Dagbók útiskóla 2018-2019

Dagur 30 - 16. maí

 

Síðasti dagur útiskólans í vetur.

 

Nemendur þreyttu náttúrufræðipróf inni áður en haldið var út.

 

Verkefni dagsins var að grilla pizzur á útigrillinu við lautina. Illa gekk að koma hita í kolin, hann átti að vera kominn en kolin höfðu kólnað aftur. Kennarinn sá um brasið á meðan drengirnir hömuðust í fótbolta og fleiru en hann hafði keypt frosnar, þunnar pizzur og látið þær þiðna til að flýta fyrir. Sökum kuldagjólu gekk hægt að grilla og tíminn var alveg við að renna út. Þó náðist að grilla tvær pizzur sem voru borðaðar með mismikilli ánægju. Einn afneitaði pizzunni alveg fyrst ekki voru réttar sortir á henni, flestir höfðu helst viljað aðra tegund en keypt var, (vanþekking kennarans) og svo brann fyrri pizzan að neðan sem varð til að draga enn úr matarlystinni. Engu að síður borðuðu allir eitthvað og þetta var öðruvísi upplifun þennan síðasta útiskóladag.

 

Img 1861

 

Dagur 29 - 9. maí

 

Aðalverkefni. Spurningalisti, sjálfsmat nemenda varðandi útiskólann. Eftirfarandi spurningar lagðar fyrir og nemendur svöruðu skriflega.

1. Hvað hefurðu lært í útiskóla í vetur?

2. Hvað er það skemmtilegasta við útiskólann?

3. Hvað er minnst gaman við útiskólann?

4. Er eitthvað sem þú hefðir vilja gera í útiskóla en gerðir ekki?

5. Hvernig veður er í dag? (Hvaða merki myndir þú setja á veðurkortið?)

 

Niðurstaða var í megin dráttum þessi: Í vetur höfðu þeir lært um tré, gróður, náttúruna, fuglana, vatnið, fjöll, þorramat og vöxt þeirra sjálfra borðið saman við vöxt trjánna. Svo höfðu þeir líka farið í páskeggjaleit og búið til snjóhús.

 

Það sem var minnst gaman reyndis fátt, en á prent kom dagurinn þegar þeir voru með ólæti og kennarinn gekk burtu, leiðinlegt að vera skammaður. Einn nefndi flest atriði sem þeir höfðu lært og annar nefndi það að merkja tréð hefði verið minnst gaman.

 

Það skemmtilegasta var afmælisveisla kennarans, kakó og kex í kuldanum í október, einnig var páskaeggjaleit skemmtileg, að vera úti í náttúrunni, búa til snjóhús og smakka þorramatinn. Einn nefndi að mæla trén og einn var sjálfum sér samkvæmur og sagði að ekkert hefði verið skemmtilegt á meðan annar sagði allt skemmtilegt.

 

Það sem nemendur hefðu viljað hafa gert en gerðu ekki var að ganga upp á fjall, fara á skauta, nota grillið meira, horfa á mynd og renna sér meira í brekkunni.

 

Veðurskráning var 4°c, kuldi, norðanátt og skýjað.

 

Að könnun lokinni var haldið út á leiksvæðið í lautinni og leikið frjálst þar til fótboltadrengirnir fóru á æfingu. Eftir það lognaðist leikurinn út af. Athygli vöktu vængfjaðrir og bein sem hékk í tré við bústað eins hópsins. Drengirnir voru sammála um að þetta væri partur af dauðri rjúpu. Kannski hafði hún flogið á tréð.

 

Img 1860

 

 

Dagur 28 - 2. maí

Verkefni: Fuglatalning, gróðurskoðun.

 

Veður. Allir hjálpuðust að við veðurskráninguna. Spurning hvort úti væri frost eða ekki. Líklega um 2°c, gola eða kaldi, ekki allir sammála, austanátt og alskýjað, éljabakkar í grennd.

 

Er út var komið virtist fremur vera stinningskaldi en kaldi og mjög napurt. Haldið var rakleitt að úrkomumælinum en þar var gripið í tómt. Mælirinn hafði fokið úr sínu stæði í vörðunni en fannst skammt undan. Ákveðið að geyma hann til næta hausts því hann þarfnaðist viðgerðar. Hópurinn leitaði sér svo skjóls í gróinni laut skammt frá og hrossagaukurinn lét vel í sér heyra. Nokkru síðar söng lóan og einnig mátti þekkja gæsir í fjarska.

 

Kennarinn vildi skipta níu drengja hóp upp í fjórar einingar en það reyndist mjög torsótt, sama hvaða aðferð var reynd. Þetta var eins og gátan „Hvernig flutt var yfir á...“, alltaf voru einhverjir sem alls ekki gátu hugsað sér að vinna saman og aðrir sem voru óþarflega fúsir til samvinnu en kennarinn mat ekki góðan kost. Þó varð það úr að skipting varð nokkuð af sjáfu sér og endaði í þrem hópum. Skoðuðum gróðurinn undir fótum okkar og þar var margt að finna þegar að var gáð. Minnst 12 tegundir. Nefna má fjalldrapa, (sem enginn þekkti með nafni), beitilyng (eða blóm eins og sumir sögðu), sortulyng (músaber að þeirra áliti), birki, einir ( sem enginn þekkti með nafni), gulvíðir (hríslur eða kjarr), gras, krækiberjalyng, mosa, hreindýramosa, skófir (enginn tók efti rþeim) og rjúpnalauf sem fór fram hjá öllum nema kennaranum. Samt var þekking sumra talsvert góð.

 

Mörgum varð mjög kalt svo farið var heim í hús til að hlýja hópnum og notaði kennarinn tækifærið og talaði um náttúruvernd og umgengni í náttúrunni. Sagði þeim frá náttúruverndarlögum og hvernig þyrfti að hlýða þeim eins og öðrum lögum. Í þeim svifum kom eitt foreldri og sagði frá því að þetta væri merkilegur dagur því ný skógræktarlög höfðu verið samþykkt á alþingi í dag sem var talsverð frétt.

 

Endað var úti í frjálsum leik með þeim sem ekki voru farnir á fótboltaæfingu á Akureyri.

 

Img 1858

 

 

Enginn útiskóli var dagana 18. og 25. apríl vegna þess að það voru skírdagur og sumardagurinn fyrsti.

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 27 – 11. apríl

 

Veður: 11°c, logn, heiðskírt. Frábært veður. Verkefni. Ræða um skólalóðina og hvaða líf gæti verið á skólalóðinni. Fyrst var unnið inni í náttúrufræði þar sem rætt var um skilgreiningar á vatnsföllum, en nóg er af þeim í umshverfi skólans.

 

Þar sem þetta var síðasti útiskóladagurinn fyrir páskafrí hafði kennarinn komið fyrir litlum páskaeggjum í trjánum á leiksksvæði drengjanna áður en farið var út. Byrjað var á því að tína egg úr trjánum og kanna innihaldið. Hver drengur las sinn málshátt og fékk skýringu á honum ef þurfti. Í framhaldi af því talaði kennarinn um skólalóðina, hvar mörk hennar lægju og bað drengina að velta fyrir sér hvernig lóðin væri með tilliti til gróðurs, húsa, leiksvæða og malbiks og hvaða lífverur gætu búið á svæðinu. Það fyrsta sem nefnt var voru fuglar og skordýr, nánar tiltekið skógarþrestir (sem voru einmitt allt um kring), álftir og gæsir (sem flugu yfir annað slagið), snjótittlingar, endur, hrafnar ( einn hrafn var á sveimi) og rjúpur. Seinna kæmu svo lóur og spóar. Þá nefndu þeir orma, pöddur, flugur og síli í tjörnunum.

 

Svo var farið að huga að lífverum í sverðinum og þá fannst beinagrind og fjaðrir af fugli sem hafði drepist við furutré eins þeirra. Miklar vangaveltur um hringrásina, ormanan og pöddurnar sem höfðu þrifist á þessum fugli.

Síðasta hálftímann fengu drengirnir að leika frjálst. Góður útiskóli í góðu veðri sem gerði sitt.

 

Img 1856

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 26 - 4. apríl

 

Hiti 9°c, andvari, heiðskírt. Mjög gott veður. Í framhaldi af náttúrufræðitíma inni þar sem drengirnir lærðu um vatnið í náttúrunni var farið út og byrjað við úrkomumælinn. Tæmdum hann en við höfðum ekki verið að fylgjast með úrkomunni undanfarið. Settum flöskuna á sinn stað og héldum lengra austur í hólana.

Eins og stundum fyrr þótti kennaranum ekki rétturu klæðnaður á sumum, gerði athugasemd við fína, létta skó sem fljótt mundu blotna í snjónum.

 

Á tjörnunum var ís og snjór að mestu. Kennarinn áminnti nemendur nú sem oftar um hættuna sem gæti falist í því að fara út á ótraustan ís, hversu lokkandi sem hann væri. Leið okkar lá á milli Bæjartjarnarinnar og Seftjarnarinnar. Nokkru austar var greinileg ruslahrúga miðsvæðis í lítilli tjörn og þótt það einsýnt að þar væri gamalt álftahreiður. Á Bæjartjörninni austarlega var stór vök sem náði næstum þvert yfir tjörnina. Skýringin var að þarna væri hreyfing á vatninu vegna þess að lítill lækur rennur í hana úr suðri. Hópurinn staðnæmdist við frárennsli tjarnarinnar en úr henni rennur einmitt jafn stór lækur og sá sem rennur í hana. Þarna var gaman að vera í blíðunni, nóg af gömlum hvannastönglum og sprekum sem nota mátti með ýmsum hætti við vatnið. Aðeins einn drengur lenti út í og svo vel vildi til að einmitt hann var í góðum stígvélum.

Þarna var dundað og spjallað þar til tímabært var að halda heim. Góð samvera vatns og barna.

 

Img 1854

 

 

Enginn útiskóla 28. mars vegna árshátíðarhæfingar.

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 25 – 21. mars

 

Veður: Suðvestan átt, 3°c, léttskýjað og stinningsgola eða kaldi.

Fyrsta verkefni: Bera endurvinnslurusl út í gám.

Annað verkefni: Telja umferðina um hringveginn og skólann.

 

Það var mjög napurt að koma út, stinningskolan var mjög mikil og seinna dró úr sólskininu og fór að hríða. En inni í húsi beið okkar mikið magn af pappakössum og pappír sem þurfti að koma í endurvinnslugáminn. Drengirnir fóru létt með það verk, þó vildi sumt fjúka út úr höndum en eftir smá hlaup tókst að handsama það allt.

Að því loknu var haldið niður undir þjóðveg, innan girðingar þó. Drengjunum skipt í tvo hópa og annar hópurinn fékk það hlutverk að telja fólksbíla og jeppa, hinir áttu að telja traktóra, flutningabíla og rútur. Sátum í 15 mín frá kl 14:50 til 15:05. Á þeim tíma fóru 8 jeppar, 15 fólksbílar, 1 traktór, 1 rúta og 2 flutningabílar. Er þar var komið var öllum orðið kalt og þar að auki 3 drengir farnir á fótboltaæfingu svo við hin hröðuðum okkur í skjól inni.

 

Img 1849

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 24 – 14. mars

 

Veður: 6 °c, léttskýjað, andvari úr suðri. Verkefni: Endurreisa fuglabrettið.

 

Í dag skein sólin og því tilhlökkunarefni að fara út í góða veðrið. Þó fór það svo að enginn fór út því kennarinn ákvað að kalla fram þátt um loftslagsmál, „Hvað höfum við gert“, en sá þáttur var sýndur á RÚV sl. sunnudagskvöld. Þátturinn var það langur og áhugi drengjanna það mikill að allur tími útiskólans nýttist í þetta eina verkefni. Ekki var annað að sjá á þeim en að tímanum hefði verið vel varið. Einstaka varð full mikið um þegar hann heyrði og sá efnið þáttarins en fékk góða útskýringu á málum. Engu að síður var margt umhugsunarvert og mörg mál sem koma til með að verða umfjöllunarmál næstu kynslóðar.

 

Img 1847

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 23 – 8. mars

 

Kennari veikur, Malla sá um tímann með aðstoð. Mikill og góður útileikur í góðu veðri.

 

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 22 – 28. febrúar.

 

Veður: 7°c, norð-vestan kul, léttskýjað. Verkefni samkvæmt áætlun kennara voru að kanna það hvernig fuglabrettinu hefði reitt af í roki þriðjudagsins, að fræða piltana um náttúrvernd og hvað er leyfilegt í umgengni okkur um landið. Einnig að huga að úrkomumælinum og koma honum í stand þar sem nú hefur verið frostlaust og loks að fræðast um smáfuglana, fara í leiðangur og athuga hvort við fyndum einhverja.

 

Í ljós kom að fuglabrettið hafði fallið niður og lá frosið og blautt í snjónum. Því var ákveðið að fara með það í skjól inni í Álfaborg og taka það aftur til handargagns síðar. Á leið okkar yfir móinn sáum við greinileg merki eftir rúpur og síðar flugu upp tvær og fóru sína leið.

Þegar komið var að Álfaborginni urðu drengirnir mjög uppveðraðir yfir klaka sem hafði myndast yfir pollum við húsið og þeir brustu með það sama í sjálfsprottinn leik sem tengdist þessum ísflekum. Sumir söfnuðu flekum á meðan aðrir hömuðust við að mylja þá. Enn aðrir fóru að renna sér á skaflinum við húsið og enduðu þá í polli en allt var þetta mjög skemmtilegt.

Það þótti því sýnt að ekki væri mikill grundvöllur fyrir þeim verkefnum sem á dagskrá voru en þó kom að því undir lok útiskólans að kennarinn hóaði saman hópnum og fór með honum að úrkomumælinum. Þar reyndist vera bland af vatni og ís sem losað var úr svo hægt yrði að mæla úrkomu næstu viku.

 

Góður en blautur útiskóli í góðu veðri.

 

Img 1833

 

 

Hópur 2 Kennari: María Sigurðardóttir

Dagur 21 – 21. febrúar.

 

Verkefni dagsins: Veðurkort og leikir í snjó. María afleysingarkennari var með drengjunum þennan dag.

Veður var einstaklega gott, 10°c og gola úr vestri, léttskýjað. Enda var mikil snjóbráð og snjórinn bauð upp á úrvals leikmöguleika. Upp hósfst sjálfssprottinn leikur sem fólst í því að leika með skóflum og verkfærum í vatni og snjóklaka. Húsvörðurinn var með vatnsslöngu að reyna að bræða klaka og gátu drengirnir nýtt sér vatnið og útbúið farveg í klaka og snjólaginu á stéttinni. Einnig voru grafin snjóhús í snjóruðninginn. Mjög ánægjulegur dagur.

 

Img 1832

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 20 – 14. febrúar.

 

Verkefni dagsins: Mæla vindorku og útbúa fuglabretti ásamt því að fjalla um smáfuglana í tíma.

 

Veðurfræðingur skráði 1°c, andvara úr austri og léttskýjað. Þennan daginn voru drengirnir venju fremur óstýrilátir í stofunni, erfitt að ná til hópsins, mikil spjallþörf og allskyns samskipti umfram dagskrá tímans. Eftir að veðurfræðingur hafði lokið störfum afhenti kennarinn hverjum dreng bækling frá Fuglavernd um garðfuglana. Síðan ætlaði kennarinn sér að útskýra verkefni útiskólans en náði ekki sambandi svo hann ákvað að yfirgefa stofuna og búa sig út, láta koma í ljós hvað nemendur gerðu. Umsjónarkennarinn átti leið um og hafði tal af drengjunum sem urðu mjög skömmustulegir og vissu ekki alveg hvernig best væri að taka á málinu. Þegar kennarinn mætti fullklæddur út með allt sitt hafurtask sátu drengirnir prúðari og fallegri en nokkru sinni í útitröppunum og biðu. Seinna kom í ljós að því miður vantaði stórlega upp á góðan og hlýjan klæðnað í sumum tilvikum.

 

En haldið var af stað í verkefnið, kennarinn sýndi 4 langar og beinar greinar sem hann hafði meðferðis og þykkan en mjúkan dúk úr gúmmíkenndu efni. Úr þessu átti að útbúa fuglabretti. Meiningin var að þræða greinarnar í dúkinn og koma honum fyrir á milli trjáa þar sem smáfuglarnir ættu greiðan aðgang. Mikill snjór var á jörðu og erfitt að komast á heppilegan stað en drengirnir voru léttir í sporum og fóru á undan, kennarinn var síðan sporgöngumaður.

 

Vel gekk að vinna verkefnið, kennarinn lagði línurnar, klippti hæfileg göt en svo sáu piltarnir um afganginn. Þrír fóru heim í skóla að sækja brauðskorpur í eldhúsið, samkvæmt umtali og síðan var fuglunum gefinn þessi fíni kornmatur og pönnukökur á brettið. Það stóð á endum, alveg réttur tími til að fara heim í bæ fyrir skólalok þegar verkinu var lokið. Ekki mátti seinna vera fyrir þá sem börðust við að halda á sér hita en kennarinn vildi ekki gefa afslátt, búið að er ræða réttan útiklæðnað árum saman.

 

Í hafurtaski kennarans var einnig að finna vindpoka, en ætlunin var að reyna að höndla vindinn og kanna orkuna en í andvara eins og þennan daginn varð ekkert úr því.

 

Img 1829

 

Dagur 19 – 7. febrúar. Þorrablót skólans frá kl 13:45 – 15:20. Enginn útiskóli.

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 18 – 31. jan. 2019

 

Verkefni dagsins. Þorrablót og Powerpoint kynning á þorramat.

 

Veðurfræðingur skráði: Frost -3°c, norðan stinningskaldi, renningur og hálfskýjað. Í ljósi þessarar veðurlýsingar var ákveðið að vera með verkefnið inni, halda til í hellinum, gerast hellisbúar. Þangað fór kennarinn með sýnishorn af ýmsum tegundum af þorramat fyrir nemendur að bragða á. Áður höfu þeir talið upp ásamt kennara allar þær tegundir sem hægt var að grafa upp. Það var hanigkjöt og harðfiskur, hákarl, súr hvalur, magáll, slátur, lundabaggi, rúllupylsa, svið og sviðasulta og saltkjöt. Einnig rúgbrauð, flatbrauð, kartöflur, rófur og rófustappa og síðast en ekki síst blessað smjörið.

 

Ekki voru allar tegundir í boði og eðlilega misjafnt hve vel drengirnir tóku á matnum. Allir brögðuðu eitthvað og sumir flest allt. Jafnhliða þessu sýndi kennarinn myndir á stórum skjá af þessum matartegundum og auðvitað þekktu drengirnir matinn með réttum nöfnum, í flestum tilvikum.

 

Img 1824

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 17 – 24. Janúar

 

Veðurlýsing: Austanátt, léttskýjað, andvari og -1°c. Veðurfræðingur dagsins gerði grein fyrir sínu veðurkorti og gerði það vel. Náttúrufræðitíminn eftir hádegið var nýttur í miðsvetrarkönnun. Ekki luku alveg allir sinni könnun fyrr en í öðrum tíma. Eftir það voru teknar umræður um veðurkortið og síðan um það sem rætt var í síðustu viku sem var vindorkan. Efasemdir komu fram um möguleika í framkvæmd og niðurstaða umræðunnar varð að vindmyllugerð væri full snúið verkefni fyrir þennan hóp því þó honum tækist að smíða tréverkið væri rafkerfið eftir. Mun hópurinn því snúa sér að vindorkunni sem slíkri.

 

Frjáls útileikur í síðasta tíma. Horft var á sólina í norðurfjallinu, en hún náði niður undir kjörrin í hlíðinni norðanmegin. Hefur ekki náð til fólks síðan snemma í nóvember og margir orðnir óþreyjufullir. Fylgst verður með sólinni áfram.

 

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 16 – 17. janúar

 

Mikil spenna í hópnum, 3 drengir að fara á fótboltamót í Reykjavík og þeir tíndust í burtu einn og einn. Byrjuðum í stofu og fórum í upprifjun á efni vetrarins í útiskóla og náttúrufræði. Skoðuðum skema með vaxtamælingum drengjanna og trjánna þeirra. Greinilegt að trén vaxa mun hraðar en drengirnir.

 

Eftir frímínútur fórum við út, einn pilturinn vildi ekki kyngja því að tréð hans hefði vaxið honum yfir höfuð svo við fórum og sannreyndum það. En munurinn var lítill, á það gátu allir sæst. Mjög áberandi í frjálsa leiknum er þörfin eða gleðin í því að vera með vopnaburð. Að hlaupa um með lurka og spýtur og höndla sem byssur, miða hver á annann.

 

Nú var kominn léttur snjór en drjúgur og lá hann yfir öllu.

 

Img 1821

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

Dagur 15 – 10. janúar

 

Ekkert farið út, til stóð að horfa á mynd af því að það komst ekki á fyrir jólin og drengirnir kölluðu eftir því en tæknin var ekki með okkur í liði. Því var farið í Hellinn og kennarinn sýndi myndir frá útiskólanum í vetur á stórum sjónvarpsskjá.

Eftir frímínútur fóru allir út í síðasta tíma og festu nýjar merkimyndir á trén sín. Smá frjáls leikur í lokin á nærri auðri jörð.

 

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 12 - 22. nóvember

 

Léttskýjað og hiti um frostmark, andvari. Byrjuðum strax kl 13:10 niðri í myndmenntastofu og bjuggum til tímalínu fyrir árið 1918 vegna fullveldis-dagskrár 30. nóv. í skólanum. Höfðum sniðinn pappa um 3 m. á lengd og 25 sm. á breidd og á hann máluðu drengirnir og tóku mið af þeim atburðum sem fjallað var um í sögunni. Hver drengur fékk úthlutað ákveðnu bil á tímalínunni og málaði hann grunninn í þeim lit sem honum fannst hæfa miðað við þann atburð sem hann átti að túlka.

 

Túlkunarþættirnir voru 6,; frostaveturinn mikli, sambandssamningurinn, Kötlugosið, þjóðaratkvæðagreiðsla um samninginn, spænska veikin og hátíðarhöldin 1. des.

 

Kl 14 þurfti kennarinn að yfirgefa hópinn til að fara á námskeið í hugarfrelsi og annar kennari bauð þeim upp á val í verkefnum í stofu 1.

 

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 11 – 15. nóvember

 

Rigning, norðan stinningsgola, hiti 4°c. Úrkoma vikunnar 400 ml. sem kom ekki á óvart, rignt hafði samfleitt frá því um helgina.

 

Sökum óskemmtilegs veðurs, bleytu allt um kring, ákvað kennarinn að nýta inni eina kennslustundn í að fjalla um atriði sem hópurinn ætlar að flytja á fullveldishátíð skólans 30. nóvember næstkomandi. Það verður ákveðin útfærsla á tímalínu ársins 1918 þar sem allir fá sitt hlutverk en að auki munu eldri nemendur verða til aðstoðar.

 

Eftir frímínútur kl 14:30 – 14:40 var haldið út og rakleitt að vörðunni með úrkomumælinum. Allir spenntir að sjá hvað hefði komið úr loftinu þessa vikuna. Eins og fyrr sagði reyndist það vera 400 ml, mæliglasið tók bara 250 ml svo það þurfti að reikna saman.

Er þarna var komið yfirgáfu 3 strákar hópinn til að fara á fótboltaæfingu á Akureyri. Við hin ákváðum að fara niður að Bæjartjörn og athuga hvort við sæjum breytingu á vatnsborði tjarnarinnar. Tíminn var stuttur og ferðin þróaðist út í glens og gaman þegar strákarnir fóru að taka stökk fram af bakkanum við tjörnina, svolítið hættu spil, ekki mátti lenda út í tjörn. Spennan skapaði stemminguna og aðeins einn fótur lenti í tjörninni áður en haldið var heim eftir þennan stutta, skemmtilega og blauta útiskóla.

 

Img 1814

 

 

Dagur 10 – 8. nóvember

 

Veður: Hiti 5°c, skýjað en er að stytta upp eftir rigningu allan morguninn. Andvari en vindhaninn bendir í austur. Auð jörð.

 

Verkefni: Úrkomumæling, umræður um líf og störf 1918, og umræður um fullveldisverkefnið 30. nóvember. Endurmerking á trjánum og síðasti nemandinn mun einnig mæla sitt tré. Aukaverkefni var að fara inn í eldhús á leiðinni út og taka með plastumbúðir og allan pappa sem þar hafið safnast upp. Það verkefni leystu drengirnir fljótt og vel af hendi og svo var burðast með allt magnið út í endurvinnslugám.

 

Eftir þetta hélt hópurinn á melinn þar sem úrkomumælirinn er varðveittur í vörðu. Að þessu sinni voru 115 ml af vatni í mælinum. Það fannst okkur mikið eftir vikuna. Til stóð að fara í sögulautina með fræðslu en þar sem jörð var mjög blaut ákvað kennarinn að fræðslan færi fram á melnum og drengirnir fengju sér sæti á völdum steinum. Umfjöllunarefnið var í bókinni Fjölskyldan á 20. öldinni en kennarinn las um aðbúnað og félagslegar aðstæður i sveitum á árunum í kringum 1918. Fram að aldamótunum bjuggu mun fleiri landsmenn í sveitum en farið var að fjölga í þéttbýlisstöðum um þetta leyti. Lífið í sveitum landsins var að taka talsverðum breytingum eftir ár fátæktar og harðæris. Þá hafði fólk flúið í stórum stíl frá Íslandi til Kanada rétt eins og aðrar þjóðir flýja nú til Íslands eftir styrjaldir og harðæri í sínum heimalöndum.

Í framhaldinu var farið í gegnum verkefni hópsins á fullveldishátíðinni 30. nóvember í skólanum og þar eru línur mjög að skýrast. Að því loknu sannaðist sá gamalkunni málsháttur: „Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest“.

 

Síðustu 20 mínúturnar fengu drengirnir frjálsan leik í mónum sínum en einnig náði síðasti pilturinn að mæla hæðina á sínu tré. Ekki vannst tími til að festa myndir á trén svo það verkefni bíður næsta útiskóla.

 

Img 1812

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 9 – 1. nóvember

 

Verkefni dagsins. Veðurkort og úrkomumæling. Veður: 3°c, vestan kul og skýjað. Smá föl á jörðu. Nú mældist úrkoma vikunnar 25. okt – 1. nóv 25 ml. Í lautinni fór hver drengur í að leita uppi sitt tré og hæðarmæla það með aðstoð kennara. Það gekk fljótt og vel, allir gátu gengið nokkuð rakleitt að sínu tré og vel gekk að mæla. Þegar allir höfðu mælt var frjáls leikur sem gekk út á nokkuð róstursöm samskipti þar sem allir voru vel vopnum búnir. Alveg spurning hvort svona samskipti hafi tíðkast til sveita árið 1918.

 

Img 1810

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 8 – 25. okt

 

Veður: 2°c, skýjað, vestan kul, gott veður. Úrkoma síðustu viku 5 ml.

Verkefni dagsins: Heimsækja vörðuna og mæla úrkomu síðustu viku, frjáls leikur og afmælisveisla í lautinni.

 

Úrkomumælirinn var bara með snjó svo það þurfti að taka hann inn í hús og láta þiðna til að hægt væri að mæla. Drengirnir voru óþreyjufullir að komast í lautina því það stóð yfir mikil jólahátíð hjá þeim og margt sem þurfti að gera. Á meðan dundaði kennarinn sér við að útbúa smá afmælisveislu sem byggðist á kakódufti og heitu vatni. Einnig voru boðnar nokkrar gerðir af kexkökum, mis sætum. Í hópnum eru tveir sem eigum afmæli 27. október, annarsvegar kennarinn sjálfur og hinsvegar Gunnar sem er 10 ára. Komumst að því að hann hefði því fæst á 55 ára afmæli kennarans. Bæði fengu hraustlegan afmælissöng fyrir bragðið. Enginn hafði á móti hressingunni og kexið fékk góðar móttökur með kakóinu. Gamla góða mjólkurkexið stendur alltaf fyrir sínu.

 

Í lokin mældum við vatnið sem hafði safnast í úrkomumælinn og reyndist það vera um 5 ml.

 

Img 1806

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 7 - 18. okt.

 

Veðurfræðingur skráði suð-vestan kul, alskýjað og 4°c. Breyting var á stundaskránni í dag þannig að farið var í útiskóla í öðrum- og þriðja tíma fyrir hádegi.

 

Veður var mjög fínt til útiveru og fyrsta verkefnið var að útbúa nýjan úrkomumæli og koma fyrir í sömu vörðu og notast var við á síðasta ári. Það gaf tilefni til að ræða um vörður, við horfðum í kringum okkur og sáum næstu vörðu til austurs. Ég sagði þeim í hvaða tilgangi vörður voru hlaðnar á sínum tíma og þar sem nú væru komnar annarskonar tækniaðferðir til að rata þyrfti ekki lengur að nota vörður. Því þyrfti fólk ekki heldur að vera að hlaða vörður í dag með tilheyrandi raski á jarðveginum. Því næst skoðuðum við kennileitin í umhverfinu og mynduðum það helsta. Kennarinn vakti sérstaka athygli á gömlum hlöðnum túngarði sem teygir sig um í hólunum og þegar tími var kominn til að halda í lautina var drengjunum sagt að fylgja þessum garði úr Garðabolla. Þeir áttu ekki í neinum vandræðum með það.

 

Í lautinni tók við frjáls leikur og svo var endað í melónu því kennarinn vildi fá smá upplýsingar um gang leiksins, en hann á að miðast við árið 1918. Þá voru t.d. fyrstu símarnir nýkomnir til landssins en opnað var fyrir fyrstu línur í september 1906.

 

Img 1803

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

Dagur 6 - 11. okt.

 

Fyrsta verkefni dagsins var að draga út veðurfræðing sem skráði veðrið í dag. 6°c, sunnan gola, alskýjað. Því næst tók kennarinn upp þráðinn frá síðasta útiskóla sem var 2 vikum áður og ræddi hópaskiptinar. Þrátt fyrir þá ákvörðun síðast að taka mánuð til reynslu ákvað kennarinn nú að skipta bara í tvo hópa og hafa þá eftir bekkjum. Því var hópum breytt, 5. bekkur saman, 5 drengir og 4. og 3. bekkur saman, líka 5 drengir.

 

Síðan var farið út og nú þurfti enn að finna út úr híbýlamálum í lautinni. Það tókst án mikilla vandkvæða en tíminn flaug og ekki gafst mikill tími til leikja. Teknar voru myndir af síðustu tveim drengjum við sín tré en þrátt fyrir hópaskiptingar léku sér allir saman í einum hóp í og við Álfaborgina. Þrátt fyrir smá væringar er þetta samheldinn hópur.

 

Img 1801

 

4. október. Enginn útiskóli vegna fjarveru kennara og ofstopa í veðrinu. Allir inni að spila og dunda.

 

 

Hópur 2 Kennari: Sigrún

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Dagur 5 – 27. sept

 

Veður: 9°c, léttskýjað, kaldi og sunnan átt. Verkefni: Láta reyna á hópaskiptingu sem lögð var til sl. útiskóladag.

Það voru ekki allir sáttir við sína hópa og við ræddum ástæðuna fyrir því að skipt væri í hópa þvert á bekki. Allir eiga sína vini í hópnum en kennaranum fannst ástæða til að láta reyna á aukin félagsleg samskipti sem gætu jafnframt bætt andrúmsloftið og gefið fjölbreyttari kynningu í leik og starfi. Sumir nemendur vildu hins vegar fá að vera með sínum vinum og félögum í útiskólahópnum. Niðurstaðan varð sú að láta reynan á núverandi hópaskiptingu og endurskoða í ljósi reynslunnar í lok október. Flestir drengirnir fóru strax að huga að sínum búsetumálum og virtust sáttir með málalyktir.

 

Enn áttu einhverjir eftir að finna sitt tré og fá myndatöku og var farið í það. Einnig dró kennarinn fram gömlu útiskólaleikföngin, horn, kjálka og leggi og aðeins var fjallað um þau leikföng. Áhug virtist ekki mikill.

 

Img1799

 

Hópur 2. Kennari: Sigrún

Dagur 4 – 20. september

 

Veðurfræðingur: Norðan kaldi, lítilsháttar slydda og 5°c. Inniskóli.

Fjórir nemendur voru fjarverandi vegna veikinda. Eftir vinnu í náttúrufræðibókum og fleira vildu þeir sex nemendur sem voru í tímanum gera tillögu að hópum fyrir útiskólann í vetur. Lögð var fram tillaga að þrem hópum, 4 í einum og 3 í tveimur. Hverjum árgangi raðað í hópa þannig að aldursblöndun verði í öllum. Enduðum tímann á slökun í litlu íbúð.

 

 

Hópur 2. Kennari: Sigrún

Dagur 3 – 13. September

Miklar umræður um gönguferðina í síðustu viku. En eftir að veðurfræðingur með íhlutun kennara hafði skráð veðrið, 8°c, norðan golu, súld og alskýjað var farið út. Klæðnaður mis góður, þeir sem voru í strigaskóm urðu fljótt mjög blautir í fætur.

Fórum í lautina þar sem við staðsettum okkur aðeins í útiskólanum, ræddum hugsanleg verkefni, enginn víkingaleikur í ár sagði kennarinn en horft skyldi 100 ár aftur í tímann til ársins 1918. Hvernig voru leikir barna í þá daga, hús og líf fólksins. Byggt verður á leikjum en fyrsta verkefnið var þó að finna tré barnanna og taka myndir af hverjum við sitt tré. Skoðuðum gömlu réttina sem nemendur í útiskóla útbjuggu fyrir nokkrum árum en stendur enn. Ákveðið að kalla fram horn, kjálka og skeljar næst. Veltum fyrir okkur sólúrinu og heimsóttum búsvæðin frá síðasta ári.

Fjórir drengur stefndu á fótboltaæfingu eða e.u. annað og fengu að yfirgefa svæðið 10 mín fyrir lok tímans. Eftir það voru þeir 4 sem eftir voru hálf vængbrotnir og fundu sig ekki í verkefni.

Img 1797

 

 

Hópur 2. Kennari: Sigrún

Dagur 2 - 6. september.

 

Enginn eiginlegur útiskóli en allur skólinn fór í gönguferð á Hálshnjúk í rjóma blíðu.

 

Hópur 2. Kennari: Sigrún

Dagur 1 -30. ágúst

Verkefnii dagsins: Kynning á veðurkorti og starfi veðurfræðing. Fyrsti veðurfræðingurinn dreginn út og hann stillti upp ágætis veðurkorti með þurru og björtu veðri. Síðan var farið út og gengið að melnum til vesturs, þar sem vistheimtarreitirnir eru. Skoðuðum reitina og kennari útskýrði hvað þarna vær um að vera. Sumir drengjanna vissu talsvert um eðli verkefnisins, aðrir vissu minna. Gáfum okkur góðan tíma í góðu veðri.

 

Img 1793