Dagbók útiskóla 2017-2018

Dagur 27 – 17. maí

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Veður var gott, um 12°c, hálfskýjað og stundum smá vindkviður úr suðri. Náttúrufræðipróf í fyrsta tíma e.h. Síðan var farið út á síðasta degi útiskólans og haldið í gönguferð um hólana. Héldum svo til á Tanganum og þar nutu nemendur sín við leiki og náttúruskoðun. En kennarinn fékk til sín einn árgang í einu og lagði fyrir hann eftirfarandi spurningalista:

 

1. Hvað er það besta við útiskólann?

2. Hvað er það versta við útiskólann?

3. Hvað er skemmtilegast að gera í útiskóla?

4. Hvað hefurðu lært í útiskóla í vetur?

5. Er eitthvað sem þú saknar að hafa ekki gert í vetur?

6. Hvernig veður er í dag? (Hvaða merki myndir þú setja á veðurkortið?)

 

Í svörum nemenda kom fram ýmislegt jákvætt. 6. bekkur sagði það besta við útiskólann að geta leikið sér, að læra um tré og einn nefndi það að fá að vera úti. Ein stúka sagði þó að hún hefði ekki vilja vera í útiskóla í vetur. En það versta var að vera úti í vondu veðri. Það skemmtilegasta var að fá eitthvað gott að borða og páskaeggjaleitin. Flest töldu sig hafa lært mest um tré, landnámið, fugla, blómin og fl. í náttúrunni og ein stúlka sem aðeins hefur verið í tvo vetur sagðist ekkert hafa vitað þegar hún kom í skólann fyrst. Helst söknuðu þau einhverra verkefna sem stundum hafa tengst vorþemaviku, ratleik, eggjaleit og að fá eitthvað gott.

Svör 5. bekkjar voru á mjög líkum nótum, en í svari við spurningu 3 mátti greina að sú óánægja sem var í hópum og ágreiningur á milli hópa í vetur var til leiðinda. Þau nefndu að gaman hefði verið að búa til tréhús.

Fjórði bekkur var ánægður með víkingaleikinn en óánægður með fuglaskoðun (sumir). Drengirnir töldu sig hafa lært að klæða sig betur og eitt og annað um víkingana. Þeir söknuðu gæsaeggjaleitar og veiða.

Greinilegt er að leikurinn er það sem þau öll meta mest og best.

En allir voru glaðir með þennan útiskóladag og góða veðrið.

 

Img1779

 

 

 

 

Dagur 26 – 3. maí

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Bjart veður og sólríkt en svalt, suð-vestan stinningkaldi, 4°c og léttskýjajð. Jörð að mestu auð, smá skaflar enn á milli trjánna og í djúpum lautum.

 

Verkefni dagsinsn var að fara í gegnum fuglaskráningu frá í síðustu viku, bjóða svo þeim sem hefðu áhuga að fara aftur en að öðru leyti víkingaleikur. Vegna erfiðra samskipta í hópnum undanfarið ákvað kennarinn að sleppa öllum föstum hópaskiptum, leyfa nemendum að hafa flæði að eigin vali.

Úr varð að 3 drengir völdu áframhaldandi fuglaskoðun og hinir fóru í leikinn en hópurinn skiptist hreint á milli kynja. Engu að síður léku börnin saman og léku sér af krafti, mikill hernaður og mikil hlaup, köll og hlátur.

 

Img1770

 

 

Dagur 25 – 26.apríl

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Veður fremur svalt, 4°c, norðan kul og alskýjað. Jörðin er þó auð að mestu leyti.

Að venju var haldið út eftir innifræðslu sem fjallaði um gróður vorsins og kviknandi líf á vorin, bæði brumið á trjánum og smádýr í grassverðinum en einnig um ferðir landnemana á sínum tíma og þeirra verslunarhætti. Að beiðni nemenda sjálfra var farið af stað í fuglaskoðun og talningu. Mikill meirihluti nemenda höfðu hug á þessu sem kom kennara skemmtilega á óvart. Því var lagt af stað í þrem hópum eftir leiðbeiningar kennara og upprifjun á því hvernig mundi vera æskilegast að bera sig að. Nemendur fengu 30 mín. í þetta verkefni og kom í ljós að all-margar fuglategundir eru mættar á svæðið. Mest áberandi voru gæsir en einnig voru endur, álftir, lóur, hrossagaukar og stelkar. Lítið fór fyrir þröstunum þennan daginn en þeir hafa þó verið áberandi undanfarið.

 

Að þessu loknu var aftur lagt af stað í næsta verkefni sem var að rannaska brum, sem er níyrði í munni nemenda. Nú var farið í lautina góðu og sjá, melónusætin voru öll komin undan snjó og allt þurrt í kring. Kennarinn fór fram á að allir byrjuðu í melónu áður en brum-rannsóknin hæfist en eftir það yrði frjáls leikur. Hins vegar var hlaupin þvermóðska í eina stúlkuna sem þráaðist við, var svo þreytt eftir gönguna í fuglaskoðun að hún treysti sér ekki til að sitja upprétt. Kennarinn þráaðist líka við og eftir talsverða bið voru allir komnir í upprétta stellingu svo hægt var að byrja umræður og skoðun en þá var líka tíminn að renna út svo nemendur fengu að fara heim með því skilyrði þó að hafa fyrst skoðað brum. Hópurinn varð því af leiknum.

 

Img1768

 

 

 

Dagur 24 – 12.apríl

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Vor í lofti, þrestirnir mættir á svæðið og veðurfræðingur skráði 16°c, logn og skýjað.

Til stóð að hafa það fyrir fyrsta verkefni að heimsækja sólúrið og skoða hvernig sólin sendi skuggann af stóra vísinum, en þar sem loft var skýjað varð ekkert af þessu.

Þegar við komum út byrjuðum við á að fara í smíðastofuna og sækja skiltin sem lokið var við síðast. Svo var haldið beina leið í lautina. Þar var talsverður snjór, melónuhringurinn á bólakafi og skaflar á búsvæðum. Engu að síður bundu hóparnir sín skilti í tré við bústaðina og svo upphófst landnemaleikur loksins eftir langan vetur.

 

Kennarinn fór aftur að svipast um eftir páskaegginu litla sem týndist í mónum rétt fyrir páska og eggið fannst. Það lá á þúfu en einhverjir höfðu orðið á undan að finna góðgætið. Búið var að fletta mjög snyrtilega sundur silfurpappírnum frá öðrum enda eggsins og svo voru þessi fínu tannaför inn að miðju eggi. Ekki hafði náðst að ljúka því og málshátturinn lá til hliðar, hafði ekki einu sinni verið lesinn. Gleði eigandans varð því skammvinn, enga lyst hafði hann úr því svona var komið.

Í lok tímans voru allir búnir að fá góða útrás fyrir hreyfingu, hróp og köll.

 

Img1764

 

 

Dagur 23 – 5.apríl

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Fallegt veður, 6°c, andvari, léttskýjað. Eftir langa frásögn kennarans um líf, ættir og ferðir Auðar djúpúðgu og fleiri, rannsóknir á Íslandskorti og umræður um líf og aðstæður landnámsmanna var farið út í smíðastofu. Allur 4. bekkur var í fræðslu hjá Ingibjörgu hjúkrunarfræðingi á sama tíma en gátu orðið samferða út.

Verkefnið var að ljúka við að útbúa bæjarskilti með fornstöfum. Skiltin verða sett við bústaði nemenda í lautinni. Verkið gekk á heildina litið mjög vel og allir þrír hóparnir luku við sitt skilti.

 

Img 1763

 

Dagur 22 - 22. mars.

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Stuttur útiskóli því æfingar fyrir árshátíð voru í algleymi. Náðum samt einni kennslustund. Kennarinn minnti nemendur á vorjafndægri og útskýrði fyrir þá sem ekki mundu alveg hvað það var. Síðan var haldið í lautina í góðu veðri í páskaeggjaleit. Allir fundu sitt egg en einum tókst að týna sínu aftur. Hann lék sér að því að henda því eins og langt og hann gat og sækja aftur en svo kom að því að eggið fannst alls ekki aftur.

Img 1762

 

 

Dagur 21 – 8. mars

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Veður: Snjókoma, -2°c, kul, breytileg átt.

Mikil forföll voru í nemendahópnum og úti var mokandi snjókoma sem bætti vel á botnlausan snjó eftir snjókomu undanfarinna daga. Samkvæmt áætlun átti að vinna með ljós og skugga en veðrið hentaði enganvegin. Því var unnið inni í náttúrufræði og samfélagsfræði. Lesið og rætt um víkingana en í náttúrufræðinni rifjaði kennarinn upp þátt um virkjunarframkvæmdir í Svartá í Bárðardal, „Eigi skal höggva“ en sá þáttur var í ríkissjónvarpinu kvöldið áður. Þannig tengdist umræðan orkuþema skólans, þörfinni fyrir rafmagn og vatnsaflsvirkjanir og kosti þeirra sem umhverfisvæna orku. Hvað réttast eða best væri að gera við val á ám til virkjunarframkvæmda. Í og við Svartá er einstakt náttúrulíf, silungur, húsendur og fleiri tegundir. Að auki er náttúran við ána fjölbreitt, fossar og flúðir, stuðlaberg og fallegur gróður. Til samanburðar var rætt um áætlaðar framkvæmdir við Hólsvirkjun í Fnjóskadal en þar er fátt af fyrrgreindu til staðar.

 

 

 

Dagur 20 - 1. mars

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Verkefni dagsins. Rannsóknarvinna við vörðuna og að gefa fuglunum. Heimsókn í lautina.

 

Þegar nemendur komu inn úr útifrímínútum kvörtuðu sumir um kulda og báru sig aumlega gagnvart útiskóla. Því var brugðið út af kennsluefni og farið í að lesa dagbók útiskólans frá hausti. Það var lesefni sem varaði í eina og hálfa kennslustund en allir sátu og hlustuðu vel. Síðan var farið í smá breytingar á áætlun og skipulagi vetrarins en nemendur báðu um að fá álfadansleikinn sem ekki varð af eftir þrettándann og eins að fara að leika aftur í búunum í lautinni. Ef ekki bætir í snjóinn verður það vel framkvæmanlegt og kennarinn setti þetta á dagskrá.

 

Samkvæmt skráningu veðurfræðings var ágætis veður, 1°c, andvari úr norðri og léttskýjað. Ekki var farið út fyrr en í síðustu kennslustund og þá voru aðeins 10 nemendur eftir, tveir farnir á fótboltaæfingu og tveir veikir. Rétt þegar haldið var af stað frá húsinu lentu tveir í samstuði og fengu höfuðhögg. Nokkuð slæmt og hvorugur búinn að jafna sig að fullu í lok tímans. Ekki var mælanleg úrkoma í úrkomumælinum, rétt snjóföl í botninum. Gosflaskan alveg ófrosin en komið ca 2 cm þykkt frostlag í vatnsflöskuna. Vatnsborðið hafði jafnframt hækkað um ca 1 cm.

 

Þar sem jarðvegur er viðkvæmur eftir svonan hlýtt tímabil eins og undanfarið fannst kennara ástæða til að ræða við nemendur að valda ekki óþarfa hnjaski, ekki henda burt grjótinu eða breyta vörðunni, heldur leyfa öllu að vera sem mest óhreyfðu.

 

Er þarna var komið var bara aftir að gefa fuglunum. Völdum svæði rétt við trén þar hjá og þar sem var gott að gefa á hjarnið. Loks fengu allir einkunn, flestir góða en einn fékk mjög slaka einkunn. Orsökin var sú að enn hafa sumir þá áráttu að sleppa nauðsynlegum klæðnaði, viðkomandi vildi fara án hlýfðarbuxna en kennarinn aftók það með öllu, enda voru buxurnar tiltækar. Þetta þótti viðkomandi barni grábölvað og lét það í ljós með ófögrum munnsöfnuði og reiðilátum.

Ekki ásættanleg hegðun í útiskóla.

 

Img1753

 

 

Dagur 19 22. febrúar

Hópur 2 - Kennari: Sigrún

 

Verkefni dagsins: Dýr í felulitum. Nemendur voru beðnir um að reyna að klæðast fatnaði sem þau héldu að gæti runnið saman við umhverfið. Þessi dagur reyndist vera óvenjulegur að því leyti að allar stúlkur í hópnum voru í tónlistarverkefni og sjónvarpsupptöku hjá N-4 á útiskólatíma. Því var unnið aðeins lengur inni en annars hefði verið og síðan fóru út þeir drengir sem eftir voru þegar tveir voru farnir á fótboltaæfingu. Þetta var því fámennur hópur og auk þess höfðu sumir gleymt að hugsa út í klæðnað í felulitum.

 

Þegar út var komið skall á okkur bálhvass sunnan vindur, frekar óvænt. Byrjað var á að huga að rannsóknarvörðunni. Þar var ekki margt fréttnæmt, allt var þó á sínum stað nema snjóhöglin sem sett voru í vörðuna. Greinilega höfðu þau bráðnað og þar sem ekkert hafði frosið alla vikuna voru flöskurnar í sama horfi, en aðeinsn hafði rignt. Í úrkomumælinum voru um 20 mg af vatni. Það var losað úr og mælinum komið fyrir á nýjan leik.

 

Að þessu loknu hófst feluleikur, ekki eltingaleikur. Allir nema einn skrautlegur hlupu í felur og reyndu að láta sig hverfa í landslaginu, en það var bæði hvítt og brúnt og að auki voru nokkrir fleiri litatónar náttúrunnar. Í fyrstu tilraun flöskuðu flestir á að vera ekki nógu kjurrir, hin minsta hreyfing sást strax. Svo reyndum við aftur en þá komu stelpurnar og skelltu sér í leikinn. Það olli margþættum misskilningi, sumir vissu ekki hverjir voru að leita og hverjir voru í felum. Sennilega verður þessi tilraun endurtekin síðar því tíminn rann frá okkur.

Engin einkunnagjöf þennan daginn, ekki marktæk frammistaða.

 

Img 1750

 

 

Dagur 18 -15. febrúar

Hópur 2 - Kennari: Sigrún

 

Verkefni dagsisn: Veðurfræðingur. Leita eftir ummerkjum um íslist í útiskóla og ræða orkuna í ísnum, hvað þarf til að sprengja flöskur og berg. Útbúa úrkomumæli í útiskólanum og koma honum fyrir.

Veðurfræðingur komst að niðurstöðu og skráði 2°c, örlitla blauta úrkomu, alskýjað og norð-austan andvara. Fínasta útiskólaveður. Áður en haldið var út ræddum við saman og lásum í Náttúran allan ársins hring. Þar var m.a. verið að útskýra mismunandi tegundir úrkomu, hvernig hagl yrði til og fleira. Ákveðið var að kanna kraftinn í frostinu og hefja úrkomumælingar.

 

Þegar út var komið höfðum við meðferðis gosflösku með vatni sem náði nokkuð hátt og líka aðra óopnaða. Kennarinn útbjó því næst úrkomumæli úr stórri gosflösku og nemendur fylgdust með en bjuggu jafnframt til snjókúlur sem líktust mjög stórum haglkornum. Síðan héldum við á mel í grenndinni en þar er lítil varða, alveg upplögð fyrir okkur. Við komum úrkomumælinum þar fyrir og lögðum grjót að svo hann gæti ekki fokið. Síðan fór flaskan með vatninu á annan stað og loks fulla gosflaskan á þriðja staðinn. Að lokum settu nemendur haglkúlur víðsvegar í vörðuna og lokuð á. Í næsta útiskóla verður forvitnilegt að sjá hvort eitthvað hafi gerst í vörðunni.

Eftir þessar framkvæmdir fengu nemendur að leika sér í snjóbrekkunum við Garðabolla, alltaf gaman að renna, velta og fara í heljarstökk enda hreyfiþörfin mikil.

Að lokum fékk hver nemandi einkunn og þeim fer fram á heildina litið.

 

Img1749

 

 

 

Dagur 17 -1. febrúar

Hópur 2 - Kennari: Sigrún

 

Eftir innitíma í samfélagsfræðinni þar sem unnið var í bók um Víkingaöldina og fornleyfarannsóknir var haldið út. Enn hafði bætt á snjóinn en haldið var áfram með verkefni tengt náttúrufræðinni, Náttúran allan ársins hring, en þar var verið að fjalla um snókornin og gerð þeirra.

 

Farið var út með svarta platta og stækkunargler, nemendum skipt í tveggja manna rannsóknarhópa sem áttu að skoða snjókornin með stækkunarglerinu og reyna að sjá kristalla og stjörnur.

Nemendur voru venju fremur prúðir, á meðan sumir voru að rannsaka snjókorn fóru aðrir með mælistiku að kanna hvort bætt hefði á snjóinn. En þrátt fyrir mikla úrkomu sólarhringinn áður hafði snjórinn lítið breyst, sennilega hafði sjatnað í sköflum áður og síðan blásið líka.

Í lok tímans fengu allir einkunn og flest allir náðu að bæta sig frá fyrri tíma.

 

Img 1741

 

 

Dagur 16 -25. jan.

Hópur 2 - Kennari: Sigrún

 

Farið var yfir niðurstöður miðsvetrarkannana og áður en kom að útiskóla var dreginn veðurfræðingur eftir langt hlé. Veðrið reyndist ágætt, -2°c, andvari úr norð-vestri og léttskýjað.

Haldið út í útiskóla með nýtt skráningarblað yfir allskyns mælingar og talningar og annað fyrir einkunnargjöf fyrir hegðun og vinnusemi í útiverkefnum. Það hefur gengið illa í vetur að halda athygli nemenda við viðfangsefni svo nú reynir kennarinn að festa betur niður ýmsar upplýsingar. Nemendum var tjáð að ef útiskólinn nýttist ekki nógu vel og skilaði of litlu í náminu yrði annað hvort að verða bót á ella færðist kennslan inn. Þessu tóku nemendur ekki illa, engar mótbárur. Nú átti að gera mælingar á snjósköflum, því mikið óveður gekk yfir á síðasta sólarhring. Mældum ruðninginn á bílastæðinu, 3,15 metra háann og svo fóru tveir nemendur og mældu það sem uppúr stóð af hliðinu í lautina. Það reyndust vera 120 sm.

Meira var ekki gert markvisst, tíminn var að öðru leiti nýttur í sjálfsprottna leiki og ærsl. Ekki samkvæmt áætlun kennarans.

 

Að lokum fengu allir einkunn, Á, G eða S og voru nemendur sjálfir með í ráðum.

 

Img 1738

 

 

 

Dagur 15 -18. janúar.

Hópur 2 - Kennari: Sigrún

 

Prófavika og upprifjun á námsefni fyrir próf. Próf í samfélagsfræði e.h. svo tónfræðitími hjá Mariku.

Í síðasta tíma stóð til að fara í vettvangsferð um nágrennið og rifja upp örnefni. Vettvangsferðin varð mjög stutt, einungis var farið í lautina en síðan kom í ljós að einn nemandi fylgdi ekki hópnum, lagðist niður þar sem hann var svo það var bara tvennt til ráða, að hópurinn færði sig að þeim sem eftir lá eða þessi eini yrði færður til . Fyrri hugmyndin kom til framkvæmda og heldur var dauflegt yfir mannskapnum í þessum útiskóla. Fátt hægt að gera.

 

 

Dagur 14 - 11. jan

 

Enginn eiginlegur útiskóli. Undirbúningur fyrir miðsvetrarkannanir. Upprifjun á verkefnum vetrarins, skráðar upplýsingar um landnámspersónur.

 

 

Dagur 13 - 4. jan. 2018

Hópur 2 - Kennari: Sigrún

 

Fyrsti útiskólinn á nýju ári á fyrsta skóladegi. Það þurfti því margt að ræða og rifja upp. Veðurstöðin var óvirk svo enginn veðurfræðingur var þennan daginn en veðrið var stillt og bjart, ca -8°c . Talsvert hafði snjóað í fríinu. Til stóð að slá upp þrettándaballi en salurinn var lokaður eftir lakkmeðferð svo ballið varð að bíða til betri tíma.

 

Byrjað var á því í tímanum að ræða áramótin og þrettándann og lagði kennarinn fram nokkur áramóta- og þrettándaljóð. Leitað var eftir því hvort finna mætti einhvern samnefnara í ljóðunum og eftir talsverðar vangaveltur og tilgátur fundum við út að í öllum ljóðum var fjallað um álfa með einum og öðrum hætti. Reyndar voru þarna tveir áramótasálmar líka sem fjölluðu ekki um álfa, heldur nýárssólina og tímamótin með þeim minningum og áföngum sem þeim fylgja. „Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, nú gengin er sérhver þess gleði og þraut, það gjörvallt er runnið á eilífðar braut, en minning þess víst skal þó vaka“ segir í öðru ljóðinu og hitt byrjar svo: „Hvað boðar nýárs blessuð sól? Hún boðar náttúrunnar jól, hún flytur líf og líknarráð, hún ljómar heit af Drottins náð“. Að lokum sungum við aðeins til að kveikja á lögunum áður en haldið var út.

 

Meðferðis var mælistika svo hægt væri að framkvæma snjódýptarmælingar. Héldum í átt að lautinni og fremsti maður hverju sinni rak niður stikuna með ákveðnu millibili til að mæla. Leiðin var alveg ósporuð svo ekkert var til að trufla. Dýptin reyndist mjög misjöfn, allt frá 10 cm í 68 cm. Talsverður skafl var við álfaborgina. Að öðru leyti fengu nemendur að leika sér í snjónum, enda útivistin aðeins um ein kennslustund. Þrátt fyrir kulda létu sumir sig hafa það að láta grafa sig í snjó á meðan aðrir tóku heljarstökk eða reyndu að renna sér á rassinum.

 

Img 1733

 

 

 

Dagur 12

14. des Kennari: Sigrún

 

Dansvika og síðasti útiskóli ársins.

Verkefni: Veðurfræðingur, vinna í verkefnabókum og eftirlitshópar og hreinsun á endurvinnsludóti. Er á hólminn var komið langaði nemendur heil ósköp til að fá að horfa á elstu nemendur í danstíma. Því varð það úr að eftir að hafa unnið í verkefnabókum fyrr um morguninn fengu nemendur að horfa á hálfan danstíma með því skilyrði að þeir sýndu dugnað í eftirlitshópum við endurvinnsludótið á eftir. Þetta gekk eftir. Það var mikil vinna að fara með skipulögðum hætti um allt húsið og safna pappír og plasti úr endurvinnsludöllum. Fara þurfti í allar kennslustofur, vinnustofur, sal og kaffistofu, tónlistarstofur, bókasafn, sérkennsluherbergi, eldhús og leikskóla. Mikið féll til af bylgjupappa í eldhúsi og bókasafni svo hver nemandi fór klyfjaður út í endurvinnslugám að vinnu lokinni.

Enginn veðurfræðingur þennan daginn.

Þá tók við dans, síðasti danstími dagsins. Flestir taka þátt með glöðu geði en einstaka nemandi þarf að stíga verulega út fyrir þægindarammann.

 

Img 1730

 

 

Dagur 11

7. des. Kennari: Sigrún

 

Verkefni dagsins: Verkefnabók um jólin fyrr og nú og að saga út skilti fyrir bæjarmerkingar. Einnig að merkja fyrir bæjarnöfnum með fornletri.

 

Eftir verkefni í stofu þar sem nemendur meðal annars gengu frá skyssum af bæjarnöfnum sínum með fornletri, var farið í smíðastofu þar sem nemendur bjuggu til skilti fyrir bæjarmerkingar í útiskóla. Þeir þurftu að saga út með handafli og gekk það að mestu vel en þó voru börnin mjög mis atkvæðamikil við verkið. Sumum og þá sérstaklega sumum stelpum, fannst þetta erfitt verk og ekki áhugavert á meðan aðrir unnu mjög vel. En það hafðist að mestu að saga og merkja fyrir stöfunum en enn er eftir að bora fyrir bandi til að hengja upp. Síðar munu þau saga niður greinastubba og líma eða skrúfa á spjöldin.

 

Img1725

 

30. nóv. Kennarinn í frí, nemendur horfðu á mynd.

23. nóvember. Enginnn skóli eftir hádegis vegna óveðurs.

 

Dagur 10

16. nóvember Kennari: Sigrún

Dagur íslenskrar tungu. Veðurfræðingur skráði veðrið, vestan golu, 0°c og hálfskýjað. Því næst hófust rannsóknir og skoðanir á fornu letri og nemendur gerðu uppkast að bæjarnöfnum.

 

Í Wikipedia segir svo: „Elsta rúnastafrófið sem nefnt er eldri rúnaröðin eða fuþark hið eldra samanstóð af 24 táknum og samsvöruðu þau sennilega nokkurn veginn hljóðkerfi“.

 

Einnig segir þar: „Yngri rúnaröð, efri röðin svo nefnd danska rúnaröðin, neðri norsk-sænska. Norðurgermönsk mál, þar á meðal norræn, tóku miklum breytingum á 6. og 7. öld og um 700 var eldri rúnaröðin einfölduð á þann hátt að táknum var fækkað úr 24 í 16. Þessi nýja rúnaröð, sem nefnd er yngri rúnaröð eða fuþark hið yngra, kemur í notkun nánast samtímis í Svíþjóð, Danmörku og Noregi svo það er engu líkara en að Norðurlöndin hafi gert með sér samning um að taka upp nýtt letur.“

 

Að þessum rannsóknum loknum var farið í aðalverkefni dagsins sem var æfing á Gunnarshólma fyrir menningarstund á eftir. Nemendur hafa æft nokkuð vel og margir kunna sinn hluta alveg utan að eða fast að því.

 

Img1717 (144431, 144519, 144606, 144655 og 144906)

 

 

 

Dagur 9

9. nóvember Kennari: Sigrún

 

Veður: 0°c, vestan gola og léttskýjað. Talsverður tími fór í undirbúning fyrir híbýlamerkingar en til stendur að útbúa bæjarskilti með rúnaletri. Niðurstaða fékkst loks í bæjarnöfnin og þau eru Trébær, Hvammhóll og Hlíðarmelur. Til stóð að fara í orkuverkefni í útiskóla en eins og stundum gerist fór athyglin óvænt á annað en ekki síðra. Kennarinn tók að sér að tæma korgfötu af kennarastofunni og burðaðist með hana út ásamt nemendum. Þá upphófust vangaveltur um þyngd fötunnar og allir fengu að lofta henni og giska á þyngdina. Ágiskanir voru allt frá 1 kg upp í 10 kg en kennarinn áleit fötuna þyngri. Nemendum fannst ótækt annað en að sannreyna getgátur sínar svo sendinefnd fór og fékk lánaðan pundara hjá húsverði og við vigtun reyndist fatan 8 kg.

Stórt lerkitré við moltugeymana dró að sér mikla athygli og mikil orka fór í að klifra í trénu.

 

Eftir þetta var haldið á melkoll austan skólans í von um að geta verið í skjóli fyrir napri vestangolunni. Hópurinn nokkuð óstýrilátur eins og fyrri daginn og sumum að verða kalt. En nemendur voru beðnir um að horfa í kringum sig og telja upp alla þá orkumöguleika sem þeir sæju eða fyndu fyrir í náttúrunni. Niðurstaðan var þessi: Hreyfing, hraði snjókúlunnar, vatn-snjór, bílar, tré, steinar, sólin, vindur, gras, jörðin, hús og mannfólk. Betur verður svo unnið með þetta síðar í útiskólanum.

 

Img1716

 

Dagur 8

2. nóvember Kennari: Sigrún

 

Veður: Suð-vestan rigning, 6°c og stinningskaldi. Það dróst á langinn að komast út því hópurinn var ódæll og erfitt að koma verkefnum frá inni. Úti stóð til að ljúka trjámælingum en einn nemandi var sloppinn á fótboltaæfingu áður en það náðist. Mæling á trjám hafðist hjá öllum sem áttu það eftir og voru mættir, en áður en að því kom þurfti kennari að bíða nokkra stund eftir kyrrð í MELÓNU, því erfitt var að ná athygli og ró. Það hafðist loks og eftir umræður um ýmislegt á milli himins og jarðar hófust mælingar jafnhliða frjálsum víkingaleik. Bardagar voru miklir og harðir en blessunarlega varð ekki mannfall.

 

Img 1713

 

 

Dagur 7

26. október Kennari: Sigrún

 

Verkefni dagsins. Skrá veður, fara í rannsóknir á barrtrjám og enda í lautinni á einhverju óvæntu.

 

Inni: Veðurkort, stinningskaldi, 7°c, suðvestan og heiðskírt. Byrjað var á því að ganga í vindinum niður að Bæjartjörn þar sem nemendur virtu fyrir sér litlu furutrén sem eru að spretta upp af sjálfsáningu gömlu trjánna. Skoðuðum kross-vöxtinn sem myndast við hvert ár trésins og tókum að lokum eina barrnál fyrir hvert barn í verkefnamöppu.

Héldum svo áfram út á tangann en þar vaxa m.a. grenitré. Mikil leikþörf var í nemendum og erfitt að halda þeim við verkefnið. Tókst þó að fá alla til að taka eina barrnál af grenitrám áður en haldið var til baka og í lautina.

 

Er þangað kom var mikil spenna í hópnum því kennarinn var með eitthvað óvænt í farteskinu. Það reyndist vera kex og ávaxtasafi en kennarinn hefur skapað þá hefð að vera með smá boð í tengslum við eigin afmæli, sem að þessu sinni var daginn eftir. Er hér var komið var nemendum orðið kalt, enda næðingssamt í sterkum vindi og við drifum okkur í hús í fyrra lagi, en stutt var í skólabílana.

 

Img 1709

 

 

Dagur 6

19. október Kennari: Sigrún

 

Íþróttadagur 5. og 6. bekkjar á Laugalandi á Þelamörk. Því voru eingöngu eftir nemendur í 4. bekk.

Veðurfræðingur úr fjórða bekk skráði veðrið, 7°c, nokkuð hvasst af suð-austri og alskýjað. Tveir nemendur fóru á fótboltaæfingu um kl 14. Þá voru eftir þrír. Þeir fengu að leika sér í legókubbum þar til eldri nemendur komu aftur í síðasta tíma. Þá var ákveðið að ekki tæki því að byrja á einhverju í lautinni, enda margir búnir að vera í miklum útileikjum og íþróttum. Því sátu nemendur í rólegheitum, teiknuðu eða skrifuðu það sem eftir var tímans.

 

 

12. október var foreldradagur.

 

 

Dagur 5

28. september Kennari: Sigrún

 

Rigningardagur og margir nemendur vanbúnir fyrir útiver. Unnið inni allan tímann.

Veðurfræðingur: 7°c, rigning, gola af suðaustri. Eftir umræður og vangaveltur um sögufræga Íslendinga frá landnámsöld notaði kennarinn tækifærið og mældi hæð allra nemenda, en það er tengt rannsóknum okkar á vexti trjánna. Niðurstöður hæðarmælinga voru síðan skoðaðar og bornar saman við mælingar haust 2016. Að jafnaði höfðu nemendur hækkað um 5,5 cm, sumir meira og einstaka hálfum cm minna.

Í tengslum við þema samfélagsfræðinnar fengu allir nemendur kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Gunnarshólmi, í íslenkum bókmenntum. Stefnt er að flutningi ljóðsins 21. nóv, í menningarstund tileinkaðri degi íslenskrar tungu. Kennarinn afhenti nú hverju og einu barni ákveðin bút af ljóðinu til utanbókarlærdóms og lesturs, mislanga kafla eftir aldri.

 

Að lokum var nemendum ætlað að tala sig saman um nafn á bústaðnum í lautinni. Enginn hópur var kominn að endanlegri niðurstöðu í lok tímans svo það verður rætt áfram í lautinni.

 

 

 

 

Dagur 4

 

21. september Kennari: Sigrún

Verkefni dagsins: Hlutverk í útiskólaleiknum. Nemendur leiti sér að sögupersónum sem fyrirmyndum. Einnig að tína laufblöð fyrir verkefnabók í náttúrufræði.

Veðurfræðingur skráði 15°c, kul, léttskýjað og suð-austan. Mjög gott veður miðað við árstíma. Heldur var hópurinn óstýrilátur við upphaf samfélagsfræðinnar og gekk talsvert á við hlutverkaleitina. Þó náðu flestir að finna sér hlutverk og urðu örlitlar breytingar frá síðasta tíma. Nú er þetta svona:

Arndís Björk – Ingólfur Arnarson eins og í fyrra

Björn Rúnar - Hrafna - Flóki

Daníel Orri – Njáll á Bergþórshvoli

Daníel Róbert – Snorri Sturluson

Eyhildur – Auður djúpúðga

Eyþór – Eiríkur Rauði

Grete - Melkorka

Gunnar – Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda

Ívar – Kolskeggur Hámundarson

Katrín – Hallveig Fróðadóttir

Sváfnir – Helgi magri

Tinna – Guðrún Ósvífusdóttir

Tómas – Leifur heppni

Gísli Berg á eftir að finna hlutverk

Byrjuðum úti á því að fara í garðinn til Stínu í Tjarnarborg til að fá að tína reyniviðarlauf. Stína var ekki heima en börnin í götunni töldu að hún hefði fúslega leyft þetta, hún gerði það alltaf svo við laumuðumst inn fyrir og allit tóku eitt blað af reynivið, eitt af ösp og svo eina tegund sem eftir er að greina. Því næst var haldið í lautina þar sem allir bættu við einu birki laufblaði. Þá var blöðunum komið vel fyrir í gömlum úreltum námskrám þar sem þau eiga að pressast vel. Þrátt fyrir óróleika í hópnum gerðu þetta allir vandræðalaust og samviskusamlega. Eftir er að finna blöð af blæsöp og hlyn og það verður gert seinna. Loksins eftir þetta fengu börnin að leika sér frjálst góða stund þar til tíminn rann út.

 

Img 1700

 

Dagur 3

14. september Kennari: Sigrún

Verkefni dagsins. Kynna hlutverk og störf veðurfræðingsins. Merkja heimilin með bandi.

Talsverður tími fór í umræður í skólastofunni. Kennara fannst ástæða til að hnykkja á reglum í matsal, kurteisisvenjum og fallegum borðsiðum. Hávaðinn í matsalnum er stundum full mikill og ákveðin atriði geta skipt verulegu máli eins og t.d. að þeir nemendur sem búnir eru að borða og hafa skilað sínum diskum gangi rakleitt út úr borðsal en fari ekki að spjalla á öðrum borðum. Líka var rætt um hvernig við tölum saman, hvernig kennarinn talar við börnin og öfugt. Allir þurfa að sýna kurteisi og tillitssemi, vanda orð sín og athafnir.

 

Fyrsti veðurfræðingurinn var dreginn út með spili og sinnti hann hlutverki sínu með sóma. Úti var 10°c, norð-vestan gola, skýjað með köflum og þurrt. Fínasta útiskólaveður. Áður en haldið var í lautina höfðu 5 drengir hellst úr lestinni, flestir vegna fótboltaæfingar svo við vorum ekki nema 9 sem byrjuðum í MELÓNU.

Hóparnir fóru af stða í að leita enn betur að réttum landskikum fyrir sín bú en eini hópurinn sem var ákveðinn var mjög ósáttur er hann sá að kominn var köttur í ból bjarnarins. Yngri nemendur höfðu afmarkað sín bú sl. þriðjudag og þar lenti saman eins og vafalaust hefur stundum gerst líka á landnámstímanum. Eftir nauðsynlegt púst var farið að ræða möguleikana og reyndi mjög á úrræðasemi og skilning gagnvart hinum sem ekki voru á staðnum. Nokkrir möguleikar komu upp en úr varð að hópurinn leitaði sér að öðru bæjarstæði. Lyktir urðu þær að allir hóparnir þrír komu sér niður á svipuðum slóðum, í sömu sýslu má segja til austurs frá lautinni en yngri hóparnir eru að vestan, í annarri sýslu.

 

Útiskólinn endaði svo aftur í MELÓNU þar sem hópurinn sem þurfti að leita sér að nýjum dvalarstað fékk mikið hrós fyrir að hafa tekið svo vel á málum. Í staðinn fengu þau að taka eitt og annað með sér úr gamla staðnum sem þau töldu sig hafa fest hendur á. Allir náðu að strengja band um sína bústaði. Þannig lauk útiskólanum þennan daginn, í sátt og sólarglennum.

 

Img 1698

 

Dagur 2

7. september Kennari: Sigrún

 

Þar sem veðurstöðin hefur ekki náð tengingu við umheimin bíður hlutverk veðurfræðings um sinn. Við lásum um sögu landnemanna til að rifja upp frá í fyrra en einnig til að nýju nemendurnir sem komu upp í þennan hóp í haust fengju örlitla innsýn. Áður en haldið var út ræddum við um hlutverkaskipan í vetur. Allir þurfa að velja sér sögupersónu frá tímum landnemanna. Nokkrir vilja halda sig við sömu hlutverk og í fyrra en aðrir skoða málin þar til næst.

 

Héldum í lautina og byrjuðum að venju í MELÓNU. Því næst máttu börnin halda til sinna híbýla en talsverð afföll voru þennan dag, aðeins tveir hópar virkir. Kennarinn hélt uppteknum hætti og kallaði til sín einn og einn nemanda til að mæla hæð trésins hans. Virðist sem mikil gróska sé í vexti trjánna en það á eftir að skýrast.

 

Dagur 1

31. ágúst Kennari: Sigrún

 

Í vetur eru þrír árgangar í útiskóla 4. 5. og 6. bekkur og er það í fyrsta sinn sem 6. bekkur er í föstum útiskóla. Tíminn hófst á umræðum og útskýringum. Ræddum um óskir og áhugamál nemenda og svo var skipt upp í hópa, ákveðið að hafa þrjá hópa en nemendur eru 14 alls.

Við skiptingu í hópa var tekið tillit til þess að fjögur systkini eru í stóra hópnum og því skipt þannig að engin systkini væru saman. Hópaskiptingar eru svona:

 

Ívar, Sváfnir, Tinna Dögg, Daníel Orri og Arndís Björk.

 

Tómas Karl, Björn Rúnar, Daníel Róbert og Eyhildur

 

Katrín Ösp, Grete, Gunnar, Eyþór og Gísli Berg

 

Rætt var um að halda uppteknum hætti frá í fyrra og túlka líf og störf landnámsmanna í frjálsa leiknum. Hóparnir hafðir fjölmennari en áður því þannig voru fjölskyldurnar. Þegar komið var í lautina fóru hóparnir að finna sér bæjarstæði og nú er fólk komið með svo mikla og góða reynslu í þeim efnum að það gekk vandræðalítið. Jafnframt þessu fékk kennarinn eitt og eitt barn til sín til að finna tréð sitt. Það gekk vel og var tekin mynd af þeim öllum við trén.