Dagbók útiskóla 2008-2009

32. dagur - 11. maí 2009

Síðasti dagur útiskólans þennan veturinn.
Þar sem prófin voru að hefjast var útiskólinn í aðeins tvær kennslustundir og fór að mestu í að finna nafn á húsið. Þó var að venju byrjað á því að fylla út veðurkortið, 10°c, skýjað og talsverður vindur.
Hópurinn frá 4ra ára í leikskóla upp í 3. bekk, alls 16 börn, tyllti sér niður inni í húsinu í lautinni okkar og fram fór hugmyndaflæði varðandi nafn á húsið. Fram komu hér um bil jafn margar tillögur og fjöldi fundarmanna og margar góðar og skemmtilegar en að lokum voru tvær tillögur sem stóðu upp úr. Það voru Litli kofi og Álfaborg. Þá var kosið á milli þessarra tveggja hugmynda og nafnið Álfaborg hafi betur með eins atkvæðis mun. Húsið ber því heitið Álfaborg.
Nú var allur snjór að verða farinn, hafði tekið mikið upp síðustu daga þrátt fyrir hret og kulda nánast frá síðasta útiskóladegi. Gróðurinn var farinn að taka við sér og í ljós kom að ein grein í trénu okkar hafði sprungið frá stofni sínum svo gerð var tilraun til að binda upp greinina. Í haust ætlum við að sjá hvernig þessarri grein hefur reitt af í sumar. Smá tími gafst til leikja, hefði þurft að vera lengri, en þar flugu hugmyndirnar af stað ekki síður en í nafnaleitinni.
Fleira var ekki gert.
Img0705


31. dagur - 4. maí 2009
Verkefni: Reyna eins og hægt er að ljúka við að klæða á veggi hússins og leggja drög að sperrum undir ris. Njóta vorsins, fara í leiki og taka eftir breytingum í náttúrunni.
Útiskólinn hófst seinna en vanalega vegna æfinga nemenda í tónlistarskólanum, en um kvöldið stóðu til vorrtónleikar skólans. Einnig var Ósk fjarverandi, þurfti að sinna afleysingu inni í Bárðardal.
Er út var komið hélt hópurinn beint í lautina og að húsinu. Nú var aðkoman nokkuð góð, snjórinn hafði sigið að miklu leyti og nú stóð á þurru landi smá stafli af timburbútum sem við höfðum saknað allan veturinn en aldrei hafði tekið nóg til að sæi í staflann. Lautinn var líka að verða þurr.
Hópnum var skipt í venjubundna 3 hópa, einn fór út í buskann í frjálsan leik en hinir tveir tóku upp hamra og sög og réðust til atlögu við veggina sem átti eftir að klæða á. Eftir ákveðinn tíma var skipt, þannig að allir fengu frjálsan tíma og allir komu að smíðum. Í hita leiksins mætti yfirsmiðurinn, Friðrik húsvörður á svæðið til að gefa góð ráð varðandi framhaldið og þaksperrur.
Ekki náðist alveg að ljúka klæðningu, hópurinn varð nauðugur, viljugur að fara heim laust fyrir skólalok, en þá voru flestir orðnir léttklæddir því þennan daginn lék veðrið við okkur og sólin hitaði vel eftir léttan rigningarúða í upphafi.
Img0702

 

30. dagur - 27. apríl 2009

Nú voru greinileg merki vorsins í loftinu þrátt fyrir að enn andaði hálf köldu. Tjörnin var horfin úr lautinni og okkur var ekkert að vanbúnaði við framhald byggingarvinnunnar.
Eins og síðast voru 5 árgangar í verkefninu og eftir nákvæma talningu reyndust vera 18 nemendur ásamt Ósk og Sigrúnu í byrjun. Nemendum var skipt í þrjá hópa, einn fékk að leika frjálst en tveir fóru í byggingarvinnuna. Nú voru menn stórhuga, því komið var að því að reisa húsið og það var gert. Verkið tók tímann fram undir hádegi, hóparnir skiptust á um að leika sér og taka þátt íverkefninu. Það þurfti að mæla, negla, saga og ekki síst að reyna á vöðvana því mikið þurfti að taka á við að reisa veggina. Aníta kom í hópinn sem þriðji kennarinn upp úr kl. 11 og það veitti ekki af, því mikill vandi var að halda öllu í horfinu, passa að veggirnir dyttu ekki áður en búið væri að festa þá, stemma af á hornum og moka snjó þar sem þurfti.
En við lok útiskólans gátu allir verið ánægðir og talsvert montnir. Stór áfangi hafði unnist.
Img 0696

 


29. dagur - 20. apríl 2009

Mikið vatn hafði nú runnið til sjávar frá síðasta útiskóladegi. Síðasti útiskóli fyrir páska féll niður vegna veðurs og breytinga í skipulagi og þar á eftir skall páskafríið á.
Ákveðið var að fara út strax efir morgunmat og taka fyrir eitt megin verkefni, að telja fugla og kanna hvaða farfuglar létu sjá sig. Byggingasvæðið var nú óviðunandi, stór pollur í lautinni og snjór að öðru leyti.
Nemendum var skipt í tvo hópa og Ósk og Sigrún leittu hvorn hóp. Gefinn var tími fram að löngu frímínútum og seinni hluti verkefnisins unninn inni eftir það.
Vel gekk að skipta í hópa, að þessu sinni voru 5 árgangar sem tóku þátt og hverjum árgangi var skipt í tvo hópa. Í leiðinni var unnið með hugtökin oddatala og slétt tala því ekki var alltaf hægt að skipta jafnt enda endaði hópaskiptingin þannig að 7 voru í öðrum hópnum og 8 í hinum, þ.e. annar stóð í sléttri tölu og hinn í oddatölu.
Sólin skein og vindur blés af suðri en þegar upp var staðið höfðu nemendur og kennarar talið 7 fuglategundir og allar nema ein voru farfuglategundir. Eftirfarandi fuglar sáust:
Staðfuglar: Auðnutittlingar
Farfuglar: Skógarþrestir, heiðlóur, álftir, gæsir, stelkir og stokkendur.
Lóurnar flugu í hópum og gæsirnar mynduðu oddaflug sem skapaði skemmtilega umræðu í framhaldi af oddatöluskiptingunni skömmu áður. Skógarþrestirnir hömuðust við að kroppa krækiber sem komu undan snjónum.
Eftirá hélt hvor hópur kynningu inni á þeim fuglum sem sáust sem trúlega voru í sumum tilvikum þeir sömu. Að lokum fylltu allir nemendur út veðurkortið að venju.
Img0693

 


28. dagur - 23. mars 2009

Verkefni dagsins: Fylla út veðurkortið, , halda áfram með smíðar og klæða á gaflgrind hússins, byggja snjóhús og gefa fuglum. Einnig var gefinn tími fyrir frjálsan leik að vanda.
Þrátt fyrir 27 útiskóladaga í vetur sem allir hafa með einhverjum hætti leitt til umræðu um hlýjan og skjólgóðan klæðnað þurfti enn að vera með áminningar og athugasemdir að þessu sinni. Sumir gleymdu peysum eða ullarsokum og aðrir töldu ekki þörf á að klæðast slíkum fatnaði þar sem sól var á himni. Því þurfti að byrja á að fara yfir þessi mál og kalla eftir viðbótar klæðnaði.
Börnin unnu í 3 hópum að venju, einn smíðaði, annar hlóð snjóhús og þriðji hópurinn fór í frjálsan leik, auk þess sem hann gaf fuglunum gamlar brauðskorpur. Eftir u.þ.b. 40 mín við hvert verkefni var skipt.
Það má segja að þema dagsins hafi verið húsbyggingar því byggt var á þrem stöðum, þrennskonar hús. Eitt þeirra var upphaflega verkefnið, þar sem negla þurfti spýtur á grind, annað var snjóhús hlaðið úr snjóhnausum og það þriðja frjálst verkefni, spýtnahús, þar sem byggingarefni var raðað upp og látið mynda hús.
Veðrið lék við fólk og náttúruna um kring, tveir svanir flugu yfir og minntu þannig á komandi vor og heyra mátti tíst í spörfuglum í grenndinni.
Það voru frískelgir og rjóðir nemendur og kennarar sem slangruðu heim í skóla rétt fyrir matartíma, eftir langa og góða útiveru.
Img0683

 


27. dagur - 16. mars 2009
Verkefni dagsins: AÐ halda áfram við að klæða timbur á grind, byggja snjóhús í skaflana og gefa fuglum.
Veður var bjart og fallegt en talsvert sterkur vestan vindur í -1°c sem kældi mjög hratt. Það setti strax strik í áætlunina. Í öðru lagi var byggingarstæðið á kafi í snjó, og það var í fyrsta skipti í vetur. Í þriðja lagi gleymdist fuglafóðrið. Niðurstaðan varð því sú að börnin byrjuðu á því að ber til timbur sem verið var að gefa okkur, komu því fyrir á byggingarsvæðinu en völdu sér síðan að leika í nýju og breyttu landslagi. Víða voru brattar og hæfilega harðar brekkur sem buðu upp á fyrirtaks rennibrautir og það nýttu börnin sér óspart. Að þessu sinni var hópurinn talsvert yngri en venjulega, fimm börn úr fasta hópnum voru fjarverandi en í staðinn komu þrjú, 4ra ára börn úr leikskólanum. Þetta voru því 13 börn á aldrinum 4 til 9 ára sem léku sér saman. Eftir klukkutíma var mörgum orðið kalt svo þá fór tæpur helmingur heim í hlýjuna en hin léku sér áfram og gerðu samanburðar Img0682

 


26. dagur - 9. mars 2009

Árshátíðarundirbúningur í algleymi. Miklar leikæfingar sem krefjast þess að börnin hafi góða framsögu, læri hlutverk utan að og fari eftir reglum og fyrirsögn. Hlýði einum stjórnanda, en í hópnum hafa verið full margir stjórnendur. Þegar ekki voru æfingar var unnið með vinnubók um dýrin, að lita, skrifa ljóð og lesa.
Ekkert farið út í dag og veðurkortið ekki fyllt út. Engar myndir teknar.

 


25. dagur - 2. mars 2009

Allsherjar útidagur í skólanum í því skini að fræða börnin um náttúruna og auka á tengsl þeirra við umhverfið. Veðrir var mjög gott, þungskýjað en 1°c en úrkomulaust og nánast logn. Nóg var af nýföllnum snjó svo leiksvæðið var mjög skemmtilegt, enda nýttu börnin sér það út í æsar.
Verkefni dagsins voru að fylla út veðurkortið að venju áður en farið var út, negla á nýfundnar grindur, gefa fuglunum og njóta útiverunnar að hætti hvers og eins. Ósk var veik og Aníta þurfti til læknis svo Sigrún var ein með hópinn, alls 13 börn því 2 voru veik. Þegar Aníta fór komu nemendur úr 4. og 5. bekk í heimsókn á svæðið í eina kennslustund. Það hleypti miklu og góðu lífi í framkvæmdir, því þarna mættu smíðaglaðir menn sem drifu sig í að negla. Eftir nokkra stund voru börnin búin að festa einn þverbita og glugga í grind en þá uppgötvaði verkstjórinn að þetta hafði verið neglt í ranga grind, langgrind en ekki gaflgrind eins og átti að gera. Það tók því talsverðan tíma að koma verkinu í upphaflega stöðu svo hægt væri að negla þetta rétt. En þá voru nemendur að verða búnir að fá nóg, farið að líða á seinni hluta útivistar og sumum orðið kalt á fingrum. Vissulega mjög lærdómsríkt fyrir verkstjórann.
Fuglarnir fengu nokkra brauðmola sem stráð var af námkvæmni við tréð okkar góða.
En allir voru mjög sáttir, flestir talsvert þreyttir og jafnvel sveittir þegar haldið var heim.
Img0672

 


24. dagur - 23. febrúar 2009

Bolludagur og kalsa veður, -6°c og éljagangur. Í dag voru með okkur 3 fjögra ára börn úr leikskólanum. Byrjuðum á að fylla út veðurkortið og eftir það dúðuðu allir sig og fóru niður að byggingarsvæðinu. Þangað kom líka Friðrik húsvörður og húsasmiður að mennt. Þar átti að reisa alla fjóra fullklæddu veggina og fá fagleg ráð með framhaldið. En hið einkennilega kom í ljós þegar búið var að reisa upp efstu tvo veggina, að undir þeim leyndust tvær óklæddar grindur. Engu líkara en að þær hafi hreinlega verið afklæddar, sem er þó ekki talið sennilegt. Öllu sennilegra er að verkstjórar hafi verið full margir og enginn hafði haft nákvæma yfirsýn yfir það sem búið var að gera.
En þetta kom sér reyndar ágætlega því að nú var ákveðið að festa veggina saman á hornum áður en lokið yrði við að klæða á grindurnar. Svo næsta verkefni verður að safna meira timri og fá vír til að festa niður veggi áður en lengra yrði haldið.
Eftir þetta var aftur gengið frá veggjunum og steinum komið fyrir ofan á til að ekki fjúki þótt blási.
Í tilefni dagsins buðu Ósk og Sigrún upp á rjómabollur og kakó í skjóli við fururunna. Samt sem áður beit kuldinn verulega í fingur og allir fóru inn upp úr kl 11. Þar var Aníta tilbúin í grímugerð fyrir öskudaginn.
Img0666

 


23.dagur - 16. febrúar 2009

Verulega gott að koma út þennan morguninn, 3°c hiti og nánast logn í léttri sól. Vorum úti frá kl 10:15 til 12:15.
Megin verkefni voru þrjú, húsbygging, talning á trjátegundum og frjáls leikur. Börnunum skipt í þrjá hópa sem hver vann hálfa klst. í hverju verkefni og skiptu svo. Þannig komu allir að hverju verkefni. Það kom skemmtilega fram hve áhugi nemenda er mismikill á verkefnum. Sumir hópar voru samtaka og fóru vítt og breitt í leit að nýrri trjátegund á meðan aðrir hópar höfðu afar lítinn áhuga á því máli. Þeir aftur á móti voru kannski mun skarpari við neglingar.
Að venju voru börnin með brauðskorpur í poka og gáfu fuglunum við tréð sitt.
Alls fundust 12-14 tegundir af trjám og runnum, allt frá fjalldrapa að stórum grenitrjám.
Lokið var við að negla á húsgrindurnar, komið að því að taka verkið út og ákvarða framhaldið.
Img0659

 


22.dagur - 9. febrúar 2009.

Vegna mikils annríkis í kringum væntanlegt þorrablót gafst ekki tími til að fara út. Reyndar verður að segjast að sumir eru farnir að þreytast á endalausri frosthörku, frostið fer varla niður fyrir -10°c, viku eftir viku.
Tíminn hófst á því að allir fylltu út veðurkort dagsins í dag. Að því loknu var farið í að gera þorrakórónur og þær tókust afar vel. Það þurfti að strika eftir móti, klippa út, lita og margir skreyttu með söguðum beinhringjum og ullarþæfingi. Mjög þjóðlegt.
Að því loknu var æfing og búningavinna. Þeir sem ekki voru búnir að fá viðeigandi búninga fyrir þorraleikritið fóru með Ósk í búningakompuna og svo var æft á meðan tíminn entist.
Img0655

 


21.dagur - 2. febr. 2009

Kynning á þorramat, fuglafóðrun, stjörnuskoðun á korti og veðurkort.
Þennan dag var mikið frost, ca -11°c, svo ákeðið var að vinna inni fram til kl. 10:50.
Inni var unnið með veðurkort og stjörnukort. Börnin fengu það verkefni að reyna að þekkja karlsvagninn og stóra-björninn næst þegar þau gætu skoðað stjörnubjartan himinn. Síðan var farið út og niður á byggingarsvæðið. Þar var boðið uppá ýmsar tegundir af þorramat, s.s. hákarl, súra hrússpunga (gleraugnapylsu), súra og nýja sviðasultu, magál, rúgbrauð og hangikjöt.
Eins og myndirnar sýna bragðaðist maturinn mjög misvel, en jafnhliða matnum var lesið fræðsluefni um þorramat.
Kuldinn beit í tær og fingur svo útiveran varð ekki nema u.þ.b. klukkutíma löng. Fuglunum var svo gefið bæði við húsið og fyrir utan heimilisfræðistofuna. Þar hefur þeim verið gefið áður með góðum árangri. Börnin urðu vitni að því einn daginn þegar stór hópur af snjótittlingum gæddi sér á brauðskorpum sem dreift var þar fyrir viku síðan.
Img0651

 


20.dagur - 26. janúar 2009

Eftir langt skammdegi er loksins farið að birta. Í útiskólanum í morgun virtist það freistandi að hlaupa yfir í fjallshlíðina og reyna að ná sólargeislum í húfurnar til að bera með sér heim. En svo gleymdust slíkar vangaveltur því það braust út mikill leikur þar sem þátttakendur voru mótmælendur, lögreglan og Geir Haarde.
Að leik loknum var hafist handa með aðra hluti, hamrarnir voru dregnir fram eftir langt hlé en nú styttist í að húsið verði reist, allir veggir eru að verða tilbúnir.
Einn hópur fór í fuglatalningu og annar tók að sér að gefa fuglunum uppsafnaðar brauðskorpur frá eldhúsinu. Reyndur voru skorpurnar ótrúlega girnilega að sumra mati.
Á svona dögum eru það mikil forréttindi að geta verið í útiskóla, og að hafa opin augu fyrir öllu sem gerist í náttúrunni ekki síður en í samfélaginu.
Img0647

 


19.dagur - 19. janúar 2009

Verkefni dagsins voru rökkursögur í lautinni og fuglatalning. Nú fengu börnin lítið að leika sér því allir voru drifnir í stóru lautina þar sem Ósk las draugasöguna um Þorgeirsbola. Kveikt var á útikerti og eftir söguna stóðu allir í hring í kringum kertið og sungu nokkur áramótalög og vöggulag. Síðan fóru allir heim að húsi því eftir um það bil klst útiveru voru margir orðnir kaldir og kom á daginn að enn eru nemendur að flaska á klæðnaði, það vantaði peysur og hlýja sokka. Eftir þetta var aftur farið af stað og nú í fuglatalningu. Skipt í tvo hópa, eldri og yngri. Eftir því sem kuldinn herjaði á tær í gúmmístígvélum tíndust börnin inn í verkefni hjá Anítu. Þau fylltu í veðurkort og skreyttu teygjumöppur fyrir útiskólann. Fuglatalninginn skilaði fjórum auðnutittlingum, þremur snjótittlingum og einum hrafni.
Img 0644

 


18.dagur - 12. janúar 2009

Kalsa veður svo nú var haldið í stóru lautina til að komast í skjól. Fyrst var þó leikið í stóru brekkunni austan við húsið og þar var nánast botnlaus snjór svo helst var til ráða að skríða á maganum ef ekki átti að sökkva í kaf. Sumir voru komnir langleiðina á kaf þegar þeir voru dregnir upp. Þegar í lautina kom var kveikt á tveimur luktum í morgunrökkrinu og sagðar rökkursögur úr álfheimum. Síðan fóru sumir, sem komnir voru með kaldar tær, inn á undan og fengu inniverkefni hja Anítu en aðrir léku sér lengi í lautinni í miklum hlutverkaleik og ekki var laust við að álfar hefðu áhrif á söguþráðinn.
Að venju var svo unnið með veðurkortið.
Img0640

 


17.dagur - 5. janúar 2009

Heilsuðum nýju ári í útiskólanum með umfjöllun um álfa og huldufólk. Sögð ein saga á byggingarsvæðinu af álfum í Borgrfyrðri Eystri. Síðan var farið á svell að dansa álfadans og að sjálfsögðu var einnig frjálst rennsli. Komið var við á leikssvæðinu en inni var lesin þjóðsaga um aðkomu óljósra vætta í mannheimum. Að auki var farið í að fylla út veðurkortið eftir að komið var inn.
Img 0636

 


16.dagur - 15. desember 2008

Síðasti dagur ársins í útiskólanum fór fram í Vaglaskógi og þá voru einnig nemendur í 4. – 6. bekk með í för. Skógurinn var hálf dimmur og með leyndardómsfullu yfirbragði svo greinilegt var að nú máttu allir búast við óvæntum verum, skógarálfum, jólasveinum eða einhverju sem enginn visi hvað var. Það eru ekki allir spenntir fyrir að mæta þannig verum á förnum vegi og því var betra en ekki að vera með logandi ljós í kertaluktum . Gengið var um trjásafnið þar sem sjá mátti ýmsar gerðir trjáa en öll trén áttu það sameiginlegt að vera með hvítar greinar af nýföllnum snjó. Því var skógurinn mjög fallegur og jólalegur. Sumir töldu sig hafa séð í einhverjar torkennilegar verur skjótast á milli trjástofna en á þessum tíma er ómögulegt að vita hverju má trúa. En örugglega heyrðu allir í auðnutittlingi syngja upp í tré.
Eftir gönguferðina var farið inn í gróðrarstöðina í boði starfsmanna skógarins þar sem hópurinn fékk að drekka kakóið sitt sem matráðar útbjuggu fyrir ferðina. Sumir voru fegnir að geta yljað sér á tánum, en eitt af því sem nemendur eiga að læra í svona ferðum er að klæða sig með tilliti til veðurs. Að lokum var heilsað upp á væntanlegt jólatré Stórutjarnaskóla en þetta heppna tré beið þarna eftir að fá fluttning í skólann.
Svona ferðir veita kærkomna tilbreytingu í skólastarfinu og nemendur læra eitt og annað, m.a. um umhverið, náttúrun og sjálfa sig.
Img 0633

 


15.dagur - 8. desember 2008

Stuttur útiskóli, mikill leikur í brekkunni en svo var farið á byggingarsvæðið til að líta eftir þar og sjá hvernig tréð hefði það.
Inni var farið í að föndra, skreyta og fleira.

 


14.dagur - 1. desember 2008

Jólin í algleymingi. Stjörnuþema en loft var skýjað svo ekkert sást til stjarnanna. Skoðuðum stjörnukort inni og fylltum út veðurkort áður en farið var út.
Gengum um ljósagöngin okkar og lögðumst niður og horfðum upp í himinhvolfið.
Skipt var í hópa og samhliða ljósa og stjörnu pælingum var hinn venjubundni leikur.

 


13.dagur - 24. nóvember 2008

Þegar börnin komu á útisvæðið sitt í útiskólanum í morgun tóku þau strax eftir torkennilegum sporum í snjónum sem þeim leist ekki vel á. Þessi spor voru stór og luraleg og jafnvel var nokkursskonar bæli á einum stað. Börnin grunar að hér hafi jólasveinar og ísbjörn verið á ferð. Það var bent í norður og suður, austur og vestur, enda vissast að hafa höfuðáttirnar á hreinu ef eitthvað óvænt gerðist. Ekki höfðu þau kjark til að leita sjálf af sér allan grun en tóku til við sín verk, hvert og eitt.
Enn er að berast efniviður og veitir ekki af því fljótt gengur á timburstaflann þegar farið er að klæða. Auk þess að negla að hluta til á aðra gaflgrindina var fest upp ljósasería í lerkitrjágöng sem er á gönguleiðinni á byggingarsvæðið. Ekki mun veita af upplýstri leið þegar kemur fram í desember.
Skólinn var með styttra móti því einnig þurfti að taka þátt í danskennslu hjá Köru.
Img0617

 


12.dagur - 17. nóvember 2008

Enn gerast ævintýri og margt bar á góma í útiskólanum þann 17. nóvember. Loksins náðist að klæða fyrsta húsvegginn með fjölum og þar sýndu nemendur mikil tilþrif, sumir voru hættir að hafa tölu á naglafjöldanum sem þeir voru búnir að reka í viðinn.
En afrakstur morgunsins var heil húshlið, negld og tilsöguð og að auki var mælt fyrir ljósaseríu í trjágöng þar sem leiðin liggur á byggingarsvæðið, búinn var til stærðar snjókarl með tilsöguðu nefi og fleiru og teknar voru margar jafnvægisæfingar yfir snjóhúsið sem bráðnar jafnhratt og það er byggt.
Morguninn leið fljótt en að lokum voru sumir orðinr blautir og farið að kólna á tánum þrátt fyrir tánudd og gömul húsráð.

Img0612

 


11.dagur - 10. nóvember 2008

Áframhaldandi smíði. Byrjað var að klæða fyrstu hlið hússins.
Skipt var upp í hópa að venju og áður en farið var út fylltu börnin út veðurkort og könnuðu veðrið. Að venju var mikill leikur og hugmyndirnar flæddu.

 


10.dagur - 3. nóvember 2008

Nú hefur unnist ákveðinn áfangasigur við byggingu hússins í útiskólanum en síðasta grindin hefur verið negld saman. Þegar nemendur og kennarar mættu á byggingarsvæðið í morgun blasti við allt annað landslag en verið hefur undanfarið. Komnir voru snjóskaflar sem buðu upp á að börnin sæju í þeim ný og spennandi tækifæri. Það var því ekki bara verið að negla, einnig þurfti að leika sér og nota líkamann. Þá þurfti að moka upp fyrri grindur og reynt var að moka upp efni sem nú kúrir undir þykkum skafli. Ekkert var talið ómögulegt og því var hafist handa við að grafa en þó fór það nú svo að það verk endaði sem grænlenskt snjóhús.
Í næsta nágrenni við byggingarstaðinn eru lítil furutré og þar fór fram mikill leikur sem kalla mætti feluleik eða „með allt á huldu“ en þarna getur landslagið og gróðurinn myndað heilan ævintýraheim. Áður en lagt var upp í morgun fylltu nemendur út veðurkort eftir ígrundaðar veðurathuganir og klæddu sig eftir því. Þegar verkfærin voru loks tínd saman og haldið heim á leið voru margir orðnir bæði svangir og þreyttir
Img0603

 


9. dagur - 27. október 2008

Nú hafði snjóað hressilega og blásið í skafla. Þetta tækifæri þurfti að nýta til leikja í sköflum og grafin voru mörg snjóhús. Þarna reyndi á rímisgreindina, hve stór þurfti holan að vera til að rúma viðkomandi búk. Svo skemmtilega vildi til að þennan dag átti Sigrún kennari afmæli og hún bauð upp á heitt kakó og Maríukex. Ósk hafði með sér nýbakaðar kleinur og þessu voru gerð góð skil í snjóbrekkunni. Að kafa í botnlausum snjó er alls ekki auðvelt og krefst mikillar hreyfigetu en að sama skapi er hreyfinginn holl og hressandi. Það sem er þó hvað mikilvægast er gleðin og gamanið sem þessu fylgir.
Img 0593

 


8. dagur - 20. október 2008

Nú er vetur karlinn farinn að sýna klærnar og þeyta snjó um móinn. Húsbygging útiskólans gengur samkvæmt áætlun með dyggri aðstoð húsvarðarins sem er skólanum innan handar við grunnþætti. Ekki leist öllum vel á veðrið í morgun en klæddu sig þó í hlý föt og örkuðu út því verkin biðu. Að velja fötin áður en lagt er af stað í skólann á mánudagsmorgnum getur verið flókið verk sem krefst þess að gáð sé fyrst vandlega til veðurs.
Af mikilli einbeitni var gaflgrindin negld saman svo heyra mátti hamarshögg óma á milli fjallshlíða. Einnig tíndu börnin talsvert af fjallagrösum sem fundust við krafs í snjónum og hugsuðu til þeirra skepna sem þurfa þannig að standa að fæðisöflun sinni. En fjallagrösin voru tekin með inn í skóla og þau bíða þess að verða þurrkuð, hreinsuð og notuð í brauð eða eitthvað annað hollustufæði.
Þá gafst einnig góður tími til frjálsra leikja, snjórinn gefur endalausa möguleika í leik og brekkan var vel nýtt undir rennibrautir.
Img 0588

 


7. dagur - 13. október 2008

Önnur grind negld. Nú var börnunum skipt í þrjá hópa, 4 og 5 í hópum. Einn hópur smíðaði á meðan annar fór í gönguferð og náttúruskoðun og þriðju hópurinn lék sér frjálst. Spit um verkefni eftir ca 25 mín. Veðrir var kyrrt og rigningarúði en börnin voru mjög róleg og verkið gekk afbragðsvel.

 


6. dagur - 6. október 2008

Fyrsti áfangi grindarinnar negldur saman. Rennt og leikið í brekkunni og búinn til einn snjókarl. Veður var bjart og nokkurra stiga hhti en mikkill blástur og kæling. Það setti strik í starfið, mörgum börnum var orðið mjög kalt fyrirh hálf tólf svo við fórum snemma inn og tókum síðast tímann inni í stofu.
Img0578

 


5. dagur - 29. september 2008

Veður gott og mikil leikgleði í hópnum.
Fyrstu timbursendingar mættar á svæðið. Timrið flokkað og raðað og sumur reyndu sig við minni hátar smíðastykki. Smíðuðum m.a. vegvísi sem rekinn var niður við afleggjarann að vinnusvæðinu. Leikið frjálst.

 


4. dagur - 22. september 2008

Mikill leikur og berjatínsla. Börnin renndu sér í rennibrautum sem þau höfðu gert sér í brekkunni. Miklar afltilraunir spruttu upp á steini sem var illa staðsettur gagnvart rennibraut. Margir spreyttu sig lengi og voru orðnir vel þreyttir eftir átökin. Aðeins einum nemanda tókst að lyfta stærsta steininum. Enduðum tímann á því að mæla fyrir stærð hússins sem stendur til að smíða. Börnin fóru heim með bréf til foreldra þar sem verið var að spyrja eftir smíðaefni ef til væri eitthvað heima. Sögutími.
Img0660

 


3. dagur - 15. september 2008

Í þriðja útiskólanum var farið af stað með málbönd og önnur nauðsynleg gögn til mælinga og skráninga og tréð sem tekið var í fóstur sl. haust var nú mælt, bæði hæð og vaxtarsprotar fá sumrinu. Reyndist greinar þess hafa lengst um 12 cm. Að auki mældu börnin ýmiss önnur tré og runna, bláber og fl. Að því loknu var leikið í brekkunni og nágrenninu. Sumir fóru í berjamó, aðrir léku sér frjálst og söfnuðu greinum og lyngi af öllum toga og búinn var til glæsilegur krans í mónum. Að síðustu var mælt fyrir húsi og hvað 15 börn tækju mikið pláss. Börnin nutu sín vel og mikið um sjálfsprottna leiki innan um runna og lúpínustöngla.
Img 0569

 


2. dagur - 8. september 2008

Í öðrum útiskóla var farið í berjamó ásamt elstu börnum leikskólans. Þau tíndu lengi og vel og undu sér vel í mónum. Í mónum fundust margar tegundir berja og mismunandi lyng. Ekki voru þó öll berin talin hæf. Við útreikninga og mælingar eftir á kom í ljós að safnast hafði hátt í fimm kíló af berjum sem tók talsverðann tíma að vinna úr. Bjuggum til sultu og bökuðum úr berjunum eftir áhuga hvers og eins daginn eftir og næstu viku á eftir.
Img 0570 (P9080090 – P9110102)

 


1. dagur - 1.september 2008

Grenndarkynning og leitað að byggingarstæði fyrir hús. Nemendur og kennari fóru í könnunarleiðangur um umhverfi skólans m.a með það í huga að leita að ákjósanlegu byggingarstæði. En einnig var verið að kynnast nánast umhverfi, hvar voru berjalautir, steinnámur, fjölbreytt gróðurfar, tjarnir og misfellur í landslagi. Í einni lautinni eru tóftir og annarsstaðar vegslóði. Á döfinni er að smíða útiskýli fyrir veturinn og búist er við því að stærð þess og gerð ráðist af framkvæmdargetu hópsins. Hópurinn virtist aðeins villuráfandi og sundurleitur. Fórum hring til austurs og komum svo við á leikvellinum í löngu frímínútunum. Héldum síðan könnun okkar áfram fram yfir kl 12:00.