Dagbók útiskóla 2020-2021

Hópur 2

 

Í vetur er útiskóli alla fimmtudaga frá kl 11:05 - 12:30

 

 


 

Dagur 9 - 29. október

 

Síðasti vinnudagur Sigrúnar og síðasti útiskólinn með henni og nemendum.

 

Veður; 5°c, norðan kaldi og skýjað. Þar sem þetta var síðasti skólinn var dagskráin frjálsleg, ýmislegt sem þurfti að gerast svona undir það síðasta.

 

Kennarinn sýndi þeim skráningar á hæð þeirra og trjánum þeirra og hve mikið allir höfðu hækkað á árinu. Yfirleitt munaði ½ til 1 sm. trjánum í vil svo börnin sáu fram á að geta aldrei náð trjám í hæð sem nú þegar voru hærri. Því miður höfðu tré tveggja barna brotnað í vetur svo þau börn þurftu að finna ný tré og höfðu því ekki samanburð á vexti. Tveir nemendur eru nýir í hópnum og eru því að byrja þetta ferli.

 

Haldið var rakleitt í lautina þegar komið var út og sest í „melónu“. Þar gaf kennarinn hverju barni safa og smákökur sem brögðuðust afbragðs vel. Þau báðu um uppskrift, en þetta voru Múukökur og mun Sigrún senda þeim uppskriftina við tækifæri.

 

Eftir þetta bauð kennarinn upp á frjálsan leik en nemendur fundu sig ekki vel í einhverju. Úr varð að allir nema 3 stúlkur fóru í leik í sínu „heimili“ en kennarinn fór með þessum þrem í skoðunarferð um svæðið. Rifjaði upp og sýndi gamlar framkvæmdir, melinn litla við Álfaborg sem var gróðurlaus um 2009 en er nú að mestu gróinn af því að allir hafa verndað melinn og ekki gengið á honum. Svo var farið að sólúrinu, nú var engin sól svo ekki var hægt að lesa á úrið. Þar rétt hjá er fjárréttin sem nemendur útbjuggu fyrir mörgum árum og stendur enn, en er lítið notuð.

 

Í lok útiskólans fóru allir að úrkomumælinum til að mæla úrkomu síðustu daga en í fyrsta sinn frá því að þessum mælibrúsa var komið fyrir í vörðunni hafði hann fokið og lá galtómur í skjóli skammt frá.

 

Þar með lauk þessum degi.

 

Dagur 8 - 22. október

 

Á áætlun var að fylla út veðurkort og gá í úrkomumælinn. Mælingar á hæð barnanna og samanburðarskoðun á trjám og börnum. Gönguferð að vali kennarans.

 

Veðurfræðingur skráði norðan golu, alskýjað og 1°c. Útiskólinn byrjaði nú inni þrátt fyrir ágætis veður og auða jörð. En inni fór fram hæðarmæling á nemendum, og reyndar einum kennara sem átti leið hjá. Veðurfræðingur sinnti sínu starfi eftir að hafa dregið hæsta spilið.

 

Úti var haldið rakleitt að úrkomumælinum. Í honum var örlítill klaki sem ekki tók að mæla. Nemendur voru spurðir að því hvernig þau teldu að jörðin hefði litið út í morgun ef rignt hefði í frostinu í nótt. Þau álitu að þá hefði jörðin verið blaut. Kennarinn var eitthvað hissa á því svari og þá áttaði einn sig á því að líklega hefði þá verið snjór á jörðinni.

 

Þetta var næst síðasti útiskóli kennarans sem lætur að störfum í lok mánaðar og því vildi hann fá að velja verkefni og valdi gönguferð um hólana. Þó var byrjað við Garðabolla, en kennarinn útskýrði nafnið og allir veltu vöngum yfir tóftum í botni bollans, einnig greinilegum garði sem liggur þar í gegn. Erfitt að ráða í þessi vegsummerki. Ákveðið var eftir nokkra kollhnýsa og veltur í brekkunni að fylgja þessum garði til að sjá hvert hann lægi. Við næstu tjörn endaði garðurinn en við tók spennandi seftjörn og þar var frost í jarðvegi og vatni. Sumir hættu sér út á ísinn en höfðu líklega grun um að ekki væri skynsamlegt að halda langt enda létu hinir nemendurnir í ljós efasemdir um athæfið. En þetta kallaði á umræður um það hvenær svona ís mundi teljast öruggur.

Síðan hélt ferðin áfram og næst var staldrað við á mel og upphófst mikið grjótkast á ísinn. Ekki var kennarinn sáttur við þetta, benti á hættu sem gæti falist í hópgrjótkassti. Einnig vildi kennarinn meina að engin ástæða væri til að rótast í náttúrunni, allir ættu að geta gengið um hana eins og komið væri að henni. Þetta vakti enga hrifningu nemenda en allir héldu þó áfram glaðir í bragði. Enda var farið að sjá fyrir enda á gönguferðinni, heima beið girnilegur hádegismatur. En börnin bentu kennara sínum á plast sem var á grein úti í votlendinu og lét kennarinn sig hafa það að prika eftir plastinu. Svona má sjá vitundarvakningu barnanna, þau vildu ekki hafa plast þarna í náttúrunni.

 

Img 1977

 

 

 

Dagur 7 – 15. október

 

Verkefni: Veðurfræðingur og halda áfram með verkefni um trén. Hvað geta nemendur gert fyrir trén sín? Safna fræjum. Hvað verður um fræin og til hvers er verið að safna fræjum. Frjáls leikur.

 

Veðrið var einstaklega gott, 9°c, andvari og heiðskýrt. Úti var fyrsta verkefni að kíkja í úrkomumælinn. Þar reyndust vera um 10 ml, lítið rignt í síðustu viku. Því næst var haldið áfram í fræsöfnun, hófleg gleði með það meðal nemenda sem skiptu sér samt strax upp í tveggja og þriggja barna hópa. Þeir fengu frjáls val um staðsetningu og strax var haldið af stað. Þegar fyrri kennslustundin var á enda og kennarinn bauð upp á að gera breytingu reyndist ekki áhugi fyrir því, börnunum leið svo ljómandi vel í haustsólinni og dunduðu og mösuðu við þau tré sem urðu fyrir valinu. Nóg var af fræjum. En er á leið bað kennarinn nemendur um að koma í lautina þegar þeir væru tilbúnir og nokkru seinna kom syngjandi flokkur með fullar skálar af fræjum. Lagið var ekki af verri endnaum, fjörugt jólalag.

 

Það reyndist ekki mikill áhugi fyrir frjálsa leiknum þegar til kom, sumir orðnir svangir og biðu eftir matartímanum. Sá tími kom að lokum en áður en að því kom var kennarinn búinn að útskýra hvað gert yrði við fræin, af hverju það væri verið að safna og sá fræjum en sagði þeim líka frá haustvindunum sem alltaf kæmu einhvern tíman á hverju hausti og sáðu fræjum og hreinsuðu laufin af trjánum.

 

Img 1975

 

 

4. – 6. bekkur

 

Dagur 6 – 8. október

 

Verkefni dagsins: Fylla út veðurkort og velja veðurfræðing, kanna úrkomumæli, fræsöfnun og að síðustu nemendur mæla tréð sitt.

Kennslustundin hófst með því að kennarinn fór vandlega í gegnum gögn veðurfræðings. Hann útskýrði tákn fyrir skýjafar og annað í háloftunum, gerði grein fyrir merkjum fyrir frost annarsvegar, en þau eru blá og hins vegar fyrir hitastigum en þau eru rauð. Vindátt og stirk mætti kanna næst með litlum fána sem verður þá kominn á svæðið. Nemendum til hjápar verður litla veðurstöðin í glugganum og vindhaninn á stafni Tjarna. Veðurfræðingur dagsins var síðan valinn með því að allir drógu sér spil og hæsta spilið réð úrslitum.

 

Í dag var hálfskýjað, úrkomu laust, 6°c og norðan kul. Þá var komið að því að drífa sig út, en í gær bjuggu allir sig undir rigningu í dag svo veðrið kom þægilega á óvart. Nú var fyrsta verkefni að fara að úrkomumælinum en ekki hafði verið mælt síðan 10. september eða í 4 vikur. Talsvert hafði rignt þennan tíma því úr flöskunni voru mældir 490 ml, en sennilega hafa þeir verið fleiri. Mæliflaskan tók ekki nógu mikið í einu. Miðað við að til mælinganna er notuð tveggja lítra flaska má ætla að í henni hafi verið minnst 800 ml.

 

Næsta verkefni var fræsöfnun. Ætlunin var að hvert barn tíndi af sínu tré því öll nema eitt hafa valið sér birkitré. En í ljós kom að aðeins eitt valið tré var með þroskuðum fræjum svo hinir tíndu af þeim trjám sem höfðu frærekla. Einnig náðist að mæla og merkja síðasta tréð. Þetta varð hin ánægjulegasta samvera, undir það síðast höfðu allir sameinast við sama tréð og sungu leikskólalög af krafti.

 

Img 1974

 

 

Dagur 5 – 1. október

 

Verkefni samkvæmt áætlun: Veðurkort og Jafndægur á hausti 22. sept. Mynda og mæla trén. Alþjóðadagur tónlistar.

 

Í dag var sérlega gott veður, heiðskýr himinn, andvari og hiti um 10°c. Síðasta samræmda prófið fyrir 4. bekk var á undan útiskóla og voru því sumir nemendur hálf þreyttir. En aðrir sem ekki voru í prófum voru fremur sperrtir. Því breytti kennarinn út af áætlaðri dagskrá og byrjaði í lautinni á nokkurskonar hugarfresli sem fór þannig fram að nemendur lögðust allir á jörðina og slökuðu á eins og þeim var unnt. Þar sem veður var mjög kyrrt heyrðis ekkert nema ómur frá lækjum í fjallinu. Kennarinn bað börnin um að hugsa sér góðan stað eða besta staðinn sinn og fara þangað í huganum á meðan þau hvíldu afslöppuð á móður jörð.

Svo færðust þau hægt og hægt aftur á bekkina og flest voru til í að segja frá sínum stað. Sumum líkaði þetta mjög vel og vildu meira. En nú vildi kennarinn fara af stað í að mæla og mynda trén. Í hópinn vantaði einn en hinir náðu að mæla sitt tré og fá af sér mynd. Jafnframt fór fram frjáls leikur sem þeim finnst aldrei nóg af.

 

Svo fóru nemendur að finna fyrir mikilli svengd, enda von á góðum hádegismat eins og oft áður. Það voru því hressir nemendur sem hröðuðu sér heim í hádegismat í góða veðrinu þennan daginn.

 

Img 1968

 

Dagur 4 - 24. Sept

 

Meginverkefni var að fara í stutta vettvangsferð um skólaumhverfið til að nýju nemendurnir fengju kynningu á svæðinu.

Í gær voru nemendur að fylla út gátlista um lífbreytileika og þar voru nokkur atriði sem kölluðu á frekari rannsóknir. Því var ferðin jafnframt notuð til að fá nemendur til að gefa gaum að þeim atriðum, t.d. fjölbreyttu gróðurfari, vötnum af ýmsu tagi, þurrlendi og votlendi og litadýrðinni í náttúrunni. Það var kalt úti en yfirferðin sæmilega hröð. Einn drengur varð fyrir því óhappi að hrasa út í Bæjartjörnina við fiskilækinn. En hann blotnaði ekki alvarlega og hafði engin áhrif á ferðina. Einn svanur synti um á tjörninni og tvær brúnar endur voru á ferðinni eða á vatninu.

 

Kennarinn benti nemendum á hreiðurstæði svansins á heimleiðinni, enginn hafði tekið eftir því. Reyndar tóku nemendur ekki mikið eftir umhverfi sínu, áttu það t.d. til að brölta utan í melum þótt góð gata væri þar fyrir neðan.

En gönguhringurinn var góður og engum var kalt þrátt fyrir él í lofti og kaldan suð-vestan blástur.

 

Img 1965

 

Dagur 3 - 17. Sept.

 

Óhefðbundinn útiskóli því í dag var farið í fjöruferð. Lagt af stað fyrir kl. 10 um morguninn og ekið norður Fnjóskadal og Dalsmynni niður í Höfðahverfi. Veður var bjart og gott en talsverður vindur.

Þegar komið var í fjöruna vakti öldugangurinn strax hrifningu flestra, öldurnar toguðu mjög í. Byrjað var í stórgrýttri fjöru og þá var háflóð og há sjávarstaða og lét nokkuð hátt í sjónum. Fyrir flest eða öll börnin voru þessar aðstæður mikið nýnæmi, þau ekki vön sjónum. Þess gegna var viðfangsefnið spennandi og skemmtilegt.

Eftir góða stund í ölduganginum kallaði kennarinn hópinn saman og fór í gegnum smá fræðsluefni. Nemendur þurftu að átta sig á áttum, staðsetningu, heiti fjarðarins og hvað væri úti við sjóndeildarhring. Þarna blasti Hrísey við og þar langt fyrir norðan var Grímsey og jafnvel austurstrendur Grænlands. En ekki sást nú svo langt.

 

Meðferðist voru hamborgarar og fl. gott og var öllum boðið inn í hús í hádeginu.

Aðeins var farið að falla frá eftir matinn og þá fannst ýmislegt í sandfjörunni. Má nefna marglyttu og góð gleraugu. Einnig fundust kuðungar og skeljar af ýmsum gerðum en það var þöngulhaus sem vakti mesta aðdáun kennarans. Þegar rýnt var í hann mátti sjá fullt af örsmáum skeljum, kóröllum og fl. Nemendur voru mjög áhugasamir í sandfjörunni og tíndu talsvert af álitlegum skeljum og fl.

Að endingu gerðu nemendur skriflega grein fyrir ýmsum atriðum tengdum ferðinni og stóðu sig vel í alla staði. Komið var aftur heim í skóla um kl 14:20.

 

Img 1964

 

Dagur 2 - 10. Sept.

 

Á áætlun var að fylla út veðurkort og skoða í úrkomumæli. Mæla hæð nemenda og bera saman við síðustu mælingar. Mæla tré.

 

Í dag vantaði tvo nýja nemendur svo kennarinn ákvað að geyma útskýringar á veðrurkorti þennan daginn og að hæðarmæla. Veðrið var ágætt, lágskýjað og nærri logn, hiti um 8°c. Byrjað var á að fara að úrkomumælinum sem hafði nú safnað regnvatni í 2 vikur. Mældum 150 ml sem gerir 75 ml á viku. Svo var vildi kennarinn beina athygli nemendannan að lífbreytileikanum við fætur þeirra en áhugi og þekking var ekki mikil. Fyrir augum á litlum bletti voru beitilyng, sortulyng, 3 mismunandi tegundir af mosa, fjalldrapi, krækiberjalyng, bláberjalyng, loðvíðir, biðukollur, fjallagrös og skófir. Ein konguló vakti sérstaka athygli.

 

Eftir þetta fóru allir í lautina til að mæla trén og mynda. Þá kom í ljós að brotnað hafði ofan af birkitré eins nemandans svo ekkert var lengur að marka mælingu en viðkomandi valdi sér nýtt og óbrotið birkitré. En það tókst að mæla og mynda annað tré og annann einstakling og svo fengu nemendur að leika frjálst.

Drengirnir héldu saman og léku sér í sínu húsi sem umgirt er trjám og runnum. En mjög notalegt. Stúlkurnar sem báðar eru nýjar í þessum hóp, voru í hóp 1 í fyrra, fundu ekki löngun til að leita að húsi að þessu sinni.

 

Img 1962

 

Kennsla féll niður fimmtudaginn 3. september

 

Dagur 1 - 27. ágúst

 

Fyrsta verkefni var að útskýra og ræða fyrirkomulag útiskólans í vetur.

Tveir nýjir einstakleingar eru í hópnum að þessu sinni. Er út var komið var byrjað á að koma úrkomumælinum fyrir í vörðunni, þeirri sömu og í fyrra. Síðan farið í melónu í lautinni, þar sem kennarinnn skrifað niður óskir nemenda, hvað þeir hefðu hug á að gera í útiskóla í haust. Þær hugmyndir sem fram komu voru:

  • Að elda og baka
  • Að skoða blómin
  • Að mæla trén
  • Að finna tré fyrir nýliðana
  • Að búa til kertakrukkur í tré (eins og í fyrra)
  • Að finna og útbúa heimili í mónum
  • Að mæla úrkomu og taka veður
  • Að gera verkefni um lífbreytileika
  • Að fara í fjöruferð
  • Að vinna með skeljar og annað úr fjörunni
  • Að tálga
  • Að koma með dýr

Því næst var farið að leitað að trjám og allir fundu sitt frá í fyrra nema einn, hans tré hafði alveg brotnað undir snjónum og var því ónýtt svo finna þurfti 3 ný tré. Tað gekk hratt og vel, 3 birkitré urðu brátt fyrir valinu. Kennarinn tók mynd af hverjum og einum til að setja á trén og svo fengu börnin að leika sér í húsinu og víðar. Smá ósamkomulag varð á milli systkina, en svo völdu drengirnir sér nýtt heimili. Þá var farið að síga mjög á seinni tímann og allir orðin mjög svangir. Því var farið frekar snemma inn að þessu sinni.