Þróunarstarf

Vistheimt

Nemendur og starfsfólk Stórutjarnaskóla taka þátt í vistheimtarverkefni Landverndar, en það er þróunarverkefni þar sem unnið er með nokkrum Grænfánaskólum á landinu, Landgræðslunni og Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna. Þeir skólar sem eru með í þessu verkefni eru Stórutjarnaskóli, Hvolsskóli, Grunnskólinn Hellu, Þjórsárskóli, Þelamerkurskóli, Bláskógarskóli, Grunnskóli Snæfellsbæjar, Fjölbrautarskóli Surlands, Menntaskólinn í Hamrahlíð og Menntaskólinn Laugarvatni.

Í verkefninu Vistheimt með skólum setja nemendur sjálfir upp tilraunasvæði á örfoka landi, sjá um að sá eða bera á áburð í tilraunareiti og fylgjast með breytingum á gróður- og dýrasamfélögum. Skólinn var svo lánsamur að fá til afnota mel í landi Stórutjarna og þangað er hæfilegur gangur til og frá skóla.

Á Kennaradeginum 5. október 2020 tilnefndi Mennta- og menningarmálaráðherra tilnefningarnar til íslensku menntaverðlaunanna í flokki framúrskarandi þróunarverkefna. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.

Verkefnið okkar og hinna skólanna, Vistheimt með skólum, fékk tilnefningu ásamt fimm öðrum verkefnum. Það er Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur PhD., sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Landvernd sem hefur umsjón með þróunarverkefninu. Myndir hér - frá 2016 og ein frá 2020. Þar má glöggt sjá breytingar á gróðri.

Lífbreytileiki í Slóveníu

Stórutjarnaskóli tekur þátt í fjölþjóðlegu verkefni sem kallast Erasmus+ Hob‘s adventure 2018-2020. Verkefnið er á vegum Landverndar og eru skólar á grænni grein frá Eistlandi, Lettlandi og Slóveníu þátttakendur auk tíu grænfánaskóla frá Íslandi. Stórutjarnaskóli er einn af þessum skólum.

 

Markmið verkefnisins er að safna saman námsverkefnum um lífbreytileika fyrir börn á aldrinum fimm til níu ára og gefa út bók. Hver þátttökuskóli leggur til verkefni sem hinir skólarnir prufukeyra með nemendum og meta verkefnið með tilliti til þess hvort verkefnin henti þeirra skólagerð eða aðstæðum í þeirra landi.


Nú í byrjun október fóru Birna og Nanna til Slóveníu ásamt kennurum frá tveimur öðrum íslenskum skólum. Skoðaðir voru margir mismunandi Grænfánaskólar, prófuð mörg og fjölbreitt verkefni sem öll tengdust lífbreytileika eða umhverfi og náttúru á einhvern hátt. Þá unnu þátttökuskólarnir frá öllum löndunum saman að undirbúningi bókarútgáfu.


Skemmst er frá því að segja að ferðin heppnaðist mjög vel, var áhugaverð og fræðandi og verður eflaust uppspretta fjölbreytilegra verkefna sem við munum vinna með nemendum okkar. Myndir hér.