur komu ser vel fyrir á mjúku undirlagi inni í stofunni sinni og svo var horft í mikilli ró. Óskaplega gott að kveðja svona útiskólann á árinu 2016.

 

Img 1643

 

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 10 – 8. desember

 

Veður: Alskýjað, norð-austan, 4°c og gola. Alauð jörð. Enn leikur veðrið við okkur, það hefur aðeins einu sinni komið snjór á jörðu og hann fór viku síðar. Enginn eiginlegur útiskóli var þessa viku því allir nemendur föndruðu fyrir jólin í útiskólatímanum. Í nnitímanum fræddust nemendur um íslennsku jólasveinana, lásu vísur Jóhannesar úr Kötlum og svörðuðu spurningum þar um en lituðu líka myndir af köppunum. Þetta finnst þeim skemmtilegt verkefni.

 

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 9 – 1. desember, fullveldisdagurinn.

 

Innitími: Veðurfræðingur tók veðrið; andvari, -2°c, snjólél og norðanátt. Umfjöllunarefni tímans var veturinn 1918 sem var harður vetur, frostaveturinn mikli, spænska veikin herjaði í nóvember svo þá dóu yfir 500 manns og Katla gaus 12. okt til 4. nóv. En þennan dag, 1. des 1918 fengu Íslendingar nýja fánann sinn og í gildi gengu lög þar sem Danakonungur viðurkenndi Ísland frjálst og fullvelda ríki. Þá voru landsmenn svo aumir vegna fyrr nefndra þátta að lítið var fagnað fyrr en þremur árum síðar.

 

Verkefni útiskólans var fyrst og fremst að taka fram nafnaplöturnar sem útbúnar voru í síðasta tíma og skrúfa fastar á prik sem síðan yrðu rekinn niður við heimilin. Þetta verk gekk vel í léttri snjókomu en einhvernveginn hrökk eitt prikið sem nota átti í sundur í leik drengjanna. Eigin tillaga þeirra var að skrúfa það bara saman aftur sem var gert í von um að það mundi halda. Þegar kom að sleggjuhöggunum kom í ljós að jörðin vildi ekki taka við prikunum líklega var of mikið frost í efsta lagi hennar. Skilja varð við merkingarnar í snjósköflum að þessu sinni.

 

Útiskólinn var í styttra lagi vegna þess að í síðasta tíma dagsins átti að bjóða á kaffihús í skólanum og það krafðist örlítils undirbúnings. Börnunum þótti það ekki gott að þurfa að fara fyrr inn því það var einmitt komið að mikilvægum þætti í leiknum, en honum var frestað þar til síðar, líklega verður ekki af þeim leik fyrr en á næsta ári.

 

Img 1638

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 8 – 24. nóvember

 

Dansvika, engin náttúrufræði f.h.

Veðurfræðingur e.h: Sunnan átt, lítilsháttar rigning, hiti 8°c, kul.

Verkefni dagsins: Skiltagerð, merking á heimilum í útiskólanum. Nemendur byrjuðu á að koma sér saman um nöfn sinna búgarða, þeir sem ekki voru þegar komnir að niðurstöðu. Hlíðarendi er heimili Tómasar Karls, Eyþórs og Björns Rúnars. Melur er heimili Grete og Katrínar Aspar. Stóruvellir er heimili Eyhildar, Tinnu Daggar og Arndísar Bjarkar. Nemendur fengu tíma til að koma sér saman um nafn sem örugglega allir voru sammála um innan hópsins og síðan var hafist handa við að gera uppkast af skiltinu áður en skrifað var beint á spítu.

 

Afraksturinn var góður, allir unnu að þessu í sátt og samlyndi þó aðeins hafi þurft málamiðlanir í einstöku tilfellum.

 

Img1632

 

Ekkert skólahald né útiskóli 17. nóvember vegna óveðurs

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 7 – 10 nóv. 2016

 

Veður: Suðvestan andvari, 4°c og heiskírt. Enn er alauð jörð. Fræðsla um landnema í algeymingi og landnámsleikur í útiskóla. Síðustu mælingar á trjám og jarðfræðiumræður. Þó byrjaði útiskólinn í lautinni þar sem nemendur og kennari settust í melónu og ræddu margendurtekið efni. Klæðnaður í útiskóla. Nú þegar nemendur eru búnir að vera allt að 4 og 5 ár í útiskóla þarf enn að rexa í klæðnaði, sumir eru tregir til að fara í peysur af því að eftir útifrímínúturnar var þeim heitt aftir hlaup í fótbolta. Kennarinn sá ástæðu til að benda á breytileika íslenskrar veðráttu, að allir verða að gera ráð fyrir breyttu hitastigi í langri útiveru eins og t.d. gangnafólk og björgunarsveitarfólk. Það skildu allir en áttu samt erfitt með að kyngja því að ástæða væri til að fara í peysu þegar þeim var heitt. Þrátt fyrir gott veður í tíma útiskólans var sumum farið að kólna er leið á og fundu þá á eigin skinni að betra var að klæða sig vel.

 

Img1626

 

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 6 – 3. nóvember

 

Veður: Andvari úr norð-austri, 4°c og lítilsháttar súld. Verkefni: Mælingar á hæð nemenda inni og mælingar á hæð trjánna úti.

 

Veður var blítt og gott þótt örlítil væta hafi verið í lofti. Vel gekk að vinna verkefnin úti, við fundum öll trén , nemendur merktu tréin sín, bundu myndirnar af sér á þau með teygju til að fara betur með trén. Síðan mældu allir hæð trjánna samviskusamlega en tvö tré voru svo há að engin ráð voru til að ná toppmælingu. Þá voru teknar ágiskana mælingar miðað við hlutföll og fleira.

 

Img 1621

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 5 – 27. október

 

Í innitíma skráði veðurfræðingur stinngingskalda úr vestri, 4°c og léttskýjað. Enn er alauð jörð, hefur ekki fallið snjókorn allt haustið. Í innitíma brá kennarinn málbandi á nemendur og mældi hæð þeirra þetta haustið. Áttum viðmið síðan 2014 og svo sýndis sem sumir nemendur höfðu hækkað um allt að 12 cm á tveimur árum.

Þegar komið var í lautina fór kennarinn að undirbúa afmælisveislu á meðan nemendur skelltu sér í landnemaleik, en hann átti einmitt afmæli í dag. Svo fengu allir kakó og kex. Kalt var úti en allir nutu virklega góðs af trjánum á svæðinu, fengu verulegt skjól og eins var gott að hafa Álfaborg til að athafna sig. Nemendur völdu sjálfir að sitja frekar úti en þar inn með kakóið sitt. Kennarinn fékkk fínan afmælissöng áður en staðið var upp að lokinni samveru.

Að því búnu fóru flestir aftur í leik en einnig stóð til að mæla vöxt trjánna frá í fyrra og hófst leitin að trjánum sem við ætluðum að mæla. Mældum eitt tré, annað fannst ekki og frekari mælingum frestað.

 

Img 1619

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 4 – 20. október

 

Loks eftir tveggja vikna hlé sem stafaði af óviðráðanlegum persónulegum högum kennarans var komið að útiskóla. Nemendum þótti orðin löng biðin eftir því að fá að elda á nýja útigrillinu sem útbúið var í september.

Þar sem veður helst enn með afbrigðum gott var því ákveðið að aðalverkefni dagsins yrði að baka lummur. Reyndar var talsverður vindur þennan dag og ekki alveg hagstæð skilyrði til útieldunar. Nemendur fylgdust áhugasamir með handbrögðum kennarans sem notaði nýja tækni við að kynda upp í kolum. Síðan var lönguninn í frjálsa leikinn öðru yfirsterkari og nemendur hurfu í sinn landnemaheim á meðan að pannan var að hitna.

Loks var komið að því að hræra upp í deginu og setja lummur á pönnuna en vegna veðuraðstæðna hafði kennarinn degið meðferðis. Það blés hressilega og jafnvel sykurinn vildi fjúka til á lummunum þegar kom að því að gleypa þær í sig. Reyndar voru börnin misgráðug í lummurnar en allir fengu eina og sumir tvær. Þá var tíminn á enda og hlaupið inn á þjóðfund í skólanum.

 

Img 1616

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 3 – 29 - september

 

Innitími fh, skoðuðum myndir í tölvu, ræddum um sameiginlega birkitréð í lautinni, en ekki vissu allir af því tré. Skoðuðum breytingar á gróðri á litla mel-hólnum við Álfaborgina og rýndum í gamlar útiskólamyndir sem og nýjar. Góð upprifjun á fyrri verkefnum útiskólans.

 

Útiskólahópurinn fór svo niður í laut þar sem kennarinn sýndi þeim umrætt tré og mel-hólinn. Svo tók við landnámsleikur, loksins komust nemendur í að leika sér á sínum heimilum enda var voru þau léttstíg í mónum og mjög upptekin.

Á meðan hreinsaði kennarinn gamlat skraut úr sameiginlega trénu en fyri rnokkrum árum var það eitt af verkefnum nemenda og koma með eitthvað fallegt og festa í tréð. Nú er kominn tími til að sýna því annarskonar umhyggju, munum ræða það síðar.

 

Img 1610

 

Hópur 2 Kennari: sigrún

Dagur 2 – 22. September

 

Góður haust-útiskóli. Í innitímanum f.h. fórum við öll á fund með hópi 1 og kennara hans til að ræða góð gildi í starfi og leik í útiskólalautinni og umhverfi hennar. Talsvert var rætt um að nú þyrftu hóparnir að sýna hvorum öðrum tillitssemi þegar kæmi að því að helga sér land og ákveða búsvæði. Sæst var á þrjár megin reglur fyrir útiskólanemendur.

 

 

 

 

 

 

  • Muna eftir útiskólanum þegar farið er að heiman að morgni útiskóladagsins og taka með réttan skjólfatnað.
  • Fara á snyrtinguna áður en haldið er af stað út í verkefnin.
  • Hlýða kennaranum.

 

Veðurfræðingur skráði ágætisveður, léttskýjað, 12°c og stinningsgolu. Fyrsta verkefnið e.h. var síðan að ganga að vistheimtarmelnum, um 10 mín. gangur, en nemendur í 5. – 7. bekk unnu þar um daginn undir stjórn Rannveigar Magnúsdóttur frá Landvernd við að koma fyrir nokkrum gerðum jarðefna. Tilgangurinn var að rannsaka hvað hentaði best til uppgræðslu, moð, molta, hrossatað, fræ eða fræ og áburður. Eitt og annað athyglisvert sáum við á leiðinni, og mesta athygli vöktu stórar vinnuvélar sem voru að störfum rétt við melinn, en þar er verið að koma upp góðu gámasvæði fyrir Þingeyjarsveit. Fyrir nemendur sem unnið hafa í anda grænfánans í skólanum er þetta ánægjulegt og taktar við grænfánastarfið. Á leið okkar varð líka mjög svo grasivaxið svæði, punturinn náði börnunum vel í axlir. Fimmtu bekkingar gátu svo með stolti sýnt fjórðu bekkingum afrakstur vistheimtar vinnunnar um daginn og þeir útskýrðu hvað fólst í reitunum. Aðeins þurfti að lagfæra veifur og annað smálegt.

 

Svo héldum við aftur til baka og í útiskólalautina. Nú var komið að því að finna búsvæði. Hóparnir þrír áttu ekki í miklum vandræðum með það, samkomulag var gott og ágreiningur síðasta útiskóla úr sögunni. Fljótlega voru allir orðnir mjög uppteknir við sín svæði. Aðeins á eftir að ganga frá nöfnum bæjanna og hópanna, það bíður betri tíma.

 

Img 1608

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 2 – 15. september

 

Í innitíma var dreginn út veðurfræðingur dagsins eins og síðast og í ljós kom að úti var hið besta veður, léttskýjað, andvari og 12°c. Lesið var í bókinni Komdu og skoðaðu landnámið, þar sem fjallað er um tilurð eyjunnar okkar og hvernig fyrsti gróðurinn er talinn hafa borist til landsins.

 

Er út var komið var byrjað á því að fá aðstoð frá hóp 3 við að bera út nýsmíðaðan moltukassa, en hann hafði verið smíðaður á síðasta skólaári og geymdur inni í bílskúr. Eftir það var haldið í lautina, sest í melónu og spjallað um væntingar kennarans til hópsins í vetur og að kennarinn vill að nemendur virði ákveðnar samskipta- og verkreglur.

Síðan var fyrsta verk að ganga á milli trjánna og hver nemandi fann sitt tré, skoðaði hvort vel færi um það og kennarinn tók mynd af viðkomandi. Er þessu var lokið fengu nemendur að fara í hópana sína en þeir verða í þrem hópum í vetur. Strax var farið að huga að landnámi. Þar sem hópur 1 er í samskonar leik á svæðinu var ákveðið að bíða með að festa sér land, gera það í samráði við hinn hópinn. Sú ákvörðun féll ekki vel að skoðunum allra, einstaka nemandi var mjög harður á því að fá að hafa sitt svæði frá síðasta ári án tillits til þess að nú eru önnur börn í hópnum og hugsanlega gæti landnámið skarast við yngri nemendahópinn í útiskólanum.

 

Tíminn leið hratt og fyrr en varði var útiskólanum lokið þennan daginn.

 

Img 1604

 

Hópur 2 kennari: Sigrún

Dagur 1 - 8. september

 

Ekkert farið út vegna veðurs, mikil rigning og vindur. Unnið var í verkefnablöðum um jurtir og nýjum nemendum kennt á veðurstöðina.