Samantekt vegna 20 ára starfsafmælis Stórutjarnaskóla 30. 11. 1991

Ég hef verið beðinn um að segja nokkur orð um byggingu Stórutjarnaskóla og aðdraganda að byggingu hans.
Ég mun fyrst og fremst fjalla hér um undirbúning að byggingunni.
Skólinn er hér til staðar og ég vona að mönnum sé frjálst að ganga um hann og virða hann fyrir sér. Tel ég það betra en ég sé að reyna að lýsa honum. Það tekur of langan tíma.


Aðdragandinn
Bygging skólans hér að Stórutjörnum átti sér langan aðdraganda. Upphaf málsins má eflaust rekja til þess hvernig komið var fyrir okkur íbúum Hálshrepps í húsnæðismálum skólans í Skógum.
Barnaskóli, einn elsti skóli á Íslandi hafði verið starfræktur að Skógum frá 1912 og sem heimavistarskóli frá 1932, lengst af undir farsælli skólastjórn Jóns Kr. Kristjánssonar á Víðivöllum, sem kenndi þar samfellt í 45 ár. Jón gerði ekki miklar kröfur til húsnæðis, og er vart skiljanlegt í dag hvernig honum tókst að inna af hendi jafn gott og farsælt fræðslustarf og raun ber vitni um við aðstæður sem ekki teldust nokkrum manni boðlegar í dag. Aðeins ein kennslustofa var í Skógaskóla og íbúð skólastjóra mældi ég fyrir mörgum árum og reyndist hún aðeins 8 fermetrar. Þetta litla herbergi var hans skrifstofa, svefnhús og sjúkrastofa nemenda, þegar svo bar undir, og orgel skólans var þar ýmist úti eða inni eftir því hvernig á stóð. Í dag væri það brot á landslögum að vista einn nemanda í svo litlu herbergi. En það hlaut að koma að því að ekki teldist boðlegt eða viðunandi að búa við þær aðstæður er í Skógum voru. Það sáu bæði Fnjóskdælingar og yfirvöld fræðslumála. Við vorum orðnir á eftir flestum hvað varðaði skólahúsnæði og aðbúnað nemenda.
Áður en ég tók við formennsku í skólanefnd Hálshrepps hafði sr. Sigurður Haukur verið formaður nefndarinnar og um þær mundir var Valgarður Haraldsson að taka við starfi námstjóra á Norðurlandi eystra af Stefáni Jónssyni. Húsnæðismál Skógaskóla voru því mikið rædd á fundum þeirra Valtýs Kristjánssonar oddvita okkar í Nesi, Sigurðar Hauks, Jóns kennara og Valgarðs námsstjóra. Einnig var Helga Elíassyni fræðslustjóra vel kunnugt um aðstæður okkar. Ástandið í skólamálum var ögn betra í Ljósavatnshreppi. Þar var nýlegt félagsheimili sem kennt var í. Þessar umræður leiddu til þess að snemma var farið að ræða samstarf þessara tveggja sveitarfélaga, Ljósavatns- og Hálshrepps og þá strax álít ég að Stórutjarnir hafi komið inn í myndina, sem álitlegur skólastaður.
Staðurinn Stórutjarnir var vel í sveit settur, á mörkum sveitarfélaganna. Áhugi Stórutjarnasystkina á því að á Stórutjörnum risi skólasetur leiddi til þess að þau afhentu þeim sem harðast börðust fyrir samvinnu Ljósavatns- og Hálshrepps um skólabyggingu, gjafabréf þar sem tekið var fram að þau gæfu bæði lóð og hitavatnsréttindi til skólans. Þessi gjöf systkinanna á Stórutjörnum er svo stór að hún verður aldrei fullþökkuð.


Byggingarnefnd
Orð eru til alls vís. Öll sú mikla umræða um úrbætur í skólamálum okkar leiddi til þess að 1. febrúar 1965 var haldinn sameiginlegur fundur hreppsnefnda og skólanefnda Ljósavatnshrepps og Hálshrepps að Landamótsseli og þar var kosin bygginganefnd fyrir væntanlegan skóla að Stórutjörnum.
Í byggingarnefnd voru kosnir:
Erlingur Arnórsson kosinn af skólanefnd Hálshrepps, Bragi Benediktsson kosinn af skólanefnd Ljósavatnshrepps, Valtýr Kristjánsson kosinn af hreppsnefnd Hálshrepps og Vagn Sigtryggsson, kosinn af hreppsnefnd Ljósavatnshrepps.
Viku síðar, þann 6. febrúar hélt byggingarnefnd sinn fyrsta fund að Skógum, og skipti með sér verkum. Þar var Erlingur Arnórsson kosinn formaður nefndarinnar og Vagn Sigtryggsson kosinn ritari. Þá var Þórhallur Kristjánsson sparisjóðsstjóri á Halldórsstöðum í Kinn ráðinn reikningshaldari skólabyggingarinnar.
Ég var þess fljótt var þegar ég fór að ræða við embættismenn fræðslumála um úrbætur í húsnæðismálum skólans að Skógum að hugmyndir okkar þóttu ekki sýna mikinn stórhug eða framsýni. Ný fræðslulög (grunnskólalög) voru í undirbúningi, nýir skólar áttu að ná yfir stærri svæði, kennarar að vera margir við hvern skóla og sérhæfðir fyrir hin ýmsu námsefni.
Okkur voru því settir ákveðnir kostir:


Við skulum hlusta á óskir ykkar ágætu norðanmenn þegar þið í 5 vestustu hreppum S.—Þing., hafið komið ykkur saman um einn skóla og hvar hann skuli staðsettur.


Við fyrstu sýn voru þetta óyfirstíganlegir úrkostir sem okkur voru settir.
En nú hófst þrautaganga löng og ströng við að leita samstarfs við nágranna. Á öðrum fundi byggingarnefndar, 21. febrúar 1965 er formanni byggingarnefndar falið að gera fyrirspurn til skólanefndar og hreppsnefndar í Bárðardal um það hvort þeir vilji gerast aðilar að stofnun Stórutjarnaskóla. Á þriðja fundi 11. apríl er komið svar frá Bárðdælingum þar sem þeir óska eftir aðild að skólanum fyrir unglinga á aldrinum 13-14 ára. Og á þessum sama fundi er mér falið að ganga eftir svörum frá Grýtubakkahreppi og Svalbarðsstrandarhreppi um þátttöku í skólabyggingunni og tilkynna fræðslumálastjóra um niðurstöður.
Á öllu þessu sést að það er á fyrri hluta ársins 1965 sem undirbúningsvinna er komin á fulla ferð og farin að skila árangri.


Skólahverfi – samstarf sveitarfélaga
Það voru margar ferðir farnar, margir fundir haldnir til undirbúnings þessari stofnun, sem við erum hér saman komin í. Smám saman þokaðist til samstarfs milli fjögurra sveitarfélaga. Svalbarðsstrandarhreppur hvarf fljótt út úr myndinni, þótt formaður skólanefndar Svalbarðsstrandarhrepps, Þór Jóhannesson í Þórsmörk, væri henni hlynntur. Meirihlutinn kaus samstarf við Eyfirðinga um byggingu Hrafnagilsskóla.
Nú er orðið svo langt um liðið frá því að maður stóð í þessu stríðu öllu (meira en 25 ár) að margt er gleymt, en ég held að það sé rétt munað að á árinu 1965 hafi náðst samkomulag um hverjir stæðu að byggingu skólans hér að Stórutjörnum.
Rétt um áramótin 1965-1966 barst okkur svo bréf frá Helga Elíassyni fræðslustjóra dags. 26. nóv. 1965 þar segir:
„Í samræmi við 9. gr. laga nr. 34, 29. apríl 1946, um fræðslu barna, og að fengnum tillögum fræðsluráðs S.-Þing., staðfestir menntamálaráðuneytið eftirfarandi skiptingu S.- Þingeyjarsýslu í skólahverfi:

 

1.

Svalbarðsstrandarhreppur verði sérstakt skólahverfi á barnafræðslu-stigi með heimangöngu- eða heimanakstursskóla, eftir því sem við á, en unglingar sæki skóla með unglingum úr Hrafnagils-, Öngulsstaða- og Saurbæjarhreppum, Eyjafjarðarsýslu.

2.

Á Grenivík verði heimangönguskóli fyrir börn úr þorpinu og af þeim bæjum Grýtubakkahrepps, sem geta gengið daglega í þann skóla.

3.

Að Stóru-Tjörnum í Ljósavatnshreppi verði heimavistarskóli fyrir:
a. Öll börn og unglinga í Háls- og Ljósavatnshreppum.
b. Unglinga úr Grýtubakkahreppi og þau börn úr sama hreppi sem

ekki eru talin undir 2. lið hér að framan.
c. Fyrir unglinga úr Bárðdælahreppi.

4.

Að Hafralæk í Aðaldælahreppi verði heimavistarskóli fyrir börn og unglinga í Aðadæla-, Tjörnes- og Reykjahreppum.

5.

Bárðdælahreppur verði sérstakt skólahverfi á barnafræðslustigi með heimavistarskóla.

6.

Skútustaðahreppur verði sérstakt skólahverfi bæði á barna- og unglingafræðslustigi með heimavistarskóla að Skútustöðum.

7.

Reykdælahreppur verði sérstakt skólahverfi bæði á barna- og unglingafræðslustigi með heimavistarskóla að Laugum.


Framangreind skipting S. – Þingeyjarsýslu í skólahverfi gildir þangað til öðru vísi kynni að vera ákveðið.
Eins og sjá má af framanrituðu er um að ræða þá skipan skólahverfa, sem ýmist er komin á eða verður framkvæmd þegar fullnægjandi húsakostur o.fl. verður fyrir hendi.


Helgi Elíasson”.

 

Á fundi í byggingarnefnd sem haldinn var 10. júlí 1966 segir að á fundinn séu mættir fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem að byggingu Stórutjarnaskóla standi.
Undir þessa fundargerð rita: Bragi Benediktsson og Jón Kristjánsson úr Ljósavatnshreppi, Valtýr Kristjánsson og Erlingur Arnórsson úr Hálshreppi, Sverrir Guðmundsson og Jón Laxdal úr Grýtubakkahreppi og Hallur Jósepsson úr Bárðdælahreppi.


Nemendafjöldi – húsnæðisþörf
Þegar þarna var komið við sögu er loksins orðið ljóst hverjir muni standa að byggingu skólans að Stórutjörnum og hægt að fara að gera áætlanir um húsnæðisþörf skólans.
Það kom í hlut okkar Jóns Bjarman í Laufási að fara á fund fræðslumálastjóra og óska eftir aðstoð við að áætla húsnæðisþörfina. Sigurður Þorkelsson fulltrúi á fræðslu¬málaskrifstofunni, nú ríkisféhirðir, vann þessa áætlun og hafði til hliðsjónar 10 ára meðaltalsfjölda barna í umdæmi skólans. Börnum 9-12 ára var ætlað að vera til skiptis aðra hvora viku í skólanum en börnum 13-14 ára var ætluð samfeld skólavist.
Þessi áætlun leiddi í ljós að skólinn þyrfti að rúma 75 nemendur samtímis í skóla, rétt er að skjóta því hér inn að þessi áætlun stóðst engan veginn, því áður en skólinn var svo mikið sem hálf byggður var búið að lengja skólaskylduna um 4 eða 5 ár og mátti hýsa fyrstu árin allt að 150 nemendur samtímis í skólanum.


Teikning- arkitektar
En hvað um það, þegar búið var að ákveða að byggja skóla fyrir 75 nemendur var loks hægt að hefjast handa um að láta teikna skólann. Þá var gengið á fund húsameistara ríkisins og óskað ásjár. Húsameistari tók okkur með ágætum. Sagðist hafa góðan mann til að taka að sér verkið. Var þegar samið um að Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt tæki að sér að teikna skólann. Nýlega var búið að byggja skóla að Hallormsstað sem Þorvaldur hafði teiknað, svo hann var nýrri reynslu ríkari en margir aðrir. Þorvaldur er nú forstöðu-maður borgarskipu-lagsins í Reykja-vík. Áður en Þorvaldur hafði lokið við að teikna skólann hætti hann hjá embætti húsameistara. Gekk hann til liðs við Manfreð Vilhjálmsson arkitekt og ráku þeir saman teiknistofu í mörg ár. Verk-efnið tók Þor-valdur með sér og í sameiningu og samvinnu luku þeir félagar við að teikna skólann. Við þetta tók skólinn allmiklum breytingum og fékk það útlit og skipan er hér má sjá. Til liðs við þá félaga kom svo Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt og sá um skipulag lóðar. Þetta voru bráðskemmtilegir og listfengir menn sem ég held enn kunningsskap við og eru góðir vinir mínir.


Bygging hefst
Það er með ólíkindum hve margs þarf að gæta áður en hægt er að hefja framkvæmdir við byggingu skóla. Kostnaðaráætlun varð að gera og greiðsluáætlun. Skipting greiðslna milli ríkis og sveitarfélaga, hlutdeild hvers sveitarfélags í kostnaði, hraða framkvæmda og allt þetta þurfti að staðfesta með undirskriftum. Ekki var nóg að arkitektar teiknuðu hús og gerðu tillögur um skipan lóðar. Verkfræðingar urðu að hafa umsjón og eftirlit með mörgum tækniþáttum. Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen tók það verkefni að sér og sá um allar verkfræðiteikningar að undanskyldum raflagnateikningum. Indriði Einarsson rafverkfræðingur var ráðinn til að teikna allar raflagnir, en hann lést í flugslysi áður en því verkefni var að fullu lokið.
Það mætti halda eftir þennan lestur að ég hafi einn staðið að mestu í þessari undirbúningsvinnu að stofnun skólans, en það var öðru nær. Það var hópur góðra samhentra manna sem að þessu unnu. Þar vil ég nefna fyrst Valtý í Nesi og Þórhall á Halldórsstöðum, því við áttum mest saman að sælda. Valtýr hugsaði, ég framkvæmdi og Þórhallur sá um að greiða öllum það sem þeim bar. En það má fleiri telja: Braga í Seli, Jón í Fremstafelli, Bjarna á Fosshóli, Jón Jónsson í Fremstafelli, Jón Laxdal í Nesi og Hall á Arndísarstöðum. Svo vorum við svo lánsamir að til okkar réðist mjög góður og drífandi verkstjóri, Stefán Stefánsson byggingameistari. Það var okkur mikið lán. Svo rann upp sú stóra stund 9. júlí 1969, að við töldum óhætt að hefja framkvæmdir, þótt enn væri ekki búið að undirrita endanlegan samning um bygginguna. Það var ekki gert fyrr en 14. mars 1970.
Um þessa athöfn segir Bragi Benediksson í fundargerðarbók byggingarnefndar:


“Hinn 9. júlí 1969 var þeim langþráða áfanga náð að hafin var bygging Stórutjarnaskóla. Veður var hið fegursta, logn og sólskin og Ljósavatnsskarðið í sínum besta sumarskrúða, útsýni glæsilegt af skólastað.
Athöfn þessi fór látlaust fram, mættir voru á staðnum Stórutjarnabræður, þeir Sigurður og Aðalgeir, auk byggingameistara, Stefáns Stefánssonar og framkvæmdastjóra við skólabygginguna Erlings Arnórssonar svo og nokkrir menn úr bygginganefnd.
Sigurður á Stórutjörnum er elstur núlifandi Stórutjarnasystkina, nýlega orðinn 75 ára, tók hann fyrstu rekustunguna uppúr grunninum, þegar klukkuna vantaði 10 mínútur í 10 árdegis miðvikudaginn 9. júlí 1969 og jafnframt bað hann fyrir staðnum og skólanum og óskaði að hann yrði þessu byggðarlagi til blessunar um alla framtíð. Því næst hóf jarðýta vinnu í grunninum undir stjórn Reynis Jónssonar í Fjósatungu, þar með var þessari athöfn lokið, og merkum áfanga náð í skólamálum í vesturhluta sýslunnar.
Aðdragandi að byggingu Stórutjarnaskóla er búinn að taka mörg ár. Margir fundnir verið haldnir til að ræða málin og margar ferðir verið farnar til Reykjavíkur til viðræðna við yfirmenn fræðslumála, ýmsar blikur verið oft á lofti til að tefja framgang málsins.
Margir hafa unnið að framgangi þessa máls gegnum árin en ekki mun á neinn hallað þó sagt sé að stærstur sé hlutur þeirra Valtýs Kristjánssonar í Nesi og Erlings Arnórssnar á Þverá, en báðir hafa þeir unnið ötullega að framgangi þessa máls.
Ritað af Braga Benediktssyni, Landamótsseli”

 


Velunnarar – stuðningsmenn
Ég held að seint hefði gengið að reisa og ljúka við þessa skólabyggingu ef við hefðum ekki átt okkur góða stuðningsmenn. Mest eigum við Birgi Thorlacíus ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu að þakka. Hans stuðningur brást aldrei. Og ekki má ég gleyma Sigríði konu hans. Þegar allt um þraut átti ég til að leita til hennar.
Bragi Sigurjónsson, einn þingmanna þessa kjördæmis, sá til þess að við værum aldrei settir hjá þegar bitist var um það sem til skiptanna var hjá ríkinu. Það vildi nefnilega svo illa til að verið var að byggja þrjá stóra grunnskóla samtímis í kjördæminu, svo barist var um hverja krónu og allir þóttust afskiptir.
Aðrir landshlutar litu þessar framkvæmdir hornauga. Svo var Ölvir Karlsson í Þjórsártúni, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í byggingarnefnd menntamálaráðuneytis. Hann gætti hagsmuna okkar þar, traustur og ráðhollur. Honum eigum við margt að þakka, en hann er látinn eins og svo margir okkar manna.


Rafmagn
Ég held að öllum ætti að vera orðið ljóst eftir að hafa hlýtt á þennan lestur að margs þurfti við áður en hafist var handa við byggingu skólans. Mig langar að nefna hér eitt lítið dæmi sem sýnir hvað málin gátu verið snúin. Engin raflína var um Ljósavatnsskarð frá Rafmagnsveitum ríkisins. Það var því eitt af okkar fyrstu verkum að óska eftir að lína yrði lögð að skólanum. Þarna rákum við okkur á einhvern óskiljanlegan tregðu-tappa. Við höfðum því ekkert rafmagn nema frá smá mótorrafstöð fyrsta árið sem við unnum að byggingunni. Við urðum t.d. að hefla allt mótatimbrið inni í Vaglaskógi. Ég ætla að lesa hér örstutt bréf sem sýnir að okkur var ekki allsstaðar jafnvel tekið:
Bréfið er frá Orkustofnun dagsett 14. mars 1969.


“Hr. Erlingur Arnórsson, Þverá, Fnjóskadal.
Erindi yðar f.h. byggingarnefndar Stóru-Tjarnaskóla í Ljósavatnshreppi um rafmagnsveitulögn til skólans á árinu 1969 var lagt fyrir Orkuráðsfund, sem haldinn var 4. mars s.l.
Áður hafði þetta erindi verið til umræðu á Orkuráðsfundi 5. desember s.l.
Orkuráð gerði enga sérstaka samþykkt um erindið á þessum fundi sínum. “


Undir þetta rituðu tveir ágætir embættismenn.
Endirinn var sá að við urðum að lána ríkinu 600 þúsund af okkar alltof litla fjármagni til að fá rafmagn að skólanum. Enn er aðeins eins fasa lína að skólanum sem hefur marga ókosti í för með sér. Við það situr.


Velviljaðir – heimamenn
En það er fleira en erfiðleikar og stöðug vinna sem eru mér minnisstæðir frá upphafi
byggingarstarfsins.
Minningin um Sigurð á Stórutjörnum er mér t.d. afar kær. Hann kom gangandi næstum hvern einasta dag hingað niður eftir og fylgdist með hverju verki og hann átti til að gefa mér föðurleg ráð þegar honum þótti ekki af veita.
Ég sé hann svo ljóslifandi fyrir mér eins og verið hafi í gær. Næstum alltaf berhöfðaður í sínum hefðbundnu hversdagsfötum með staf í hendi og honum fylgdi alltaf heimilishundurinn Kópur.
Svo mál ég ekki ljúka við þessa frásögn að ég minnist ekki á Halldórsstaðaheimilið. Þar var ég oft daglegur gestur enda peningamál skólans eitt stórt, næstum óleysanlegt vandamál allan byggingartímann. Það létti mér raunirnar hvað Sigga tók alltaf vel á móti mér og enga tölu hef ég á hve oft ég var búinn að kyssa hana fyrir góðgerðirnar.
Þótt hrjúfur skrápur væri oft á Þórhalli, þótt mér ákaflega vænt um hann og aldrei sinnaðist okkur, en oft átti ég erfitt með að uppfylla óskir hans, því ætla ég ekki að neita.


Byggingarstjóri – formaður byggingarnefndar
Það verður að segjast eins og er að það gat verið ansi snúið að vera hvorttveggja í senn byggingarstjóri og formaður byggingarnefndar. Byggingarstjóri varð að sjá til þess að smiði vanhagaði ekki um neitt. Ef stóð á efni eða tækjum gat allt lent í strand.
Formaður byggingarnefndar varð aftur á móti að sjá til þess að gjaldkerann skorti ekki fjármuni til að greiða allt það sem til skólans þurfti, efni vinnutæki, þjónustu og svo ótal margt fleira.
Svo kom að því að ég lét af störfum sem formaður byggingarnefndar í ársbyrjun 1975, eftir 10 ára starf en hélt áfram að stjórna framkvæmdum. Við formennsku í byggingarnefnd tók Jón Kristjánsson í Fremstafelli og gegndi því starfi til loka. Í árslok 1973 hafði Þórhallur á Halldórsstöðum látið af gjaldkerastörfum en við því starfi tók Bragi Benediktsson í Landamótsseli en honum entist ekki aldur til lokauppgjörs.


Lokaorð
Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að lýsa byggingunni sjálfri. En ég vil þó segja þetta:
Ég tel að vel hafi til tekist með þessa skólabyggingu. Skólinn er vel hannaður – hentar vel til kennslu og hann er óvenjuvel búinn kennslutækjum. Fyrsti skólastjóri Stórutjarnaskóla Viktor Guðlaugsson, var dýróður í tæki og búnað eins og einn samstarfsmanna hans orðaði það.
Skólinn býr að því og er betur búinn tækjum en flestir aðrir skólar á Íslandi. Svo er Viktori og Guði fyrir að þakka. Við Þórhallur áttum aftur á móti mjög bágt meðan þessi ósköp gengu yfir.

 

Ég hef stytt þetta erindi mitt mikið, þess vegna er mörgu sleppt, sem ég hefði viljað segja frá. Ég vona að mér verði fyrirgefið það.
Fyrir hönd okkar sem að þessari skólastofnun stóðu vil ég þakka alla aðstoð og stuðning.
Mér verður oft hugsað til verkamannanna, ráðskvenna, smiða og allra tæknimannanna sem studdu okkur í starfi, þau eiga miklar þakkir skyldar.

 

 

Þessi samantekt er frá árinu 1991 en þá flutti Erlingur ræðu á 20 ára afmæli skólans og rakti byggingarsöguna.