Dagbók útiskóla 2019-2020

Hópur 2 4. – 6. bekkur

Kennari: Sigrún

 

Síðasti dagur útiskólans á þessu starfsári.

Eitt verkefni lá fyrir og það var að reka loka höggin í skordýrahúsin. Talsverð tímapressa hefur verið varðandi þetta verkefni og til viðbótar við útiskólann voru nýttir tímar e.h. á fimmtudegi og ein allsherjarstund með aðstoð Nönnu umsjónar- og smíðakennara.

 

Til að þessi hús gætu orðið að veruleika þurfti að saga, mæla, bora, líma og negla og það gerðu allir. Þannig urðu til rammar, u.þ.b. 10 cm djúpir og 20 – 30 cm á kant. Næst þurfti að festa fínofið net á bakhlið með þaksaum. Þetta var allt komið þegar kom að deginum í dag.

 

Samfélagsfræði tíminn sem var á undan útiskólanum var að hluta nýttur í útiveru en þá kom kennarinn nemendum mjög á óvart með því að gefa hverjum lítinn snakk poka og djús. Þetta mauluðu drengirnir í skjóli undir vegg í léttri rigningu. Tekið skal fram að góðgætið kom frá nemendasjoppu skólans.

 

Í útiskólanum í dag fóru allir að koma fyrir skordýravist í sínu húsi með því að fylla þau, raða sprekum sem klippt voru fyrir viku, hreindýramosa, könglum og mosa. Að lokum þurfti aftur að loka fyrir með neti, nú með hænsnaneti sem var öllu grófara en bakhliðin. Auðvelt fyrir býflugur og stærri smádýr að komast þarna innfyrir.

Eins og gerist reyndist það drengjunum misauðvelt að eiga við efniviðinn, koma fyrir innihaldi, nöglum og neti en allir stóðu uppi með sitt hús að lokum. Húsinn tóku þeir með sér heim og fengu fyrirmæli um að finna þeim góðan stað heima.

 

Þannig lauk þessum útiskóla en því miður var einn drengur fjarverandi síðustu tvær vikurnar, sat heima með handleggsbrot og missti því af þessari smíði.

 

Img 1947

 

 

Dagur 25 – 7. maí 2020

 

Loksins aftur útiskóli samkvæmt stundaskrá. Fyrir höndum var eitt stórt verkefni og það var að taka tvö barrtré sem biðu förgunar og klippa þau niður. Trén voru notuð sem jólatré um síðustu jól en nú var komið að endurnýtingu, næst verða þau nýtt í skordýrahús. Byrjað var þó á smá upplýsingaöflun um skordýr og ljóst að þær upplýsingar sem kennarinn lagði fram í dag voru alls ekki fullnægjandi.

 

Er út var komið í svolítið kalsalegu veðri var strax hafist handa og verkefnið gekk ljómandi vel, allir fengu tæki og tól til að geta átt við trén. Eftir 50 mínútna átök var verkið langt komið og tímabært að setjast niður í melónu og taka stöðuna. Til að geta notað efniviðinn í skordýrahús þurfti að klippa og saga frekar smátt og ákveðið að það yrði að ljúka því verki endanlega síðar um leið og sett væri í húsin sem átti að smíða síðar þennan dag.

 

En fleira þurfti en trén, næst var skipt í lið og fóru sumir að tína köngla við lerkitrén en aðrir að finna hreindýramosa og fl. sem talið var æskilegt í skordýrabústaði. En þá var líka tími útiskólans búinn þennan daginn en í lok dagsins aðstoðaði smíðakennarinn hópinn við að smíða litla kassa.

Allir einstaklega duglegir og jákvæðir þennan daginn.

 

Img 1946

 

 

Dagur 24 – 28. apríl

 

Aftur óvenjulegur útiskóli, 1 kennslustund eftir hádegi á þriðjudegi en sama blíðan og síðast. Nú ræddi kennarinn við drengina um verkefni sem hefja á vinnu við í næsta útiskóla en þá verður búið að aflétta öllum skorðum og útiskólinn aftur með venjulegu sniði. Verkefnið er að smíða og útbúa skordýrahús og reyndi kennarinn að koma hugmyndum sínum á framfæri. Hins vegar eru nemendur ölítið villtir orðnir eftir mikið frjálsræði undanfarið, bara skóli annan hvern dag t.d.

Síðan lá vel við að rifja upp fyrri umfjöllun um ský og á tíma fjarkennslunnar fyrir páska fengu nemendur útiskólans það heimaverkefni að skoða skýin og flokka og eins var í dag. Ekki virtist mikil þekking á þessum fínu bólstra og flákaskýjum sem liðu um himininn.

Næst var haldið í átt að lautinn og að sólúrinu. Þar var vildi kennarinn fá nemendur til að taka tímann út frá skugga og sól og flestir virtust ná að átta sig á því. Eftir það voru 10 mín eftir af tímanum og kennarinn sagðist ætla að gefa þeim frjálsan tíma í þær mínútur. Nokkrir drengir misskildu alveg kennarann og litu svo á að frjálsar mínútur þýddu fullt frelsi og drifu sig heim að skóla til að róla sér. En kennarinn ætlaðist til að frelisið yrði nýtt á útiskólasvæðinu. Smá misskilningur.

 

Snjórinn er á hröðu undanhaldi og sorglegt að sjá furtré sem koma undan farginu, beygð og brotin.

 

Img 1945

 

Dagur 23 – 22. apríl.

 

Óhefðbundinn útiskóli í covid 19 veiru skipulagi. Útiskóli 1 kennslustund eftir hádegi á miðvikudegi á degi jarðar. Það var gott að hittast eftir mánaðar aðskilnað og gott veður jók á ánægjuna.

 

Byrjað var á því að huga að úrkomumælinum og enn var flaskan á sínum stað í vörðunni þrátt fyrir mikil læti í veðrinu af og til frá síðasta útiskóla.

Nú var vorleysing og snjóbráð og meginverkefnið var að hugsa til dýranna sem lifa á íslenskri jörð, hvernig fara þau að því að lifa í náttúrunni og verjast öðrum. Jú þau eru flest hver í felulitum. Nemendur höfðu áður verið beðnir um að klæðast fötum í þeim lit sem þeir teldu að mundi auðvelda þeim að fela sig í. Reyndar gleymdu tveir alveg þeim tilmælum og mættu í þeim skærustu og glaðlegustu litum sem þeir áttu. Engu að síður fóru allir og földu sig, kennarinn gaf 10 mín og fór svo að leita. Tíminn var naumur og sem betur fór voru þarna einhverjir sem ekki gátu haldið aftur af talandanum og því tókst kennaranum að finna alla nema einn. Furutrén niðri við Bæjartjörn reyndust vel, þau slúttu mikið og breiddu sig yfir drengina sem auk þess gátu holað ser niður með stofninum. Sá sem ekki fannst gafst upp og gaf sig fram, blessunarlega.

Stuttur en góður útiskóli.

 

Img 1944

 

 

Dagur 22 – 19. mars

 

Veður: Heiðskýrt, vestan átt, gola og -10°c. Samkvæmt kennsluáætlun dagsins átti að fjalla um vorjafndægri sem verður á morgunn, þann 20. mars.Skoða veður og skýjafar og rifja upp heiti fjallanna í sjóndeildarhringum og ræða gerð þeirra.

 

Þessa dagana er mikið fjallað um Kórónuveiruna og COVID 19 veikina og skipulag skólans tekur breytingum samkvæmt því. Reynt að fá nemendur til að vera ekki að hnoðast mikið saman eða snertast. Engin leikfimi og engir boltar í salnum svo hreyfing innan dyra er af skornum skammti. Því var mikil þörf á hreyfingu utandyra og veðrið í dag innilega hliðhollt því sólin brosti eins breitt og henni var unnt og vindur lítill. Það var því mjög ánægjuleg útiveran þennan daginn.

Í dag vantaði 3 drengi svo hópurinn var lítill. Farið var samkvæmt dagskrá að læra um fjöllin, erfitt að muna nöfnin en þó höfðu einhverjir grun um Fljótsheiðina. Rætt var um Stóradalsfjallið og vildu sumir meina að þeir hefðu farið þangað upp alla leið. Hins vegar var kennarinn mjög efins um það.

Á himni voru smávægileg ský og eftir talsverðar vangaveltur og lestur um ský var álitið að þarna væri um að ræða grábliku og maríutásur. Því næst var fræðsla um jafndægri á vori, árviss fræðsla og efnið alltaf jafn óskiljanlegt. En auðvelt var að teikna skýringarmynd í snjóinn og kannski hafa einhverjir áttað sig í dag.

Er þarna var komið var bara ½ klst eftir af útiskólanum og drengjunum leyft að fá frjálsan tíma því í nýju skipulagi var matur kl 12:00. Fóru nú allir í lautina sem ekki vottar fyrir í snjódyngjunni og Álfaborgin var heldur lágreist, aðein mænirinn stóð upp úr snjónum. Drengirni fóru strax að reyna að grafa sig niður að suður glugga og tóks nokkrum að troða sér þangað inn að lokum.

Snjórinn hafði enn aukist frá því síðast var útiskóli þarna og landslag allt með nýju sniði.

Góður útiskóli þrátt fyrir kórónuveiru og snjó, sólin og jákvæðir drengir sáu fyrir því.

 

Img 1941

 

 

Dagur 21 – 12. mars

 

Veður og ófærð spila stórt hlutverk í atburðarásinni þessa dagana. Óveður í gær og ófærð í dag svo stundaskrá fór úr skorðum. Ákveðið að vinna inni í dag, en samkvæmt áætlun átti að ræða fugla og dýr í vetrarbúningi og fara í feluliti. En þar sem hvergi sér á dökkan díl væri það alhvítur klæðnaður sem best hyrfi í landslagið. Því var verkefninu frestað til vors í þeirri vona að snjórinn yrði þá á undanhaldi.

 

Í dag var ágætt veður, -5°c, norðan gola, léttskýjað en smá él. Í fyrri tímanu var unnið í samfélagsfræði en í seinni tímanum fór fram skráning á veðri útiskólans frá hausti. Nemendur skráðu á töflu og svo verður unnið úr tölum síðar.

 

Img 1939

 

 

Dagur 20 - 5. mars

 

Þennan dag var fámennt í útiskóla því 6. bekkur var í vettvangsferð á Siglufirði og nágrenni.

Á áætlun var að fara í vangaveltur um fugla og þeirra lifnaðarhætti með þeim sem heima voru en sú áætlun breyttist algjörlega.

Þegar út var komið tók við okkur hið fullkomna sólskin og logn en talsvert frost sem enginn fann þó fyrir. Enda allir vel og hlýlega klæddir í dag. Þar sem mikill snjór hefur verið lengi allt um kring og miklir ruðningar við bílastæði og svæði við skólann fundu drengirnir upp á því að hlaða sér birgi úr snjókögglum úr ruðningnum. Þeir voru einir úti ásamt leikskólabörnum og þarna fór af stað mjög ánægjulegur og áhugaverður leikur með þessum breiða aldurshóp. Birgið óx og þróaðist hratt og þegar yfirlauk og tími útiskólans á enda runninn stóð uppi all mikil bygging, byggð í víðtæku samstarfi.

Allir glaðir og heitir þegar farið var inn í hádegismat.

 

Img 1934

 

Dagur 19 - 27. febrúar 2020

 

Veður samkvæmt skráningu veðurfræðings dagsins: -5°c, andvari, léttskýjað og norðan átt.

Verkefni dagsins: Skoða í úrkomumælinn og skoða skafla. Hvernig eru snjóalögin sbr. síðasta útiskóla. Eru skemmtilegar hengjur og ef svo hvernig mynduðust þær? Hvað með dýrlífið. Byrja umfjöllun um hrafninn og villt dýr í vetrarbúningi.

 

Í úrkomumælinum reyndist bara vera smá klaki í botni en flaskan var á sínum stað, hafði ekki látið vindinn hafa áhrif á sig. Þar við vörðuna fengu drengirnir smá fræðslu um hrafninn en hann hafði einmitt verið með sýningu á listflugi rétt áður. Kennarinn ræddi við drengina um spörfuglana og það kom mörgum á óvart að krumminn skuli vera í hópi með litlu fuglunum. Svo spurði kennarinn út í vísu um krumma og strax voru allir samtaka um að syngja „Krummi krunkar úti“. Síðan las kennarinn ljóði um „Móðurina í kirkjuturninum“ eftir Davíð Stefánsson. Það urðu frekar óræð viðbrögð við því ljóði en ekki fannst þeim þetta falleg frásögn.

 

Að því loknu var komið að skaflaskoðun. Þá þegar var farið að bera á kulda hjá einstaka nemenda. En hópurinnn reyndi að hreyfa sig vel og farið var að suður brún Garðabolla og einmitt þar var hengja. Hún var nýtt vel í leik og þá losnuðu snjóflekar þar sem nýr snjór hafði lagst á gamalt hjarn. Rætt var hvernig hengjan hefði myndast og svo var lagt af stað að leita að fleiri hengjum í brúninni allt um kring en ekki fundust fleiri. Þá var langt liðið á útiskólann og mörgum orðið kalt svo kennarinn hleypti nemendum heim í skóla. En hann átti eftir að segja nokkur orð við drengina því við fyrirgrennslan kom í ljós að sumir þeirra voru alls ekki klæddir fyrir vetrar-útiveru. Það er sem skilningur á hugtakinu peysa miðist við hvaða langerma flík sem er og því jafnvel bara einn ermalangur bolur eini klæðnaðurinn undir galla. Mjög erfitt virðist fyrir drengina að sjá fyrir um hitasatig og veður.

 

Img 1930

 

 

 

Hópur 2 4. – 6. bekkur

 

Dagur 18. -20. 02. 2020

 

Veður: Norðan kaldi, 2°c og snjóél . Þessi veðurlýsing veðurfræðings dagsins virtist bjóða upp á fínasta útiskólaveður. En skjótt skipast veður í lofti nú sem fyrr. Þegar lagt var af stað í útiskólann 20 mín síðar gekk á með hvössum rokum með tilheyrandi renningi og látum. Engu að síður var haldið í verkefni í lautinni og nú kom sér vel að eiga þar hús til að geta skriðið í skjól. Ein snjóskófla var með í för og svo skemmtilega vildi til að umfjöllunarefni dagsins var um veður og snjó.

 

Eftir að búið var að moka frá hurðinni á Álfaborg skriðu allir þangað inn og kennarinn hóf umræður og fræðslu um veðurfar á okkar svæði undanfarið og hvað það væri sem stjórnaði veðrinu. Niðurstaðan var sú að til viðbótar við lægðir og hæðir í veðurhvolfinu hefðu fjöll og fjallaskörð áhrfi á vind. Hitastig stjórnaðist svo líka af hafinu og legu Íslands. Einnig var rætt um snjóinn, hve breytilegur hann getur verið og mismunandi snjóalög. Snjódýptin á útiskólasvæðinu er í sögulegu hámarki að mati kennarans, hliðið sem að jafnaði er gengið um á leið í lautina er nú vel falið undir snjóskafli. Fram undir þetta hefur efsti hluti þess staðið upp úr. Þá var svolítið skrýtið hve göngustígurinn á milli trjánna var orðinn þröngur, greinarnar slógust í andlitin og lítið sem ekkert sést í stóru furutrén sem sum hver voru mæld allt að 2,5 metrum á hæð í haust. En allt skapast þetta af dýpt snjósins.

 

Eftir spjall og vangaveltur í Álfaborg þar sem m.a. kom fram að flestir voru drengirnir búnir að fá nóg af vindi og snjó þennan veturinn, fóru nokkrir vaskir drengir út og hófu snjóhúsagerð inn í skaflinn til að skoða hvort hægt væri að sjá þar mismunandi snjóalög. Eftir að hafa grafið um hálfan meter í hvítum, mjúkum snjó var komið í gráan og harðan skafl sem erfitt var að eiga við. En þar var einmitt dæmi um snjó sem fallið hafði fyrr í vetur og búinn var að fá í sig rigningu og frost áður en nýr snjór lagðist á hann.

 

Vegna láta í veðrinu var haldið inn með fyrra fallinu enda búið að læra margt og mikið á stuttum tíma og finna veðrið á eigin skinni.

 

Img 1928

 

 

Dagur 17 – 13. febrúar

 

Veður: -14°c, andvari úr norðri, heiðskýrt. Sólin skein í smá tíma í morgun í fyrsta sinn á þessu ári. Við spáum því að í næsta útiskóla muni sólin ná að skína á okkur ef ekki verður skýjað.

 

Verkefni dagsin átti að vera veðurumfjöllun úti um veðrið og veðurhorfur en þar sem frostið var svo mikið og tveir nemendur að rísa upp úr veikindum var unnið inni í samfélagsfræði. Þar var fjallað um orkumál, hvernig rafmagn verður til úr vatnsorku og líka um auðlindir á Íslandi.

 

Fimmtudaginn 6. febrúar var æft fyrir þorrablóts-skemmtiatriði sem sýnd voru seinna um daginn.

 

Fimmtudaginn 30. janúar var enginn útiskóli þar sem þá var foreldra- viðtalsdagur og enginn skóli að öðru leyti.

 

 

Dagur 16 - 23. janúar 2020

 

Meginverkefni dagsins átti að vera að læra um hvernig maður getur bjargast úti í snjó ef maður þarf að bíða og líka að mæla úrkomu vikunnar. Síðan átti að fjalla um þorramat í tilefni þorrans.

 

Veðri bauð ekki uppá útiveru, svo fyrri tvö verkefnin voru sett í bið.

Útiskólinn fór því fram innan dyra. Byrjað var í kennslustofu þar sem veðurfræðingur fékk smá aðstoð við að stilla upp veðurkorti og segja frá veðrinu í dag. Kortið sýndi sögulegar tölur, aldrei fyrr hafði verið skráð talan 8 í vindstyrk en það er hvassviðri, allt að 20 metrar á sek, suð-vestan átt, -2°c frost og lítilsháttar snjókoma.

 

Því næst héldu allir fram í helli og þarf fór fram smökkun og skráningar á þorramat. Kennarinn bar fyrir nemendur 6 tegundir af kjötmeti, saltkjöt, hangikjöt, hrússpunga, magál, sviðasultu og grísasultu. Einnig rúgbrauð með smjöri. Þetta var sett fram í litlum tengum og hver drengur fékk tannstöngul til að stinga í. Hver tegund var merkt með númeri frá 1 – 7. Einnig fékk hver og einn eyðublað með númerum og reitum til að skrá í hvaða matartegund hann var að bragða, hvaðan hann taldi að sú fæða væri komin, hvernig honum líkaði bragðið og svo hvað honum fannt best. Tekið skal fram að ekkert af þessum tegundum var súr nema hrússpungarnir.

 

Það var ekki öllum auðvelt að bragða á hverri tegund en drengirnir létu sig þó hafa það áður en yfir lauk. Erfitt var að greina í sundur hangikjöt og saltkjöt, enginn þekkti magálinn, sviðasultan var með óþægilega viðkomu og pungarnir súrir. Einum dreng fannst allt gott og þekkti flest og öllum fannst rúgbrauðið gott. Flestum fannst hangikjötið best en saltkjötið kom fast á hæla því. Aðeins einn nefndi pungana en átti erfitt með að gera upp á milli. Fáir gátu skilgreint þennan mat, vissu enda ekki hvað þetta var. Kennarinn varð örlítið súr, hann hélt að eftir þorramatsumfjöllun á þessum tíma árum saman mundi meira hafa síast inn í kollana. En svona var það nú.

 

Img 1921

 

 

Dagur 15 – 16. janúar

 

Í skipulaginu voru verkefni dagsins þessi: Snjóstríð og hvernig má komast af í náttúrunni. Snjóhúsagerð, Útileikir, úrkomumælir og veður. Umræða um orkuna og kraftinn í fjöllunum, snjóflóð og hvað veldur snjóflóðum. Lífbreytileikinn, hvaða dýr eru í fjöllunum á þessum tíma og hvað verður um dýrin í fjöllunum.

 

Í dag var bjart og fallegt veður, hiti um frostmark, smá gola og heiðskírt. Hópurinn bjó sig óvenjulega að því leytinu að nú fóru allir í endurskinsvesti því til stóð að far út af öruggu svæði skólans og niður fyrir þjóðveg til að skoða snjóflóð í nærmynd. Fyrst var þó farið að vörðunni sem enn hélt fast utan um úrkomumælinn. Hann var tæmdur og staðsettur upp á nýtt svo hægt verði að mæla úrkomu eftir viku. Þá var haldið niður á brúnina neðan skólans en lengra varð ekki komist því þar fyrir neðan rann Kambsáin stillt og róleg á milli snjóbakka. Í hlíðinni undir norð-austur fjallinu blasti við snjóflóð frá því í vikunni. Það var ekki mjög stórt, hafði stöðvast áður en það náði niður í á. Hafði tekið á sig talsverða sveig sem hefur dregið úr kraftinum. Litið var eftir upptökum flóðsins og álitið að það hefði byrjað við fjallsbrúnina í hengju. Talsverðar hengjur eru enn til hliðar í fjallinu en af hverju þær ekki hafa fallið niður líka vitum við ekki. Nokkuð var rætt og ályktað um það sem fyrir augu bar en það gladdi mjög augu og sinni að sjá sólargeislana sem glömpuðu í fjallsbrúninni.

Eftir að hafa velt vöngum góða stund var haldið af stað í brekku rétt hjá en þetta var nýtt svæði fyrir hópinn að leika sér í. Þarna upphófst snjóstríð með veltingi, stökkum, hlaupum og klifri. Á meðan glæddust heldur sólargeislarnir um stund en svo dofnuðu þeir og við tóku þokubólstrar. Ekki var hægt að greina nokkurt líf í fjallinu.

 

Útiskólinn endaði svo heima við Álfaborgina en á leið okkar þangað hittum við rjúpur, minnst þrjár, sem kúrðu sig inn undir birkihríslunum rétt hjá leiksvæðinu. Þær voru nokkuð spakar en fyrir ofan flaug hrafn og gaf frá sér lágvært krunk. Þetta var hvítt og svart líf í hvítri veröld. Veðrið hafði talsvert ólmast frá síðasta útiskóla og enn hafði bætt á skaflana. Aftur upphófst snjóstríð meðal drengjanna, þó allt í fullri vinsemd en svo kom að lokum útiskólans þennan daginn og allir héldu heim. Ekki gafst tími til að grafa snjóhús eða fræðast um það hvernig best væri að komast af þyrfti að láta fyrirberast á víðavangi. Það bíður betri tíma.

 

Img 1920

 

 

 

Dagur 14 - 9. janúar.

 

Veður: -3°c, vestan kaldi og alskýjað. Frá því að síðast var farið í útiskóla 5. desember hefur veðrið farið hamförum á svæðinu. Talað var um sprengilægðir og úrkoman var mikil. Því var ákveðið að fara í dag í vettvangskönnun, að skoða hvernig snjór og veður hefði leikið trén fyrst og fremst.

 

Byrjað var inni í stofu á umfjöllun um áramótin og áramótalög. Kennarinn óskaði eftir hugmyndum og óskum frá drengjunum varðandi verkefni á vorönn og kom eitt og annað skemmtilegt fram s.s. að læra hvernig ætti að bjargast úti í snjónum ef einhver lenti í villu eða vandræðum. Eins að fara í felubúningaleik í náttúrunni og fara í víkingaleik. Þessu verður raðað niður á daga vorannar ásamt fleiru. Á meðan á þessu spjalli stóð spilaði kennarinn áramótalög af geisladisk og nemendur höfðu texta ef þeir vildu taka undir.

 

Í seinni tímanum var farið út, ekkert sérstaklega skemmtilegt veður en enginn kvartaði. Þegar við nálguðumst lautina var strax ljóst að þar voru sögulegir skaflar. Trén höfðu greinilega gefið sig eitt af öðru, stóru fururnar voru annað hvort alveg á kafi eða stóðu uppúr að litlu leiti. Það er hætt við að mörg valin tré hafi fallið í valinn. Næstu vikur og mánuði mun vonandi skýrast betur hvernig staðan er. Drengirni létu þetta ekki mikið á sig fá en engin jólakrukka fannst á svæðinu. Þeir einbeittu sér að Álfaborginni, að moka frá hurðinni svo hægt væri að opna en veglegir skafla umkringja litla húsið. Og svo rann tíminn út.

 

Img1919

 

Ekkert skólahald og því enginn útiskóli var 12. desember vegna óveðurs, ófærðar og rafmagnsleysis.

 

 

Dagur 13 – 5. desember

 

Áætlað var að eftir fasta dagskrárliði yrði byrjað að vinna inni í stofu þar sem drengjunum byðist að búa til kertaluktir fyrir trén sín í lautinni. Þetta gekk eftir.

Úti var kalsa veður -1°c, vestan stinningskola og léttskýjað. Samt smá snjófjúk. Hver drengur valdi sér glerkrukku sem þeir byrjuðu á að vinda með blómavír til að útbúa hald. Þetta var talsvert erfitt svo kennarinn hjálpaði í þessu verki. Að öðru leyti gerðu allir eins og hugur þeirra bauð, þeir skreyttu með borðum, könglum og límmiðum. Svo voru settar bjöllur í bönd til að vel gæti hljómað í lautinni. Við verkið þurfti að nota límbyssu og því miður varð eitt óhapp þegar brennheitt lím lenti í einn lófa svo sveið. Það var þó ekki látið stöðva framkvæmdir og allir héldu glaðbeittir út í goluna með sína lukt og nú fundust öll trén. Enda nær snjólaust, einungis smá frostköld svell í göngustígnum og milli þúfna fyrir utan nýfallin snjókorn. Allir völdu góðar greinar fyrir sínar luktir. Útiveran var stutt en góð.

 

Img 1915

 

 

Dagur 12 - 28. nóvember

 

Dansvika og þar sem annar útiskólatíminn fór í danskennslu og frostið úti vel -10°c var haldið til í kennslustofunni þessa kennslustund.

Drengirnir fengu að dunda við jólaleg verkefni á meðan kennarinn kafaði í excelskjali og mældi hæð þeirra sem ekki voru hæðarmældir í síðustu viku. Síðan voru tölur ræddar og skoðaðar. Í ljós kom að drengirnir höfðu hækkað mjög mismikið á árinu, allt frá tæpum 4 cm upp í rúmlega 10 cm. Algengasta hækkunin var þó innan við 6 cm. Ekki er enn komin endanleg niðurstaða í trjámælingarnar svo ekki var enn hægt að bera saman vöxt þeirra. Bæði er gaman að bera saman vöxt á milli trjátegunda og síðan samanborið við vöxt drengjanna.

Svo var komið að dansi; dans, dans, dans.

 

 

Dagur 11 - 21. nóvember

 

Verkefni: Veður, sólúrið og staða sólarinnar. Mæla hæð drengjanna og endurskoða trjámælingar. Frjáls leikur.

 

Veðrið mældist vel, -5°c, andvari af suðri og léttskýjað. Því var búist við ágætu sólskini úti á eftir.

Þennan dag vantaði þrjá drengi í útiskólanum. Byrjað var inni í stofu þar sem kennarinn mældi hæð drengjanna. Allir höfðu hækkað frá 5 – 7 cm frá síðasta hausti. En kennarinn skoðaði með þeim hvað trén þeirra höfðu hækkað á ári og þá voru nokkrar tölur sem ekki gátu staðist. Nær útilokað að tré geti lækkað svo ákveðið var að skoða sumar mælingar betur.

 

Það var þó byrjað á því að fara að sólúrinu og taka stöðu sólarinnar. Þá var kl 11:40 en þrátt fyrir fá ský á himni örlaði ekki á sólargeislum. Staðið var við sólúrið og íhugað um stund, skýringin var ekki svo augljós. Kennarinn útskýrði svo fyrir þeim að engin von væri til að fá sólargeisla á þessum árstíma vegna fjallanna sem skyggja á. Talsvert væri síðan sólin náði síðast niður að skóla en það var um mánaðarmótin október og nóvember. Svo mun hún ekki sjást aftur fyrr en eftir u.þ.b. 80 daga sem er um 10. febrúar 2020. .

Þetta var nú frekar furðulegt. En eftir þessar sólarlausu umræður fengu drengirnir að fara í frjálsan leik en þurftu þó að vera kennara innan handar við trjárannóknir. Mjög lítill snjór var á jörðu og hjarn það sem var. Leikur drengjanna var sjálfsprottinn og mjög fjörugur, mest umleikis í grennd við Álfaborgina og gekk út á átök við geimveru. Mikil saga þar á ferð og ákveðið að skrifa hana við tækifæri.

Eins og oft vill verða þurfti að hætta leik þá hæst hann stóð og fara heim í skóla að borða.

 

Img 1909

 

 

Dagur 10 - 14. nóv. 2019

 

Megin verkefni: Veðurfræðingur og úrkomumæling. Vinna verkefni í tengslum við dag mannréttina barna og dag ísl. tungu. Einnig ljúka við vörðuverkefnið frá síðasta tíma.

 

Veðurfræðingur skráði ágætis veður, -1°c, andvara af suðvestri og alskýjað.

Þann 15. mars 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna, en þá er afmælisdagur Barna-sáttmála Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðadagur barna. Sáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013.
Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta.

Í byrjun var haldið að fyrstu vörðu þar sem úrkomumælinum er komið fyrir. Hann reyndist galtómur að þessu sinni. Eftir viðkomu þar var aftur haldið af stað eftir vörðum. Þegar komið var á leiðarenda, búið að ganga nokkrar hóla, og komið að fallegri ísilagðri laut dró kennarinn upp Barnabókina, bók sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þarna unnu nemendur verkefni sem var þannig að kennarinn dró línur í snjófölina á ísnum, síðan stilltu nemendur sér upp í röð við fyrstu línuna. Kennarinn las úr bókinni hverja grein og bar svo upp spurningar á eftir. Ef nemendur töldu að svarið væri já áttu þeir að stíga yfir línuna að næstu línu. Ef allir komust yfir allar línur sýndi það hver staða þeirra var samkvæmt barnasáttmálanum.

Það kom nokkuð vel í ljós að hér búa börn við góð mannréttindi, öryggi og góðan aðbúnað, enginn upplifði vinnuþrælkun og allir áttu nafn og þjóðerni svo eitthvað sé nefnt.

 

Á heimsleið söfnuðu drengir hreindýramosa til að nota í skordýrahús.

 

Img1407

 

 

 

Dagur 9 – 7. nóv.

 

Veður: -8°c, kaldi, heiðskýrt og norðvestan. Verkefni dagsins gekk út á fræðslu og umfjöllun um loftslagsbreytingar og fjölbreytileika. Einnig átti að fara í gönguferð um hólana og ganga á milli varða. Vegna kulda úti fór fræðsla fram innan dyra. Drengirnir vita heilmikið um hlýnun jarðar og hugsanlegar afleiðingar. Sumur kváðust vera áhyggjufullir og kvíða framtíðinni en kennarinn benti þeim á að ef allir hjálpuðust að væri hægt að bæta mjög úr.

 

Þegar út var komið hélt hópurinn rakleitt að vörðunni með úrkomumælinum. Þar var einungis smá ísklumpur enda ekkert farið í útiskóla tvær síðustu vikurnar. Klumpurinn var losaður úr og flöskunni komið fyrir aftur. Allt hafði tekið sinn tíma áður en haldið var út svo tíminn til að elta vörðurnar varð of stuttur. Frekar en að missa af kjötsúpunni í hádeginu var snúið við og haldið inn. Sumum reyndar farið að kólna því ekki voru allir með vettlinga eða skjólgóð föt.

 

Img 1902

 

31. okt. Enginn útiskóli vegna árshátíðarundirbúnings.

 

24. október féll niður skóli vegna óveðurs

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hópur 2 4. – 6. bekkur

Kennari: Sigrún

 

Dagur 8 – 17. október

 

Verkefni dagsins: Veðurkort og úrkomumæling, náttúrurannsókn og söfnun á gróðri sem gæti hentað í skordýrahús. Einnig að ljúka við að mynda nemendur og mæla tré. Frjáls leikur.

 

Veðurfræðingur var dreginn út með spili að ósk drengjanna en sá sem fyrstur varð þess aðnjótandi að vera veðurfræðingur var ekki yfir sig hrifinn af verkefninu. En sameiginlega tókst að skrá 4°c, golu úr norð-austri og súld. Jörð er enn alauð en snjóslikja efst í fjöllum.

 

Byrjað var á að mæla úrkomu eftir vikuna og reyndist hún hvorki meiri né minni 380 ml. Því næst var haldið í lautina og sest í melónu. Þar ræddi kennarinn verkefni dagsins, en einnig ræddi hann um fjallið heima hjá hverjum og einum, en í samfélagsfræðinni var einmitt verið að lesa um fjöllin og áhrif þeirra. Nemendur samþykktu að grípa fram síma sína heima og taka mynd af fjallinu heima. Þetta voru þeir beðnir um að gera helst á morgun.

 

Þá var haldið af stað í mælingar og myndatökur við trén þeirra. Sjötti bekkur reið á vaðið, á meðan voru hinir sendir í að leita að könglum, viðarstubbum, berki og fleiru sem nota mætti í skordýrahús. Það er hugsað sem útiskólaverkefni í tengslum við nýtt þema, lífbreytileika. Vel gekk að mæla og síðan skiptu hóparnir um verkefni. Talsvert varð fólki brugðið eitt sinn þegar á einu trénu fannst gamall spotti eftir merkimynd, en spottinn hafði gróið inn í tréð án þess að neinn tæki eftir. Vel gekk að fjarlægja spottan svo vonandi verður trénu ekki meint af.

 

Í lok tímansn höfðu allir mælt sitt tré og fengið af sér ljósmynd. Talsvert safnaðist líka af efni í skordýrahús. Í lokinn gafst smá tími í frjálsan leik áður en haldið var inn að borða hamborgara. Góður útiskóli, góðir nemendur og gott samlyndi.

 

Img 1892

 

 

Dagur 7 – 10. okóber. Veður: Norð-austan slagveður, 4°c og snjókoma í fjöllum. Mikil rigning.

 

Verkefni samkvæmt áætlun var: Vettvangsferð um hólana og upprifjun á örnefnum. Taka myndir af fjöllum og stöðum til að vinna með og skrá örnefni inn á síðar. En vegna veðurs ákvað kennarinn að fara ekki út með nemendum fyrr en í seinni tímanum, halda áfram með verkefni samfélagsfræðinnar í fyrri tímanum. Þar var verið að fjalla um örnefni og landslag, því var ætlunin að halda því áfram úti. Hins vegar var veðrið þannig að vettvangsferðin var slegin af og myndatakan snerist um að festa á filmu veður og aðbúnað. Byrjað var á að skoða í úrkomumælinn og þar var heilmikið vatn, um 375 ml. Hins vegar var það safn eftir 2 vikur svo ekki samanburðarhæft miðað við vikuúrkomu.

 

Er þarna var komið voru sumir þegar farnir að blotna nokkuð og því ákveðið að enda tímann í lautinni, inni og við Álfaborg. Þar var mun minni vindur en engu að síður voru allir fegnir að komast aftur í hús fyrir hádegismatinn.

 

Img 1890

 

Dagur 6 - 3. október. Sigrún fjarverandi, Anita tók kennsluna. Verkefni: Að grilla brauð yfir eldi í lautinni. Drengirnir fundu sér prik af trjánum, stungu þeim í deig sem kennarinn hafði tilbúið, svo grilluðu þeir og borðuðu. Anita kenndi þeim að kveikja upp, að sýna þolinmæði, að eldur er heitur og að það þarf að halda deginu um stund í eldinum.

 

 

Dagur 5 – 26. september

 

Veður: 12°c, alskýjað og austan gola. Alauð jörð í haustlitum.

 

Er allir voru komnir út var haldið rakleitt í lautina. Kennarinn bauð drengjunum að byrja í leik í Álfaborginni, en þar hefu búðarleikurinn blómstrað undanfarið. Á meða fór kennarinn með yfir 30 hluti í kassa og dreifði á leiksvæði þar sem undir er melur og gisinn gróður. Þessir hlutir voru efnislega af ýmsum gerðum, pappír eða pappi, plast, efnisborðar, járnstykki, járnverkfæri, hnífur, trésópur, penni og trékubbar. Síðan kallaði kennarinn í Melónu og skipti öllum í tveggja manna hópa. Vísaði þeim á svæðið og sagði hverjum hópi að finna minnst 6 hluti sem ekki ættu heima þarna í náttúrunni. Drengirnir brugðust fljótt og vel við og innan tíðar hafði hver hópur fundið sex hluti. Þá hittust allir aftur í melónu og hver hópur gerði grein fyrir þeim hlutum sem hann hafði fundið. Hvað hann taldi að gæti orðið um hlutinn ef hann lægi lengi, hvort það væri í lagi að láta pappír liggja í náttúrunni fyrst hann yrði hvort sem er aftur að mold, hvernig járnið mundi bregðast við veðrun eða plastið. Þarna var meira að segja ein innbundin bók sem þeir sögðu alls ekki eiga heima þarna.Þetta var ítarleg og góð umfjöllun og þekking drengjanna aldeilis ágæt.

 

Farið var að síga á heinni hluta útiskólans þegar búið var að finna alla hluti, því enn leyndust nokkri á svæðinu. Þá var gefinn tími í áframhaldandi búðarleik. Sem fyrr voru tveir ribbaldar sem sátu um að að ræna penging frá hinum en nú færðist of mikil harka í leikinn. Segja má að hann hafi farið úr böndunum og átökin svo harkaleg að sumir meiddust. Þá var ekki annað hægt en að slá botninn í samveru í lautinni en kennarinn mátti byrsta sig all vel til að ná að skakka leikinn.

 

Lokaverkefni útiskólans í dag var að kanna hvað hefði komið í úrkomumælirinn þessa vikuna. Það reyndist ver 20 ml og nokkrar kóngulær. Allar dauðar nema ein sem fékk að fara frjáls ferða sinna.

 

Img 1885

 

 

Dagur 4 – 19. september

 

Meginverkefni átti að vera að hefja hæðarmælingar á trjám drengjanna en þó var byrjað á því að taka til úrkomumælirinn frá síðasta ári og koma honum fyrir í vörðunni sinni. En hópnum brá heldur betur í brún þegar þangað kom því varðan var ekki svipur hjá sjón, búið að ryðja henni niður. Steinarnir lágu dreifir skammt frá. Þetta var talsvert mál og mikið rætt hverjir hefðu hugsanlega verið þarna að verki. Kannski vindurinn en kennarinn taldi það af og frá, vindurinn gæti ekki flutt svona stóra steina úr stað. Þá var spurning hvort þetta hefðu verið túristar, kannski útlendingar og enginn hafði betri tillögu en það. Síðan var ráðist í að endurhlaða vörðuna sem var ekkert auðvelt. Steinarnir þungir og nú reyndi á samtakamáttinn, oft þurfti 2 – 3 til að lyfta steini. Þetta tókst, allir tóku á honum stóra sínum og við gátum skorðað úrkomumælirinn tryggilega þar í.

Í framhaldi af þessu beindi kennarinn athygli nemenda að gróðurfarinu í kringum okkur. Við vorum á beitarfiðuðu svæði svo ekki sást í nein rofabörð en talsvert um melkolla. Allir sammála því sem einn nemandi sagði að þetta land væri ekki að blása upp, gróðurinn væri greinilega að vaxa af eigin rammleik. Enda sáum við talsvert að birkihríslum sem greinilega voru að koma til af eigin rammleik og undir fótum okkar var fjölbreyttur gróður þar sem ekki var melur. Lyng, mosi, skófir, gras og lengi mætti telja. Einn smá klettur dró okkur til sín og þar var sérkennilegt að sjá að bæði krækiberjalyng, grastoppar, mosi og skófir höfðu sest að á steininum, í sprungum og glufum sem höfðu safnað í sig jarðvegi. Margar voru sprungurnar og töldum við að þessi steinn eða klettur hefði líklega sprungið svona vegna þess að fyrst hefði vatn þrengt sér í sprungurnar og svo frosið. Frostið eða ísinn hefði þannig sprengt upp klettinn. Allir sammála því að orkan í frostinu og ísnum væri mjög mikil.

Eftir þetta afrek var haldið í lautina þar sem piltarnir fengu að leika frjálst og strax braust út búðarleikur með ofbeldisfullu ívafi þar sem ræningjar áttu hlut að máli.

Þegar leið að lokum tímans kallaði kennarinn nemendur í melónu. Ekkert varð úr trjámælingum en rætt var að enginn veðurfræðingur hefði verið kallaður til enn sem komið var. Kennarinn bauð upp á breytt fyrirkomulag þar sem ekki virtist mikill áhugi á síðasta starfsári fyrir því að vera veðurfræðingur en nú kom í ljós að allir vildu gamla kerfið, draga með spilum og hafa ásinn hæstan. Engu að síður skoðuðum við veðrið saman þarna, það var áttaviti og hitamælir á staðnum og reyndist hitinn vera 9°c, áttin suð-vestan og gola, alskýjað, dalalæða og súld.

Síðasta verkefnið var svo að fara yfir markmið hvers og eins næsta mánuðinn í útiskóla. Flestir settu sér að búa sig betur, koma í stígvelum eða hlýjum fötum eftir veðri. Einn skar sig þó úr og ætlaði að standa sig vel.

 

Img 1883

 

Dagur 3 - 12. Sept.

 

Samkvæmt áætlun stóð til að ganga upp að Nýphólstjörn. Það leit ekki vel út með veður í morgun, mjög blautt á jörð og þoka niður fyrir miðjar hlíðar. En á síðustu stundi braust sólin fram og þá hopaði þokan fljótt. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um hið smá í náttúrunni í kringum okkur. Einnig að láta reyna á hópeflið, að fá holla hreyfingu og að æfa að fara eftir fyrirmælum. Í ferðina voru nýttar 3 kennslustundir, samfélgasfræðitími fyrir útiskóla var nýttur með. Við upphaf ferðar fór kennarinn í gegnum fáar reglur, sem voru að við ætluðum að halda hópinn, sem þýddi að enginn mátti taka strikið á undan en enginn mátti heldur fara að dunda og verða eftir. Ferðin gekk vel, gott hljóð í nemendum og þegar komið var á mel, langleiðina upp að tjörn stoppaði kennarinn hópinn og lagði fyrir verkefni. Drengjunum var skipt í 3 hópa, 3 í hverjum hóp. Svo fengu þeir blöð og blýanta með ákveðnum eftirfarandi fyrirmælum og spurningum.

Verkefni 1. Skrá veður, lýsa því, blautt eða þurrt, skýjað, þoka eða sól, snjór eða autt:

 

2. Skrifa um gróðurfar. Er gras, lyng, skógur, melar, mold eða hvað?

 

3. Finna 3 sérstaka steina. Skrifið af hverju þeir eru sérstakir og annað sem þið vitið um þá.

 

4. Finna 3 sérstakar jurtir. Skrifið af hverjuþær eru sérstakar, vitið þið nöfnin eða annað um þær.

 

5. Hvað hittuð þið marga læki á leiðinni upp?

 

Veðrið reyndist sérlega gott en flestir blotnuðu í fætur af blautri jörðinni. Mis vel gekk að meðtaka fyrirmælin varðandi verkefni og ekki mundu allir eftir að halda hópinn í litlu hópunum. Þegar komið var upp að vatni var smá fluga sem angraði suma mjög mikið. Því vildu þeir fá að halda heim aftur sem fyrst þótt við hefðum enn næga tíma til að leika eða til að ljúka við að skrifa um verkefnin. Því leyfði kennarinn þeim að leggja af stað til baka og finna sér góðan stað til að ljúka við verkfnið. Þetta túlkuðu drengirnir á þann veg að þeir mættu fara heim í skóla og voru því komnir þangað langt á undan kennaranum, sem var ekki mjög ánægður með þá framvindu. Því þurftu drengirni að hætta í sínum boltaleik í salnum þegar kennarinn mætti og koma aftur út til að meðtaka boðskap kennarans. Hann sagði sem var að þetta hefði honum þótt góð og ánægjuleg ferð, að þeir hefði staðið sig vel að öðru leyti en því að þeir hunsuðu fyrirmæli. En einmitt það atriði birtist of oft í samstarfinu. Drengirnir báru því við að hafa verið orðnir svangir og þeir töldu að kennarinn mundi hafa sig til byggða þrátt fyrir nokkuð háan aldur.

 

Img 1878

 

Dagur 2 - 5. sept

 

Verkefni sem tengd voru degi náttúrunnar 16. september, náttúran í nærumhverfinu. Nemendur fóru til að byrja með ásamt kennara í melónu í lautinni. Veðrið var gott, um 11°c, suð-vestan gola og léttskýjað. Eftir frostkalda nótt var orðið þurrt á jörðu. Í melónu var rætt um hópaskiptingar, farið yfir örfáar reglur í útiskóla og tilgang og markmið með útiskóla. Síðan fóru drengirnir 9 með tvo ramma sem voru ca 60 cm á kant og fóru eftir leiðbeiningum „Horfum inn fyrir rammann“. Ramminn látinn falla tilviljunarkennt á slétta, gróna flöt. Síðan þurftu nemendur í báðum hópum að greina það sem þeir sáu í rammanum og skrá á þar til gerð blöð. Verkefnið gekk vel, flestir sýndu áhuga og unnu mjög vel. Kennarinn tilkynnti að í vetur ætlaði hann að gefa einfaldar einkunnir í formi broskarla fyrir frammistöðu og áhuga í verkefnavinnu en einnig í félagslegum samskiptum, hvernig viðkomandi gengi að leysa ágreining eða ráða fram úr málum sem upp kynnu að koma. Að þessu sinni fengu tveir fýlukarla, þrír hvorki né og 4 bros.

Síðustu 20 mínúturnar var frjáls leikur sem gekk út á sjoppurekstur, sölu og viðskipti.

 

Img1876

 

Dagur 1 29. ágúst

 

Enginn skipulagður útiskóli því 5. og 6. bekkur voru á barnaþingi í Valsárskóla. Því fóru drengirnir sem eftir sátu inn í litlu íbúð og kubbuð af hjartans list, bæði með legó- og einingakubbum.